Öfund út í auðmenn

Nú er Silfur Egils í endurflutningi í sjónvarpinu mínu. Jón G. Hauksson vænir okkur um að öfundast út í auðmenn þegar þeir auðgast en vorkenna þeim ekki þegar þeir tapa.

Þetta er misskilningur. Þegar menn auðgast miklu meira en venjulegir launþegar breikkar bil. Þeir sem verða mjög ríkir hafa efni á meiru og missa kannski skilninginn á verðgildi venjulegra hluta. Þegar þeir hafa efni á að kaupa hús fyrir 100 milljónir, rífa það allt og byggja nýtt fyrir 200 milljónir er hætt við að hinir í götunni vilji líka gera góða sölu. Og ég fullyrði að þetta hefur átt þátt í að hnika verði fasteigna upp á við. En ég er ekki greiningardeild banka.

Þegar menn vita ekki aura sinna tal er ekki hvati til að fara vel með fé, a.m.k. ekki sitt eigið.

Ég öfunda hvorki Hannes, Jón né Björgólf. Ég óska þeim bara góðs en ég sé enga ástæðu til að vorkenna þeim þótt þeir tapi kannski í einu vetfangi 30% af gróða eins árs. Og segi mér þeir sem vit hafa á: Er það ekki vegna þess að þeir taka áhættu? Og er það ekki einmitt áhættan sem stundum færir þeim skjótfenginn gróða?


Nú styttist í ráðningu nýs ferðamálastjóra

Að vonum er ég spennt að vita hver af 50 umsækjendum um starf ferðamálastjóra fær hnossið. Samkvæmt fréttatilkynningunni verður ráðið í starfið á þriðjudaginn. Ég hefði vitaskuld viljað sjá Marín vinkonu mína, menningar- og ferðamálafulltrúa Hafnarfjarðar, meðal umsækjenda - en hún sótti því miður ekki um. Magnús Oddsson

Ég er það sem ég kýs að kalla hobbíleiðsögumaður og mjög spennt að vita hver leysir Magnús Oddsson af hólmi. Sumarið 2006 var ég í miklum hugleiðingum um framtíð stéttarinnar: 

 

Það sem veldur mér ugg núna er að Magnús Oddsson ferðamálastjóri trúir því, a.m.k. á opinberum vettvangi, að ferðamönnum á Íslandi muni á næstu 10 árum fjölga upp í eina milljón. Lengi hafa heyrst áform um að ferðamenn verði komnir í þá tölu árið 2015. Og það sem meira er, Magnús Oddsson virðist fagna þessari meintu mögulegu staðreynd.

 

En hvernig er staðan núna?

 

Háönnin í ferðaþjónustu er júlímánuður. Júní og ágúst eru líka annasamir. Maí og september taka til sín stærri og stærri hluta en vetrarmánuðirnir eru lágværari. Að vonum. Það er ekki bara á Íslandi sem sumarfrí eru almennt yfir sumarið, sumarið er ferðamannatíminn, sá tími sem menn leggja land undir fót, taka flugið til annarra landa. Samt vitum við að jaðartímabilin koma æ sterkar inn, hvatahópar koma hingað í janúar og febrúar til að skunda á jökul, láta misvindana umvefja sig og myrkrið heilla. Heita vatnið er dularfullt í myrkri gufunni, fossadynurinn óræður, álfarnir ósýnilegir að vanda, samferðafólkið skemmtilegt – og stundum gerir leiðsögumaðurinn gæfumuninn með frásögnum, þekkingu og glensi.

 

Yfir sumarmánuðina eru hótel og aðrir gististaðir að springa af fólki, veitingastaðir margir stútfullir, rútur duga hvergi nærri til, skortur er á leiðsögumönnum og rútubílstjórum, hvalaskoðunarbátarnir drekkhlaðnir og önnur afþreying nýtt í þaula. Nú, þegar gestir landsins eru komnar á fjórða hundrað þúsund, er öllum þeim sem um landið fara ljóst orðið að ekkert af þessu dugir til. Í mörgum landshornum opna gististaðir ekki fyrr en langt er liðið á júnímánuð, m.a. vegna þess að sama húsnæði þjónar skólastarfsemi. Af sömu ástæðum er ekki hægt að manna staðina fyrr því að það er skólafólkið sem stendur vaktirnar.

 

Og í sumar hafa vaktirnar – sem aldrei fyrr – verið mannaðar fólki sem ekki talar íslensku. Margir staðir, einkum utan höfuðborgarsvæðisins, hafa ekki tök á að ráða til sín fólk sem talar íslensku, og í sumum tilfellum ekki einu sinni ensku. Þess eru dæmi að starfsfólk í gestamóttöku skilji ekki leiðsögumenn sem koma með rútufarm af gestum.

 

Atvinnuleysi kvað nú vera 1,3% og mér skilst að hagfræðingar telji það of lítið atvinnuleysi, það bjóði ekki upp á nauðsynlega hreyfingu á fólki. Öllum ber saman um að þensla sé mikil og að sums staðar sé hvergi nærri nógur mannskapur til að sinna verkunum. Í ferðaþjónustunni get ég staðfest að vandinn er til staðar.

 

Og þá hlýtur maður að spyrja sig: Er ástæða til að setja markið á heila milljón ferðamanna þegar við ráðum ekki við 350 þúsund, þegar við höfum ekki mannskap til að þjóna þessum hópi? Og þá er ég ekki einu sinni byrjuð að tala um hvernig náttúran lætur á sjá þegar fleiri og fleiri göslast um landið, fólk sem dáist að ósnortnum víðernum og stígur á sígarettuna sína úti á víðavangi af því að engir eru öskubakkar eða ruslafötur, hvernig stígar sem hrófað var upp til bráðabirgða þola ekki áganginn, þegar leiðsögumenn sem ekki eru aldir upp hér og ekki hafa búið hér leiða hópana yfir mosaþemburnar eða upp að svefnherbergisglugga forsetans og þegar innfluttir rútubílstjórar keyra vegleysur og stofna lífi fólks í hættu.

 

Nei, það er ekki nóg að auglýsa snilldarlega í útlöndum og laða þúsundir Kínverja til landsins. Við þurfum að hafa efni á að auka gjaldeyristekjur okkar af ferðamönnum, við þurfum að hafa þjónustu allt árið, við þurfum að hafa menntað fólk og áhugasamt fólk og nógu vel launað fólk til að sinna forvitnum og áköfum gestum af natni. Við þurfum að hafa vegi sem ekki eru stöðugar slysagildrur, við þurfum að eiga rútur, kojur og lambakjöt til að gera dvöl ferðamanna eftirminnilega og sérstaka.

 

Og hver er þá lausnin?

 

Ég held að við eigum að flýta okkur hægt, byggja okkur upp innan frá, tryggja farþegunum aðgengi áður en við tryggjum okkur farþegana. Ég held líka að við eigum að verðleggja hraustlega það sem er sérstakt - náttúruna, óvissuna, víðáttuna, staðarþekkinguna og fróðleiksbrunnana - og að við eigum að létta okrinu af því sem er hægt að fá hvarvetna, ruslfæði og drykkjarföng. Norðurljósin eru fágæti, brennisteinsilmurinn, björtu næturnar, miðnæturgolfið, veran norðan við heimsbaug, 33 ára hraun sem enn er hægt að baka brauð í, útsýni ofan af jökli, sigling á milli ísjakanna, hraunbreiðurnar baðaðar í dögg, þjóðsögur, Íslendingasögur, næturlífið – sérþekking heimamanna.

 

Ég veit ekki hversu miklar gjaldeyristekjur eru áætlaðar á þessu ári af ferðaþjónustu en ég veit að þær eru ærnar. Það er gott, auðvitað, en við eigum að hugsa næstu leiki og ég held að við gröfum eigin gröf ef við hægjum ekki aðeins á og reynum að tryggja þjónustuna áður en lengra er haldið. Besta auglýsingin er ánægður viðskiptavinur. Látum okkur nægja 360 þúsund ánægða viðskiptavini 2007 frekar en eina milljón ferðamenn sem ber okkur út heima hjá sér vegna þess að við verðum farin að sinna þeim 60% í stað 90%.

 Þetta krotaði ég í ágúst 2006. Ég er enn uggandi um framtíð ferðaþjónustunnar.

Es. Ég breytti lítillega orðalagi í byrjun færslu í ljósi þess hvernig mér fannst eftir á að hyggja að hefði mátt misskilja.


Ítalía sveik ekki

Því miður nutum við ekki hlýindanna, heldur var það Ítalía á Laugaveginum sem ekki sveik.

Laufey vinnur einbeitt á ruccolapítsunniÁsgerður dregur ekkert undan!


Í hæfilegu jólageimi fyrir slétt rúmri viku ...

EgillÉg er ekki frá því að Egill hafi pósað.

*Púff, best að ögra ekki myndablogginu með of miklum texta, ég held að ég hafi hent einni mynd út.*

 

 

Meira af Hönnu og Einari

 

Guðrún Þóra (sem tók sama próf og ég deginum áður)

Hildur

RannveigÓli

Hugrún ... í kórastuði

Sigurður frá Arnarvatni

Sveinn sem á eins myndavél

Viggó

Gæi - ávallt traustsins verður!

Magnea, Sigrún Helga og Kristjana stoppuðu stutt

Guðrún Þóra og Svala

Jörundur

Kórinn, hmm ... eða leiðandi hópsöngvarar

Sveinn, Berglind og Garðar

Loks ein af undirritaðri í vönduðum félagsskap.


Nú er friðurinn úti

Ég friðargekk á þorláksmessu að vanda. Ég hlustaði á Höllu Gunnarsdóttur, blaðamann á Mogganum, flytja friðarboðskapinn á Ingólfstorgi. Hver einstaklingur skiptir máli, hver einasti sem tekur afstöðu með friði tekur afstöðu gegn ófriði og ofbeldi. Ég vel að trúa því og vera sammála Höllu. Og það er ÖMURLEGT að Benasír Búttó skyldi vera myrt, ekki út af Pakistan fyrst og fremst heldur vegna hennar sjálfrar, fjölskyldu, þjóðar, annarra þjóða - og mín.

Þetta eru mannanna verk, einstaklinga eins og við erum líka sjálf. Þessu getur linnt. Og einhvern tímann linnir ófriði. Ég hlýt að trúa því að við viljum lifa með friði.


Góði samverjinn (samúræinn?) Gummi

Á ferðalagi um Þingholtin ... hnutum við Gummi um fólk á spariskæddum bíl og Gummi hafði verið svo klókur að spariklæðast ekki þrátt fyrir jól á dagatalinu og snaraðist út á bomsunum og rétti bílinn við.

Gummi á björgunarbomsunum

Svo þurfti hann auðvitað að spjalla svolítið líka því að auðvitað þekkti hann tilfallandi fólkið ...


Ragnar Bragason eftir tæpa viku

Ekki kvíði ég áramótaskaupinu ef Ragnar Bragason fer jafn vel með húmor og hann fer með mannlega eymd. Börn er nístandi mynd, handritið ekki fyrirsjáanlegt og leikararnir - Nína Dögg, Gísli Örn x2, Ólafur Darri, Margrét Helga og aðrir sem ég veit ekki hvað heita - spiluðu á tilfinningarnar eins og ekkert væri.

Átakanlegust var staða Karitasar sem sameinaði óviðjafnanlega kokhreysti og uppburðarleysi. Ég svitna við upprifjunina á því þegar henni varð ljóst að lyfjadópið hafði ratað ranga leið.


Prrrrrrrrr

Næs helgi, svín, bók, kanilstöng, spil, tíhíst, mandarínur, jólakveðjur, netið lasið, BBC í lagi, drottningin á YouTube kl. þrjú. Og nú er líka byrjað að snjóa af gargandi snilld. Prrr.

Voðalegur þvergirðingsháttur er þetta í Samtökum atvinnulífsins

Ég þykist ekkert geta vefengt hugsanlegan kostnað við að grafa raflínur í jörð en ég sé sannarlega engin rök í umfjöllun SA fyrir kostnaðinum. Og mér finnast þau bregðast undarlega harkalega við tillögu um að skoða málið. Ég held ekki endilega að útlendir ferðamenn yrðu hrifnari af að ferðast um landið án mastranna en mér finnst það alveg koma til greina. Og mér finnst sjálfri verulega spennandi tilhugsun að losna við raflínurnar úr augsýn.

Setjum sem svo að 300 milljarðar séu rétta talan og árin 50, þá erum við í einhverju samhengi að tala um 6 milljarða á ári. Hvað áttu Héðinsfjarðargöng að kosta? Einhvern tímann var talað um 6 milljarða. Svo stóðst það ekki. Hver er endanleg tala?

Hver eru fjárlög ríkisins á einu ári? 300 milljarðar eða svo. Hvað varð mikill afgangur núna? Ég man ekki lengur hvort það voru 40 eða 80 milljarðar, þ.e. hver tölulegur afgangur varð af fjárlögum og hver af fjáraukalögum.

Svo minnist ég þess ekki að notendur í Reykjavík hafi notið þess í lækkuðu orkuverði sumarið sem veður var hér ólíkindalega gott og orkunotkun minnkaði til muna. Getum við ekki innheimt þann ávinning næstu 100 árin?

Ég segi aðallega: Það má leika sér með tölur og það er algjör óþarfi fyrir Samtök atvinnulífsins að verða svona gnafin.

Ef umbeðin skoðun leiddi í ljós að það væri vont fyrir umhverfið að grafa línurnar í jörð værum við hins vegar komin með allt annað umfjöllunarefni.


mbl.is Dýrt að grafa raflínur í jörðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Félag leiðsögumanna heldur áfram að puðast við að reyna að semja

Kjaranefndin hefur komið gistingu, símanotkun, afboðun ferða o.fl. á tal við SA og mun hitta viðsemjendur aftur á nýju ári, þann 3. janúar, en þá verða því miður samningar runnir út. Svoleiðis er það líka í stóru kjaraviðræðunum hjá ASÍ og það er eins og mönnum finnist það algjörlega eðlilegt. Þannig hefur það líka verið þegar kennarar eru að semja.

Mér finnst ekki eðlilegt að kjarasamningar renni út trekk í trekk og fólk sé kjarasamningslaust mánuðum saman.


Neikvæð áhrif auglýsinga

Ég er ekki sú eina sem mun hugsa mig um tvisvar áður en ég beini viðskiptum mínum til REMAX í fasteignaleitinni á nýju ári. Reyndar er kannski ekki alveg sanngjarnt að kenna auglýsingunni um því að ég hef lengi haft á REMAX illan bifur, ágengni sumra sölumanna hefur verið þvílík. Orðsporið tikkar.

Þýðingaprófið í morgun

Margt spaklegt gæti ég sagt um prófið sem ég tók í morgun í þýðingafræðinni en af því að mér finnst að ég gerði umsjónarmanni námsins grikk með því læt ég duga að halda og hugsa í hljóði að þessi samningur við Bosníu og Hersegóvínu hafi verið eins og atvinnutilboð!

Auðvitað vona ég að mér hafi gengið vel, held það reyndar líka og veit að þessir þrír klukkutímar voru stórskemmtilegir. Orðaglíma er skemmtileg. Verst að ég er ekki skráð í fleiri próf.

Allt hefur sinn tíma ...


Svona margir fínir leikarar í nýja REI-myndbandinu ...


Horgrannur Harðskafi

Nú er ég bara að snúa út úr nafninu á nýjustu bók Arnaldar og því að á bls. 135 er horgrannur maður. Er hann svo grannur að hann er næstum horaður, hmm? Þetta orð, það að nafnið Harðskafi væri útskýrt í bókinni og sagt frá örlögum bróður Erlendar var það eina sem ég hafði heyrt um þessa sögu áður en ég byrjaði að lesa.

Mér finnst Harðskafi spennandi þótt mér finnist ennþá Grafarþögn besta bókin og Dauðarósir vanmetnasta. Þegar ég leit inn á Gegni sá ég reyndar að sagan Dauðarósir hefur verið endurprentuð oft, kannski kann þá fólk að meta hana en segir mér bara ekkert frá því, hmm.

Mér finnst nafnið Harðskafi ekki gott og ekki sérlega táknrænt fyrir söguna af mæðgunum og dauðahyggjunni. Ef Arnaldur væri ekki búinn að nota Kleifarvatn hefði ég stungið upp á Sandkluftavatni. Hafa ekki allar bækurnar hans borið bara eitt nafn? Þá verðum við að halda okkur við það og ég sting upp á að bókin hefði átt að heita Lausmælgi eða Trúnaðarbrestur.

--- Horgrönn, horgrannt ... notar einhver þetta orð í einhverri mynd? Eða ætlaði Arnaldur að skrifa holdgrannur?


Aðventuhittingur mennt(ó/a)klúbbsins 6. desember 2007

Ella ofurkona bauð okkur heim í síðustu viku. Framlag mitt var að taka myndir og svo er ég í heila viku búin að skussast við að ganga frá þeim. En koma laugardagar ...

Inga, Sólveig og Erla komnar í gönguham

Við byrjuðum hittinginn í Skaftahlíðinni hjá Ingu og lögðum í aðventugönguna á fimmtudagskvöldi. Þarna vorum við fjórar og settum (gps-)stefnuna á Engihjallann.

Inga með stein í skónum sínum

Hér erum við enn við Miklubrautina (Kringluna) og Inga var óstarfhæf um stund vegna aðskotahlutar í skó. Hún kippti því snarlega í liðinn í kringum þessar súlur.

Ég gerði heiðarlega tilraun til að kasta mér í veg fyrir sjúkrabíl, tókst ekki. Að öðru leyti var ferðalagið dásamlega tíðindalaust fyrir utan góðar og gegnar slúðursögur og heilbrigð skoðanaskipti í bland við stöðutékk af og til. „Nei, er þetta ekki Þverbrekkan? Ella sagði að Bústaðakirkja væri í beinni sjónlínu. Það hlýtur að vera líka stígur næst.

Gangan tók rúman klukkutíma og hún var DÁSAMLEG, fyrirgefið væmnina. Við erum búnar að þekkjast síðan í menntaskóla og böndin hafa bara styrkst hin síðari ár.

Komnar í Engihjallann 

Stutt stopp á leiðinni til að tína blómin .. og þarna eru kokhraustar gönguhrólfur á ganginum fyrir framan hjá Ellu. Við Sólveig rifjuðum upp þegar við fórum langleiðina inn í íbúðina við hliðina af því að Ella er svo framkvæmdasöm að okkur fannst bara sjálfsagt að hún væri búin að koma sér upp aukainngangi. Okkur var snúið við í dyrunum, ræræræ.

Ella gella 

En þessi tók vel á móti okkur. Og ekki bara í orðum, heldur ÓG var hún búin að kokka og dekka og lekkera allt svo vel.

Ella og eldhúsið í Engihjallanum

Eldhúsið er lítið en þaðan kemur svo margt og það rúmar með góðu móti Ellu og Karen. Og ef mér skjöplast ekki eru jólaveinarnir einn og átta á gardínunni. Og það var hún Ella sjálf sem saumaði í.

Rut var í heimsókn á meginlandinu

Sunddeild Ármanns?? Ég tók ekki einu sinni eftir að Erla væri í þessum bol. Nema hvað, hér er hún Rut sem býr í Vestmannaeyjum en var samt komin á undan okkur. Og þar með lýkur frásögninni af aðventugöngunni sem er trúlega orðin árviss. Við söknuðum sárt Kristínar, Rannveigar og Árdísar - sem forgangsröðuðu öðruvísi, ræræræ.

Bara ein mynd í lokin af veitingunum:

Engihjalla-veitingar


Metafgangur

Mér er ógleymanleg stundin á fundinum í bæjarfélaginu sem ég starfaði fyrir 2000-2001 þegar fjármálastjóri lýsti yfir ánægju með að leikskólarnir nýttu ekki allan peninginn sem þeim hafði verið skammtaður og leikskólastjóri sagði festulega að það kæmi ekki til af góðu, kaupið væri svo lágt að ekki fengist starfsfólk sem þýddi að peningurinn gengi ekki út en starfsfólkið sem fyrir væri ynni yfir sig.

Einhvern veginn öðruvísi orðað svo sem.

Þarna lærðist mér hið sjálfsagða, að ekki eru alltaf góð tíðindi að skila miklum afgangi.


Terry Gunnell með fyrirlestur um jólasveinana í Þjóðminjasafninu

Ég nota flest tækifæri til að segja frá jólaveinunum þegar ég er leiðsögumaður, *hóst*. Ég er áreiðanlega nýbúin að nefna hvað ég er efins um enskt yfirheiti, eru þeir Fathers Christmas(es) (verður að vera fleirtala), Christmas Lads, Santa Clauses - eða Yule Lads eins og bókin mín heitir sem Brian Pilkington myndskreytti?

Á morgun gefst gullið tækifæri til að heyra hvernig Terry Gunnell nálgast viðfangsefnið.


Ég lét það eftir mér - ,,tökum Shackleton á þetta"

Ég fór á fyrirlestur Finnans sem útflutningsráð bauð mér á í morgun. Skemmtigildi hans var ótvírætt og ég er ekki frá því að stjórnendur og fólk í viðskiptalífinu gætu hafa haft gagn af sumu sem hann sagði. Hann Pata Degerman ákvað að klífa fjall sem enginn hafði klifið, þ.e. marka spor, sýna frumkvæði, brjóta í blað, taka á sig krók, voga sér að vera öðruvísi og kannski dálítið skrýtinn.

Hann fékk félaga sinn í slagtog og svo hófust þeir handa við að skipuleggja fjallgöngu á Suðurskautinu. Þeir puðuðu við eigið hugarfar og ýmsar aðrar hindranir í þrjú ár - og fóru samt hvergi. Þá ákváðu þeir að snúa við blaðinu, eiginlega öllu heldur henda blaðinu sem þeir höfðu sett allt sitt traust á og nálgast viðfangsefnið upp á nýtt, þó með fullri meðvitund um mistök þriggja ára.

Svo fóru þeir.

Lærdómurinn sem ég get dregið af þessu er að stundum þurfa sumir að sveigja af leið til að stækka heiminn - sem er eftirsóknarvert - og að ekki er alltaf skynsamlegt að skilja nei sem nei. Rökin rokka!

Og af því að samt er ekkert nýtt undir sólinni rifjaðist upp fyrir mér landkönnuðurinn ágæti Ernest Shackleton sem þurfti í landkönnunarleiðangri sínum með 30 karla að takast endalaust á við hindranir og finna nýjar leiðir út úr ógöngunum. Í vissum umgangshópi mínum flýgur stundum fyrir setningin: Við tökum bara Shackleton á þetta!


Ég er orðafasisti, ég játa það

Þessa færslu las ég í Orðinu á götunni:

Sindri Freysson, rithöfundur og margreyndur blaðamaður er kominn til starfa á ritstjóran Viðskiptablaðsins og sestur í sætið hans Ólafs Teits Guðnasonar, sem er orðinn starfsmaður Straums-Burðaráss. Á næstunni mun svo Arnór Gísli Ólafsson, viðskiptablaðamaður á Mogganum, flytja sig um sel og hefja störf á Viðskiptablaðinu.

Af öðrum atvinnumálum blaðamanna er það helst að frétta að Jóhann Hauksson, hinn gamalkunni haukur, er hættur störfum á dv.is.

Leturbreyting mín.

Ég les Viðskiptablaðið flesta daga, a.m.k. flesta föstudaga, og mun spennt fylgjast með hvernig Arnór þrífst á selnum.


Mig langar að fara

Forvitnilegur fyrirlestur á miðvikudagsmorgun:


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband