Mánudagur, 21. október 2013
Að hrauna eða ekki
Enn á ný er umræðan hjá okkur full af tilfinningum, nú um vegarlagningu í hrauni í Garðabæ. Einhvern veginn veit ég ekki alveg hvort hraunið heitir Gálgahraun eða Garðahraun. Ég hef ekki tekist það á hendur að fara og skoða, meta og gera upp hug minn. En hefur einhver spurt til hvers vegurinn er? Ég er nefnilega ekki sannfærð um að hann sé til bóta. Það heyrði ég meðal annars Friðjón Friðjónsson segja í útvarpinu fyrir einhverjum dögum. Hann er íbúi á þessum slóðum og aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar þannig að ekki eru þetta kýrskýrar pólitískar línur.
Og mér er fyrirmunað - stútfull af tilfinningum - að skilja hvernig hægt er að senda fjöldann allan af lögreglumönnum til að bera burtu fólk sem vill bíða niðurstöðu Hæstaréttar á sama tíma og mörg önnur brýn verkefni bíða lögreglunnar. Fréttamyndirnar komu út á mér tárunum.
Örvar Már Kristinsson, leiðsögumaður og íbúi Hafnarfjarðar, átti leið þarna um í dag og skrifaði þetta á Facebook áðan:
Á sama tíma og maður sér varla lögreglumenn að störfum við eftirlit með umferð við grunnskóla bæjarins, við vegaeftirlit á þjóðvegum og hverfisstöðvum er lokað vegna niðurskurðar og manneklu þá eiga þeir mannskap í svona gæluverkefni. Ég taldi minnst 20 lögreglumenn, 6 bíla og fjögur mótórhjól um hádegisbilið við Gálgahraun.
Með fylgja myndir. Ég hef samúð með lögreglumönnunum sem þurfa að hlíta fyrirmælum yfirmanna lögreglunnar. HVER ákveður svona nokkuð? Það er eitthvert nafn, einhver maður, einhver einstaklingur, einhver yfirmaður sem tekur af skarið. Hver? Og það þegar mannekla þjakar lögregluna?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 17. október 2013
#yolo
Sá Unglinginn í Gaflaraleikhúsinu í kvöld. Ég var búin að heyra viðtal við þessa greindarlegu tvo stráka þannig að ég gekk að því sem vísu að það væri eitthvað spunnið í sýninguna. Og vó, ég hló og hló í 100 mínútur af 105. Mér skilst að þeir séu í 9. bekk og mér er alveg sama hvort þeir strangt til tekið skrifuðu allt sem þeim er eignað, þeir nálguðust unglingsárin af mikilli fimi og skemmtu mér á fullu blasti. Foreldrar þeirra, vinir og skólafélagar voru klárlega á frumsýningunni (í kvöld) og þess konar fólk er yfirleitt erfiðasti áhorfendahópurinn.
Þessar fimm mínútur sem misstu marks voru þegar þeir predikuðu um einelti. Að öðru leyti ætti þessi sýning (með þessum eða sambærilega flinkum leikurum) að rata til sem flestra.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 17. október 2013
Fugl á víðavangi
Fjölbreytilegasta dýralíf á Íslandi hlýtur að vera fuglalífið. Getur verið að ég hafi tekið rétt eftir á fræðslufundi í kvöld að tæplega 80 tegundir verpi á Íslandi? Ég á fuglavísinn þannig að sjálfsagt gæti ég talið.
Fulltrúar frá Fuglavernd hittu okkur í gönguklúbbnum Veseni og vergangi og sögðu okkur sitt lítið af hverju um þá fugla sem við gætum hnotið um á gönguferðum. Guðsblessunarlega vissi ég sumt en ég var búin að gleyma að himbrimi synti um með ungana á bakinu en lómurinn ekki. Við megum ekkert vita um snæuglu, t.d. hvar hún heldur sig, af því að hún er í útrýmingarhættu. Við viljum ekki annað geirfuglsslys. Branduglunni hefur fjölgað í réttu hlutfalli við meiri lúpínu. Hún var áður flokkuð sem ránfugl en ekki lengur. Haftyrðillinn er hverfandi en er þó finnanlegur í grennd við Sauðárkrók.
Félagið Fuglavernd var stofnað til að vernda haförninn og nú er stofninn kominn upp í um 70 pör.
Þetta og langtum langtum langtum meira ætti maður að hafa á hraðbergi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 16. október 2013
Einn silfurpeningur
Ef ég fengi verðlaun og verðlaunapening fyrir að sitja á varamannabekk og leggja ekkert á mig hefði hann kannski ekkert tilfinningagildi. Ef eitthvað er í peninginn spunnið og ég hef unnið til hans trúi ég að ég vildi eiga hann til minningar um viðburðinn og árangurinn.
Ef aðrir eru sama sinnis getur maður ályktað að margumræddur silfurpeningur hafi hafnað hjá manni sem lagði sig ekki fram. En þá spyr ég mig: Hvert er raunvirði gripsins? Er efnið í honum og vinnan við hann 2 milljóna króna virði?
Og hvern annan getur langað til að eiga svona grip? Mér finnst tilhugsunin um að eiga óverðskuldaðan verðlaunagrip uppi á vegg eða inni í skáp svo galin að ég get ekki sett mig í spor hugsanlegs kaupanda. En kannski verður niðurstaðan af öllu þessu jaríjarí fyrst og fremst sú að næstu silfurpeningar verða úr álpappír.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 15. október 2013
Eru læknar verkalýður?
Ég þekki ekkert til læknastéttarinnar, rétt svo að ég þekki persónulega tvo lækna og það lauslega. Ég veit ekkert um laun þeirra eða aðbúnað. Og hvað vil ég þá með einhverja skoðun upp á dekk?
Ekkert.
Hins vegar heyrði ég í dag að verkalýðshreyfingin beitti sér orðið fyrst og fremst fyrir læknana. Og ég fór að velta fyrir mér hvort læknar væru meiri hagsmunahópur en aðrar stéttir. Kemur til greina að klásusinn í læknadeild snúist um laun, að hafa stéttina nógu fámenna til að hægt sé að halda uppi launakröfum? Það er hægt að sjá við því með því að fara til útlanda, en þeir sem eyða fyrstu 10-15 árum fullorðinsævinnar í útlöndum festa þar kannski rætur óvart, ég tala nú ekki um ef þeir eignast þarlenda maka og ílengjast með nýju fjölskyldunni.
Hvað myndi gerast ef við menntuðum fleiri lækna í Háskóla Íslands? Og hver ERU laun lækna? Ég skil að ábyrgð skurðlækna er mikil en er ábyrgð heimilislækna meiri en ábyrgð hjúkrunarfræðinga eða geislafræðinga? Ég veit þetta ekki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 13. október 2013
Hross koma á óvart
Af einhvers konar skyldurækni fór ég að sjá Hross í oss í Háskólabíói. Hestar, fátt sagt, engin saga eða lítil, já, eiginlega hélt ég jafnvel að þetta yrði langdregið hrossablæti.
Nei, mér var komið þægilega á óvart. Að sönnu er söguþráðurinn slitróttur og skilur nóg eftir fyrir ímyndunaraflið. Það hentar ekki öllum bíóförum eins og ég komst að raun um þegar ég leitaði að dómum um myndina eftir á. En hún spilaði á minn tilfinningaskala og nóg var hlegið í bíóhúsinu til að sannfæra mig um að fólki var meðfram alveg skemmt.
Ingvar E. Sigurðsson leikur mann sem er ástfanginn af merinni sinni. Þótt hann láti ekki líffræðilega reyna á er hann samt líffræðilega miður sín þegar merin reynist kunna að meta graðhest. Hvort er þá dýrið mennskra eða maðurinn dýrslegri?
Drykkjuskapur, þrálát forvitni um alla hina og nágrannakrytur setja sterkan svip á myndina. Helgi Björns, Kjartan Ragnars og Ingvar sýna allir á sér nýja leikhlið og Steinn Ármann brillerar fyrir allan peninginn í sjósundinu sínu. Rússarnir tala rússnesku, Spánverjinn (eða Brasilíubúinn eða eitthvað) og Svíinn tala öll sitt tungumál og það er ekki þýtt enda auðheyrt að merkingin er ekki í textanum heldur látbragðinu og myndmálinu.
Það eina sem ég finn að (fyrir utan eina of súrrealíska senu í seinni hlutanum) er nafnið. Á ensku heitir hún Of Horses and Men og mér finnst það eins mikið of einfalt og mér finnst Hross í oss ljótt, bara hljóðrænt ljótt. Ég held að ég skilji að meiningin sé að tiltölulega stutt sé á milli hrossa og fólks en kannski er ég ekki sérlega trúuð á það. En aðallega er titillinn ljótur að mínu mati. Og þá er hann ljótur ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 10. október 2013
Skiptir sæstrengur máli?
Maður þyrfti auðvitað að lesa skýrsluna um sæstrenginn. Hún er 55 blaðsíður. Menn hafa fundað og rætt, skrifað fundargerðir og komist að niðurstöðu. En mín tilfinningalega niðurstaða er sú að það er löng leið til þeirra landa sem gætu viljað kaupa af okkur orkuna. Á þeirri leið gæti margt farið úrskeiðis. Ef afhending klikkar verður einhver viðtakandi óhress enda fær hann ekki orkuna eins og hann býst við. Af því ber einhver skaðann og bjargföst meining mín er að það yrðum við.
Mikið vildi ég að einhver gæti afsannað þessa kenningu mína og það með að öll orkan sem við værum aflögufær um gæti í mesta lagi lýst upp tvær breskar borgir.
Það er nær að byggja upp atvinnu á Íslandi og selja fyrirtækjum hér orkuna sem við getum með góðu móti framleitt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 4. október 2013
36.500 á mánuði - fullt fæði innifalið?
Ég held að meint legugjald í fjárlagafrumvarpinu upp á 1.200 kr. á sólarhring sé smjörklípa, hugsað til að afvegaleiða umræðuna. Og ég geng með opin augun í gildruna.
Þessi upphæð er svo langt frá því að borga fyrir veitta þjónustu - enda greiðum við hana með sköttunum meðan við erum frísk og þurfum ekki á spítalavist að halda.
Það kostar að innheimta þessa lágu upphæð - á þetta að heita atvinnuskapandi?
Sumt fólk munar samt um þessa upphæð, kannski einmitt það fólk sem á helst erindi á spítala. Kannski, ég veit það ekki.
Ég held að öll stjórnvöld geri þetta, tefli fram einhverri fáránlegri hugmynd sem veldur usla til þess eins að geta dregið hana til baka og klappað sér á bakið. Nema nú blaðrar internetið öllu þannig að ég held að stjórnvöld komist bráðum ekki lengur upp með þetta.
Næsta mál, takk. Ef ég ætti að forgangsraða myndi ég leggja allt kapp á að greiða niður vaxtaberandi skuldir. Til þess þarf að afla tekna. Hvar eru matarholurnar? Hvar má spara? Mér er ferðaþjónustan hugleikin og ég held að þar séu veruleg sóknarfæri. Einn liður í því væri að stýra fólki út á land og einn liður í því væri að hafa innanlandsflugið á sama stað og millilandaflugið. Annar liður væri að bæta samgöngur. Það kostar auðvitað. Enn einn liður væri að efla afþreyingarstigið og bæta í í menningarmálum frekar en að draga úr. Iceland Airwaves sogar fólk til landsins. Sagan gæti stutt við náttúruna. Vonda veðrið er ekki sem verst. Norðurljósin eru komin á kortið. Maturinn er kominn á kortið. Helmingur ferðamanna kemur í júní, júlí og ágúst en helmingur kemur hina níu mánuðina. Á þeim tíma er ótrúlega víða lokað. Öö, já, LOKAÐ. Þá er ekki hægt að kaupa kaffi, kjúkling eða krumpudýr nema mjög óvíða. Já, það er erfitt að hafa marga staði opna lengi á rólegum tíma en það er verkefni að finna út úr því. Er það kannski ekki hægt? Mætti nota staðarnet til að upplýsa? Gestastofur? Einkaframtakið? Hvað með sútarann á Sauðárkróki? Er þar ekki leðurvinnsla og búð og tekið á móti fólki sem kemur? Starfsfólkið hefur samt eitthvað arðbært fyrir stafni þann tíma sem færri gestir eru á ferli. Mínir túristar vilja sjá spriklandi fisk á bryggjunni og kýrnar mjólkaðar. Er ekki hægt að flétta heimsóknir sem greitt er fyrir inn í atvinnuvegina?
Ég held að lausnirnar séu úti um allt ef við viljum sjá þær. Og vissulega væri þarft skref að lögleiða starfsheiti leiðsögumanna til að stugga við sjóræningjunum sem er skítsama um mosann og stofuglugga forsetans og vita ekkert annað en það sem þeir muna úr fyrstu hringferðinni sinni með leiðsögumanni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 3. október 2013
Hjólastígar á Suðurlandi
Mesti hugmyndasmiður sem ég heyri í á opinberum vettvangi er Andri Snær Magnason. Í gær var ég svo heppin að fá 20 mínútna skammt af hugmyndaauðgi hans á ferðamálaþingi. Hann varpaði fram spurningum og hugmyndum um fiska og náttúrufræði, af hverju við værum ekki vitlaus í fiska, t.d. börn sem hefðu aðgengi að öllum þeim fjölbreytilegu fisktegundum sem synda í hafinu í kringum Ísland. Flugleiðavélarnar eru skreyttar með fossum (er það ekki annars?) - en hvað ef þær væru skreyttar með furðufiskum? Ótrúlega margir Íslendingar - sem teljast fiskveiðiþjóð - hafa aldrei séð fisk nema flakaðan í borði fisksalans, jafnvel bara á diskinum í bleikri sósu. Á sjómannadaginn er alls kyns fiskur sýndur í fiskikörum á bryggjunni og það mælist alltaf vel fyrir. Af hverju er þetta ekki algengara hjá fiskveiðiþjóð?
Þetta var athyglisverð hugmynd.
Svo lagði hann út af Sigurði Fáfnisbana sem drap Fáfni, steikti úr honum hjartað, át og skildi þá tal fugla. Fornsögurnar eru hér ekki notaðar sem aðdráttarafl á útlendinga, arfinum er gert lágt undir höfði, margir ráðamenn tala þessa fornu menningu niður og gera á allan hátt lítið úr þessari sérstöðu okkar. Spildan sem Hús íslenskra fræða átti að rísa á er núna hálfgert ginnungagap og handritin á vergangi. Mig minnir að Andri hafi sagt að í Dublin væri stytta/líkneski/hurð (hann sýndi mynd) af Sigurði að steikja hjartað og það væri eitt helsta aðdráttaraflið í þeirri borg. En hér? Veit einhver hvar Sigurður Fáfnisbani heldur til?
En það sem höfðaði samt mest til mín var hugmyndin um láglendishjólastíg eftir Suðurlandinu. Andri sagði að Ísland væri flatara en Holland. Já, þar sem byggðin er. Væri ekki dásamlegt að geta hjólað eftir Suðurlandinu endilöngu, jafnvel með alla fjölskylduna, Íslendingar jafnt og útlendingar, 20, 30 eða 50 kílómetra eftir atvikum, stoppað í Hveragerði, við Þingborg, á Hellu, við Seljalandsfoss, séð Vestmannaeyjar nálgast og fjarlægjast, talað um jöklana sem voru hrikalegt farg á landinu og hopuðu svo - koma þeir aftur? - rifjað upp Önnu frá Stóruborg, fengið sér ís, litið inn í kaffi, spókað sig á jökulsporði, gist í hlöðu, fengið sér pítsu á Systrakaffi, gengið upp að Systravatni, rakið ættir sínar til síra Jóns Steingrímssonar eldklerks, gengið á Kirkjugólfi, mátað sig við Dverghamra, gáð upp í Fjaðrárgljúfur, horft lengi á Skaftárhraun, virt fyrir sér nýju brúna yfir Múlakvísl, sagt þjóðsögur, sopið hveljur yfir Jökulsárlóni, leitað að sel - já, eða rostungi - fundið humarilm á Höfn --- á hægferð?
Á hægferð.
Hægferð er lykilorðið.
Enginn bannar fólki að keyra en okkur er eiginlega bannað að hjóla um landið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 2. október 2013
Leiðsögumenn á ferðamálaþingi - hægferð
Formanni Félags leiðsögumanna var boðið að vera með erindi á ferðamálaþingi sem var haldið á Selfossi í dag. Dagskráin var þétt og erindin fín, tengslamyndun er mikilvæg sem og skemmtilegir þinggestir eins og var raunin í dag. Vonandi verður leiðsögumönnum oftar boðið í ræðustólinn þegar ferðaþjónustan er annars vegar.
Niðurstaðan eftir daginn var sú að ekki nógu mikið hefði breyst í aðbúnaði á 10 árum. Reyndar var Andri Snær Magnason með frábærar útfærsluhugmyndir. Ég nefni bara það að gera hjólreiðar auðveldr á Suðurlandi þannig að fólk geti látið duga að fara 30-50 kílómetra á hverjum degi, jafnvel með börnin sín. Þá gistir fólk oftar, borðar oftar og nýtur vonandi ferðalagsins betur.
Hægferð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 29. september 2013
Borgarskipulag og skoðanir
Hvarf Gísla Marteins úr atvinnustjórnmálum kemur flatt upp á mig. Nú sannast að ein vika er langur tími í pólitík án þess að ég sé svo sem til frásagnar um ferðir og hugsanir borgarfulltrúa.
Ekki síður kemur á óvart að heyra um nýja starfið hans og þá rifjast upp að Láru Hönnu Einarsdóttur var meinað að flytja vikulega pistla á RÚV um árið og henni borið á brýn að vera einhvers staðar í pólitík, líklega á vinstri vængnum af því að hún skrifaði fyrir Smuguna sem var að hluta í eigu Vinstri grænna. Að vísu birtist yfirlýsing um að hún endurnýtti pistlana sína en maður veit ekki alltaf í hvaða röð hlutirnir skipta máli.
Það truflar mig ekki að pistlahöfundar og þáttastjórnendur hafi skoðanir. Mér finnst að fréttamenn eigi að víkja þeim til hliðar í vinnunni og gæta sín líka utan vinnu en mér finnst almennt mannréttindi að fólk megi hafa skoðanir. Og þá er nú betra að vita hvar fólk stendur.
Var þátturinn annars nokkuð á dagskrá í dag ...?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 24. september 2013
Fegursta orðið - að mínu mati eða þínu
Leitin að fegursta orði íslenskunnar er mér að skapi. Hana má réttlæta eða útskýra með því að við förum að lesa meira, grufla, fletta, spá og spekúlera, tala saman, jafnvel búa til merkingarbær orð. Tungumálið er síkvikt. Ég er enn bara í orðum sem ég hef heyrt menn hampa sem fögrum: foss, dalalæða, himbrimi, dögurður, lævirki, meinbægni, hljómkviða, Glóðafeykir - hljómfögrum orðum óháð merkingu. Eða er það merkingin sem menn tengja við og skapar fegurðina, dulúðina, aðdráttaraflið?
Þess vegna get ég ekki gúterað að dómnefnd viðurkenni þær tillögur sem henni þykja skara fram úr. Hvernig geta orð keppt í fegurð? Eina skynsemin er að láta afl atkvæða ráða niðurstöðunni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 22. september 2013
Kynleg mismunun
Þegar ég vann sem nordjobbari í Finnlandi um árið var ég á hærra tímakaupi en Finnarnir sem unnu sömu störf og ég, bæði karlkyns og kvenkyns. Allir útlendu nordjobbararnir voru á hærra kaupi, skildist mér. Rökin? Við þurftum að borga leigu og höfðum almennt meiri rekstrarkostnað en heimamenn.
Það má sannarlega deila um þetta. Það munaði að vísu engum ósköpum, kannski var þetta meira táknrænt en þetta var sannarlega viljandi gert.
Vilji er allt sem þarf. Ef allir eru sammála um að óþolandi sé að mismuna fólki á grundvelli kyns á að breyta því. Á hverju strandar?
Á hverjum andskotanum strandar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 18. september 2013
Kynjað sund?
Ég er alveg ágætlega nýjungagjörn og vil ekki hafa hlutina eins og þeir eru af þeirri einu ástæðu að þeir hafi alltaf verið eins og þeir eru. Ég sver það. Í vinnunni minni hef ég m.a.s. lagt til ný vinnubrögð sem gætu falið í sér að ég missti vinnuna af því að mér finnst að við eigum stöðugt að velta við steinum og hagræða.
Nú berast þær hugmyndir úr heita potti Ráðhússins að sniðugt gæti verið að hafa sérstaka kvennadaga í sundi. Ég ætla hér með að taka mér það bessaleyfi að hafna þeirri nýjung. Ég hleyp ekki í kynbundnu hlaupi og ég vil ekki fara í kynbundna laug. Til vara verður hún að vera utan seilingar minnar, þessi kvennalaug, en alls ekki á þeim slóðum þar sem ég stunda sund.
Hver er ekki sammála minni upplýstu og ígrunduðu skoðun á málinu? Enginn. Enginn er ekki sammála vegna þess að allir hljóta að vera sammála mér um fjölbreytileikann. Ástæðan fyrir því að það voru kvenna- og karladagar í gufunni (og eru kannski enn sums staðar) var að fólk mátti vera nakið. Eða var það ekki?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. september 2013
Þurr vindur
Ég á það til að brúka minniskubbinn í hausnum á mér eins og hver annar gullfiskur. Þess vegna ætla ég að færa hér til bókar að í gær og í dag hefur verið glaðasólskin í Reykjavík og hraður vindur (bannað að segja rok, skilst mér). Og þetta hefur mér fundist fyrirtaksveður. Vindar mega blása EÐA himnarnir gráta. Ég vil helst ekki hvort tveggja í einu en í hádeginu hitti ég gamla samstarfskonu sem vildi frekar rok OG rigningu, allt frekar en fljúgandi ryk.
Við erum hvert með sínu mótinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 16. september 2013
Ættleiddir þættir
Ég er fullumburðarlynd þegar kemur að titlum sem eru ekki þýddir. Ég hefði viljað að Idol hefði verið þýtt á sínum tíma en missti hvorki svefn yfir útlenskunni né sneri út úr með því að kalla þáttinn eitthvað upp á íslensku, s.s. Hjáguð, Ágoð eða Ædol.
Survivor var heldur ekki þýtt og ekki held ég So you think you can dance en hvernig í heitasta helvíti dettur nokkrum í hug að kalla þátt Ísland got talent?
Nei, forlátið, það er Ísland Got Talent! Verður hann svo skammstafaður ÍGT?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 11. september 2013
Þunnur vír?
Hér er lokakaflinn í áliti mínu á þýðingunni á Killing Floor sem ég hélt í einhverju jákvæðnikasti að væri bara ágæt.
Á blaðsíðu 460 stendur:
Þetta voru eins og þunnir vírar í mjúkum, þurrum hanska.
thin þýðir: þunnur; gisinn; mjór, grannur - og þetta er ekki tæmandi upptalning. Hver hefur séð þunnan vír? En grannan eða mjóan?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 6. september 2013
Krimmaþýðingin
Þegar maður les þýðingu og hnýtur ekki að ráði um hana hneigist maður til að halda að hún sé í lagi. Sennilega er það líka oft rétt. Hins vegar er andskotalegt þegar lesandi hugsar í sífellu um þýðinguna og það er það sem hefur ágerst við lestur bókarinnar Rutt úr vegi.
Á blaðsíðu 239 er talað um sjöttu hæð.
Á næstu blaðsíðu er sjötta hæð orðin sú sjöunda.
Skömmu síðar lítur hann niður af sjöttu hæð og horfir þá 17 hæðir niður.
Aðeins aftar er sérkennileg orðatalning í gangi. Þar stendur:
Síðasta atriðið var þrjú orð: Skýrsla Grays um Kliner.
Neðar á sömu blaðsíðu stendur:
... og þessi fjögur orð: Skýrsla Grays um Kliner.
Og svo stendur:
Við þekkjum bara þá dauðu, sagði ég. Hubble [Paul, sem sagt karl] og Molly Beth.
Þýðandi talar um alla sem dauða, enginn er dáinn, hvorki góðir né slæmir. Er það til siðs? Og er ekki óeðlilegt að Paul og Molly séu dauðir? Jú.
Ég gæti tíundað meira en læt duga að rifja upp að svo tröllríður flestum blaðsíðum. Eftir sem áður held ég að ýmislegt sé vel gert en þyrfti auðvitað að skoða frumtextann til að sjá.
Ætli geti verið að Forlagið hafi flýtt sér helst til mikið?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 1. september 2013
,,Svo hverjum voru þeir á eftir?" (bls. 216)
Ég er að lesa þýðingu á krimma sem margt má gott um segja, einkum framan af. Þegar á líður kemur einhver þreyta, ég sver það þótt ég hafi ekki lesið skáldsöguna á frummálinu. En frá upphafi hefur orðið svo verið gegnumgangandi. Ég held að það sé þýðing á orðinu so þegar miklu oftar ætti við að nota orðin þá eða þannig með breyttri orðaröð.
Svo hverjum voru þeir á eftir? hljómar miklu betur og eðlilegar svona: Á eftir hverjum voru þeir þá? eða jafnvel: Hverjum voru þeir þá á eftir?
Annað dæmi, nú af bls. 177: Svo nema við séum með tvo aðila sem beita nákvæmlega sömu hótun á sama tíma og sama stað, er þetta önnur tenging. Mér finnst öllu breyta að hafa þetta svona: Þannig að þetta er önnur tenging nema við séum með tvo aðila sem beita nákvæmlega sömu hótun á sama tíma og sama stað. Mér finnst þetta líka ganga: Þannig að nema við séum með tvo aðila sem beita nákvæmlega sömu hótun á sama tíma og sama stað er þetta önnur tenging.
Báðar þessar málsgreinar eru bein ræða þannig að þetta er eðlilegt talmál - nema svoið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 30. ágúst 2013
Viltu hafa flugvöll?
Ég trúi á lýðræðið þótt það sé gallað. Ef ég væri yfirvald í Reykjavík myndi ég skoða undirskriftasöfnunina um flugvöllinn í Vatnsmýrinni vendilega þótt ég sé af öllu hjarta á móti flugvellinum þar. Ég held að þessir 62.230 einstaklingar sem hafa skrifað undir hafi gert það á ólíkum forsendum. Oftast heyri ég fólk nefna sjúkraflug. Allt skynsamt fólk setur mannslíf í fyrirrúm. En er ekki hægt að gera það öðruvísi en að hafa innanlandsflug í miðborg höfuðstaðarins?
Ef skynsama fólkið væri spurt: Viltu hafa góðan spítala í heimabyggð? reikna ég með að það segði: Já. Ef það væri spurt: Viltu fara vel með peninga? reikna ég með að það segði: Já. Ef það væri spurt: Viltu hafa næga atvinnu á svæðinu? reikna ég með að það segði: Já. Ef það væri spurt: Viltu hafa öruggar samgöngur í landinu? reikna ég með að það segði: Já. Ef það væri spurt: Viltu hafa sex vikna sumarfrí? reikna ég með að það segði: Já. Ef það væri spurt: Viltu að börnin þín fái góða menntun og í fyllingu tímans gott og vel launað starf þar sem hæfni þeirra er metin að verðleikum? reikna ég með að það segði: Já.
Samt vita allir að við getum ekki öll fengið allt sem við viljum. Það er ekki hægt að leggja veg um allar þorpagrundir. Það er ekki hægt að hafa hratt internet alls staðar í þessu stóra landi án þess að kosta miklu til. Það er ekki hægt að hafa sjúkrahús og 50 metra sundlaug í hverjum smábæ. Það er ekki hægt að hafa fullkomið jafnrétti í öllum málum. Við getum ekki tryggt öllum sjúkum bata. Við getum ekki valið hvenær sólin skín í hverjum landsfjórðungi. Við getum ekki gert öllum til hæfis.
En það er sjálfsagt að reyna að gera sem flestum til hæfis og að öðru leyti fara bil beggja. Ef þarfagreining sýnir fram á að meiri hlutinn hagnast í einhverju (eða öllu) tilliti á því að hafa flugvöllinn þar sem hann er mun ég beygja mig undir ákvörðun um það. Ég er bara enn ekki sannfærð um að undirskrifendur séu á því að það þjóni almannahagsmunum að hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni ef flug á að standa undir sér. Ég er búin að fljúga tvisvar sinnum innanlands í sumar og í bæði skiptin borgaði vinnuveitandi undir mig. Hefði ég verið til í að ferðast aðeins lengur?
Vill allt það fólk sem vill hafa flugvöllinn til daglegs brúks á sama stað borga raunvirði fyrir farseðilinn sinn? Og hvert er raunvirðið?
Ég er auðvitað að hugsa upphátt og ég spyr: Má kosta öllu til; byggingarlandi, öryggi þeirra sem eru á daglegu ferli í miðborginni, ferðatíma borgarbúa, útlits- og umferðarmengun? Er öruggt hvert svarið yrði ef allir 62.230 þyrftu að velja á milli sjúkrahúss í heimabyggð og flugvallar í Vatnsmýri? Eða flugvallar í Vatnsmýri og ganga í gegnum fjall yfir í næsta byggðarlag þar sem gott sjúkrahús er? Eða flugvallar í Vatnsmýri og fjár til að fara í nýsköpun í heimabyggð? Eða flugvallar í Vatnsmýri og nýs framhaldsskóla í heimabyggð?
Hvað finnst þessum 120.000 kosningarbæru Íslendingum sem hafa ekki skrifað undir? Ég veit að ég vil flugvöllinn burt sjálfrar mín vegna og ég held að obbinn af þeim sem hafa skrifað undir hafi líka gert það af persónulegum ástæðum.
En ég er ekki yfirvald í Reykjavík, á sennilega aldrei eftir að fá að vita allan sannleikann í málinu og ræð engu öðru en eigin næturstað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)