Ári síðar

Fyrir u.þ.b. ári átti ég fund með lögmanni bróður míns um skuld bróður míns við mig. Gummi bróðir viðurkennir skuldina en kallar hana fyrnda. Ég á tölvupóst þar sem hann viðurkennir hana en henni var aldrei þinglýst af því að hún var greiði systur við bróður.

Þetta lán og aðrir greiðar við hann eru önnur af stærstu mistökum lífs míns.

Árið 2008 var ég ekki búin að átta mig á að Gummi bróðir væri ómerkingur. Sumir aðrir í kringum okkur voru búnir að sjá það og ef grannt er skoðað vissi ég það líka. Ég fann nefnilega fyrir tveimur árum bréf sjálfrar mín til hans þar sem ég sagði honum til syndanna, en sendi ekki bréfið, og ég fann líka í dánarbúi mömmu bréf sem hún hafði skrifað honum en ekki sent þar sem hún sagði honum til syndanna.

Við vorum báðar meðvirkar og héldum áfram að gera honum greiða. Mistök sem ég hef goldið fyrir og sér ekki fyrir endann á.

Fyrir ári fórum við systir mín á fund lögmannsins sem veit upp á hár hvernig í landinu liggur. Gummi fékk margar milljónir að láni hjá mér og hann skuldar mér þær. Á fundinum byrjaði lögmaðurinn á að segja: „Hann ætlar ekki að borga þér neitt nálægt höfuðstólnum.“

Sjálfsagt voru það mistök að spyrja ekki hvað hann vildi þá borga en ég stóð upp og sagði að þá væri ekkert meira að ræða. Mikið hlýtur lögmaðurinn, sem rukkaði Gumma auðvitað hraustlega fyrir alla þjónustuna, að hafa fagnað þessum þægilegu úrslitum. 

Ég vil rifja upp að ég hef sagt og skrifað að þegar Gummi skilar mér peningunum sem hann skuldar mér en ég er ekki í brýnni þörf fyrir muni ég láta handveðið renna til Kvennaathvarfsins

Til viðbótar við það sem hann fékk lánað hjá mér fékk hann bæði stór lán og miklar peningagjafir frá mömmu og pabba sem hann yppti líka öxlum yfir á sínum tíma. Pabbi gerði sömu mistök og ég, að treysta því að Gummi kynni mun á réttu og röngu.

Ég hugsa æ sjaldnar til Gumma sem er mikið lán en ef hann hefði ekki verið svona forhertur með lögmanninum sínum er ómögulegt að vita hvernig málinu hefði verið lent. Stærsta ástæðan fyrir því að ég get alls ekki lagt málið til hliðar er að hann hundsaði pabba allan tímann sem hann var á Hrafnistu, síðustu tæpu tvö árin sem hann lifði, og að hann hótaði systur okkar málssókn. Einu skiptin sem hann kom til pabba var til að biðja hann um pening. Pabbi var með sjálfum sér alveg fram í andlátið og hann var leiður yfir því hvernig rættist (ekki) úr Gumma eftir alla greiðana sem þau mamma gerðu honum. Systir okkar var með umboð frá pabba til að sinna peningamálunum hans og Gummi var alveg hoppandi pirraður yfir því. Þess vegna hótaði hann henni málssókn á Facebook því að þangað sækir hann huggun, til vina sinna á Facebook sem hafa margir hverjir aldrei hitt hann sjálfan, bara séð glansmyndina sem hann dregur upp af sér með tilvitnunum í Gandí og aðra talsmenn mannúðar í heiminum. Svei honum. 

Gummi var ekki óduglegur að koma til mömmu og pabba þegar þau bjuggu í Mánatúninu og ég hélt að hann væri almennilegur sonur en nú er ég búin að átta mig á að hann var alltaf að betla og sníkja peninga og greiða af þeim. 

Þetta verður arfleifðin hans.

Síðan ég mætti á síðasta fundinn með lögmanninum í janúar 2020 er búið að reka Gumma frá Sólheimum þar sem hann starfaði í tæp tvö ár sem meintur garðyrkjufræðingur og hann er búinn að skipta um föðurnafn

Þegar ég spurði hann gagnrýninnar spurningar á Facebook blokkaði hann mig og þegar ég spurði annarrar spurningar á Instagram lokaði hann Instagram-síðunni sinni. Og ég játa að ég hef ekki treyst mér til að hringja í hann. Það hefur nefnilega aldrei verið hægt að tala við hann, hann æsir sig yfir öllu, verður óðamála, grípur fram í og réttlætir sig. 

Gummi er maðurinn sem upphefur sjálfan sig enda er hann fársjúkur óvirkur alkóhólisti sem ég var meðvirk með alltof lengi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband