Trén í Öskjuhlíðinni eða flugvöllur í Vatnsmýri

Ég hef lengi, lengi, lengi verið þeirrar skoðunar að innanlandsflugvöllurinn eigi að fara úr Vatnsmýrinni og kalla enn eftir þarfagreiningu á honum á þessum stað. Hafi hún verið gerð finnst mér að það eigi að auglýsa hana. Með því á ég við könnun á því hverjir nýta sér flugvöllinn, hverjir þurfa á honum að halda og, já, hverjir borga fyrir að nota flugvöllinn á þessum stað. Ég blæs á röksemdir um mikilvægi sjúkraflugs vegna þess að ef mönnum er alvara með það er hægt að nýta sjúkrahúsið í Keflavík. Helstu upphrópsmenn öryggisflugsins láta ekkert í sér heyra þegar slys eða veikindi verða lengst úti á landi og menn komast alls ekkert til Reykjaavíkur.

Og núna, þegar hæstu trén í Öskjuhlíðinni, einni mestu skrautfjöður Reykjavíkur, trufla aðflugið er borðleggjandi að flugvöllurinn þarf að víkja en ekki trén sem hafa sprottið við erfiðar aðstæður og náð þessari truflandi hæð.

Ég minni á að Hótel Borg var byggð í sinni hæð árið 1930 til að trufla ekki aðflugið. Öll byggðin í miðbænum tekur mið af því og íbúar þar gjalda fyrir flugvöllinn með alltof mikilli hávaðamengun.

Ég sé ekki betur en að núna höfum við sem erum á móti flugvellinum þar sem honum var tildrað upp til bráðabirgða í stríðinu fengið hraustleg rök með því að senda hann annað.

 


Bloggfærslur 18. ágúst 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband