Sunnudagur, 16. júlí 2023
Facebook-aðgangur
Ég var hökkuð og missti Facebook-aðganginn. Nú er mér sagt að ég geti endurheimt hann með ákveðnum aðferðum, þar á meðal með því að senda Facebook mynd af vegabréfinu eða ökuskírteininu, en fyrst þarf ég að senda netfangið. Og mín sérstaka vandamálasaga er að netfangið sem ég tengdi Facebook við er gamalt hotmail-netfang sem fylltist á árinu og ég ákvað að leggja til hliðar enda farin að nota tvö önnur netföng meira. Ég eyddi því bróðurpartinum af gærdeginum í að eyða og eyða póstum, skoða þá fyrst og afrita suma en sumum vil ég ekki farga í sinni mynd. Þar er efst á lista sönnunargagn um að bróðir minn stal af mér peningum sem honum finnst bara sanngjarnt að stela af mér af því að hann tapaði peningum í hruninu. Lögmaðurinn með hæstaréttarréttindin sem hjálpaði honum að svína á okkur systkinum kemur þar líka við sögu og umboð sem hann hjálpaði Gumma að skrifa um arfinn eftir pabba meðan pabbi var sprelllifandi. Allt mjög óviðkunnanlegt, smekklaust og illa lyktandi af gróðafíkn og glæpum.
Margháttaðar afleiðingar af hakki bjánans sem sendi guð má vita hve mörgum af vinalistanum mínum beiðni um símanúmer út af SMS-leik. Ég myndi aldrei gera svoleiðis en skiljanlega vissu það ekki öll þrettán hundruðin.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.