Miðvikudagur, 5. mars 2008
Síðunni barst kvörtun vegna kiljuklúbbs Máls og menningar
Hún var svona:
Einu sinni fékk ég fjórar bækur, svo stundum fjórar og stundum þrjár, svo alltaf þrjár, svo stundum þrjár og stundum tvær og nú alltaf tvær.
Mér var sagt að við síðasta niðurskurð yrði sakamálasaga ávallt önnur þessara tveggja bóka en það hefur nú verið svikið.
Síðasti þriggja bóka pakki kostaði 1860 í júlí á síðasta ári, nú kostar tveggja bóka pakki 1995 krónur - GARG.
Ég vil ekki að pakkinn hækki tvisvar á einu ári. Ég vil alltaf fá sakamálasögu því klúbburinn er búinn að venja mig á að það sé gott. Það er bannað að ala mann upp í góðum siðum og skemma þá svo.
Ég sagði auðvitað stúlkunni hjá kiljuklúbbnum að brátt fengi ég stundum eina bók og stundum tvær og loks fengi ég bara eina bók í hverjum pakka. Henni fannst ákaflega ólíklegt að sú yrði þróunin.
Ég benti henni á að á sínum tíma þegar sendar voru fjórar bækur hefði starfsmaður kiljuklúbbsins sjálfsagt talið fráleitt að í framtíðinni yrðu bara sendar út tvær bækur.
Til að bíta höfuðið af skömminni var mér sagt að aðalástæða þess að fækka bókunum úr þremur í tvær væri ... að þá væri auðveldara að koma þeim inn um bréfalúguna.
En nei, ástæðan var bara sú að það yrði auðveldara að hækka verðið, án þess þó að fara upp fyrir 2000 krónur.
Og auðvitað klykkti konan út með því að eftir sem áður væri þetta miklu ódýrara en úti í búð - vá fréttir. Til hvers annars að vera í svona klúbbi nema til að fá þetta ódýrara og VEL VALIÐ lesefni?
Skyldi hún vinkona mín segja áskriftinni upp?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þriðjudagur, 4. mars 2008
Handtöskuserían
Stílbrot er lítil bókaútgáfa sem Sif Sigmarsdóttir heldur úti. Metnaður hennar stendur til þess að gefa út vandaðar metsölubækur sem hún þefar uppi í London þar sem hún heldur til þessi misserin. Mér er málið skylt að því leyti til að ég var að prófarkalesa nýjustu bókina sem kemur út í Handtöskuseríunni, Brick Lane eftir Monicu Ali frá Bangladess.
Brick Lane er gatan sem sagan hnitast um. Nazneen er frá Bangladess, gift samlenskum manni en þau búa í London. Hún hlutaðist ekki til um hjónabandið, heldur var það ákveðið af öðrum í fjölskyldunni að múslimskum sið. Þar sem þau hjónin búa fjarri heimalandinu er hins vegar óhjákvæmilegt að þau dragi dám af kringumstæðum sínum, einkum þar sem fyrirhuguð heimför dregst á langinn. Og þegar líður að bókarlokum dregur verulega til tíðinda ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 2. mars 2008
Hvað er samkeppni?
Það er gaman að sitja í heita pottinum og spjalla við (hálf)ókunnugt fólk. Í gær spjallaði ég við starfsmann Kaupþings sem er áreiðanlega mætur starfsmaður og dugandi. Þetta hugsa ég ekki sem háð. Hins vegar mislíkaði mér hvernig hann kallaði allt sem ég sagði um bankana - of mikinn vaxtamun, há þjónustugjöld, ofurlaun stjórnenda - lap upp úr öðrum, sagði að ég væri að lepja upp það sem áður hefði ranglega komið fram annars staðar.
Í mínum viðskiptabanka er algengur vaxtamunur á inn- og útlánsvöxtum debetkorta um 5 prósentustig, inn 12,8% og út 18,7%. Er það ekki vaxtamunur? Og er hann ekki hærri en gengur og gerist meðal hinna frægu þjóða-sem-við-berum-okkur-gjarnan-saman-við?
Hann sagði að í Bretlandi þyrfti að borga fyrir að stofna reikning og borga fyrir að loka reikningi. Það er áreiðanlega rétt. Ég man líka eftir því sama þegar ég átti lítinn varasjóð í Þýskalandi þegar ég var þar au-pair. Ég lagði inn 300 mörk til að vera ekki á flæðiskeri stödd ef kastaðist í kekki við au-pair-fjölskylduna. Tæpu ári síðar þegar ég fór heim voru mörkin 300 orðin að 295, einmitt út af þóknun og engum innlánsvöxtum. Það voru bara heldur ekki neinir útlánsvextir að ráði.
Þegar ég gerði tilboð í íbúð fyrir tveimur árum og ætlaði að yfirtaka hagstæða lánið upp á 4,15% hjá KB eins og hann hét þá var mér gert að fara í viðskipti til hans. Ég varð að gera tvennt af þrennu: stofna launareikning, fá mér greiðslukort og/eða fá mér viðbótarlífeyrissparnað. Ella myndu vextirnir af láninu hækka við yfirtökuna, upp í 6,15% minnir mig. Þetta kalla ég að kúga fólk í viðskipti til sín. Ég féll frá tilboðinu en hefði annars tekið lán hjá Íbúðalánasjóði.
Vinkona mín ein er með stórt lán hjá Kaupþingi og ef hún vill flytja sig úr þessari mafíu sem hún kallar svo þarf hún að borga hátt uppgreiðslugjald. Hún kallar að hún sé núna átthagabundin. Ég held að þetta fyrirkomulag sé reyndar víðar.
Við töluðum líka um myntkörfulán, greiðslur í evrum, Andrés Magnússon lækni sem var í Silfrinu á sunnudaginn var - og Gettu betur. Ég legg hvorki á mig né að ... lepja upp allt sem okkur fór á milli. Hins vegar hvíslaði maður í eyrað á mér þegar hann fór upp úr pottinum að ég skyldi spyrja viðmælanda minn hvort íslenskir bankar tækju nokkuð lán hjá Seðlabanka Íslands. Þá vorum við að tala um stýrivexti og verðtygginguna.
En nú er ég komin að fyrirsögninni: Hvað er samkeppni? Ég skil nefnilega samkeppni svo að fyrirtæki keppi um að gera betur og laða fólk þannig í viðskipti til sín. Umræddur pottverji virtist mér leggja samkeppni út sem auglýsingar, eða öllu heldur viðurkenndi hann að samkeppni bankanna kæmi helst þar fram, þeir eyddu gífurlegu púðri (og væntanlega peningum) í auglýsingar - í samkeppni um viðskiptavini.
Þetta varð mér svo einkar hugleikið þegar ég las viðskiptafrétt um að Glitnir hefði verið valinn markaðsfyrirtæki ársins 2007. Ég held nefnilega að sterkasta innlegg Glitnis í samkeppni um viðskiptavini hafi verið útspil Þorsteins Más Baldvinssonar þegar hann byrjaði stjórnarformennsku sína á að leggja til verulega launalækkun til sjálfs sín og annarra hálaunamanna hjá fyrirtækinu. Til hans verður horft á næstu mánuðum frekar en hvort menn fái áletraða möppu, skál fulla af eplum eða grillspaða í eftirsókn eftir viðskiptum við þá.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 1. mars 2008
Bjúgverpill
Ég fylgdist ekki alveg nógu vel með keppninni milli MR og Versló en voru ekki áhöld um að eitt orð (og þannig svar) hefði verið rétt í hraðaspurningunum? Sjálfri heyrðist mér annað liðið segja kannski bjúgverpur (þýðing á boomerang) og hitt liðið gerði athugasemd við orðið, hvernig sem það nú annars var. Dómarinn útskýrði ekki, sagði bara að rétt hefði verið gefið fyrir. Eftir sat ég með efasemdir.
Keppnin var spennandi í lokin. Þetta er frábært útvarps- og sjónvarpsefni þegar vel tekst til.
![]() |
MR í undanúrslit í Gettu betur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 29. febrúar 2008
Í gagnasafni Moggans kennir ýmissa grasa ...
Listaháskólann í Hafnarfjörð?
SÉRHVERT lýðræðislegt bæjarfélag hlýtur að hafa að leiðarljósi að setja meiri hagsmuni ofar hinum minni, taka mið af sjónarmiði heildarinnar frekar en einstakra einstaklinga. Þess vegna skiptir ekki máli hvað einstökum nemendum í Listaháskóla Íslands finnst um staðsetningu skólans í nálægri og fjarlægri framtíð. Það skiptir hins vegar máli hvað fjölda nemenda og kennara í skólanum finnst. Ef þau sjónarmið eru hins vegar fyrst og fremst tilfinningalegs eðlis hljóta þau að missa nokkurs marks. Þótt tilfinningar kunni að vera talsverður drifkraftur í sköpun megum við ekki horfa framhjá fræðilega þættinum. Ég er að vísu ekki listaskólagengin en seint skal ég trúa því að listaskólanemendur ætli að sækja innblástur einan í nám sitt. Ég þekki líf nemans prýðilega og veit að margt gagnlegt hlýst af því að eiga samneyti við samskælinga sína, og það á kaffistofunni, en hvatinn að slíku kemur einlægt úr uppfræðslu af einhverju tagi. Eru ekki komin 10 ár eða svo síðan átti að fara að sjást fyrir endann á húsnæðishraki stofnunarinnar? Sá tími í mannkynssögunni er skammur en sami árafjöldi í lífi eins listnema spannar auðveldlega allt námið. Og hvernig verður nú best hlúð að nemendum? Er það ekki með góðum aðbúnaði til að stunda nám sitt? Er ekki góður aðbúnaður að vera í vel hönnuðu húsnæði á stað sem uppfyllir obbann af kröfum notenda? Ef góð birgðastaða líkamlegs fóðurs er veigamesti ávinningurinn af því að vera í miðborg Reykjavíkur finnst mér sú röksemd heldur snautleg. Stendur ekki til að teikna upp nothæfa kaffistofu í bygginguna hvar sem hún rís? Annars er í Hafnarfirði svo sem enginn hörgull á kaffihúsum, veitingastöðum, bakaríum, bensínstöðvum, bönkum, verslunum og sundlaugum til að menn geti lagt í þarfapíramída Maslows.Nálægð menningarstöðva er sjónarmið sem ég skil. Hitt veit ég ekki hversu oft menn fara - eða færu - á vettvang á skólatíma. Stökkva myndlistarnemar kannski alltaf eftir hádegi á fimmtudögum í listasöfnin með fræðara sínum og teyga í sig skilaboð olíunnar, vatnslitanna, þráðanna, útskurðarins, meitilsins? Hlaupa leikaraefnin inn í Þjóðleikhús tvo morgna í viku og fylgjast með æfingum? Skunda flautunemarnir á tónleika í Salnum (ahh, hann er í Kópavogi) eða á æfingu hjá Sinfóníuhljómsveitinni á skólatíma? Eða stunda nemar þetta framboð menningar í frítíma sínum? Á kvöldin? Af því að námið fer saman við áhuga þeirra á listinni?
Mér finnst ég oftar hafa heyrt nemendur stynja undan aðstöðuleysi í skólanum sjálfum. Hafnarfjörður hefur upp á að bjóða nægilegt pláss á fallegum stað sem getur ekki annað en blásið mönnum anda í brjóst. Umhverfið sjálft er tignarlegt, sjórinn á aðra hönd og hraunið á hina. Þegar veður leyfir sitja menn í hraunbollum og teikna; höggva í pappír eins og fjölþjóðlegir listamenn hafa höggvið í málm verkin sem standa á Víðistaðatúni. Menn horfa nær og fjær eða spjalla við næsta mann og víst er það stundum næringin sem dugir. Þrátt fyrir allt sækir maður líka sitthvað inn á við, í eigin kviku.
Einhver öflugasta hönnunardeild landsins er starfrækt við Iðnskóla Hafnarfjarðar. Tónlistarlíf blómstrar með þeim ágætum að nánast hver Hafnfirðingur er í kór, og margir í fleiri en einum. Í Bókasafni Hafnarfjarðar er tónlistardeild sem slær flestum öðrum við. Safnið flyst bráðum um set, og verður þá steinsnar frá norðurbakkanum, staðnum sem Listaháskólanum býðst. Í bókasafninu verður miðstöð upplýsingatækni með tugum tölva og þar verða til listaverkabækur og fagtímarit. Á norðurbakkanum er núna eitthvert nýstárlegasta atvinnuleikhús landsins, Hermóður og Háðvör, og jafnframt áhugaleikfélag sem verður 75 ára á næsta ári. Þau voru einmitt að frumsýna Koss köngulóarkonunnar, og þar er unglingadeild sem mark er á takandi. Núna er verið að taka upp bíómyndina Mávahlátur í því húsi sem mun víkja fyrir Listaháskólanum ef hann ratar í Fjörðinn. Þá eru ótaldir allir einyrkjarnir meðal listamanna í Hafnarfirði sem hafa ekki hátt; sem og Ljósaklif, Hafnarborg, Straumur, Kvikmyndasafn Íslands og Bæjarbíó.
Hafnarfjörður hefur sérstöðu og hún stendur Listaháskóla Íslands til boða. Gleymum ekki að nemendur skólans og framtíðarkennarar koma ekki allir úr 101 Reykjavík. Sumir gætu verið í Reykjanesbæ að leita sér að vettvangi núna.
Við þurfum ekki að mála skrattann á vegginn. Við þurfum að vinna saman. Var svo ekki einhver að tala um að höfuðborgarsvæðið ætti að verða eitt?
Höfundur er menningarfulltrúi Hafnarfjarðar.
-Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. febrúar 2001 (og ég er ánægð með allt nema myndina, hvert einasta orð).
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 29. febrúar 2008
Fátt um manninn - en góðmennt
Aðalfundur Félags leiðsögumanna var haldinn á Kaffi Reykjavík í kvöld, fimmtudagskvöld. Ég var svo heppin að vera bæði kosin fundarritari og síðan í ritstjórn. Ég veit nú þegar upp á hvaða handleggi ég ætla að snúa og hvað ég vil láta skrifa um. Að auki er ég búin að ákveða ýmislegt um framtíðarfjármálin. Þetta er allt önnur tilfinning en þegar ég var kosin formaður um árið ...
Um 40 manns mættu (á sjöunda hundrað eru í félaginu) þannig að það er alltaf bara lítill meirihluti sem ákveður fyrir hönd hins stóra meirihluta. Þetta er að hluta til vegna þess að sumir eru óvirkir eða lítt virkir, sumir áhugalitlir og sumir fjarri góðu gamni af því að þeir búa úti á landi, jafnvel erlendis.
Við gerðum nokkrar lagabreytingar, kusum í allar nefndir og öll ráð, þráttuðum dálítið og síðan sagði Skúli Möller okkur undan og ofan af kjaramálum. Loks varpaði Jón Lárusson skemmtilegri hugmynd út í loftið, ræræræ.
Mér finnst gaman að vera í Félagi leiðsögumanna. Mér finnst líka gaman að vera leiðsögumaður. Mér finnst hins vegar hundleiðinlegt að horfa á launaseðilinn. Þar á verður kannski fljótlega breyting.
Og leiðsögumenn drekka ekki kaffi með lokaðan munninn:
Ég mismælti mig í gær þegar ég sagðist ekki finna myndirnar mínar af álfunum, ég var bara ekki búin að taka þær ...
Fleiri álfamyndir síðar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 27. febrúar 2008
Álfar í Offenbach
Aldrei fór það svo að dálæti mitt á álfum fleytti mér ekki suður í lönd. Nú er hvatahópur sem er væntanlegur til landsins í júní búinn að panta undirritaða til útlandsins til að segja nokkur spakleg og þýðversk orð á sviði. Rútan verður óvenjulega stór, sem sagt salur, og aldrei þessu vant mun ég snúa að fólkinu og ná jafnvel augnsambandi.
Þetta verður 10 mínútna sjónarspil sem ég hlakka mikið til því að mér leiðist aldrei að tala. Þetta á sér langan aðdraganda því að hvatahópurinn hefur þegar fengið póstkort sem er undirskrifað af einhverri Berglindi sem mun síðan öllum að óvörum birtast á sviðinu í Offenbach - og staðfesta bestu grunsemdir manna um álfa á Íslandi!
Hahha.
Ég er búin að hlæja síðan ég las tölvupóstinn með staðfestingunni sem barst í dag. Þýski forstjórinn þarf nefnilega að læra setningu á íslensku og svo á ég að segja nokkrar til viðbótar sem hann á að kinka kolli við og jánka með innfjálgum íslenskum orðum eins og einmitt, frábært, fyrirtak o.þ.h.
Einhverra hluta vegna finn ég hvorki myndirnar mínar af álfunum né tröllunum ... Ég bæti þeim kannski við seinna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 26. febrúar 2008
Matthísurnar setja stefnuna á óvissuferð
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 25. febrúar 2008
Skásti peningabankinn
Um síðustu mánaðamót gleymdi ég að borga greiðslukortsreikning upp á 94.148 kr. þegar ég fór yfir hann í heimabankanum. Tæpri viku síðar fékk ég höfnun þegar ég ætlaði að nota kortið í fyrsta skipti í mánuðinum. Þá fór ég í heimabankann og borgaði reikninginn. Tveimur dögum seinna fékk ég í löturpósti ítrekun um að borga. Dagsetningin var dagsetning greiðsludagsins. Það kostaði mig 525 kr. Núna fæ ég reikninginn og þá þarf ég líka að borga vexti upp á 588 kr. fyrir utan auðvitað meint útskriftargjald fyrir reikning sem bankinn neitar að senda mér bara rafrænt.
Þessar 1.113 kr. má ég borga fyrir að skulda bankanum 94.148 kr. í slétta viku. Frá þóknun bankans verður auðvitað að draga póstburðargjald og pappírskostnað. En bankanum hefur ekki orðið skotaskuld úr að senda mér rafrænt alls kyns skilaboð út af einhverri meintri nýrri þjónustu.
Og þessi banki hefur komið skást út í skoðun minni á samkeppni bankanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 25. febrúar 2008
Bankinn sem maður vill frekar leggja inn í en taka út úr
Í dag var hringt í mig og ég boðin á aðalfund Blóðgjafafélags Íslands. Mér skildist að til stæði að viðurkenna mig fyrir margháttaðar blóðgjafir (og engar úttektir, hmm). Ég varð því miður að afþakka því að ég hef þegar tekið að mér trúnaðarstarf á aðalfundi Félags leiðsögumanna!
Annars hvet ég fólk eindregið til blóðgjafa ef það getur. Það er gott að láta eitthvað af hendi (úr hendi!) rakna og svo er hvert skipti ígildi minniháttar læknisskoðunar, blóðrauði er mældur, sömuleiðis ... eitthvað annað. Ég er a.m.k. alltaf sannfærðari eftir heimsóknirnar um að ég sé heil heilsu og eigi 100 ár ólifuð (eitthvað svo krakkaleg, hehe).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 24. febrúar 2008
Á tímamótum ber að fagna
Jóhanna átti afmæli og bauð 100 nánustu vinum sínum. Hér er hún með spúsa sínum, Frank frá Liechtenstein:
Ég kom í þessum vafasama félagsskap:
En sem betur fer í fylgd fleiri vinkvenna:
Í fylgd með þessu dularfulla gjafaborði:
Hér búnar að faðma afmælisbarnið.
Og þá var að blanda geði:
Laugarvatnsbandið gerði sig gildandi með söng og borðaúthlutunum:
Og þessi er í sérstöku uppáhaldi:
Hann vogaði sér samt ekki í karaókí.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 23. febrúar 2008
Að græða eða ekki að græða í spilum
Mér finnst gaman að spila vist og gúrku, ás-tvist og kleppara, pictionary og fimbulfamb, rakka, kasínu, rommí og gosa - allt eftir aðstæðum og félagsskap. Mér finnst póker jafn óspennandi og spilakassarnir í sjoppunum. Og ég skil ekki stóra muninn á þeim og póker. Ég man frá því að ég vann í sjoppum bróður míns þar sem voru peningaspilakassar að einstaka spilarar prentuðu út feita vinninga og fóru út með dálitlar summur sem þeir eyddu margir hverjir aftur síðar, oft skömmu síðar.
Getur það ekki líka gerst í póker, að menn tapi gróðanum? Var gengið eftir því að Rauðakrossgróðinn væri talinn fram?
Ég held ekki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 22. febrúar 2008
Gefandi spjall um gúmmíhanska
Ég geri ráð fyrir að mitt heimili sé eitt af þeim síðustu í landinu þar sem ekki er uppþvottavél. Á mínu heimili er vaskað upp í höndunum og með svo heitu vatni að gúmmíhanska er þörf. Ég hef ekki tölu á hversu mörg gúmmíhanskapör hafa safnast til uppruna síns undanfarið en þau eru ærin því að þau detta snarlega út í götum.
Kannast nokkur við vandamálið?
Ég hef keypt allar fáanlegar tegundir í Bónus og Krónunni. Þarf ég að kanna lagerinn í Nóatúni líka?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 20. febrúar 2008
Hvað þýða ,,versnandi atvinnuhorfur"?
Nú er þrálátur orðrómur um að farið verði að segja upp í bönkunum og að það fari að dragast saman í atvinnulífinu. Þýðir það að viðskiptafræðingar, lögfræðingar og tölvufræðingar missi vinnuna?
Ég heyrði á Bylgjunni í morgun merkilegt viðtal við Magnús Baldursson, fræðslustjóra Hafnarfjarðar, sem sagði að bankafólkið skyldi endilega sækja um á leikskólum, það yrði vel tekið á móti því. Mig rak í rogastans, ætli sérhæfing talnafræðings komi að miklu gagni í uppeldisstörfum? Finnst leikskælingum starfi þeirra sýnd næg virðing þegar víurnar eru svona bornar í fólk sem hefur menntað sig til allt annarra starfa? Eru launin sambærileg?
Ef menn væru að tala um atvinnuástandið í þorskinum sem var skorinn niður og loðnunni sem var skorin burt gæti ég skilið að menn hefðu áhyggjur. Að menn hafi áhyggjur. Mér rennur til rifja hvernig sumum plássum fjarri suðvesturhorninu blæðir. Ég hitti Stöðfirðing nýlega sem sagði að fólk sogaðist þaðan í burtu með þurrð á fiski, annað hvort til Reykjavíkur eða Reyðarfjarðar. Þótt Austurland dafni sums staðar er hert að annars staðar. Og íbúum þeirra staða er ekki skemmt.
Ég gæti sum sé skilið ef menn hefðu áhyggjur af þessum atvinnuhorfum. En mér heyrast áhyggjurnar snúast um bankana og útrásina. Þýðir það - ef svo illa fer - að obbinn af fólki fari að vinna bara 100% vinnu?
Ég þekki nefnilega varla manneskju sem vinnur ekki mun meira en fulla vinnu. Sjálf er ég ágætt dæmi, ég hef ekki undan að banda frá mér skemmtilegum verkefnum meðfram fastri vinnu. Sum tek ég að mér, kennslu í íslensku fyrir útlendinga, prófarkalestur, þýðingar, leiðsögn. Ef þrengist að gæti verið að ég yrði að láta mér 100% duga - og er það ekki í lagi?
Útlendingar sem ég þekki furða sig mikið á aukastörfum Íslendinga. Þeir spyrja hvort við eigum engin áhugamál. Erum við ekki svona andvaralaus og ligeglad af því að við hlaupum svo hratt í lífsgæðakapphlaupinu - og út af þenslunni?
Á hverjum mun kreppan bitna?? Á hverjum hefur þenslan bitnað?
Best að hugsa málið yfir skemmtilegu þýðingaverkefni frá Alþjóðahúsi ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 18. febrúar 2008
Úr 1.450 kr. í 1.556 - mest úr býtum?
Eða hvað þýðir þetta? Þegar maður skoðar með þessu?
Mér sýnist tímakaupið upp á 1.450 kr. (með orlofi og undirbúningi) fara í kr. 1.556 ef ég legg 18.000 kr. við tímakaupið sinnum 170 tímar. Ef einhver nennir að lesa allan samninginn á vef ASÍ og endursegja í aðalatriðum það sem kemur leiðsögumönnum við væri það vel þegið.
Í augnablikinu skil ég ekki gleðidansinn.
Man þó að á morgun er alþjóðlegur dagur leiðsögumanna. Líklega valinn af því að þá er hvað minnst að gera hjá leiðsögumönnum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 17. febrúar 2008
Þetta er ígildi auglýsingar - neikvæðrar??
Þar sem ég er gefin fyrir ís - og nú er byrjað að hlýna - stökk ég á hugmyndina um nýjan sælgætisís frá Nóa-Síríus og kippti einum Pippís með í Bónus í gær. Hann kostaði (minnir mig) 339 kr., mögulega allt að 379 (ég finn ekki strimilinn).
Mér þótti hann bragðast of mikið eins og piparmynta.
Svo lá leið mín í hús í grennd við Nóatún í dag og ég ákvað að prófa annað bragð, Bananasprengjuís. Sama magn af honum kostaði 589 kr. (ég á enn strimilinn). Hugsanlega er hann dýrari í framleiðslu - annars er verðmunurinn aðeins of mikill milli verslana.
Ekki undir 50% verðmun. Huggun er að ísinn mæltist vel fyrir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 17. febrúar 2008
Er þetta ný frétt? - Asbest og útivist
Ég man ekki hvort það var síðasta eða þarsíðasta sumar - kannski bæði - sem ég gekk um Elliðaárdalinn á vegum Orkuveitu Reykjavíkur í fylgd Stefáns Pálssonar sem sagði okkur undan og ofan af tíðindum í dalnum. Meðal tíðinda var einmitt að lending væri fundin fyrir Toppstöðina (kölluð svo af því að hún annaði toppunum, sem sagt vararafstöð á álagstímum) og ég skildi hann þannig að samkomulag væri komið um hver skyldi rífa hana og bera af því kostnað. Ég hefði giskað á að það væri einmitt Landsvirkjun en skal viðurkenna að ég man ekki hver fékk þann kaleik. Nú er borgin komin með hann í hendurnar
Það verður nefnilega stórmál að rífa þessa asbesthlöðnu byggingu. Ætli borgin fagni þessu verkefni?
Hins vegar verður indælt að stækka útivistarsvæðið.
![]() |
Gaf borginni vararafstöðina í Elliðaárdalnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 16. febrúar 2008
Láti gott á vita
Jónmundur er auðvitað ekki fyrsti maðurinn til að benda á hið augljósa en vonandi breytist nú kúrsinn. Vonandi ná menn að líta upp úr steypunni og horfa á starfið og manneskjuna sem gegnir því. Vonandi hætta menn að miða við lægsta samnefnara - auðvitað eru slakir kennarar innan um - og fara að horfa til heildarinnar.
Ég þekki að vísu betur til í framhaldsskólum en grunnskólum þannig að ég ætla að spara allar yfirlýsingar um skólastigið sem heyrir undir sveitarstjórnarstigið en ég ætla að rifja upp að kennarar sem taka starfið alvarlega, eru vaknir og sofnir [hlýtur að vera svona í fleirtölu], nota öll möguleg tækifæri til að viða að sér efni og hugsa upp leiðir til að gera námsefnið forvitnilegt og skemmtilegt, brydda upp á nýjungum og prófa nýjar aðferðir. Þeir setja sig inn í námsefnið, auðvitað, reyna að nálgast það frá sjónarhóli nemandans líka og krydda með jaðarefni. Þeir nota eigin fyrirlestra, láta nemendur flytja fyrirlestra, semja verkefni, fara í hlutverkaleiki, nota spil, fara í vettvangsferðir, kynda undir ímyndunaraflinu.
Með breyttu samfélagi lenda líka félagsleg umhugsunarefni í fangi kennarans. Ég vona að ég brjóti ekki trúnað með því að segja að vinkona mín sem er hætt að kenna veitti því eftirtekt í fari vel gefins nemanda síns að hún var farin að slá slöku við. Vinkona mín gekk á hana og fékk hana til að segja sér frá ofbeldi sem hún hafði orðið fyrir, þess konar ofbeldi sem braut niður sjálfsmyndina. Þessi vinkona mín sat með nemandanum stundirnar langar, fékk hana til að leita sér faglegrar aðstoðar og kom henni á réttan kjöl. Þessi vinkona mín gafst á endanum upp á 270.000 kr. mánaðarlaunum og starfi sem hún fór alltaf með heim í lok dags, fékk vinnu með vinnutíma 8-4 og hækkaði í launum um 55%. Hún notar enn háskólamenntunina. Heppin.
Ég veit að hnífurinn stendur dálítið í þeirri kú að kennarastéttin er fjölmenn. Launagreiðendur verða samt að líta upp úr steypunni og hætta að horfa bara út um gluggana, líta líka inn á við og spyrja sig hvað skipti máli.
Að svo mæltu lýsi ég því yfir að ég vildi stokka miklu meira upp í skólunum, hafa betri vinnuaðstöðu í húsnæði skólans og skikka - já, segi og skrifa - kennara til að vera á staðnum á ákveðnum tíma, t.d. 8-4, svo að hægt sé að vera með meiri samvinnu. Mér þótti sjálfri best að kenna í þeim skóla þar sem ég gat gengið að samkennurum mínum á dagvinnutíma og rætt hugmyndir fram og til baka. Á því græddi ég og á því held ég að nemendur græði. Starf einyrkjans er svo lýjandi.
![]() |
Vill hækka laun kennara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Laugardagur, 16. febrúar 2008
Ég vil búa í 102 Reykjavík
Seðlabankinn hjálpar mér með háum stýrivöxtum að stækka aurasjóðinn sem ég eignaðist þegar ég seldi íbúð og keypti ekki aðra. Þess vegna er ég viss um að ég muni hafa efni á að kaupa í Vatnsmýrinni þegar íbúðabyggingar verða risnar þar. Ég var að stúdera vinningsteikningarnar OG ÞAÐ ER EKKI GERT RÁÐ FYRIR SUNDLAUG. Mikill harmur er að mér kveðinn. Gert er ráð fyrir tveimur grunnskólum og einum framhaldsskóla - sem er gott - og mér sýnist m.a.s. vera tenging við miðbæinn sem einhverjir töluðu um að væri ekki næg.
Ég vil fá sundlaug í 102 Reykjavík. Það er áreiðanlega ekki of seint að koma þessu á framfæri.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 14. febrúar 2008
Heyrt á Bylgjunni í morgunsárið
Spurt: Finnst þér laun kennara nógu há?
Svarað: Mér finnst margar stéttir of illa launaðar.
Spurt: Finnst þér verjandi að börn fái ekki lögbundna kennslu?
Svarað: Mér finnst ekki gott að gamalt fólk fái ekki umönnun.
Spurt: Hvað finnst þér um að kennarar sem eru að útskrifast vilja frekar halda áfram í námi en fara í illa launaða kennslu?
Svarað: Kannski eru námslánin orðin of góð.
Spurt: Finnst þér í lagi að fólk hrökklist úr kennslu til að vinna við afgreiðslu í bönkum?
Svarað: Þetta er þensla. Viljið þið frekar 10% atvinnuleysi eins og víða er í Evrópu?
---
Endurtakist í tilbrigðum eftir þörfum í 10 mínútur. Ég hafði áhyggjur af að Heimir Karlsson spryngi í loft upp og þá hefði verið grátið á mínu heimili. Eftir fáum útvarpsmönnum sæi ég meira en Heimi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)