Færsluflokkur: Sjónvarp
Mánudagur, 28. maí 2007
Nýfundnaland vs. Ísland
Merkilegur þáttur var í sjónvarpinu áðan. Nýfundlendingurinn Lísa kom til Íslands til að lesa úr bók sinni í Norræna húsinu og virðist hafa ákveðið að hamstra myndefni og talaðar upplýsingar í leiðinni. Svo hefur hún gert úr efninu heimildarmynd sem gengur, merkilegt nokk, út á það að lofa og prísa Ísland fyrir að hafa náð og haldið í sjálfstæði sitt.
Hún ber löndin mikið saman og segir að hér sé svo miklu meira sjálfstæði; læsi í Nýfundnalandi er bara 66%, atvinnuleysi 25% og þau ofboðslega háð Kanada í öllu tilliti þótt þau eigi miklar auðlindir, bæði nikkel, olíu og þorsk, sem Ottawa nýtur góðs af.
Þegar ég gáði að því sá ég að boðið er upp á skipulagðar ferðir til St. John's sem er höfuðborgin þeirra í landinu sem er eyja litlu stærri en Ísland.
Og svo rifjaðist upp fyrir mér að ég ákvað í síðustu viku eftir spjall við Högna að lesa Ævisögu þorsksins. Nú er komin enn brýnni ástæða til þess.
Es. Hefur Stína enga skoðun á þessu ...? Mér skildist á Lísu að Kanada mergsygi Nýfundnaland, hömm hmm.
Sjónvarp | Breytt 29.5.2007 kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 21. maí 2007
Hjólhýsi hvað?
Úff, nú fannst mér Lóu Pind Aldísardóttur takast illa upp, eins mikið dálæti og ég hef á fréttamanninum í henni. Hún fjallaði um hjólhýsa-eitthvað eins og það væri frétt þegar ég sá bara auglýsingu út úr því í fréttatímanum, kl. 18:43-5 eða svo.
Fy.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 24. apríl 2007
Hlutleysi fjölmiðlunga, eða ekki
Sóley Tómasdóttir og Agnes Bragadóttir lögðu orð inn í umræðuna um fjölmiðlalög í Silfri Egils á sunnudaginn. Ég varð mér ekki strax meðvituð um það þótt ég horfði af áhuga. Það var ekki fyrr en ég las bloggið hans Hjartar í morgun sem ég sá samhengi hlutanna skýrar. Það má segja að þær tvær hafi skattyrst (hér hefði Hjörtur skrifað skattyrzt og kannski er það áferðarfallegra) stuttlega um hlutleysi. Agnes lýsti yfir vandlætingu á hugsanlegri vinstristjórn og Sóley undraðist að hlutlaus blaðamaður hefði svo afdráttarlausa skoðun. En Agnes sagðist ekki vera hlutlaus og hefði ekki verið fengin í þáttinn til að þegja.
Ég get ekki spurt hvort Agnes sé hlutlaus, en ætti hún að vera það? Úr því að hún er ekki hlutlaus, kannast menn við að hlutlægni hennar sjái stað í skrifum hennar? Skrifar hún fréttaskýringar eins og skrif hennar heita eða eru þær e.t.v. bara skoðanir sem beri að lesa sem slíkar?
Hvað með aðra frétta- og þáttagerðarmenn? Ég nefni af handahófi nokkra sem eru misáberandi. Sigmar Guðmundsson sem stjórnaði stjórnmálaumræðum rétt áðan bloggar fyrir 5-6.000 manns á dag. G. Pétur Matthíasson, sem er reyndar farinn til Vegagerðarinnar en var hjá RÚV þangað til það breyttist í ÚV ohf., bloggar stundum. Ég man eftir Höllu Gunnarsdóttur, blaðamanni Moggans, Önnu Pálu Sverrisdóttur, sömuleiðis blaðamanni á Mogganum, enn fremur Davíð Loga Sigurðssyni. Það má nefna líka Lóu Pind Aldísardóttur, Björgu Evu Erlendsdóttur, Svanhildi Hólm, Eddu Andrésdóttur, Styrmi Gunnarsson, Arnþrúði Karlsdóttur, Jóhann Hauksson, Þorstein Pálsson, Sigurjón M. Egilsson, Trausta Hafliðason, Björgvin Guðmundsson, Svanborgu Sigmarsdóttur, Kolbrúnu Bergþórsdóttur - og læt ég nú upptalningu lokið.
Allt þetta fólk meðhöndlar upplýsingar og hefur, meðvitað og ómeðvitað, áhrif á viðtakendur. Það skiptir okkur máli að við getum treyst því að það fari með upplýsingar af sanngirni og heiðarleika. Ég vil alls ekki láta leiða í lög að fólk skuli vera trútt starfi sínu, ég ætlast bara til þess að fólk sé siðlegt, en þetta með öðru var mikið rætt fyrir tæpum þremur árum þegar fjölmiðlalög voru sett og svo dregin til baka.
Er utanumhald utan um fjölmiðla nú bara orðið að algjörri eyðimörk sem stendur ekki til að vökva? Dugir kannski umræðan manna á meðal?
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 21. apríl 2007
Skyldu nöfnin verða lesin upp á Sky og aðstandendum send blóm?
Nei, Vesturlandabúum stendur á sama um sómalísk nöfn og ástæður þess að nafnhafarnir eru sendir yfir móðuna miklu. Ef við höfum bumbuna okkar og pláss fyrir poppskálina látum við okkur 100 Mógadisja til eða frá í léttu rúmi liggja.
Sumir kalla þetta velmegun.
Rúmlega hundrað óbreyttir borgarar fallnir í Mogadishu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 30. mars 2007
MK tapaði naumlega
Sögnin að bera getur verið bæði sterk og veik. Um hana var spurt í Gettu betur kvöldsins (og engar pulsur, hehe). Davíð Þór notaði dæmi: Hann bar sig mannalega. Hann beraði sig mannlega.
Tvær skemmtilega gjörólíkar merkingar.
Það verður áreiðanlega júbíleað mikið í MR á mánudaginn.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 27. mars 2007
Spaugstofulög
Umburðarlyndi mitt ríður ekki við einteyming. Ég horfði ekki á Spaugstofuna fyrr en áðan og blöskraði ekki neitt nema einstaka fúlir brandarar sem eru tímalausir, eins og *geisp* þegar iðnaðarmaðurinn vill hjálpa öllum og klúðrar öllu. Þegar þeir leggja sig fram í samtímanum eiga þeir oft góða daga. Ég horfi alltaf á Spaugstofuna ef ég get - og það hjálpar að hún er endursýnd tvisvar því að mér finnst leiðinlegra að horfa á hana í tölvu.
Ég styð Spaugstofuna og vil að Ágúst, Pálmi, Randver, Siggi og Örn haldi áfram. Ég horfi.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. mars 2007
Vika af hættulegum klæðnaði
Á BBC Prime er núna aldeilis stórskemmtilegur þáttur um Jason sem tekst það á hendur að breyta verulega til í klæðaburði og hegðun í eina viku til að ögra sjálfum sér og reyna að brjótast út úr skel feimninnar. Ég geri mér vel grein fyrir að þetta hefur fyrst og fremst skemmtigildi - og svínvirkar fyrir mig - en skyldu raunverulega óframfærnir geta farið út á meðal fólks í svaðalega köflóttum fatnaði eða túrbínuklæðnaði eða eins og kúrekar (með hatt og hlífar) eða eins og dragdrottningar með flegið niður í nærbuxur (svo að ég kveði ekki fastar að)?
Tjah, ekki í reykvísku vonskuveðri, hahha!
Hann upplifði hins vegar persónuleikabreytingar eftir þeim fötum sem hann klæddist hverju sinni, humm humm.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 11. mars 2007
Blöðin víkja
Ég er orðin alveg sannfærð. Blöðin eru a.m.k. um stundarsakir í öðru sæti þótt maður vilji fylgjast með. Maður les eitthvað á vefmiðli eitthvert kvöldið og þegar maður sér það í blaðinu daginu eftir eru fréttirnar svooo gamlar. Og bæta engu við það sem maður las fyrir hálfum sólarhring.
Þarna er ég að tala um fréttamiðlana fyrst og fremst. Að auki eru svo nokkrar bloggsíður sem maður les líka reglulega og þær eru gjarnan meira upplýsandi og afhjúpandi en álitsgjafar í blöðunum.
Þó skákar netorðræðan enn ekki Silfri Egils, humm humm.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)