Færsluflokkur: Matur og drykkur
Mánudagur, 30. júlí 2007
Svekk á Þremur frökkum
Maður vill fara varlega í alla gagnrýni þannig að ég segi aðallega að Þrír frakkar hafi valdið mér vonbrigðum um helgina. Maturinn, hrefnukjöt, steinbítur og rauðspretta, var hinn ágætasti. Mér finnst svolítið einfalt að vera með illa soðnar kartöflur með öllu (en þó betra en að vera með ofsoðnar) og meðlæti þótti mér of lítið en það finnst mér næstum alltaf alls staðar.
Svekkið fólst fyrst og fremst í því að finnast við vera fyrir. Við komum þrjú upp úr klukkan sex, þ.e. þegar nýbúið var að opna staðinn, skv. pöntun og þegar við hunskuðumst út kl. að verða hálfátta var okkur lengi búið að finnast við vera fyrir. Borðið okkar var líka það fyrsta sem losnaði og sannarlega streymdi fólk inn á staðinn. Hvers vegna?
Þegar nokkurn veginn var uppetið af tveimur diskum voru þeir teknir orðalaust. Ég veit ekki með obbann af fólki en ég veit að mörgum finnst samt ákveðin notalegheit í að hafa diskana um kyrrt í smátíma, a.m.k. þangað til allir hafa gert matnum sínum skil. Svo var komið með eftirréttaseðil og við fengum varla að skoða hann áður en næsti maður kom og spurði hvort við vildum panta.
Auðvitað sáu þau litla peningavon í okkur af því að vildum ekki vín með matnum.
Hér má sjá hvalinn ógurlega.
Í hádeginu í dag borðaði ég svo á Sólon við fjórða mann og fékk dáindisbúrrítós og eðalvatn að drekka með. Ég held að við höfum öll gengið út södd og sæl að matnum innbyrtum og alveg án þess að finnast við vera fyrir.
Fimmtudagur, 26. júlí 2007
Vor á Laugaveginum
Það má líta á þetta sem matarumfjöllun þar sem ég hef sett mér það að borða úti í hádeginu sem oftast til mánaðamóta. Nú varð Vor fyrir valinu af því að - trúið því eða ekki - nokkrir túristar höfðu mælt með staðnum.
Við fórum fjögur saman og hittum þar fyrir tómið tvennt, í alvörunni var mjög fátt fólk á staðnum um tólfleytið. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í pennuna sem sumir fengu sér en við Laufey ákváðum að fá okkur tapas fyrir tvo - og það var bæði illa útilátið og heldur svona bragðlítið. Til að fara ekki svöng út fékk ég mér því ostaköku og kapútsínó á eftir. Kaffidrykkurinn var ágætur.
Jæja, þetta er svona skemmri skírn af veitingahúsagagnrýni. Við vorum samt öll sammála um að við hefðum fengið betri mat annars staðar, meira úrval að velja úr og að við myndum eftirleiðis fá betri mat - annars staðar nefnilega.
Es. Ég tel næsta víst að flissið fljúgi til Vancouver á næsta ári, og helst með Antoni ...
Svo tók ég vondar myndir af Antoni, Örnu og Laufeyju til að þau njóti sín ekki nógu vel:
Sunnudagur, 29. apríl 2007
Engifer
Ég ætla ekki að borða í heila viku, í hádeginu borðaði ég svo góðan mat með engifer. Í forrétt fékk ég kjúklingasalat Bláa lónsins með engifer og í aðalrétt túnfisksteik - með engifer.
Félagsskapurinn var að vísu ekki eins áhugaverður og á föstudaginn þegar ég spjallaði við breskan gáfumann um Tony Blair, breska dagblaðaútgáfu og útlendinga í Bretlandi - yfir öndinni.
Ég þakka Laufeyju fyrir að kynna mig fyrir engifer á sínum tíma.