Sunnudagur, 22. júlí 2007
Dekur í Laugardalslaug
Nú er búið að setja upp sérstakan bás fyrir bara sundkort í Laugardalslauginni. Þeir sem vilja láta hella upp á kaffi fyrir sig eða ætla að fá sér sundgleraugu þurfa áfram að versla við borðið. Ég hélt að þetta hefði verið gert fyrir gestina eða kannski til að koma í veg fyrir að fólk svindli sér inn (sem hlýtur að vera auðvelt) en systir mín sagðist í dag hafa spurst fyrir og henni verið sagt að þetta væri fyrir starfsfólkið sem trampar um á hörðu gólfi alla daga og þarna gæti það hvílt fæturna.
Sama hvaðan gott kemur, ég er ánægð með þetta. Ég hef nefnilega ekki tölu á hversu oft ég hef þurft að standa í röð til þess eins að láta gata kortið mitt. Og aldrei haft hugmyndaflug til að fara bara inn og láta gata tvö næst ...
Næsta skref hlýtur að vera að láta útbúa kort sem hægt er að kaupa inneign á og þá getur maður bara rennt kortinu sínu í gegnum rauf í hliðinu til að komast inn. Það heitir sjálfsafgreiðsla og af henni er ég hrifin. Enginn veit það betur en Unnur Mjöll, svo oft töluðum við um þjónustu í gamla daga.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 22. júlí 2007
TVP - Top Visual Priority
Ég kvaddi í gær hóp sem ég var með í fjórum stökum dagsferðum í vikunni. Af því að samsetningin breyttist lítillega alla vikuna þótt uppistaðan væri að sönnu sú sama varð leiðsögnin aðeins ruglingslegri en maður kýs. Ég byrjaði með 31 farþega í Borgarfirði á mánudag, var svo með 19 þeirra og tvo nýja í Suðurströnd á miðvikudag, svo 11 af þeim og tvo nýja á föstudag og sömu 13 í Gullhring í gær.
Loks í gær fór að myndast einhvers konar hópstemning sem ég var búin að vera að streðast við að mynda alla vikuna. Ég held að þessi rof, þriðjudagur og fimmtudagur, séu óholl fyrir hópeflið af því að fólkið gistir hingað og þangað og á ekki annað sameiginlegt en að hafa bókað ferðina hjá sama fyrirtæki. Og þótt mér liði eins og þau væru síldar í sendiferðabíl í gær eftir að hafa verið á helmingi of stórum bíl hina dagana voru þau farin að spjalla meira í gær en áður.
Og þá kveður maður, og næstum með söknuði.
Að láta það sem maður sér vísa sér veginn - sem fyrirsögnin vísar í - er nokkuð sem Birna Bjarnleifsdóttir lagði mikla áherslu á í Leiðsöguskóla Íslands og nú er ég að velta fyrir mér hvort ég taki það mögulega of alvarlega. Vissulega tala ég um óáþreifanlega hluti eins og menntakerfi, heilbrigðiskerfi, skatta, meðallaun, útflutning og atvinnuhorfur. En ég nota oft eitthvað úr umhverfinu til að koma mér af stað, t.d. veglegan jeppa sem í situr ein manneskja, krakka á engi á mögulegum skóladegi, Litla-Hraun til að segja frá glæpatíðni. Og jarðfræði og náttúrufar verða stundum fyrirferðarmikil.
Í gær gerði ég þau hlálegu mistök að segja frá jólasveinunum ÖÐRU SINNI. Ég notaði fjallasýn í Borgarfirðinum á mánudaginn sem hvata og í gær þegar áliðið var dags urðu þeir mér aftur hugleiknir í grennd við Búrfell! Ég hnýtti reyndar aftan við alls konar matarvenjum þegar ég áttaði mig á að ég hefði verið búin að segja uppistöðunni í þessum hópi söguna áður.
Ferðamennirnir okkar gera nefnilega þá eðlilegu kröfu að við séum afskaplega vel undirbúin, vel lesin og vel að okkur um allt milli heima og geima, líka í öðrum löndum, vel talandi á tungumálið og allt sem við segjum á samt helst að hljóma eins og við segjum að segja það í fyrsta sinn. Ég vil líka gera þá kröfu. Það er samt erfitt að standa undir henni þegar ágangurinn er svona mikill og þegar leiðsögumenn unna sér helst engrar hvíldar alla vertíðina. Eru þá ekki ferðamenn farnir að nálgast færibandið ískyggilega?
Ein mæt kona spurði mig í gær hvort ég segði öllum að Katla myndi gjósa í næstu viku. Nei, ég hef aldrei sagt neinum að Katla færi að gjósa hvað úr hverju, í síðustu viku var hins vegar gefin út viðvörun þannig að ég sagði þessum hópi að nú skyldu þau fylgjast með þegar þau kæmu heim, kannski myndi Katla - sem þau voru í grennd við - gjósa í næstu viku, ég sæi meira að segja á jarðskjálftavefnum að heilmiklar hræringar væru þar núna.
Það má ekki níðast svo á glaðsinna leiðsögumönnum að þeir fari að hljóma ótrúverðugir. Við megum aldrei eiga vondan dag.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 21. júlí 2007
Af bílstjóra
Ótrúlegt, ég lenti í því í fyrsta skipti í dag að keyra með útlendum bílstjóra. Hann er sænskur, heitir Tómas og keyrði vel. Ég hef ekki neitt upp á hann að klaga. Að mestu leyti gat ég að auki talað við hann á móðurmáli hans sjálfs því að mér finnst heldur leiðinlegra að tala við bílstjórann á máli sem farþegarnir skilja, svona þegar maður er eitthvað að skipuleggja eða þess háttar.
Ég er aldeilis fordekruð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 19. júlí 2007
Ekki verður á hann Stefán Helga Valsson logið
Nú er hann búinn að taka viðtal við Svanhvíti Axelsdóttur hjá samgönguráðuneytinu og spyrja hana út í erindi okkar um löggildingu starfsheitisins leiðsögumaður ferðamanna. Vegna ráðherraskiptanna liggur beiðnin í salti og verður orðin saltstorkin áður en ferðamálin flytjast yfir til iðnaðarráðherra um næstu áramót. Á meðan halda erlendir fararstjórar áfram að koma hingað og leiða samlanda sína um landið okkar, misvitrir eins og við hin en þakklátir fyrir að fá aur fyrir áhugamálið.
Ég talaði lengi við vinkonu mína í stéttinni í kvöld og hún hefur alloft lent í því upp á síðkastið að keyra með bílstjórum sem bera enga virðingu fyrir bílstjórastarfinu, tala í símann á ferð og senda sms. Af því að hún fer í lengri ferðir en ég hefur hún líka hitt fleiri bílstjóra sem eru útlenskir og tala hvorki íslensku né ensku. Útlenskir ferðamenn sem keyra hér um á bílaleigubílum kunna ekki að keyra í möl og lenda oftar en Íslendingar í vandræðum, útlenskir rútubílstjórar eru heldur ekki vanir malarvegum og þá er mikil hætta á ferð.
Vonandi verður þess laaaaaaaaaaangt að bíða að óvanir bílstjórar lendi í og/eða valdi slysum með aksturslagi sínu.
Þessi pilla á hvorki við um Kjartan né Pétur Gauta.
Ég bara skil ekki hvað bílstjórar sætta sig við smánarlegt kaup. Hangir eitthvað á spýtunni, fá þeir borgaða óunna yfirvinnu, ókeypis flug til Kuala Lumpur einu sinni á öld eða finnst þeim það á við laun að hanga stundum klukkutímum saman meðan hópar eru í löngum göngum til fjalla eða sitja einhvers staðar að sumbli? Getur einhver útskýrt fyrir mér af hverju góðir bílstjórar - því að ég þekki þá marga - tolla í áhættusamri vinnu fyrir 900 kr. á tímann?
Og Magnús Oddsson sagði fyrir viku að á næsta hálfa mánuði tæki ferðaþjónustan inn fjóra milljarða í veltu sína. Ekki verða bílstjórarnir feitir af því.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 19. júlí 2007
Söfn og ferðamenn
Í gær stóð ég frammi fyrir því sem margir leiðsögumenn þekkja, ég átti að agitera fyrir safni hvers aðgangseyrir var ekki innifalinn í verði ferðarinnar. Þar sem ferðin var tiltölulega stöðluð, þótt mér væri þar att á foraðið í fyrsta sinn fyrir þetta fyrirtæki, spurði ég bílstjórann minn, gæðamanninn Gumma, hvort það hefði tíðkast í sumar að fara inn á safnið. Hann sagði að það hefði ekki verið gert, ekki einu sinni keyrt að safninu, Skógasafni.
Ég tók því þann pólinn í hæðina að láta það ógert að reyna að selja 21 ólíkum einstaklingi byggðasafnið að Skógum fyrir 750 kr. á mann. Ég var auðvitað búin að tala við flesta í hópnum um heima og geima í stoppunum á tveimur dögum og fólk kvartar mikið yfir verðinu, helst á matvælum. Ég fór því auðveldu leiðina, stoppaði við Skógafoss, dvaldi lengi við fjöruna í Vík, drollaði í Dyrhólaey og fór upp að Sólheimajökli í staðinn fyrir að taka áhættuna á að þrír vildu fara inn - eða þrír vildu ekki fara inn.
Ég man vel eftir fyrstu skiptunum í Skógasafni meðan það var hrátt og fullt af Þórði Tómassyni. Það var mikil upplifun. Ég þekki Martinu sem er að vinna þar núna og kann vel við hana - en Skógasafnið er bara ekki þetta möst sem það var. Finnst mér.
Ég trúi ekki öðru en að margir leiðsögumenn hafi upplifað þessar þrengingar mínar vegna hinna ýmsu safna. Útlendingar sem eru búnir að eyða heilmiklu sparifé í sumarfrí á Íslandi eru komnir hingað til að sjá náttúruna, upplifa auðnina, mannfæðina - jökla, skógleysi, mögulegt eldgos, hrífandi fjallasýn, svarta fjöruna.
Ég er svolítið stúrin yfir úrræðaleysi mínu en ég get þó sagt það að miðað við hvernig Suðurströndin er skipulögð fer maður ekki í Skógasafn í dagsferð frá Reykjavík nema sleppa ýmsu öðru í staðinn. Við áttum að koma í bæinn kl. sjö en komum upp úr átta enda var veðrið til þess fallið að tefja för.
Væri ekki ráð að rukka ekki aðgangseyri á einstökum söfnum, heldur fela þennan 500-kall í einhverju gjaldi við komuna til landsins? Eða hafa seljanlega vöru á boðstólum sem minnir fólk á upplifunina í söfnunum? Friðrik Brekkan var með forvitnilegar hugmyndir í þessa veru í fyrirlestri sem ég hlustaði á hann flytja fyrir tveimur árum eða svo. Ég held að missir safna í aðgangseyri verði í raun mjög lítill og að þau muni miklu frekar ná að koma sér á kortið með því að selja ekki inn (kannski út ...). Það mun alltaf reynast okkur mörgum erfitt að selja öllum í hópnum hugmynd að safni - og þá þarf að finna eitthvað fyrir hina að gera.
Sammála?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 18. júlí 2007
Og enn er Katla ógosin
Við Sóli og Þorsteinn djöfluðumst á Mýrdalsjökli í dag (Sólheimajökli) og ég hélt að við yrðum að renna á brott í snarhasti með hópana okkar. En það var öðru nær, Katla blessunin lét ekki á sér kræla og lúrði bara á sínu eldfjallseyra.
Ég er annars búin að vera hugsi yfir öllum vegfarendunum sem maður hefur frétt af uppi á Heklu að undanförnu. Grínið er svolítið að ef það byrjar að gjósa þar sem maður er staddur megi maður ekki gleyma að taka mynd til að sanna viðveru sína.
En hvernig er raunverulegur viðbúnaður? Finnst okkur þetta áfram fyndið ef Hekla rifnar í sundur utan um 165 manns eins og örkuðu þarna upp á jónsmessunni?
Ég man eftir öryggisæfingu í Mýrdalnum fyrir ári, en ég var ekki á henni. Ætli þeir sem voru þar og þá muni hvernig þeir eigi að bregðast við ef eitthvað gerist á þeim slóðum? Hekla gefur ekki mikinn fyrirvara hefur manni alltaf skilist, hver er viðbúnaðurinn?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 17. júlí 2007
Dúndurpartí föstudaginn þrettánda
Og Mattinn var greinilega ekki kvaddur með trega, svo gaman var hjá okkur föstudaginn 13. júlí. Ég bið menn bara lengstra orða að fara ekki að halda að myndirnar séu af hjónafólki, allar paranir eru hér mjög vafasamar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 17. júlí 2007
Ég þurfti að stækka myndaplássið til að koma Ásgerðarseríunni að
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 16. júlí 2007
Bruni og bílslys fara framhjá mér
Ekki ætla ég að kvarta yfir því að bílslys sneiði hjá mér en mér fannst skrýtið að keyra nánast allan hringinn í kringum Norðurál í dag og sjá engin ummerki um brunann í gær, bruna sem átti að vera 100 metra í burtu frá álverinu og ná yfir 1 ferkílómetra svæði.
Ég keyrði yfir Borgarfjarðarbrúna skömmu áður en slys varð þar síðan í hádeginu - og mætti Einari Helga gangandi á brúnni. Maðurinn er ekki einu sinni fluttur til landsins en samt verður hann alls staðar á vegi mínum.
Og mikil dásemdarblíða er þetta, mig svimar af góðu veðri. En líka er ég orðin afskaplega lúin. Og leið á kaupinu, enda ætla ég núna bara að klára það sem ég er búin að lofa mér í, og lofa síðan sjálfri mér að vera frekar í fríi í fríinu mínu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 15. júlí 2007
Mattinn kært kvaddur
Ég á ekki (mörg) orð. Fyrst verð ég að segja að hér er New York flissið, Habbý, Laufey, Marín og Berglind, sem kveður Mattann eftir stutta sumardvöl:
Svo er hér Ásgerður sem er sjálfstæð sería:
... Nei, hún festist ekki í augnablikinu ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 14. júlí 2007
Ég er innlent vinnuafl
Seinni hluti júlímánaðar er toppurinn í ferðaþjónustunni og Magnús Oddsson ferðamálastjóri hefur hér réttilega orð á því að hluti af upplifun útlendinga í heimsókn til hvers lands sé að hitta og umgangast þarlenda. Þegar gestir fá sér skyr í morgunmatnum spyrja þeir kannski manneskjuna sem gengur um beina hvort þetta sé etið á heimilum líka og ef viðkomandi lenti bara hálfum mánuði á undan gestunum verður fátt um svör.
Hluti af þjónustunni við að afgreiða bækur um Ísland, keyra fólk á mili staða, leiðsegja í hvalaskoðun, bera fram lambakjöt og selja Kjörís er að geta svarað spurningum um lifnaðarhætti.
Hér er ekkert atvinnuleysi, ekki á höfuðborgarsvæðinu, en sinna allir þeim störfum sem þeir eru hæfastir til að gegna? Hefur ferðaþjónustan besta fólkinu á að skipa eða er það kannski búið að snúa baki við henni af því að hún er ekki samkeppnisfær í launum?
Þessir fjórir milljarðar sem Magnús Oddsson talar um að muni koma í þjóðarbúið næsta hálfa mánuðinn - hvar endar framlegðin af þeim?
![]() |
Fjórir milljarðar á 14 dögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 14. júlí 2007
Smásöluverð hækkar líka í Bandaríkjunum
Þegar ég var í New York í fyrra keypti ég undurgott kaffi, drakk sumt þar og tók sumt með mér heim. Bandaríkjamenn hafa þennan sið að verðmerkja vörurnar þannig að ég veit og man að 340 grömm af hnetukaffinu kostuðu 5,49 dollara. Sendingin sem mér barst í gær er hins vegar komin upp í 5,99 dollara.
Eru ekki rúm 8% óeðlilega mikil hækkun? Það er greinilegt að það hefur ekkert verið tekið til í virðisauka þarlendra nýlega ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 12. júlí 2007
Lögmálið um framboð og eftirspurn
Í gær lagði Blaðið á forsíðu út af því að samspil milli framboðs og eftirspurnar væri ekkert, þ.e. ógrynni notaðra bíla hefði ekki áhrif á verð þeirra. Það er rangt, það fullyrði ég og ég ætla bráðum að sanna það og kaupa mér bíl til að friða ýmsa í nærumhverfi mínu.
Í fréttum RÚV í kvöld var frétt um ímyndaða tvo ferðamenn sem ætluðu hringinn á Íslandi á bílaleigubíl. Þar var gert ráð fyrir lögmáli framboðs og eftirspurnar. Reyndar var ekki farið út í að tíunda verð á gistingu yfir vetrarmánuðina og sums staðar er gistingin ekki í boði nema um háönnina. Tveggja manna herbergi með baði og morgunverði kostaði 13-20 þúsund kr. Þetta gera gististaðir, flugfélög, afþreyingarfyrirtæki, veitingastaðir - af því að þau nýta sér lögmálið um framboð og eftirspurn - þau hækka verð á þjónustu þegar eftirspurnin eftir henni er mest. Þjónusta er takmörkuð gæði og í takmörkuðum mæli. Ef leiðsögumenn ætla að gera þetta (og bílstjórar) er þakkað pent fyrir og svo kafar ferðaþjónninn eftir systursyni eða föðursystur sem finnst spennandi að fara hringinn án þess að þurfa að borga fyrir það! Nema náttúrlega sætta fleiri en færri leiðsögumenn sig við smánarlaun.
Ég vildi gjarnan að einhver hrekti þetta með rökum.
Miðað við lausamennskuna ætti tímakaup að vera ekki undir 4.000 kr. í verktöku. Góðvinur minn leigði frá sér hljóðkerfi nýlega og rukkaði 50.000 kr. á tímann. Reikningurinn var ógagnsær. Auðséð að fjárfesting í hljóðkerfi er miklu verðmætari en í menntun og þekkingu. Framboð og eftirspurn ...?
Í næstu viku er ég að fara nokkrar dagsferðir fyrir fyrirtæki sem ég hef ekki unnið fyrir áður. Út af leiðarlýsingum, nafnalistum og geiðslubeiðnum þarf ég að mæta á staðinn og sækja gögnin ásamt því að fá frekari skýringar. Vegna annarrar vinnu hef ég átt erfitt með að finna tíma í vikunni til að mæta á staðinn og sækja gögnin - og ferðaþjónustufyrirtækið er frekar pirrað yfir að ég geti ekki komið þegar því hentar - kauplaust.
Eiga leiðsögumenn að taka heilan frídag frá leiðsögn til að mæta kauplaust á einhverja skrifstofu til að fá upplýsingar og gögn? Er eðlilegt að við eigum alltaf að hringja til baka úr gsm-símunum okkar og fá ekki borgað fyrir það?
Það auðvelda fyrir mig væri auðvitað að hætta í leiðsögn, en ég man eftir fjöldamörgum blaðagreinum föður blaðburðarbarns sem barðist fyrir bættum kjörum blaðburðarbarna. Mér finnst það miklu merkilegri aðferð en að láta sig hverfa þegjandi og hljóðalaust.
Áatökin eru kannski smávægileg en ég tek bara eitt skref í einu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 11. júlí 2007
Offramboð notaðra bíla veldur ekki verðlækkun, segir Blaðið í dag
Á forsíðu Blaðsins er snilldarfrétt um að breiðurnar af notuðum bílum þýði ekki að verð á þeim lækki. Með leyfi, hver segir? Bílasali í Reykjavík og viðmælandi Blaðsins. Ég gef lítið fyrir þær heimildir.
Í gær frétti ég einmitt af ljómandi góðum og vel nothæfum bíl sem seldist ekki á bílasölu. Gangverðið var 390 þúsund en ásett verð 120 þúsund. Þegar eigandinn ætlaði, átta mánuðum eftir að hann hafði skráð hann á bílasöluna, að keyra hann í Sorpu og hirða 15 þúsund kallinn sinn varð á vegi hans góð kona sem leysti bílinn til sín fyrir 20 þúsund. Og halda menn að þetta sé einsdæmi?
Svona sögur segja mér miklu meira en forsíðufrétt Blaðsins í dag. Hagsmunaaðilar vilja hafa hlutina öðruvísi en þeir raunverulega eru og kjafta hluti upp og niður þegar þeir sjá sér færi á því.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 10. júlí 2007
Af hverju er enginn fiskmarkaður í Reykjavík?
Í tvo daga hef ég unnið á ráðstefnu um hagfræði fiskifræðinnar. Finnsk stúlka sá eitthvað um ráðstefnuna í fjölmiðlum í gær og lagði leið sína á ráðstefnustað til að spyrja hvers vegna ekki væri fiskmarkaður í Reykjavík eins og hún þekkti frá Helsinki. Hún sagðist hafa bara gengið út frá því þegar hún kom að hægt væri að fara niður á bryggju og kaupa nýveiddan fisk á markaði.
Mig setti örlítið hljóða (enda er ég ekki ráðstefnugestur og alls enginn hagfræðingur). Svo sagðist ég halda að það væri kannski vegna veðurs - sem er þó ekki sérlega sannfærandi því að í öðrum norrænum löndum eru fiskmarkaðir - og gott ef ekki var markaður í Hafnarfirði í gamla daga.
Ég bar þetta undir viðstadda hagfræðinga þegar ég náði í þá og þeir höfðu líka orð á veðrinu. Svo er náttúrlega markaðurinn ekki stór enda stutt síðan við urðum tiltölulega þéttbýl. Þá má ekki gleyma fiskbúðunum sem nú eru meira og minna komnar inn í Nóatún og Hagkaup. Og Fiskisaga er með réttina.
Spilar kannski óstöðugt veðrið stóra rullu?
Ég fann mynd af japönskum markaði og hann er undir þaki. Af hverju getum við ekki keypt spriklandi fisk á markaði? Og þá er ég ekki að tala um að elda og éta lifandi fisk eins og ég sá í fréttum í gærkvöldi. Ég er ekki mikil tilfinningavera en sú frétt var bara af meiðandi atburði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 9. júlí 2007
Þjónustuleysi strætó
Ég fer flestra minna ferða gangandi eða hjólandi en myndi vilja eiga val um strætó. Í dag talaði ég við Þjóðverja sem sagði farir sínar ekki sléttar. Hún gistir á Cabin í Borgartúninu og ætlaði í morgun að fá far með strætó þaðan og út í Öskju á háskólasvæðinu. Strætó kom ekki á uppgefnum tíma. Í gær reyndi hún líka að taka strætó á allt öðrum tíma. Gekk ekki heldur.
Í gær fór hún fótgangandi og í morgun tók hún leigubíl. Hún virðist ágætlega gefin og er vön strætóum heiman frá sér - en þetta gekk bara ekki.
Er þetta þjónustan sem Strætó bs./hf./ehf./fj. ætlar að bjóða notendum upp á, að ekki sé hægt að taka strætó milli hverfa í eitt eða fá skipti? Er ætlast til þess að menn skipuleggi strætóferðir sínar fyrir heilt ár og helst að heiman?
Ég vildi að ég væri áhugasamari um að kynna mér leiðirnar og tímasetningarnar en það þarf mikinn áhuga til að setja sig inn í þetta.
Ég bíð spennt eftir nafngiftum strætóstoppistöðvanna og nýjum leiðabókum. Þá kannski verður þetta raunhæft val.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 8. júlí 2007
Reykjavíkurbréfið um ferðaþjónustuna
Höfundi Reykjavíkurbréfsins í dag finnst ástæða til að gera ferðaþjónustunni hærra undir höfði, ekki síst með því að bæta samgöngur. Því miður hef ég ekki aðgang að Mogganum á netinu því að ég er ekki áskrifandi þannig að ég las hann á pappír.
Höfundurinn gerir m.a. Gjábakkaveg og veginn að Dettifossi að umtalsefni og svei mér ef þetta eru ekki aðalflöskuhálsarnir. Það er óttalega krúttlegt í nokkrar mínútur að hossast á þessum þvottabrettum en til lengri tíma er þetta einfaldlega fyrir neðan allar hellur. Af hverju er ekki búið að laga þessa vegi sem öllum hlýtur þó að bera saman um að ekki sé vanþörf á?
Komi Reykjavíkurbréfið fagnandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 7. júlí 2007
Ég stökk út í Hvítá
Og saup svolítið af henni, skammaðist mín helling fyrir að láta mig svo bara fljóta eins og einhvern pramma en skánaði svolítið í sjálfsálitinu þegar mér var sagt að engin önnur kona í hópnum hefði stokkið (hinar voru reyndar allar útlenskar).
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 4. júlí 2007
Flugvöllurinn á Ísafirði leikvöllur fyrir jaðarsport?
Há fjöll og djúpir dalir henta engan veginn fyrir þunga flugumferð þannig að spakir menn í nærumhverfi mínu komust að þeirri niðurstöðu í dag að flugvöllurinn á Ísafirði væri þénugur fyrir jaðarsport eingöngu. Þingeyri væri hins vegar nógu víð til að geta tekið við millilandaflugvélum.
Og þá finnst mér gaman. Ég er nefnilega hlynnt millilandaflugi í alla landsfjórðunga. Ég vil millilandaflugvöll á Þingeyri, Akureyri og Egilsstaði. Þá er hægt að flytja inn og út beint úr fjórðungunum, bæði vörur og fólk. Þá hættir suðvesturhornið að vera miðstöð allrar ferðaþjónustu og fleiri ferðamenn eru líklegir til að fara um önnur svæði. Vestfirðirnir eru t.d. vannýtt auðlind.
Fjölgun millilandaflugvalla væri forvitnileg stefnumótun í ferðaþjónustu sem og inn- og útflutningi. Sammála?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Miðvikudagur, 4. júlí 2007
Í Elliðaárdalnum með hatursmanni Moggabloggsins
Ég held að hatrið á Moggablogginu sé allt í nösunum á Stefáni Pálssyni sem fór fyrir 100 manna hópi áhugasamra um Elliðaárdalinn á vegum Orkuveitu Reykjavíkur í gærkvöldi. Hvorki Moggann né blogg bar á góma.
Hins vegar sagði hann okkur frá upphafi rafveitunnar 1921 og leyfði okkur að fara inn í stöðvarhúsið, honum dvaldist lengi við asbestómyndina og gladdi okkur, a.m.k. mig, með þeim fréttum að til stæði að rífa Toppstöðina í haust, hann þyrði þó ekki að lofa því fyrr en hann tæki á því. Við litum yfir gróðurmengunina og þá hló ég mest því að ég hef verið óþreytandi við að segja ferðamönnum mínum frá trjám, kostum þeirra hér og þó meira kostum trjáleysis. Tré skyggja á landslagið ... Kristinn garðyrkjustjóri, einnig frá OR, sem fylgdi hópnum með myndavél tók öllum ákúrunum með jafnaðargeði enda veit hann, eins og fleiri, að Stefán Pálsson er grínaktugur maður.
Við stoppuðum ekki við Skötufoss sem er vettvangur glæps enda varð Stefáni að orði í næsta stoppi (erfitt að liðast um dalinn með svona stóran hala, fyrir vikið erfitt að stoppa eins oft og ella) að það morð væri fyrir löngu um garð gengið og morðinginn hefði fundist.
Ég ætla ekki að tíunda fleira úr þessari miklu gleðigöngu en þótt ég hefði heyrt flest áður brosti ég samt hringinn í blíðskaparveðrinu.
Kristinn garðyrkjustjóri taldi um 100 manns og hér smellti ég einni mynd þegar við fórum út úr rafstöðinni sjálfri. Þar inni eru gljáfægðar túrbínur því að þær eru ekki í gangi frá 1. maí og til septemberloka ef ég man rétt. Þess vegna vinna sumarstarfsmenn við að fægja gripina ...
Þær heimtuðu að ég tæki mynd af þeim sérstaklega!
Stefán dró ekki af sér í frásögnunum. Hér stendur hann uppi á Árbæjarstíflunni og lætur móðan mása um ... hana. Ef einhvern vantar hugmynd að afmælisgjöf handa mér gæti ég vel hugsað mér að eignast svona taldós. Svo má hugsa sér gps og nýja gönguskó.
Kristinn garðyrkjustjóri mundar myndavélina og skömmu síðar sagði hann okkur að næsta þriðjudag yrði plöntuganga um dalinn í boði OR.
Lagnir hafa verið svona og svona fóðraðar í gegnum tíðina. Sumar hafa brostið og í þessu litla gili varð stórkostlegt hamfaraflóð fyrir tæpum 10 árum sem varði í eina fjóra klukkutíma. Mesti skaðinn varð í strætó sem keyrði undir brúna á þeim tíma og vatn flæddi inn í. Annað sem er athyglisvert er að sárið var látið eiga sig í tilraunaskyni til að sjá hvað gróðurinn yrði lengi að taka við sér. Öllum að óvörum hefur hann verið langtum duglegri en menn reiknuðu með. Nú er þetta sjálfsáið sár og stefnir í mikinn vöxt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)