Lögin eru ósanngjörn

Ef ég gæti breytt því upp á mitt eindæmi myndi ég hækka hlutfall ríkisútgjalda til heilbrigðismála úr 8,3% upp í 11% á eftir. Heilbrigðiskerfið og menntakerfið skáka öðru í mínum augum. Skammt undan eru svo samgöngur. Tekjur skipta líka máli og alveg áreiðanlega er hægt að afla þeirra af meiri sanngirni en gert er í dag.

En ég er ekki í pólitík – nema ef vera skyldi minni eigin fjölskyldupólitík. Ég á bróður, Guðmund Steinsson sem er nú garðyrkjufræðingur á Sólheimum, sem fékk lánaðar hjá mér 7 milljónir króna – það er ekkert lítið – árið 2008. Hann veit af skuldinni en ætlar ekki að borga hana og ég veit ekki hvort lögin heimila honum að skella skollaeyrum við. Samkvæmt fyrningarlögum á að halda kröfu vakandi frá því áður en fjögur eru liðin frá því að stofnað er til hennar.

Árið 2012 var bróðir minn mikið grey, tolldi ekki í vinnu og ekki í námi. Hann var afæta á mömmu og pabba sem vorkenndu honum af því að hann er óvirkur alkóhólisti og þau höfðu eilífar áhyggjur af að hann dytti í það. Hann reyndi ýmislegt, keypti bílasölu, vídeóleigu, sjoppu og Víðigerði sem er rétt við afleggjarann að Hvammstanga. Ekkert gekk upp hjá honum, allt fór á hausinn og ég hef enn þann dag í dag ekki hugmynd um hversu miklum fjármunum mamma og pabbi töpuðu á honum.

Fyrir 2012 hefði ég þurft að byrja að rukka hann og halda síðan kröfunni vakandi þangað til hann hefði efni á að borga mér skuld sem hann hefur sannanlega gengist við. Hefði ég kannski átt að biðja mömmu og pabba að selja íbúðina sem þau bjuggu í til að borga lánið hans? Það var alltaf alveg á hreinu að þegar hann fengi arf myndi hann borga mér skuldina. Það var bara aldrei skrifað niður. Auðvitað hefði ég aldrei látið mér detta í hug að þau seldu ofan af sér til að borga lausaskuldir sonar síns. Þetta var ekki þeirra skuld.

Mamma og pabbi voru alltaf skilvís og með allt sitt á hreinu. Þau voru gott fólk og þau gerðu sitt besta. Því miður létu þau Gumma komast upp með að ganga í hirslurnar hjá sér því að það veit sá sem allt veit að ekki hefur það gert honum gott. Hann er í mínum augum vesalingur en eins og þau vorkenndi ég honum of mikið áratugum saman til að tryggja mig gegn ósanngjörnum lögum.

Ef ég stæði núna í þeim sporum að vilja lána einhverjum sem þyrfti á því að halda myndi ég auðvitað segja nei af því að þessi lög vernda skussana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Ef ég gæti breytt því upp á mitt eindæmi myndi ég hækka hlutfall ríkisútgjalda til heilbrigðismála úr 8,3% upp í 11% ..." venjulega er verið að tala um hlutfall af þjóðarframleiðslu þegar þessar tölur eru notaðar. Hlutfall ríkisútgjalda til heilbrigðismála er nú um eða yfir 16%. Sem er hærra en Belgía og Frakkland, svipað og Danmörk og Finnland og lægra en Bandaríkin og Kúba.

Er Bandaríska heilbrigðiskerfið áberandi betra en öll heilbrigðiskerfi Evrópu? Að miða útgjöld til heilbrigðismála við hlutfall ríkisútgjalda eða þjóðarframleiðslu er eins og að ætla að kaupa skó og miða við mittismál.

Vagn (IP-tala skráð) 7.1.2020 kl. 11:08

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Já, forláttu þessa ónákvæmni. Auðvitað erum við að tala um hlutfall af vergri landsframleiðslu. Að ónákvæmninni frátalinni stend ég við það að aðbúnaður í heilbrigðisgeiranum er of slæmur til að þjónustan verði framúrskarandi. Ég hef bæði þurft að rorra á Landspítalanum og Hrafnistu og bæði séð zombía á ferð og yfirfulla bráðamóttöku. Pabbi minn lærbrotnaði þegar hann var 96 ára og var látinn bíða á bráðamóttöku í einn og hálfan sólarhring. Hann fékk ekkert að borða því að hann átti að fara í aðgerð á eftir, strax eftir hádegi, í kvöld, í fyrramálið og seinna í dag. Ef hann væri undantekning gætirðu yppt öxlum og vorkennt hvorki honum né mér en þetta er algengt. Og ég held að það væri auðveldara að manna erfið umönnunarstörf ef launin væru það há að fólk gæti látið duga að vinna t.d. 32 tíma á viku frekar en 40.

En, já, ég held að það væri líka hægt að gera sumt betur og nýta mannafla betur á milli deilda. Og, nei, bandaríska heilbrigðiskerfið er ekki best í heimi.

Ég get prísað mig sæla þar sem spítalavist er í lágmarki í minni fjölskyldu en ég sé samt að heilbrigðiskerfið er svelt.

Berglind Steinsdóttir, 7.1.2020 kl. 20:22

3 identicon

Ég hef það eftir heilbrigðisstarfsmönnum að stýring inn í aðgerðir geti verið mjög flókin, einmitt vegna þess að fólk þarf að vera fastandi. Síðan koma upp bráðatilfelli á sama tíma og einhver bíður eftir aðgerði, og þeim er hleypt fram fyrir (eðlilega), eða þá að aðgerðir taka lengri tíma en búist var við vegna einhverra óvæntra atvika. Hef heyrt fjölmörg dæmi um að fólk hafi verið fastandi en svo hafi aðgerð verið frestað - en skil aftur vel að stundum þurfi að taka aðra framfyrir. Endalaus forgangsröðun. 

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 8.1.2020 kl. 11:03

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Mér finnst að það ætti ekki að þurfa að forgangsraða svona grimmt á bráðamóttöku.

Berglind Steinsdóttir, 8.1.2020 kl. 16:57

5 identicon

Hlutfall af vergri landsframleiðslu er notað vegna þess að það er fjármagnið sem fer í laun þín og þjónustu við þig. Þaðan koma peningarnir. Fari stærri hluti af því í heilbrigðiskerfið og önnur þjónusta er ekki skert á móti þá þarf að lækka laun þín. Ég minnist þess ekki að neinn hafi boðist til að gefa eftir síðustu launahækkanir svo bæta mætti heilbrigðiskerfið. Þvert á móti var krafan að stærri hluti landsframleiðslunnar færi í kjarabætur til almennings. Lífskjarasamningarnir lækka hlutfallið sem fer til heilbrigðismála og hækka það hlutfall sem fer í þína buddu.

Það er auðvelt að hugsa sér að setja meira í heilbrigðiskerfið ef maður þarf ekki að borga aukninguna sjálfur. Það er auðvelt að láta eins og peningarnir verði til fyrir einhverja galdra úr engu eða komi frá einhverjum öðrum.

Vagn (IP-tala skráð) 8.1.2020 kl. 21:21

6 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Þú ert náttúrlega ekki alveg í lagi, Vagn. Það er ekki sjálfkrafa alltaf þannig að það sem fer inn hjá spítalanum fari út hjá einni láglaunastétt. Hefurðu misst af hálaunastéttunum í landinu? Gróðanum hjá bönkunum? En úr því að þú ert svona persónulegur skal ég segja þér að ég myndi glöð borga hærri skatta ef þú gerðir það líka og viðbótin færi óskipt í heilbrigðiskerfið. Ég man bara ekki eftir að þú hafir spurt mig. Ert þú til í það? Eða viltu frekar borga nokkrar milljónir fyrir aðgerð eins og fólk þarf að gera í Bandaríkjunum ef það er ekki tryggt?

Við búum í samfélagi og við borgum skatta til að reka það. Það er hægt að gera af skynsemi en það er líka hægt að blindast af baunum.

Berglind Steinsdóttir, 8.1.2020 kl. 21:33

7 identicon

Það sem ekki er í lagi er þegar fólk heldur að óskhyggja sé hagfræðilögmálum æðri. Og þegar fólk er tilbúið til að leysa öll vandamál svo lengi sem það getur tekið peningana frá einhverjum öðrum. Hér býr fólk sem heldur að allir hinir séu aflögufærir. Bróðir þinn er örlítið ýkt dæmi um hugarfar þess hluta þjóðarinnar. Og þegar grannt er skoðað er þitt hugarfar ekki mjög frábrugðið hans. Ykkur finnst báðum ósanngjarnt að þeir sem meira hafa skuli ekki borga fyrir ykkur. Sennilega hafið þið fengið sama uppeldið, og teljið enn baunirnar á diskum hinna barnanna.

Vagn (IP-tala skráð) 9.1.2020 kl. 02:17

8 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Vagn, þú veist ekkert um hvað þú ert að tala, nú ertu búinn að ljóstra því kirfilega upp.

Berglind Steinsdóttir, 9.1.2020 kl. 06:34

9 identicon

Auðvitað, þú ert svo klár í fjármálum.

Vagn (IP-tala skráð) 9.1.2020 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband