Hvenær elskar kona mann og hvenær elskar kona réttan mann? - Játning eftir Ólaf Jóhann

Mikið er ég fegin að hafa verið bent á Goodreads-síðuna þar sem venjulegir lesendur tjá sig um venjulegar bækur, líka á íslensku. Stundum þegar ég er komin vel inn í bækur gái ég hvort einhver hefur skrifað þar bitastæða umsögn. Ég gerði það hins vegar ekki þegar ég las nýjustu bók Ólafs Jóhanns, Játningu, heldur var ég að því núna.

Ég er frekar samviskusamur lesandi og gef höfundum mikinn séns. Það á allan daginn við um stjörnuhöfundinn Ólaf Jóhann sem ég les alltaf af skyldurækni. Ég man enn þegar ég las Níu lykla árið 1993, auðvitað meðvituð um að hann er sonur Ólafs Jóhanns Sigurðssonar, og ég man enn að mér þóttu allar níu smásögurnar fara vel af stað og hver einasta fannst mér endaslepp.

Samt las ég Snertingu í fyrra sem mér fannst lala mínus með einum góðum tvisti og samt greip ég Játningu á bókasafninu um daginn. Og þá er nú gott að hugga sig við að stundum hittir bók í mark. Ég var alveg viku að byrja enda þurfa flestar bækur aðeins að kynna sig og persónur sínar en síðustu 300 blaðsíðurnar gat ég varla lagt bókina frá mér. Og þegar ég les núna umsagnir annarra á Goodreads er þeim þveröfugt farið, þau hafa verið hrifin af bókum ÓJÓ hingað til en verða fyrir vonbrigðum með þessa.

Sko, Elísabet kynnist Benedikt í Austur-Þýskalandi rétt fyrir fall múrsins, þau verða ástfangin, Benedikt er náttúrubarn í skák og með ýmsa drauga í eftirdragi og þau lenda undir smásjá Stasi. Þær lýsingar þóttu mér hrollvekjandi vegna þess að þrátt fyrir allt búum við við persónufrelsi en ég var einmitt í Vestur-Þýskalandi árið 1987 og gekk auðvitað ekki í gegnum neitt þessu líkt. Við máttum og megum taka ljósmyndir og túlka að vild, tala við hvern sem er, sætum ekki miskunnarlausum kúgunum og erum ekki send í gúlagið fyrir rangar skoðanir. Í þessum hluta bókarinnar datt mér oft Bobby Fischer í hug.

Eða er ég kannski meðvirk? Erum við ófrjáls á Íslandi?

Svo er þáttur Halldórs til þess fallinn að kalla fram tár. Það er erfitt að segja nokkkuð án þess að segja strax of mikið, en elskaði Elísabet hann eða gerði hún það ekki?

Marta er dóttir Elísabetar og knýr atburðarásina af stað í nútímanum þegar hún finnur gamlar myndir frá Þýskalandsárunum. Þá er Elísabet stödd í vinnuferð á Ítalíu og óstöðug í tímanum eins og við mörg, alltaf að skoða símann til að kanna viðbrögð og bíða svara.

Þegar ég er búin að fara svona yfir mín helstu hughrif get ég alveg tekið undir með einhverjum að endarnir eru ekki allir hnýttir, en engri sögu lýkur til fulls nema með dauða. Þroskasögu Elísabetar lýkur ekki á bls. 390 og hvort tilfinningaríku myndirnar fara á sýninguna eða ekki er aukaatriði í sögunni sjálfri. Ég veit ekki hvað höfundur hugsaði í þeim efnum - enda er það þannig að þegar höfundur hefur sleppt hendinni af bókinni sinni geta allir lesendur túlkað eftir eigin höfði. Eins er með svona ritdóma ...

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband