Ég er góð kona ...

Jebbs. Ég er góð kona. Þetta er setningin sem ég vildi síst sjá í eftirmælum eftir mig að mér genginni. Ef lýsingarorðið góð/ur er valið um manneskju hefur mér alltaf fundist sem ekkert annað hrós gæti gengið um viðkomandi, svo sem skemmtileg, klár, frjó, greiðvikin, bóngóð, hugmyndarík, afgerandi, uppörvandi, vinnusöm, örlát, eftirsótt, athugul, næm, falleg eða þá hvers manns hugljúfi, fór ekki framhjá neinum, alltaf boðin og búin, sameiningartákn, miðpunkturinn eða sú sem allir vildu líkjast.

En ég er samt góð kona og vanda mig við að breyta rétt. Ég er líka eigingjörn kona og vil að fólki líki við mig fyrir að vera gáfuð, fyndin, bóngóð og skynsöm. Og ég er nógu hégómleg til að vilja líta betur út en illa. Ég reyni flesta daga að haga mér af skynsemi til að hámarka líkurnar á góðri heilsu og langlífi. Mér finnst lífið svo skemmtilegt að ég vil halda í það sem lengst og þá auðvitað í sem fyllstu fjöri.

Ég sit mikið hjá pabba á Hrafnistu þessa dagana en hann er of máttfarinn til að spjalla mikið þannig að við erum bara saman, hugsum hvort sitt og stundum tala ég fyrir okkur bæði. Ég legg honum samt ekki orð í munn heldur tala ég á við tvo. En minna en venjulega samt. Mér finnst ég vera að gera rétt fyrir hann en líka mig vegna þess að þótt hann viti ekki af mér nema endrum og eins held ég að nærveran skipti máli.

Þegar hann byrjaði að afþakka næringu 1. ágúst hafði ég komið til hans 140 daga af þeim 210 sem liðnir voru af árinu. Já, ég er góð kona og eigingjörn því að þegar hann fer vil ég að hann hafi sem mestan kærleika í farteskinu. Hann er ekki viss um að hitta mömmu í græna landinu og í honum er ferðakvíði. Sem betur fer erum við þrjú systkinin samstiga í því að vilja gera honum dvölina sem þægilegasta.

En ég kom sem sagt á fyrri helmingi ársins til pabba tvo daga af hverjum þremur. Hrafnista er í Laugarásnum og ég bý í hverfi 105 þannig að heimatökin voru í sjálfu sér hæg en það var samt stundum aggalítið snúið að láta það ganga upp á annasömustu dögunum. En honum þykir varið í að maður komi og þá getur maður gert það. Þetta heitir fjölskylduábyrgð. Og minnugri karl er líka vandfundinn. Hann þylur upp heilu ljóðabálkana, bæði eftir gömlu skáldin og ljóð sem hann sjálfur orti í denn og mamma hans og pabbi. Það sem hann hefur lært man hann.

Við spilum líka. Ef við erum fjögur saman eins og við höfum reynt á sunnudögum spilum við vist. Þar er pabbi á heimavelli. Ef hægt er að fella í hálfri fellir hann í hálfri. En þar fyrir utan spilum við ólsen ólsen, sjöu, kasínu og rommí. Og hann vinnur endalausa glæsta sigra því að glúrnari spilamaður er vandfundinn.

Við pabbi erum gott fólk eins og flest fólk er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband