Líf á RÚV (Life á BBC)

Á sunnudagskvöldum er nú í línulegri dagskrá bresk sjónvarpsþáttaröð um fjórar fjölskyldur í fjögurra íbúða húsi. Mér finnst allar sögurnar áhugaverðar (kannski ponsulítið ýktar samt) en sagan af konunni sem varð sjötug í fyrsta þættinum og áttaði sig á að hún hafði síðustu 50 árin lifað öðru lífi en hún hafði ætlað sér höfðar hvað mest til mín. Hvað varð um galgopann Gail sem var extróvert í hljómsveit en varð ráðsett og ábyrg húsmóðir með eiginmann, tvö börn, reglulegar máltíðir og tandurhreint eldhús? Vill sjötug kona snúa við blaðinu þegar hún sér að hamingjan sem einkenndi allt fjölskyldulífið var e.t.v. byggð á gaslýsingu (tek fram að þetta orð er ekki notað) eiginmannsins sem öllum fannst fyndinn og umhyggjusamur?

Svo er Anna eða Belle (Annabelle) sem kennir pílates en elur önn fyrir geðveikri systur sinni og situr uppi með systurdóttur sína og nokkra eigin drýsildjöfla í höfðinu.

Uppi er ungi ekkillinn sem missti konuna sína fyrir mánuði og er eins og draugur upp úr draug.

Loks er hin nýbakaða móðir, Hanna, sem ætlar að giftast manninum sem kom inn í líf hennar eftir að hún varð ólétt. Gail hin sjötuga speglar sig í hlutskipti Hönnu og öfugt vegna þess að sagan á það til að endurtaka sig. Þegar maður er á þrítugsaldri býr maður yfir kjarkinum en hefur ekki yfirsýnina. Þegar maður er sjötugur sér maður yfir sviðið en þorir kannski ekki að gera það sem þarf.

Eða hvað?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband