Wir machen uns, wir machen uns, wir machen uns Bestes

Ég hef alveg getað tapað mér yfir handbolta, gólað af æsingi, stokkið upp í rjáfur og hvatt Óla, Einar, Fúsa, Guðmund Hrafnkels og Þorgils Óttar. Það kemur bara ekki af sjálfu sér, ég þarf að ákveða það. Ég er því líklega ekki sannur þjóðernissinni. Ég hef samt lúmskt gaman af handbolta, ólíkt fótbolta.

Einhvern veginn finnst mér að í einhverjum hafi vottað fyrir gorgeir og yfirlæti eftir að við unnum Frakkaleikinn í gær, ekki leikmönnum, eða ég heyri a.m.k. ekkert í þeim, heldur áhorfendum. Og getur ekki verið að einhver hafi látið að því liggja að í Túnis-liðinu væru einhverjir óspilandi strumpar?

Og nú er leikurinn við þá í gangi og Túnis er yfir. Bömmer, kannski verða strákarnir okkar sendir heim fyrr en við viljum fá þá heim.

Ég get bara ekki að mér gert að rifja upp leik Íslendinga við Suður-Kóreu 1986 (það var einmitt þegar Þorgils Óttar Mathiesen og Kristján Arason heilluðu okkur öll) og það var bara formsatriði að spila við þessa stubba. Og svo töpuðum við.

Ég þori ekki að segja að ég hafi hlegið. Og allra síst myndi ég segja eitthvað eins og: Sagði ég ekki?

Flugleiða-auglýsingin um handboltann er samt góð, a.m.k. fram að hléi.

Skjótt skipast veður í lofti, ég er ekki fyrr búin að segja að Túnis sé yfir en Ísland jafnar, hmmm. 17 mínútur eftir.


Danska upplýsingastofan um þjóðarmorð ...

Hver kippist ekki við af spenningi? Hehhe, nú er ég langt komin með Undatekninguna eftir Christian Jungersen (tæpar 600 blaðsíður) sem gerist meðal starfsmanna umræddrar upplýsingastofu. Ég veit varla hvort hún er venjulegt melódrama (ástir og örlög) eða spennusaga (er fólk myrt eða deyr það bara við að hrynja niður olíuborinn stiga?), kannski sagnfræði (langar greinar um hvernig heilu þjóðabrotin voru leidd til slátrunar). Samt hallast ég helst að því að hún sé um togstreitu á vinnustöðum, sálfræðileg viðbrögð, að gera samstarfsfólki sínu upp sakir og nánast glæpsamlegt athæfi. Hún er á köflum alveg hroðalega langdregin en samt er þarna einhver spennugulrót og nú, þegar ég á eftir um 150 blaðsíður, er ég orðin mjög spennt að vita HVER SENDI TÖLVUPÓSTANA MEÐ HÓTUNUNUM.

Af tillitssemi við Habbý ætla ég ekki að spjalla um þýðinguna.

Svo vona ég að Viggó frétti að næst hlýt ég að lesa Nafn rósarinnar - svo að ég geti einhvern tímann skilað honum eintakinu sem hann lánaði mér. Eftir þessa bók er ég komin í góða æfingu við að lesa doðranta.


Tvískinnungurinn í manni

Ég fékk auðkennislykilinn sendan heim í gær og sem ég sat við að skrá hann inn í gærkvöldi var spiluð í sjónvarpinu auglýsingin með Björgvini Halldórssyni. Ég hló massamikið. Ég held nefnilega að Björgvin hafi ekki verið að leika ... en reyndar hef ég enga ástæðu til að leggja fæð á hann. Ég held samt að hann sé svolítið góður með sig.

Hins vegar láðist mér að gá að því í hvers nafni auglýsingin var. Hver borgar þá? Og ætti ég ekki að verða reið eins og út í Kaupþing um áramótin?

Er maður fullur af tvískinnungi? Ekki svara (svarið er of augljóst)!


Aldrei er ég spurð um pólitík í símann

Ég meina þá að aldrei hringir Gallup og biður mig að setja saman ríkisstjórn. Ég get sjálfri mér um kennt, ég veit það.

Ég man ekki í hvaða röð það gerðist en eitthvert árið fékk ég yfir mig nóg af heimsendum happdrættismiðum sem ég vildi ekki borga. Þá hakaði ég í bannreit hjá Hagstofunni. Eitthvert árið fékk ég líka nóg af skoðanakönnunum í síma og lét bannmerkja símanúmerið. Fyrir vikið fæ ég heldur aldrei að svara forvitnilegum spurningum.

Ég man gjörla eftir einni laaaaaaaaaaaangri upphringingu frá skoðanakannanafyrirtæki um árið. Ég var spurð áreiðanlega 40 spurninga um tónlist. Og ég er illa að mér í tónlist, því miður. Mjög illa myndu sumir segja. Og enginn hefur tekist það á hendur að mennta mig í tónlist (ég öfunda enn bróður minn sem tók áfanga í Bandaríkjunum einu sinni í „Music Appreciation“). Það er ekki að orðlengja það að ég gat engri spurningu svarað! Það þýðir að ég varð í hvert skipti að segja: Ég kannast ekki við lagið (ég var auðvitað spurð um titla, lögin voru ekki spiluð). Einu sinni laug ég og sagði: Ég kannast aðeins við titilinn en ég veit ekkert hver leikur lagið.

Um það leyti tók ég ákvörðun um að bannmerkja símanúmerið.

Og fæ aldrei að taka þátt í að mynda ríkisstjórn.


Bíllinn minn er til sölu

Ég er hroðalegur sölumaður því að ég ætla að segja þetta: Ég keypti í fyrrasumar vel útlítandi lítið keyrðan Renault. Mig vantaði - eiginlega ekki - bíl en áróðurinn í kringum mann er svo harður að það endaði með að ég keypti þennan dökkgræna Renault 1996 sem aðeins einn hafði átt á undan mér. Af því að þessi eini fyrri eigandi er þekktur sökkaði ég svolítið fyrir bílnum - og svo var hann bara keyrður 48.000 km á 10 árum. Ég sá fram á að geta átt mörg náðug ár með þennan bíl í hlaðinu eins og ég hafði átt með Nissan Sunny 1986-módel á árabilinu 1998-2006. Þá var þeim loks bara öllum lokið og ekkert átakanlega mikill harmdauði. Svoleiðis.

Þessi *nýi* er nógu lipur í akstri, rúmgóður og áferðarsnotur en hann er útbúinn með ræsivörn sem gerir það að verkum að maður má bara opna bílinn sjálfan með því að strjúka plastið á bíllyklinum. Ég er að mestu búin að læra að fara mjúklega að honum þótt stundum líti ég svolítið kjánalega út þegar ég stend við bílinn og nudda lykilinn í stað þess að opna með því að stinga lyklinum í skrána. En í dag lánaði ég bílinn með margháttuðum útskýringum. Þær dugðu þó ekki til og Marín - sem hélt að ég væri að gera sér greiða - varð að skilja bílinn þjófavarinn eftir í Hafnarfirði og taka leigubíl til Reykjavíkur.

Þvílíkur bjarnargreiði.

En annars er ég ekkert í alvöru að reyna að selja bílinn, ég er bara að kvarta fyrir sem flestra augum. Skæl.

 


Er ekki ábyggilegt að ríkissjóður geti sótt um styrk í velgerðarsjóðinn?

Mér dettur t.d. í hug slysið hroðalega sem varð á Suðurlandsvegi í haust þegar lítil stúlka dó og bróðir hennar slasaðist alvarlega. Foreldrarnir lifa nú við það að þurfa að standa sig hans vegna og hafa áreiðanlega misst mikið úr vinnu. Geisladiskur hefur verið útbúinn og er m.a. boðinn til sölu í afgreiðslu Laugardalslaugarinnar á 1.500 kr. Ætli Ólafur og Ingibjörg yrðu ekki fljótari að reiða fram eins og fimm milljónir en sundgestir að mjatla þær fram?

Myndu ekki fimm milljónir gera gæfumuninn, og það í snatri? Úr því að ríkinu finnst ekki standa upp á sig að styðja fórnarlömb umferðarslysa gæti það kannski samt sent sjóðnum umsókn fyrir hönd foreldranna. Er þetta verkefni óverðugra en þau sem meiningin er að styrkja í Síerra Leóne? Eða að borga undir flygil Eltons Johns?


mbl.is Gefa einn milljarð króna í velgerðarsjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Swine Valley

Og ekki orð um hann meir.

...

Eða jú, ég mæli með að allir sem vettlingi geta valdið fleygi frá sér öllum meintum skyldustörfum um stund og stormi út úr bænum með 6-8 góðvinum sínum úr menntaskóla til einnar nætur dvalar. Það er hægt að borða lítilræði eins og skinkuböku, chili con carne með guacamole og sýrðum rjóma á eftir ostasalati og kexi, skola niður með stífluðu heitu vatni úr pottinum, stinga í munninn bláberja......... og Neuhaus með hátíðarkaffi á eftir og læra svo magadans þangað til maður sofnar.

Vakna næsta morgun og stöffa sig með beikoni og eggi, hjala meir eins og maður gerir til upprifjunar á þeim árum sem liðin eru frá menntaskólaútskrift, hugsa gott til glóðarinnar að í hópnum skuli vera tvær hjúkkur og einn geislafræðingur ef heilsan bilar í 100 km fjarlægð frá Reykjavík, taka sig upp og millilenda í Mosfellsbænum til að sækja rafmagnslausan bílinn sinn. Kjörið tækifæri fyrir aðra að læra á húddið á bílnum sínum - allt leggur maður á sig - og eiga síðan bæði minningar um menntaskólaárin og útstáelsið þótt helgin sé bara hálfnuð.

Verst að vera send með gráðostasósu sem tók fjóra tíma að búa til úr gráðosti og matargerðarlist og -lyst og finna henni ekki pláss á matseðlinum. Sakar þó ekki að eiga hana eftirleiðis í frysti (meðan hann verður ekki rafmagnslaus aftur) því að hún kvað ganga með öllu.

Einhvern veginn grunar mig að Árdís, Berglind, Ella, Inga, Kristín, Rannveig og Sólveig - að ógleymdri Shakiru - eigi eftir að hleypa þessum heimdraga aftur síðar. Þá má líka mikið vera ef Erla og Rut reyna ekki að slást þá í hópinn. En stóridómur er ekki fallinn, tengdafjölskylda Kristínar á eftir að koma að bústaðnum í þeirri mynd sem við skildum hann eftir í ...


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Krumpa (les: grmpf)

Orkuveitan tók rafmagnið af húsinu í gær vegna meintra vanskila án þess að skilja eftir viðvörun fyrir innan lúguna. Þar sem ég er ekki greiðandi var einhvers konar vísbending send eiganda húsnæðisins, en í skötulíki.

Þannig upplifi ég þetta alltént þegar ég ber ísinn minn, folaldakjötið og djúpsjávarrækjurnar í tunnuna.

Til að allrar sanngirni sé gætt voru svör allra þriggja starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur sem ég talaði við út af málinu hin liprustu.

Ég er samt svolítið grumpin.


Damóklesarsverð

Þetta er orðið sem ég bætti í virka orðaforðann minn í gær meðan ég hlustaði á Gettu betur. Það merkir yfirvofandi bráða hættu og vísar í sögu um sverð sem hékk í hestshári yfir höfði Damóklesar meðan hann naut kræsinga við hirð Díonísíosar á Sikiley á 4. öld fyrir Krist.

Vísindavefurinn útlistar það betur og getur ítarlegri heimilda.

Að auki lagði ég á minnið að Moskva er mannflesta borg Evrópu. Hefðir þú ekki giskað á London?


RÚV sf. - hf. - ohf. - ú.ú.k.

Út úr kú.

Já nei nei, nú jaðrar við að mér finnist nóg að gert. Samt vita menn að ég er húkkt á Rás tvö, ekki síst núna meðan Gettu betur er í algleymingi. Og vil endilega að öllum réttindum Sigmars spyrils verði haldið til haga. Það má eigi að síður engu muna að mér fyndist allt í lagi að binda slaufu á málið, hmmm.

Ruglið í mér, slaufan er hnútur og það er verið að reyna að höggva á hann.

Það má samt ekki skilja þetta sem gagnrýni á þingmenn.

Í kvöld ætla ég svo að reyna að læra eitt nýtt orð af Davíð Þór, dómara Gettu betur.


Landspítali - háskólasjúkrahús??

Já, þetta er náttúrlega fyndið nafn. Laugavegur - þvottastígur? Straumur - burðarás? Kaupþing - búnaðarbanki? Halldór - davíð? Háskólinn í Reykjavík - skólastofnun í Reykjanesbæ?

Nei, hva, bara að grínast.


Detti mér allar dauðar lýs ...

Þá er varla neitt annað eftir en að innrétta nokkra gáma til viðbótar og svo muna eftir að skrá starfskraftinn. Gissur Pétursson hjá Vinnumálastofnun hafði í haust einhver orð um að þar væri pottur brotinn, á að giska 2.400 manns án skráningar og án trygginga.

Það er reyndar frekar rökrétt að ungt og ævintýragjarnt fólk hleypi heimdraganum og veðji á Ísland.

Annars er ég bara hissust á að minn elskulegi bróðir hafi ekki sent mér fréttina í frímerktu umslagi. Við leggjum metnað okkar í að vera ósammála varðandi móttökuskilyrði útlendinga á þeirri herrans 21. öld.

Getur verið að munaður einhverra felist í að vinna bara frá átta til miðnættis ...?

Es. Æ, ég gleymdi að rifja upp að einhvern tímann í desember var á mbl.is frétt um að skatttekjur ríkissjóðs af útlendingum hefðu losað 6 milljarða og sú frétt fékk einhvern veginn enga umræðu. Og nú finn ég hana ekki.


mbl.is Útlent vinnuafl hefur haldið aftur af þenslu og verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er munaður?

Hmmmm, það er að hafa tíma fyrir sjálfan sig, fá að læra það sem hugurinn stendur til, vinna vinnu við hæfi, umgangast skemmtilegt og/eða forvitnilegt fólk, vera í hita - og ýmislegt fleira sem ég hirði ekki um að tíunda.

Eða jú, það er munaður að fá að blogga og hlusta á meðan á MH og Borgarholtsskóla keppa á Rás 2. Verst að bæði liðin komast ekki áfram. Annars er ég laumuaðdáandi Borgarholtsskóla af því að hann er svo mikill spútnik til nokkurra ára.

Hmmm, hvað er þá andstæðan við munað? Um það bil fátækt á alla kanta. Myndi ég segja.

Nema mitt munaðarleysi er helv. kuldinn.

 


Ég man þá Ármann og Sverri Jakobssyni

Þeir eru því miður hættir að keppa í Gettu betur - eitt sinn verður hver að útskrifast úr menntó - en keppnin heldur áfram. Davíð Þór semjandi spurninga og dómari í keppninni rausnast til að birta mér liðin sem keppa í kvöld.

Ég ætla áfram að halda með MS - ótrúlegt er trygglyndi mitt.


Alltof margar sjónvarpsstöðvar í boði

Það er svolítið sárt að verða vitni að eigin orðum eftir bara eina viku af magnáskrift að sjónvarpsrásum. En reyndar snýst þetta ekki um eigið áhorf, heldur það að vegna fjölda stöðva byrjar aldrei neinn kaffitími lengur á: Sástu Dallas í gær?

Ég sakna ekki Dallass og myndi ekki horfa á þann þátt í dag. En ekki einu sinni Dorrit í Kastljósinu var rædd af neinu viti í kringum mig í dag - og þaðan af síður hinn forvitnilegi Morgan Spurlock. Menn hljóta að muna þegar hann sagði McDonalds stríð á hendur fyrir rúmum tveimur árum í myndinni Super Size Me (Þríhæða ég??). Ég sá reyndar aldrei myndina, búhú, en núna er Skjár einn búinn að sýna tvo þætti Morgans sem heita Mánuður (30 Days). Í hverjum þætti (fleiri væntanlegir) tekur hann sér eitthvað forvitnilegt fyrir hendur í mánuð. Fyrir viku reyndu hann og kærastan hans að lifa af lágmarkslaunum í Bandaríkjunum í einn mánuð. Þau gátu það ekki, söfnuðu skuldum, ekki síst vegna krankleika sem söfnuðust að þeim í láglaunastörfunum. Það eina sem ég sá eða heyrði um þann þátt var á bloggi Guðmundar Steingrímssonar.

Í gærkvöldi var sýndur þáttur Morgans um 34 ára gamlan mann sem vildi endurheimta æskuna! Sá er fjölskyldumaður með þungt heimili og leit svo til að hann hefði ekki tíma til að rækta heilsu sína og velferð með útivist eða hreyfingu og ákvað að slá til og þiggja hormónasprautur í mánuð til að verða slank og orkumikill á ný. Það er ekki að orðlengja það að eftir þrjár vikur hætti hann á kúrnum vegna mikilla aukaverkana. Meðfram þessu sýndi Morgan fram á það að lyfjamarkaðurinn í Bandaríkjunum veltir milljörðum á þessari tálsýn fólks. Hann minnir auðvitað ansi mikið á Michael Moore.

Nú er ég spennt að vita hvað Morgan tekur fyrir næsta sunnudagskvöld kl. 22:30.


Nú er mörsugur

Þorrinn byrjar á föstudag - en hver eru hin fornu mánaðaheitin? Svörin má finna hér en maður þarf að hafa svolítið fyrir.

Euro teuro

Það kalla Þjóðverjar evruna af því að með tilkomu hennar hækkaði allt verðlag hjá þeim. Það lét nærri að tvö mörk jafngiltu einni evru þegar hún var innleidd og í stað þess að vara sem áður kostaði tvö mörk færi að kosta eina evru sáu ýmsir kaupmenn sér leik á borði og hækkuðu vöruna um næstum 100%.

Og komust upp með það. Þó kalla nú Þjóðverjar ekki allt ömmu sína þegar kemur að fjármálum.


Launamál á leikskólum

Enn berast fregnir af því að ekki takist að manna leikskólana. Það hlýtur að stafa af atvinnuframboðinu í höfuðborginni. Og hvar er meira spennandi vinnu að hafa fyrir þá sem ekki hafa menntað sig til ákveðinna starfa?

Á matsölustöðum, í stórmörkuðum, í sjoppum - vegna þess að þar er betur borgað. Ótrúlegt. Halda menn að obbinn af fólki vilji frekar steikja kjúklinga en að kenna börnum gildi útivistar og hollrar fæðu í þemaleikjum? Ég held ekki. Ég held að veitingabransinn borgi einfaldlega betur.

Meðan Steinunn Valdís var borgarstjóri steig hún eftirminnilegt skref í átt til bötnunar. En eitt skref áfram má sín lítils þegar aðrir þramma til baka.

Á menntaskólaárunum vildi ég komast í öskuna í sumarvinnu af því að hún var svo vel borguð. Það var ekki fræðilegur möguleiki, einhver hefði þurft að redda mér vinnunni. Man einhver eftir því að hafa heyrt talað um erfiðleika við að manna öskuna? Ekki ég. Halda menn þá að eðli vinnunnar sé svo gefandi?

Ef störf í, segjum, umönnunargeiranum væru launuð til jafns við ... ég get varla sagt þetta ... jafn verðmæt eða minna verðmæt störf væru foreldrar ekki sendir heim með börnin sín vegna manneklu.

Þorgerður Katrín skrifaði undir samning við HÍ í vikunni. Ég er hlynnt því að Háskóli Íslands sem sinnir langtum fleiri greinum en hinir háskólarnir fái LOKSINS eitthvert forskot á hina háskólana - en gleymum ekki að leikskólinn er fyrsta skólastigið og það þarf að hlúa að því og nemendum þess.


Holtaverðurheiði???????

Æ. Ég læt máli mínu lokið. En maður fylgist með fréttum af veðri og færð um heiðar landsins.
mbl.is Slæm færð víða um land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Holdafar fólks (ekki nauta)

*geisp*, ég veit, mér finnst það líka yfirgengilega óspennandi umfjöllunarefni. Ég meina, fólk þyngist og léttist, borðar betur eða verr, hreyfir sig meira eða minna - og um það er ekkert meira að segja. Ha?

Og allt í einu rann upp fyrir mér það ljós að karlar eru uppteknari af holdafari og útliti, a.m.k. í kringum mig. Ég held að það sé ranghugmynd margra að konur séu niðursokknari í kíló. Hugsa sér ef ímyndarfræðingarnir kæmust að þessu og teygjustöðvarnar færu að auglýsa í Frjálsri verslun ...

Mér líður eins og ég sé á hálum ís hérna ... og ráði ekki ferðinni, hahha.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband