Sunnudagur, 23. apríl 2023
Vel sniðin föt gera gæfumuninn
Þegar ég byrjaði að horfa á Burda-myndina i sjónvarpinu á föstudaginn mundi ég alls ekki eftir tískunni sem tengd er Burda - en þvílík saga sem er sögð í myndinni. Af því að ég þekki hana ekki getur vel verið að eitthvað sé fært í stílinn en í megindráttum held ég að saga Önnu sé svona:
Hún er alin upp af feðraveldinu, giftist efnilegum manni þegar hún er rétt rúmlega tvítug og hann tæplega þrítugur. Þau komast í álnir --- leiðrétting: Hann kemst í álnir en hún fæðir honum þrjá syni á átta árum. Hún hefur metnað til að láta til sín taka en henni er sagt, ekki síður af meintum vinkonum sínum, að hún sé nú bara eiginkona og eigi að halda sig á heimilinu, enda eigi hún góða fyrirvinnu.
Anna kemst að því að eiginmaðurinn á barn með fyrrverandi ritara sínum og barnið er á aldur við yngsta son þeirra. Hún brjálast og hótar skilnaði. Öllum finnst það ferlega fyndið og fjarstæðukennt, og vinkonunum finnst sérstaklega að hún eigi að njóta frelsisins.
Aenna, eins og hún byrjar að kalla sig, dustar rykið af framúrstefnulegri hugmynd um tískublað sem eigi að auðvelda öllum konum að klæða sig í falleg, litrík föt sem ekki aðeins klæði þær betur heldur auki þeim sjálfstraust. Henni finnst mikilvægt að konur sem hafi ekki of mikið á milli handanna geti samt fylgt tískunni og lífgað upp á sig. Aenna býr náttúrlega það vel að hafa tekið bílpróf og vera með heimilishjálp þannig að hún skýst til Parísar eftir þörfum.
Hún gengur á hvern þröskuldinn á fætur öðrum en klífur þá alla vegna þess að, eins og helsta samstarfskona hennar orðar það, hún kemur alltaf auga á lausnir þegar hún fær vandamál og úrlausnarefni í fangið.
Ég veit ekki, kannski var fegurð hreyfiaflið hennar en miðað við myndina og það sem ég er búin að lesa í morgun virðist hún samt frekar hafa viljað koma stöðnuðum heimi og úreltum hugmyndum á hreyfingu. Sjálfsöryggi skiptir máli ef fólk vill láta til sín taka og ef fólk klæðist kartöflupokum sem eru teknir saman í mittinu verður það kannski feimið við að standa upp og heimta athygli þótt málefnin séu verðug.
Annað þarf ekki að útiloka hitt, konur eiga ekki frekar en karlar að þurfa að velja annað hvort fjölskyldu eða frama.
Sagan kallar fram gæsahúð og mér finnst hálfundarlegt að ég hafi ekki þekkt til hennar.
Og myndin er á þýsku sem verðskuldar bónusstig.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.