Gísli Marteinn og Ilmur

Ég las alla fundarstjórnarumræðuna sem spratt af orðum eins þingmanns um orð gests í Viku Gísla Marteins, sem sagt þegar Ilmur sagðist ánægð með að fá að leika hinn vonda forstjóra Útlendingastofnunar.

Ég horfði á þennan þátt af Gísla Marteini og tók ekkert eftir þessum orðum Ilmar, ekki eftir á að minnsta kosti. Kannski fannst mér bara viðeigandi að líkja embætti forstjóra Útlendingastofnunar við embætti hins illa.

Ég var í fjölmiðlanámi einn vetur og aðaláherslan var á að vissar stéttir væru útsettari fyrir athygli, umfjöllun og gagnrýni en aðrar. Í þeim hópi eru opinberar persónur, eins og stjórnmálamenn, áhrifavaldar, forstjórar, bankastjórar, knattspyrnumenn, leikarar - já, þið vitið, fólk í áhrifastöðum, fólk sem hefur völd, fólk sem getur breytt lífum okkar hinna. Forstjóri Útlendingastofnunar er í senn opinber persóna og venjuleg persóna, svona eins og forstjóri Sjúkratrygginga Íslands sem sagði starfi sínu lausu vegna þess að hún telur sér ekki takast að fjármagna starfsemina og forstjóri Bankasýslunnar sem mætir á opinn fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og svarar nefndarmönnum fullum hálsi.

Fólk sem tekur sér þannig stöðu má búast við umfjöllun um sig og sínar ákvarðanir. Í smærri stíl mætti ég eiga von á umræðu og gagnrýni frá lesendum þessarar síðu og í hruninu fékk ég reyndar vænan skammt af fúkyrðum og dónaskap en því miður frá (sumum) nafnlausum lesendum. Ég gat því ekki farið í neinar rökræður vegna þess að einhverjir kallakallar, eins og þeir komu mér fyrir sjónir, komu inn á síðuna mína til að segja: Þú öfundar bara Bjarna Ármanns og hann má alveg græða peninga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband