Berklar - eða útlimavöxtur

Alla vikuna er ég búin að vera hugsi yfir upphrópunum sumra yfir þeim hluta ræðu formanns Frjálslynda flokksins um síðustu helgi sem fól í sér orðið berkla. Ekkert veit ég um berkla annað en að þeir eru smitsjúkdómur. Eða voru. Ég hefði giskað á að þeir væru ekki lengur til á Íslandi ef ég hefði verið spurð. 

Fyrir algjöra tilviljun veit ég um handarlausa íslenska konu sem þarf árlega að mæta í Tryggingastofnun til að sanna að ekki hafi vaxið á hana útlimur og að auki þarf hún að skila inn vottorði frá geðlækni. Annars fær hún ekki nýja gervihönd sem er mótuð og gerð eftir hinni hendinni og lítur ekki út eins og bútasaumsteppi.

Kemur til greina að hér séu sjúkdómar til að varast? Var ekki maðurinn bara að bjóða upp á/í umræðu án fordóma? Vitum við nóg til að hrópa á torgum?

Ég þekki enga útlendinga á Íslandi nema hið vænsta fólk. Þeir sem ekki eru búnir að læra íslensku vilja læra hana og verða virkari þátttakendur í samfélaginu. Fyrir suma er bara ekkert hlaupið að því. Ég þekki Tælending og hann segir mér að í tælensku sé engin málfræði. Þetta er næstum ókleifur hamar fyrir hann, en hann hefur á mörgum árum komið sér upp góðum orðaforða og getur bjargað sér. 

Ég þekki vel haldinn Pólverja sem hefur ekki náð að koma sér upp neinum orðaforða á rúmu ári af því að hann vinnur svo mikið. Hann spurði mig rétt eftir áramót hvort það væri rétt sem honum hefði skilist á einhverjum að íslenskukennslan ætti að verða ókeypis. Það eina sem ég taldi mig geta vísað óyggjandi á var helmingsafsláttur hjá Mími. En átti námið ekki að verða ókeypis?

Á ekki að nota næstu mánuði í að ræða málefni?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband