Ása sá sól og Óla róla og hjóla

Fyrirsögnin er kannski ekki sérlega lýsandi fyrir Kára og Höllu sem ég sá í Hafnarfjarðarleikhúsinu í kvöld. Hún var samt notuð til að túlka kennslu fyrir útlendinga.

Það var smekkfullt á 2. sýningu þessa kolsvarta gamanleiks eins og sýningin er kynnt - og salurinn hló sárasjaldan. Mér finnst svolítið sárt að hugsa til þess vegna þess að ég hef séð verk eftir Hávar sem ég hef verið mjög hrifin af.

Hann meinar vel, deilir á neysluhyggju og útlendingafordóma en því miður með svo svakalegum klisjum að mér var aldrei komið á óvart, engin ný sýn, ekkert nýtt sjónarhorn. Persónurnar voru mjög brokkgengar, ýmist algjörlega heiladauðar eða skyndilega býsna skynsamar.

Búningar voru allir gráir og lífguðu ekki mikið upp á.

Þetta fannst mér.


Bernskan rifjast upp

Þegar maður vinnur þægilega innivinnu heldur maður stundum að úti geisi óveður ef vindurinn guðar á gluggann. Svoleiðis fór fyrir mér í morgun enn einu sinni þennan veturinn. Að vísu beit vindurinn í kinnarnar þegar ég skeiðaði milli húsa en veðrið var tæpast óveður.

Svo sá ég að Hellisheiðinni hafði verið lokað.

Snjóköst bernskuáranna rifjast upp. Útivera, skíðaferðir jafnvel, heilbrigð átök við vindinn og stundum pati af þrumum. Óleiðinlegar minningar.

En nú hleypur á snærið hjá minni. Ef veður og færð lofar fer ég nefnilega með útlendinga um Hellisheiðina á morgun. Og það má mikið vera ef ég dríf ekki alla út úr rútunni til að leggjast í snjóinn og búa til engla. Hnoða kannski nokkra snjóbolta í leiðinni. Bý mig bara vel.

 


mbl.is Hellisheiði ekki opnuð í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðsögumenn bíða eftir að stóru félögin semji

Það önuga við biðina er að félögin sem eru leiðandi í baráttunni eru ekki nú þegar með lausa samninga - en það erum við. Við fengum ekki einu sinni 2% hækkun um áramótin (sem kæmi til útborgunar um næstu mánaðamót hjá þeim sem starfa við fagið yfir vetrarmánuðina).

Félag leiðsögumanna var með kjarafund í kvöld. Samninganefndin kynnti þær viðræður sem þegar hafa átt sér stað og kallaði eftir viðbrögðum og athugasemdum. Kynningin var góð og viðbrögðin líka. Gagnlegur fundur, leyfi ég mér að segja. Og ekki leiddist mér - enda talaði ég þegar mér sýndist (ekki alveg) og mátti sussa á hina þegar svo bar undir ...

Við leggjum ofuráherslu á laun. Ef þau hækka ekki missum við fólk úr stéttinni. Svo er stefnan tekin á löggildingu. Stefán minnti á að sjálfstæðismenn samþykktu á landsfundi sínum ályktun um að greiða þessa götu leiðsögumanna (Ályktun um ferðamál):

Tryggja þarf lögverndun starfheitis [svo] leiðsögumanna og annarra sem sótt hafa sérmenntun til að gegna afmörkuðum störfum í ferðaþjónustu.  

Og nú er Össur ráðherra ferðamála og einhverjum hafði skilist að hann væri ekki frábitinn sömu hugmynd. Tveir flokkar í ráðandi ríkisstjórn hljóta að geta þokað þessum málum áfram með okkar góðu hjálp.

Gistirými var rætt, dagpeningar, vinnutími (hvenær hefst vinnan í langferðum?), farsímanotkun, sýnileiki leiðsögumanna (má merkja rúturnar með fagmenntuðum leiðsögumönnum?), öryggi (hænuprikin sem okkur er stundum gert að sitja á til hliðar við bílstjórann), munurinn á kynningu afþreyingar og sölumennsku, uppsagnarákvæði, tími á milli stuttra ferða á sama degi (sumar ferðaskrifstofur hafa skirrst við að borga þann tíma), matarinnkaup og matseld, launaseðlar og vinnuskýrslur.

Hmm, ég gleymi einhverju - já, ÖKULEIÐSÖGN var rædd.

Og í lokin reifaði Magnús í samninganefndinni hugmyndir um verndun náttúrunnar og aukið aðhald frá m.a. leiðsögumönnum.

Þrátt fyrir kaffiskort fannst mér ógnargaman. Og stend heils hugar með samninganefndinni.


Dekur í 101 Reykjavík

Nú er klukkan á tólfta tímanum og 24 stundir eru komnar í hús. Ég held að það hafi aldrei brugðist að blaðið hafi verið komið þegar ég hef átt leið um útidyrnar á þessum tíma. Mér heyrist á öðrum sem ég þekki að atlætið sé ekki svo gott á þeim heimilum.

Því hallast ég að því að Þinghyltingar séu fordekraðir.

Eins gott að auglýsendur frétti þetta ekki ...


Farþeginn skrifaður af tveimur

Ég las Farþegann um helgina. Framvindan var svo oft svo óvænt að ég hlýt að hugsa hvort höfundarnir tveir hafi komið hvor öðrum á óvart í sífellu. Annar skrifaði kannski 1. kafla og svo tók hinn við og sá skemmtilegar tilvísanir sem sá fyrri ætlaði sér ekkert endilega neitt með. Mér var ágætlega skemmt. Væri til í fleiri tilraunir af þessu tagi.

Jói og Simmi á Bylgjunni

Ég er mikið gefin fyrir talað mál. Sumir í stór-vinahópnum halda að ég vilji endalaust hafa orðið sjálf en það er ekki satt. Þegar ég tek til verður mér óendanlega miklu meira úr verki ef ég hlusta á talað mál. Það má vera í síma. Því miður finnst mér púlsinn á Rás 1 helst til veikur, reikna með að ná þeim þroska síðar, og er svo sem ekki sérlega gefin fyrir upplestur af neinu tagi.

Nú hugsaði ég mér gott til glóðarinnar og kveikti á hinum vinsælu Bylgjupiltum sem segjast halda úti útvarpsþætti frá 9 ei emm til 12 ei emm (allajafna skrifað a.m. eða am, svona skáletrað bera þeir það hins vegar fram). Ég setti svo sem ekki teljarann í gang en mér er til efs að þeir hafi talað í 20 mínútur á fyrsta klukkutímanum. Auglýsingar voru fjölmargar og svo hafa þeir spilað fjöldann allan af lögum. Þeirra eigið talaða mál var brandari um Guðmund í Byrginu, grín um refsingu fyrir hvalavini sem væru hengdir upp í bómur og látnir fylgjast með þegar hvalir væru skornir og lesið (ímyndað?) bréf til 3.000 listamanna út af Laugavegi 4-6 sem þeir upphrópuðu yfir í annarri hverri setningu. Sennilega eitthvert lítilræði til viðbótar sem ég man ekki. Og annar er hófstilltari en hinn.

Mynd með dagskrárlið - Simmi og Jói

Ég er augljóslega ekki í markhópnum. Ég amast ekki við auglýsingum heilt yfir en stilli ekki á sérstakan auglýsingaþátt með illa unnu brandaraívafi. Ég held að þeir séu hinir mætustu menn og mér þætti sjálfri sár raun að þurfa að fara út fyrir kl. 9 alla laugardagsmorgna. Kannski kemur það svona út.

Það verður ekki erfitt að stilla á Vikulokin kl. 11.


Ég ræð ekki við mig

Ég er búin að lesa rökstuðninginn og get ekki að því gert að lítast vel á nýjan ferðamálastjóra. Ég skil áfram þá sem vildu fá starfið og höfðu hugmyndir um ferðaþjónustu til framtíðar en ég trúði strax og trúi enn að Ólöfu fylgi mikill kraftur og vilji til góðra verka.

Hins vegar er ég hugsi yfir því hvernig millinafnið er beygt. Hvernig beygir Steingrímur Sævarr millinafnið sitt? Hvernig beygjum við Stein Steinarr?

Ég veigra mér ...


mbl.is Iðnaðarráðherra rökstyður ráðningu Ólafar Ýrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að spara eyrinn

Fyrir mörgum árum var ég búin að mynda mér skoðun á Sundabraut. Ég las þessa almennu umfjöllun í blöðum, hlustaði á þá sem höfðu þekkingu og skoðanir á málinu og komst að niðurstöðu sem er nú fyrnd. Ég er búin að bíða svo lengi eftir þessari samgöngubót að ég man ekki lengur hvað ég vildi. Þó grunar mig að ég hafi helst hallast að ytri leið og þá vegna þess að innri leið hafi bitnað á lífríki fjarðarins.

Nú þykja mér öll rök hníga að göngum. Ég hef ákveðið að taka mark á Gauta vini mínum og vinum hans, enda er ég afskaplega lítið skotin í hvers konar sýnilegum umferðarmannvirkjum. Kostnaður er líka svo déskoti afstæður, það sem kostar í krónum meira í upphafi getur enst von úr viti. Vel ætti að vanda það sem lengi skal standa (er þessi málsháttur til og hvernig er hann þá réttur?). Ég bið um Sundagöng. 


Enginn læknir í neyðarbílum meir

Ja, ég segi bara það að ég lenti á spjalli við sérhæfðan sjúkraflutningamann um daginn sem sagði að þeir væru farnir að sinna verkum læknanna í útköllum hvort eð er. Í fréttunum eru þeir núna kallaðir bráðatæknar.

Það er víðar háski en í útköllunum. Ég hef engar áhyggjur af atvinnumálum læknanna. Og eftir því sem ég kemst næst þarf ekki að hafa stórfelldar áhyggjur af lífi og heilsu verðandi sjúklinga.

Rangt mat?


Með hljóðum

Ég sit í sófanum mínum og hlusta á ræðu frá Alþingi í tölvunni minni, ræðu sem var flutt á sjötta tímanum í dag. Ég er afar hrifin af þessari tækni. Og mig furðar að þingmaðurinn sem ég hlýði nú á segir tuttugu hundruð og sjö fyrir nýliðið ár. Þetta gat maður ekki áður séð - af því að maður þarf að heyra það.

*prrr*


Sögur af fasteignasölum

Ein fasteignasala segir að síminn hringi varla og að allt hafi verið með afar kyrrum kjörum frá því í haust. Önnur segir að það sé búið að vera mjög líflegt frá áramótum.

Geta báðar sagt satt?

Myndir selja. Myndir hrinda frá. Ef eldhús væri yfirgripsljótt að mínu mati myndi ég ekki hafa fyrir því að fara að skoða því að ekki nenni ég að byrja á breytingum af því tagi. Fasteignasalan sem er mjög borubrött segir að það verði að vera mynd úr svefnherberginu því að annars haldi allir að eitthvað sé að því. Hey, í svefnherberginu geta verið fastir skápar sem er gott að vita um, að öðru leyti hef ég engan áhuga á að sjá rúmbúnað ókunnugs fólks.

Ætli það sé rétt hjá þeirri fasteignasölu að fólk heimti myndir úr svefnherbergjum fólks?

Ég gái að stað, stærð og verði, eftir það einstökum vistarverum. Hins vegar hafa ýmsir gaman af að skoða myndir til þess að skoða myndir. Er það fólkið sem heimtar myndir úr svefnherbergjum?

Og hvað skyldu óháðir aðilar segja um fasteignamarkaðinn; upp, niður eða beint áfram? Allir sem blöðin spyrja eru háðir - bankar, fasteignasalar eða kannski fjárfestar. Hversu mikið er að marka Fasteignamat ríkisins sem er þó sannarlega ekki háð? Hvað kostar fermetrinn í 101?


Shu - shushu

Samkvæmt ævisögunni sem ég er að lesa þýðir þetta tré - skógur sem gleður ógurlega viðfangsefni sögunnar. Þar sem tvö tré koma saman, þar er skógur.

Það lá að, kínverskan sannar þetta.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er mér að skapi

Ég hef áður heyrt Sigmund tala á borgarafundum og mér líkar vel húmorinn hans í bland við vit á efninu. Hann lýsti í Silfrinu áðan í máli og myndum hvað hefur gefist vel í skipulagsmálum borga - og hvað illa. Það sem stendur til við Laugaveginn núna hefur gefist illa í öðrum löndum; borgir sem leggja áherslu á smágerða og samfellda miðborgarmynd laða til sín ferðamenn og í kjölfarið koma atvinnurekendur og fyrirtæki.

Fyrir kannski rúmu ári fór ég í Nike-búðina til að kaupa mér skó og talaði lengi við eigandann/afgreiðslumanninn. Hann sagði að pólitíkusarnir hefðu ekki lagt leið sína til hans, ekki komið á bak við eða spurt sig álits. Ég er ekki viss um að öll húsin sem sumum var hrófað upp af litlum efnum í eina tíð eigi að standa. Ég er hins vegar handviss um að byggðin við Laugaveg eigi að vera lágreist, að í því sé gæfulegri framtíð en háhýsahótelum. Sem leiðsögumaður hef ég vitaskuld líka þá skoðun því að hvernig ætlum við að koma rútunum að svona hóteli með góðu móti? Nógu er það snúið með fjölmörg önnur hótel í miðbænum.

Í sumum húsanna við Laugaveginn er erfitt að komast inn með barnavagn eða í hjólastól og ég hef engan áhuga á að halda þeim hópum frá miðbænum. Það er ástæða til að laga götuna gjörvalla að breyttum tímum í því tilliti en Sigmundur er fyrir löngu búinn að sannfæra mig um ráðleysi þess að byggja háhýsi í miðbænum.

Það er fagmennska, byggð á skoðun á fjöldamörgum örðum borgum og reynslu þeirra af réttri breytni og rangri. Ég var í Stokkhólmi í fyrsta skipti í ágúst á síðasta ári, gamla stan er heillandi. Þótt veður sé víðast betra en hér er veður stundum ágætt - og arkitektúrinn ætti líka að geta stutt við veðursæld þannig að vindstrengir verði síður og sólinni ekki haldið burtu.

Megi ráðamenn hlusta á Sigmund þegar hann talar um skipulag miðborgarinnar.


Samkeppniseftirlitið lifi

Kannski finna neytendur ekki sérlega mikið fyrir því þráðbeint að kortafyrirtækin hafi borið sig saman og reynt að útiloka nýjan aðila í bransanum en við þetta tækifæri verð ég að rifja upp að í haust var mér tvívegis neitað um úttekt á e-kortið mitt vegna þess að heimildin væri fullnýtt. Í báðum tilfellum var það rangt en bara í fyrra skiptið var það leiðrétt með einu símtali. Í seinna skiptið svaraði meintur þjónustufulltrúi hjá Borgun, þrætti og var með mikið stærilæti.

Ég átta mig ekki alveg á hvernig það að neita fólki um þjónustu hjálpar fyrirtækinu en ég er svo góður neytandi að ég hringdi í SPRON næsta virka dag og lét vita. Síðan hef ég ekki gert svo stór innkaup í einni ferð að reynt hafi á þjónustuna að ráði.

En undarlega hljótt hefur verið um þessa frétt. Kannski er það út af kvótadómnum sem er auðvitað risastórt mál.


mbl.is Í takt við sjónarmið núverandi eigenda Borgunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfur mánuður liðinn

Kjarasamningar leiðsögumanna losnuðu fyrir næstum hálfum mánuði. Félag leiðsögumanna fundar með hinum og þessum um hitt og þetta. Flestir leiðsögumenn eru í öðrum störfum fram á vorið - en ekki allir. Ferðamenn eru á Íslandi upp á hvern dag og nokkur fyrirtæki eru með dagsferðir alla daga. Ýmist leiðsögumenn og bílstjórar eða ökuleiðsögumenn ferðast með ferðalangana. Og nú eru þessir launþegar án samninga.

Við erum undir regnhlíf ASÍ og nú blæs ekki byrlega á þeim vettvangi. Stóru verkalýðsfélögin leiða umræðuna og meðan það er stál í stál milli ASÍ og viðsemjenda erum við eins og mús undir fjalaketti og fáum engu þokað.

Er ekki tími til kominn að tengja?

 


Röskur atvinnurekandi óskast

Röskur* kennari, læknir, leiðsögumaður, bílstjóri, ferðamálastjóri, háseti, framkvæmdastjóri, vefhönnuður, forseti, ritari, garðyrkjumaður ... óskast. Hvað er að orðinu röskur? Mér finnst þetta viðkvæmni í þeim sem kvörtuðu. Það að vera röskur þýðir ekki að viðkomandi þurfi að vera fljótfær eða að aðrir megi ekki líka láta hendur standa fram úr ermum.

Ég man að auglýsingin var samin í Hafnarfirði en ég man ekki hverjir kvörtuðu undan notkun orðsins.

* ötull, vaskur, hvatur, snar, duglegur, tápmikill, röggsamur


Gettu betur heldur áfram

Í kvöld keppa átta framhaldsskólar í spurningakeppninni sívinsælu. Ég er með hjartslátt af spenningi, einkum yfir gengi Vestmannaeyja. Ég vex ekki upp úr áhuga á vitsmunalegri keppni og þótt ég eigi eftir að kortleggja spurningahöfundinn Pál Ásgeir Ásgeirsson betur líst mér ágætlega á það sem ég hef heyrt, ekki síst um náttúru landsins og einhvern karlakór ... sem hann er sérfróður um ... Vona þó að hann hætti að spyrja út í auglýsingar sem virka sem auglýsingar fyrir þau fyrirtæki sem í hlut eiga.

Þangað til klukkan slær hálfátta ætla ég að hugsa spekingslega um hæfi og hæfni til mannaráðninga og hvort fólk geti hugsanlega í viðtalinu heillað þann sem útdeilir starfinu. Ég vil halda í þá trú að fólk sé ráðið út á verðleika sína og að það geti slegið í gegn með frumlegum og útpældum hugmyndum í viðtölunum sem eiga að skera að einhverju leyti úr um hæfni þess til að gegna starfi.

Meðfram ætla ég að skæla dálítið yfir því að fá bara þrjá fjórðu út úr prófi sem ég hélt að ég hefði náð a.m.k. 85% í. Ég hélt að ég væri svo flink í þýðingum en Gauti deilir ekki þeirri skoðun til fulls. Fá rökstuðning?


Baggalútur rokkar

Jólalegri verð ég ekki!


Um mengun af ferðaþjónustu

Mér var bent á 17 ára gamla ræðu þáverandi umhverfisráðherra sem sagði:

Mig langar bara til þess að minna á að umhverfismálastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur beint þeim tilmælum til allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að draga úr ferðamannaþjónustu og minnka straum ferðamanna til aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna vegna þess að ferðamannaþjónusta er einhver mest mengandi atvinnugrein sem fyrirfinnst á jörðinni. Ferðamannaþjónusta, t.d. eins og hún er er rekin á Spáni, hefur valdið meiri umhverfisspjöllum á Spáni heldur en öll álver í Evrópu samanlagt. Ferðamannaiðnaður og ferðamannaþjónusta t.d. í Miðjarðarhafslöndunum hefur valdið svo rosalegum umhverfisspjöllum að það er núna yfirlýst stefna umhverfismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna að beina þeim tilmælum eindregið til allra aðildarríkja: Dragið úr ferðamannaþjónustu, reynið að minnka straum ferðamanna til landanna til þess að koma í veg fyrir þau umhverfisspjöll sem ferðamenn valda.

Sannlega sannlega segi ég .. að þetta þyrfti Birna G. Bjarnleifsdóttir að rifja upp. Alveg áreiðanlega las hún þetta og lagði út af þegar ræðan var flutt 18. mars 1991, einkum orðinu ferðamannaiðnaði sem gefur sterklega til kynna að ferðamenn séu fyrirbæri á færibandi, eins og hver önnur kókdolla, vara sem ekki þarf að gefa sérstakan gaum eða sinna sem einstaklingum.

Svo hef ég fyrir satt að umhverfismálastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi bara aldrei mælst til þess arna. Það væri alveg einstaklega heimskulegt, fólk var þá, er núna og verður áfram á faraldsfæti. Þetta er meðal lífsgæða fólks - að fara að heiman í lengri eða skemmri tíma, upplifa nýja hluti, stækka heiminn, bæði í eigin landi og öðrum. Og hvort sem fólk er heima eða að heiman þarf það að nærast og hreyfa sig, fótumtroða jörðina og slíta henni einhvers staðar. Það þýðir ekki að snúa sér undan og vona að vandamálið hverfi, miklu nær er að standa uppréttur, fagna áskoruninni og finna viðunandi lausn fyrir verkefnið.

Þrátt fyrir auðheyrðan titring yfir ráðningu nýs ferðamálastjóra bind ég miklar vonir við framtíðina, að mörkuð verði stefna í ferðaþjónustu, vegir bættir, gistipláss um allt land aukið, afþreyingarmöguleikum bætt við - og eftir frétt af nýársdagsraunum fullorðinna erlendra ferðamanna í spreng óska ég þess heitt að þeim líkamlegu þörfum fólks verði hægt að mæta framvegis, líka á helgidögum. Lifi björgunarsveitin sem aumkaði sig yfir fólkið! Auðvitað er ekki háleitt að fjalla um klósettþarfir fólks en skv. þarfapíramída Maslows nýtur fólk ekki æðri gæða ef grunnþörfum er ekki sinnt. Og tilkomumikill Seljalandsfoss í ljósaskiptunum getur átt sig ef þvagblaðran er farin að þrengja að augunum.

Seljalandsfoss


Mig dreymdi Michael Moore

Það hlýtur að vera út af forkosningunum í Bandaríkjunum.

Við vorum á Akureyrarflugvelli á leið til Vestmannaeyja og í einu horninu sátu Michael Moore og fleiri þekktir Bandaríkjamenn. Einhverra hluta vegna var ég með í skjóðu minni bók sem MM hafði skrifað og með hjartslætti bað ég hann að árita! Svona grúppíutaktar eru annars mjög fjarri mér.

Ég spái því að John Edwards vinni demókratamegin og vinni repúblikann sem verður ekki Rudy Guiliani. Ég held að Hillary Clinton og Barack Obama taki hvort frá öðru (þarf ekki miklar gáfur til að sjá það) og að obbi Bandaríkjamanna sé ekki tilbúinn í svona miklar breytingar. Þá sígur JE fram úr.

Þetta hefst upp úr því að dreyma mótmælanda Bandaríkjanna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband