Þriðjudagur, 27. mars 2007
Talið barst að kvóta
Það verður að viðurkennast að ég skil ekki landbúnaðarkerfið okkar án leiðbeininga. Því til viðbótar hef ég ekki reynt mikið að setja mig inn í það, það borgarbarn sem ég er. Maður skyldi bara ætla að ef 16 milljarðar væru settir af almannafé í atvinnugreinina á nokkrum árum væri sami almenningur þar með búinn að borga hálfan slatta upp í afurðina.
Búvörusamningur, afurðasala, ærkvóti - þetta segir mér ekki neitt, og allra síst hvort t.d. samkeppni þrífst í greininni. Er samkeppni? Mega bændur vanda sig sérstaklega mikið og merkja svo afurðina þannig að kaupandinn viti að eitthvert tiltekið lambalæri sé betur alið en annað? Mega menn selja beint til neytandans við þjóðveginn? Mega menn slátra heima að því tilskildu að heilbrigðiskröfum sé fullnægt? Nei, bændur skulu senda fénað sinn norður og niður af því að þar er sláturhúsið sem slátrar fyrir þá. Fá bændur að njóta hagræðingar sinnar, hugmyndaauðgi og vinnusemi?
Eða er kerfið allt bundið á klafa óhagstæðrar miðstýringar? Ég er of illa að mér til að svara en ég óttast það.
Ef ég hefði alið manninn á t.d. Bifröst gæti verið að ég væri í innilegra sambandi við landsbyggðina og bændamenninguna ... Þó man ég eftir einu skipti í fyrra í heita pottinum að Laugum þar sem ég lenti á miklu spjalli við tvo bændur. Þeir höfðu báðir fengið búið frá foreldrum sínum og þar af leiðandi gott start en annars skildist mér á þeim að nýliðun gæti engin verið.
Hefur ekki helsinu verið aflétt á t.d. Nýja-Sjálandi? Farnast þeim ekki vel þar?
Þarf þetta að vera svona? Stóð ekki landbúnaður undir þjóðinni öldum saman?
Af því að kvóti á að vera rauði þráðurinn minn í kvöld ætla ég að enda á því að segja að leigubílar eru í kvóta. Það er takmarkað hversu margir leigubílar mega vera á götunum. Af hverju fá þeir ekki bara að sanna sig í frjálsum atvinnurekstri? Hver myndi tapa á því?
Ég auglýsi eftir virkri samkeppni. Og ég hef sannað fyrir sjálfri mér að ég styð hana. Ég kaupi Mjólku-vörur þegar ég get og þegar ég bjó á Sauðárkróki flaug ég með Íslandsflugi sem var í samkeppni við Flugfélag Íslands, nýtt þá og nú farið (sennilega af því að ég flutti og hætti þar með að styrkja félagið).
En kannski er ég að gelta að röngu tré!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 27. mars 2007
Afmæliskveðja í þröngan hóp
Vegna áskorunar er hér með rifjað upp að Marín á afmæli í dag - grúppan sendir henni samúðarkveðjur og óskar henni velfarnaðar á nýju framabrautinni - í diskódansinum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 27. mars 2007
Brandari barst í pósti
Jóhann var að útskrifast úr laganámi frá HR og átti sér stóra drauma um glæsta framtíð. Hann fór að sækja um vinnu í stóru fyrirtæki í borginni. Starfsmannastjórinn sem tók viðtalið var hrifinn af þessum efnilega manni og var mjög heitur fyrir því að ráða hann í vinnu. Áður en viðtalinu lauk spurði starfsmannastjórinn hvaða launahugmyndir Jóhann hefði.
Ég var að spá í 1.500.000 á mánuði svona til að byrja með, svaraði Jóhann.
Starfsmannastjórinn horfði á hann í smástund og sagði svo: Hvernig líst þér á 2.500.000 á mánuði, tveggja mánaða sumarleyfi á fullu kaupi, 21% mótframlag í séreignarsjóð, nýjan LEXUS til ótakmarkaðra afnota og húshjálp til að þrífa heimilið?
Jóhann varð orðlaus. Þetta var meira en hann hafði þorað að vona. Að lokum sagði hann í mikilli sigurvímu: Þú hlýtur að vera að grínast!"
Starfsmannastjórinn svaraði að bragði: Já - en þú byrjaðir ..."
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 27. mars 2007
Spaugstofulög
Umburðarlyndi mitt ríður ekki við einteyming. Ég horfði ekki á Spaugstofuna fyrr en áðan og blöskraði ekki neitt nema einstaka fúlir brandarar sem eru tímalausir, eins og *geisp* þegar iðnaðarmaðurinn vill hjálpa öllum og klúðrar öllu. Þegar þeir leggja sig fram í samtímanum eiga þeir oft góða daga. Ég horfi alltaf á Spaugstofuna ef ég get - og það hjálpar að hún er endursýnd tvisvar því að mér finnst leiðinlegra að horfa á hana í tölvu.
Ég styð Spaugstofuna og vil að Ágúst, Pálmi, Randver, Siggi og Örn haldi áfram. Ég horfi.
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)