Lögin eru ósanngjörn

Ef ég gæti breytt því upp á mitt eindæmi myndi ég hækka hlutfall ríkisútgjalda til heilbrigðismála úr 8,3% upp í 11% á eftir. Heilbrigðiskerfið og menntakerfið skáka öðru í mínum augum. Skammt undan eru svo samgöngur. Tekjur skipta líka máli og alveg áreiðanlega er hægt að afla þeirra af meiri sanngirni en gert er í dag.

En ég er ekki í pólitík – nema ef vera skyldi minni eigin fjölskyldupólitík. Ég á bróður, Guðmund Steinsson sem er nú garðyrkjufræðingur á Sólheimum, sem fékk lánaðar hjá mér 7 milljónir króna – það er ekkert lítið – árið 2008. Hann veit af skuldinni en ætlar ekki að borga hana og ég veit ekki hvort lögin heimila honum að skella skollaeyrum við. Samkvæmt fyrningarlögum á að halda kröfu vakandi frá því áður en fjögur eru liðin frá því að stofnað er til hennar.

Árið 2012 var bróðir minn mikið grey, tolldi ekki í vinnu og ekki í námi. Hann var afæta á mömmu og pabba sem vorkenndu honum af því að hann er óvirkur alkóhólisti og þau höfðu eilífar áhyggjur af að hann dytti í það. Hann reyndi ýmislegt, keypti bílasölu, vídeóleigu, sjoppu og Víðigerði sem er rétt við afleggjarann að Hvammstanga. Ekkert gekk upp hjá honum, allt fór á hausinn og ég hef enn þann dag í dag ekki hugmynd um hversu miklum fjármunum mamma og pabbi töpuðu á honum.

Fyrir 2012 hefði ég þurft að byrja að rukka hann og halda síðan kröfunni vakandi þangað til hann hefði efni á að borga mér skuld sem hann hefur sannanlega gengist við. Hefði ég kannski átt að biðja mömmu og pabba að selja íbúðina sem þau bjuggu í til að borga lánið hans? Það var alltaf alveg á hreinu að þegar hann fengi arf myndi hann borga mér skuldina. Það var bara aldrei skrifað niður. Auðvitað hefði ég aldrei látið mér detta í hug að þau seldu ofan af sér til að borga lausaskuldir sonar síns. Þetta var ekki þeirra skuld.

Mamma og pabbi voru alltaf skilvís og með allt sitt á hreinu. Þau voru gott fólk og þau gerðu sitt besta. Því miður létu þau Gumma komast upp með að ganga í hirslurnar hjá sér því að það veit sá sem allt veit að ekki hefur það gert honum gott. Hann er í mínum augum vesalingur en eins og þau vorkenndi ég honum of mikið áratugum saman til að tryggja mig gegn ósanngjörnum lögum.

Ef ég stæði núna í þeim sporum að vilja lána einhverjum sem þyrfti á því að halda myndi ég auðvitað segja nei af því að þessi lög vernda skussana.


Bloggfærslur 7. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband