Mánudagur, 28. maí 2007
Nýfundnaland vs. Ísland
Merkilegur þáttur var í sjónvarpinu áðan. Nýfundlendingurinn Lísa kom til Íslands til að lesa úr bók sinni í Norræna húsinu og virðist hafa ákveðið að hamstra myndefni og talaðar upplýsingar í leiðinni. Svo hefur hún gert úr efninu heimildarmynd sem gengur, merkilegt nokk, út á það að lofa og prísa Ísland fyrir að hafa náð og haldið í sjálfstæði sitt.
Hún ber löndin mikið saman og segir að hér sé svo miklu meira sjálfstæði; læsi í Nýfundnalandi er bara 66%, atvinnuleysi 25% og þau ofboðslega háð Kanada í öllu tilliti þótt þau eigi miklar auðlindir, bæði nikkel, olíu og þorsk, sem Ottawa nýtur góðs af.
Þegar ég gáði að því sá ég að boðið er upp á skipulagðar ferðir til St. John's sem er höfuðborgin þeirra í landinu sem er eyja litlu stærri en Ísland.
Og svo rifjaðist upp fyrir mér að ég ákvað í síðustu viku eftir spjall við Högna að lesa Ævisögu þorsksins. Nú er komin enn brýnni ástæða til þess.
Es. Hefur Stína enga skoðun á þessu ...? Mér skildist á Lísu að Kanada mergsygi Nýfundnaland, hömm hmm.
Dægurmál | Breytt 29.5.2007 kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 28. maí 2007
Hinn heilagi veikindaréttur
Formaður verkalýðsfélags var í fréttum RÚV rétt í þessu að lýsa því yfir að hann væri mótfallinn því að vinnuveitendur greiddu þeim starfsmönnum sem ekki veikjast einhverja umbun fyrir að veikjast ekki. Hann sagði að veikindarétturinn væri með því mikilvægasta sem verkalýðsfélög hefðu náð fram. Eitthvað í þessa veruna sagði hann.
Jah, heyr á endemi.
Ég er svo heppin að ég veikist helst ekki. Og ef ég lasnast er það í klukkutíma í senn, yfirleitt utan vinnutíma. Ég hef fengið heiftarlega ristilkrampa nokkrum sinnum um mína daga, ugglaust vegna rangs mataræðis, en ég hirði ekki upp umgangspestir.
Ég er heppin og geri ekki lítið úr því. En ef vinnuveitandanum finnst hluti af þessu láni slæðast til sín í því formi að hann getur treyst á mig sé ég ekkert að því að hann umbuni mér ef hann svo kýs. Er eitthvað tekið frá hinum? Er eins mikil hætta á að fólk mæti veikt í vinnuna til að fá bónusinn ef kalla mætti umbunina svo? Eða gæti verið að fólk yrði ekki eins oft lasið af þeirri ástæðu að það á veikindarétt?
Ég bíð spennt eftir að sjá verkalýðsforkólfinn segja þetta líka í sjónvarpsfréttum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)