Leiðsögumenn bíða eftir að stóru félögin semji

Það önuga við biðina er að félögin sem eru leiðandi í baráttunni eru ekki nú þegar með lausa samninga - en það erum við. Við fengum ekki einu sinni 2% hækkun um áramótin (sem kæmi til útborgunar um næstu mánaðamót hjá þeim sem starfa við fagið yfir vetrarmánuðina).

Félag leiðsögumanna var með kjarafund í kvöld. Samninganefndin kynnti þær viðræður sem þegar hafa átt sér stað og kallaði eftir viðbrögðum og athugasemdum. Kynningin var góð og viðbrögðin líka. Gagnlegur fundur, leyfi ég mér að segja. Og ekki leiddist mér - enda talaði ég þegar mér sýndist (ekki alveg) og mátti sussa á hina þegar svo bar undir ...

Við leggjum ofuráherslu á laun. Ef þau hækka ekki missum við fólk úr stéttinni. Svo er stefnan tekin á löggildingu. Stefán minnti á að sjálfstæðismenn samþykktu á landsfundi sínum ályktun um að greiða þessa götu leiðsögumanna (Ályktun um ferðamál):

Tryggja þarf lögverndun starfheitis [svo] leiðsögumanna og annarra sem sótt hafa sérmenntun til að gegna afmörkuðum störfum í ferðaþjónustu.  

Og nú er Össur ráðherra ferðamála og einhverjum hafði skilist að hann væri ekki frábitinn sömu hugmynd. Tveir flokkar í ráðandi ríkisstjórn hljóta að geta þokað þessum málum áfram með okkar góðu hjálp.

Gistirými var rætt, dagpeningar, vinnutími (hvenær hefst vinnan í langferðum?), farsímanotkun, sýnileiki leiðsögumanna (má merkja rúturnar með fagmenntuðum leiðsögumönnum?), öryggi (hænuprikin sem okkur er stundum gert að sitja á til hliðar við bílstjórann), munurinn á kynningu afþreyingar og sölumennsku, uppsagnarákvæði, tími á milli stuttra ferða á sama degi (sumar ferðaskrifstofur hafa skirrst við að borga þann tíma), matarinnkaup og matseld, launaseðlar og vinnuskýrslur.

Hmm, ég gleymi einhverju - já, ÖKULEIÐSÖGN var rædd.

Og í lokin reifaði Magnús í samninganefndinni hugmyndir um verndun náttúrunnar og aukið aðhald frá m.a. leiðsögumönnum.

Þrátt fyrir kaffiskort fannst mér ógnargaman. Og stend heils hugar með samninganefndinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Ingi Bjarnason

Vonandi náið þið góðum samningum sem fyrst og Össur muni leggja fram tillögu um að löggilda leiðsögumenn það er kominn tími til þess.  Með því getum við líka stoppað þá erlendu leiðsögumenn sem þykjast þekja landið en vita ekkert um hvað þau eru að tala um. 

Það sem þið þurfið er góðir samningar, og allar skipulagðar ferðir eru með íslenskum löggiltum leiðsögumönum.

kv

Þórður Ingi

Þórður Ingi Bjarnason, 24.1.2008 kl. 08:13

2 identicon

Félagið sem stýrir mínum kauphækkunum er búið að semja um 7,5% hækkun frá 1. janúar 2008 en samningurinn er ótímabundinn með 3ja mánaða uppsagnarákvæðum. Þar semja menn sem sagt strax um prósentu en ætla svo að fylgjast með hvað kemur upp úr dollunum hjá hinum.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 24.1.2008 kl. 09:46

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Já, auðvitað standa sum félög og sumir launagreiðendur sig í stykkinu.

Best að setja hér inn hlekk á umfjöllun vefritara Félags leiðsögumanna (sem vísar líka í mig).

Berglind Steinsdóttir, 25.1.2008 kl. 17:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband