Hvað á þetta að kosta (quadacosta)?

Þegar menn fara til Tyrklands og ætla í forbífartinni að kaupa sér mottu spyrja þeir hvað hún kosti og reyna svo að prútta. Eða reyna að reyna því að prúttið er Íslendingum ekki eiginlegt.

Þegar menn fara til New York kaupa þeir myndavélina þar vegna þess að hún er helmingi ódýrari en í Reykjavík (veit ekki með Sauðárkrók).

Áður en menn bóka flug til Rómar kynna þeir sér verðið hjá ólíkum ferðarekendum.

Þegar menn kaupa Nokia eða Samsung eða Sony Ericsson velta þeir fyrir sér hvaða fyrirtæki býður best.

Þegar menn fara hins vegar með símann með sér til útlanda, hringja úr honum, svara í hann eða senda sms hafa þeir ekki hugmynd um hvernig reikningur verður sendur þeim heima. Skrýtið. Það rifjaðist bara upp fyrir mér þegar ég horfði á fréttirnar í kvöld.

Það sem ég er hins vegar fyrst og fremst að fara með fyrirsögninni er að nú er sléttur mánuður til kosninga og flokkarnir byrjaðir að bjóða í okkur. Ég hirði ekki um að tíunda kosningaloforðin því að þá myndi ég áreiðanlega mismuna einhverjum, en það leyfi ég mér að fullyrða að hundruð milljóna hanga á spýtunni.

Ég las merkilega færslu hjá hinum afar flinka penna Andrési Magnússyni þar sem hann kallar eftir kostnaðarmati með þingmálum. Mér sýnist hann reyndar helst vilja að nefndir afgreiði nefndarálit með kostnaðaráætlun en mér finnst að flutningsmaður máls ætti a.m.k. líka að bera ábyrgð og reikna út kostnað.

Menn leggja til hugmyndir og hafa metnað til góðra verka - en ef metnaðurinn kostar milljarð verður flytjandi líka að hafa metnað til að stinga upp á hvar eigi að taka milljarðinn.

Ef maður stingur upp á að skattleysismörkin hækki í 120.000 og útreikningar segja að það kosti 30 milljarða á ári þarf að tala um það grímulaust.

Ef menn vilja bæta við sendiráði í Mósambik mega menn ekki óttast að tala um kostnaðinn fyrirfram.

Ef menn vilja leggja suðurstrandarveg þarf að horfast í augu við kostnaðinn, og eins vegna Hellisheiðarinnar, eins vegna jarðganga.

Svo er sjálfsagt að reikna ávinninginn líka því að fjárlagagerðin er ekki einstefnuakstur.

Bakreikningar eru vondir og óþarfir. Kannski þarf kjark til að taka þá umræðu.

Þetta finnst mér gilda um bæði kosningaloforð og (þing)mál.

Og að lokum, mér skildist á Einari Mar í sjónvarpsfréttunum að konur væru meiri óvissuatkvæði en karlar. Það kann að vera rétt en mesta óvissuatkvæðið sem ég þekki er karlkyns. Hann fer á milli kosningaskrifstofa, spyr og hlustar og gerir svo upp hug sinn. Og hann er bæði heilbrigður og í fullri vinnu.


Þjónusta símafyrirtækjanna

Mér er runnin reiðin, en það er meira með handafli.

Ég er með heimasíma og adsl hjá Hive frá því í janúar. Um nýliðin mánaðamót fékk ég í fyrsta skipti reikning eins og hann kemur til með að líta út. Hann hljóðaði upp á kr. 5.728, gjalddaginn var 2. apríl og eindaginn 9. apríl.

Auðvitað hefði ég átt að hringja fyrir páska til að spyrja út í töluna, vissulega, en það varð út undan (og hvernig í andskotanum stendur á því að eindagi er á öðrum í páskum?) og ég hringdi í gær til að fá upplýsingar um það hvernig 3.990 + 1.390 yrðu 5.728. Þótt munurinn sé til þess að gera lítill á maður ekki bara að sætta sig við það, og allra síst þegar maður sér aldrei sundurliðunina.

Fyrir svörum varð hinn indælasti maður, það vantaði ekki, og svaraði með öllum frösunum sem hann hefur verið mataður á. Til viðbótar gjöldunum sem áður voru þekkt rukkar Hive mig um 199 kr. umsýslugjald og 149 kr. tryggingagjald fyrir beininn (routerinn). 

Þetta á að heita svo að gera gjöldin gagnsærri. Vei, þá rifjast nefnilega upp umræða úr blöðum um seðilgjöld sem fyrirtæki héldu áfram að rukka eftir að seðlarnir lögðust af. Og nú heita þau umsýslugjöld.

Og af því að mér láðist að hringja fyrir páska og vildi þess vegna ekki borga áður en ég vissi fyrir hvað var ég rukkuð um 482 kr. í vanskilagjald og dráttarvexti. Það hækkar áskriftina um 8,5% - en til að sanngirni sé gætt átti ég að hringja fyrir páska. Eða hefði Hive kannski svarað um páskana?

Til að kóróna ergelsi mitt rifjast upp fyrir mér að fjarskiptafyrirtækin átthagabinda mann í heilt ár til að geta boðið manni þessi kostakjör.

Meiri samkeppni á þennan markað, takk.


Þeir eldast sem lifa

Sumir fara bara verr út úr því ...

Es. Soldið klúðurslegt grín að afmælisbarninu. Gengur betur næst, humm hmm.


Ein lítil spurning

Forystumenn íslenskra stjórnmála eru enn með orðið í Kastljósinu (hvar eru annars baráttusamtök aldraðra og öryrkja?) og nú vaknar þessi spurning:

Ef það kostar (þ.e.a.s. fer út úr skattkerfinu) 50-60 milljarða að hækka skattleysismörkin úr 90.000 í 150.000 má ekki reikna með að sá peningur fari einhverja aðra leið inn í samneysluna? Þá væntanlega hefur fleira fólk efni á meiru, ekki satt? Þá eykst hagvöxturinn, ekki satt?

Þetta átti bara að vera ein spurning ...


,,Þetta fólk"

Óttaleg viðkvæmni er í þessu fólki sem kvartar undan orðalaginu þetta fólk. Orðið þetta er bara ósköp venjulegt ábendingarfornafn og ekki neitt gildishlaðið. Það er bara eins og að segja þetta sjónvarpsefni, þessir fréttatímar o.s.frv. um efni sem margbúið er að ræða.

Sko, nú var Jóhanna Vigdís að enda við að segja þessi skattaumræða í Kastljósinu - og hvert er vandamálið?

Þessi viðkvæmni í þessu fólki sem kvartar undan þessu orðalagi er óþörf. Segi og skrifa.


Ekki vanþörf á að birta söguna, hahha

Ég er búin að reyna að skilja hvað gerðist frá því að fréttirnar birtust fyrst en það eina sem ég sé alltaf þegar minnst er á þessa villuráfandi Breta er kona með sígarettu í munninum og slæðu um höfuðið. Það er ekki við íslenska fjölmiðla að sakast (og ekki mig!) því að þegar ég horfi á fréttina á Sky sé ég líka bara sígarettuna. Í mínu fagi, bókmenntum, er svona stundum kallað fleygur, eitthvað sem fangar alla athyglina.

Hún má reykja mín vegna og hún má klæðast því sem hún vill en það breytir því ekki að sígarettan hrópar á athygli mína. Og ég veit enn ekki hvað gerðist, held helst að breskir sjóliðar hafi stolist inn fyrir landhelgi Írana í þökk breskra stjórnvalda til að dreifa athyglinni frá einhverju ófýsilegra.

Smjörklípa?!

Og hver vill borga 33 milljónir fyrir sögubita af smjöri?


mbl.is Bresku sjóliðarnir fá að selja sögu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Stefán Baldursson hæfastur til að stjórna óperunni?

Kannski.

Ég skil bara ekki að auglýsingin um þetta starf hafi farið framhjá mér og enn síður skil ég að ég finn alls ekki hverjir aðrir sóttu um starfið. Er þetta ekki eftirsóknarvert starf? Voru ekki margir um hituna?

Það getur vel verið að Stefán Baldursson sé sá besti, en ég skil ekki umræðuleysið. Og skortinn á upplýsingum. Nógu oft hefur verið galað þegar stjórar hafa verið ráðnir að Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu. Ég man í fljótu bragði eftir Viðari Eggertssyni og Þórhildi Þorleifsdóttur sem ollu einhverjum usla. Ég man ekki betur en að Stefán hafi stýrt Borgarleikhúsinu um tíma, og Þjóðleikhúsinu þangað til Tinna Gunnlaugsdóttir tók við fyrir tveimur árum eða svo. Sú ráðning læddist heldur ekki með veggjum.

Er þetta kannski einhver sjálfvirkni í Íslensku óperunni, sjálfvirkur ráðningarbúnaður? Hverjir aðrir sóttu eiginlega um?


Keisaramörgæsir og önnur undur

Ég hélt að myndin sem RÚV sýndi á föstudaginn langa væri eitthvað sérstök og setti mig í stellingar til að horfa. Svo var hún aðallega um stóran hóp kjagandi mörgæsa, nógu krúttleg svo sem en ekki það stórvirki sem mér hafði skilist. Allt snýst þetta um væntingar.

Núna er hins vegar á BBC Prime mynd sem heitir Deep Blue, og ætla ég að það vísi til hafdjúpanna, og hún er snilldarlega gerð um mörgæsir, ísbirni, hvali, marflær, steinbíta - og korter eftir. Heppilegt að ég get skrifað blindandi.

Annars er líka handbolti á RÚV núna svo að samkeppnin er hörð, humm hmm. Ísland hlýtur að hafa Túnis, VIÐ erum yfir núna.


Kenna má fyrr en klipið er til beins

Það var orðið aldeilis tímabært að fá málshátt sem einhver matur er í - eftir mörg mögur ár ...

Vorboðinn hrjúfi

Nú er ég að hlusta á spurningakeppni fjölmiðlanna frá því rétt eftir hádegi (af því að hér var á flutningstíma langur bröns) og Ævar Örn spurði um vorboðann hrjúfa. Þessi keppni er snilld, og þá eru keppendurnir ekki síðri.

Og fyrir vorboðanum stendur til að eitra á hreiðri sínu ... Mér finnst það vond hugmynd sem myndi hafa það í för með sér að fuglarnir dræpust hingað og þangað, og ekki endilega rúmliggjandi humm hmm.


Barnamatseðill og unglingadrykkja

Ég er svo laus við kristilega þanka að mér er alveg sama þótt einhverjir ætli að vera með uppistandskeppni á föstudaginn langa og sjálf ætla ég hér og nú að gera grín að orðinu barnamatseðill sem sést iðulega á betri veitingastöðum. Mig langar t.d. alltaf að spyrja úr hvernig barni barnahamborgarinn sé gerður.

Svo heyrði ég nýlega einhvern benda á orðið unglingadrykkju til samanburðar við kaffidrykkju. Ekki orð um það meir.

Það er nú svo bjútífúl við tungumálið að það er lifandi og ekki alltaf rökrétt.


Heilög stund á Rás 2

Spurningakeppni fjölmiðlanna er páskagleðin mikla, stendur yfir milli kl. 1 og 2 flesta páskadagana, endurtekið eftir kvöldfréttir. Mæli augljóslega með þessu útvarpsefni.

Skírdagur þénugur dagur til verðlagseftirlits

Ég man ekki hvar ég heyrði það eða nákvæmlega hvenær en einhvers staðar var sagt að lágvöruverðsverslanirnar hefðu lækkað verð hjá sér um 11% vegna lækkaðs virðisaukaskatts.

Nú er ég með samanburð á þremur vörutegundum sem annars vegar voru keyptar rétt fyrir miðjan febrúar og hins vegar nú í dymbilviku.

Spínat kostaði 267 en kostar nú 248 (niður um 7%).

Pólarbrauð kostaði 159 en kostar nú 158 (niður um 0,5%).

Lúxusíspinnar kostuðu 337 en nú 315 (niður um 5,5%).

Og svo á maður að trúa útreikningum til þess bærra aðila. Þetta er nefnilega eins og með bankana, það er allt reiknað út frá einhverju meðaltali sem enginn lifir eftir. Við erum nefnilega vaðandi í frávikum.

Hnuss. Og hér kemur ný mynd af Grumpy til að útskýra gremju mína:

 


Minnir mig á Andrés önd og félaga

*Bubbi byggir* hefur svo litla viðkomu haft hjá mér upp á síðkastið að ég get með sanni sagst ekkert vita um verðlagið hjá Byko og Húsasmiðjunni. Það sem Múrbúðin hefur nú gert er að vekja fólk til meðvitundar - og það er jákvætt.

Og þá rifjast upp teiknimyndasagan góða þegar Jóakim aðalönd auglýsti gott verð á kjólum í kjólabúðinni sinni, 119 danskar krónur (danska útgáfan í gamla daga). Konurnar sýndu engan áhuga. Þá auglýsti hann roknaútsölu og sagði að kjólarnir hefðu áður kostað 259 krónur en væru nú á aðeins 159 krónur.

Ég þarf ekki að segja neinum hvernig teiknimyndasagan endaði - en hvernig endar verðstríð dagsins í dag? Við fylgjumst spennt með framhaldinu.


mbl.is BYKO segir ásakanir Múrbúðarinnar tilhæfulausar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hófreykingamenn hryggjast

Kunningjakona verður fertug í haust og eðlilega byrjuð að huga að miklum gleðskap. Sjálf reykir hún og á marga vini sem reykja, sumir þeirra bara í hófum. Og nú þegar 1. júní er að bresta á með reykingabanni þyrmir allt í einu yfir hana og hún veltir fyrir sér hvort henni verði úthýst úr leigðum sal og/eða henni gert að úthýsa vinum sínum, hófreykingamönnunum.

Reykingar hafa aldrei pirrað mig, mögulega vegna þess að ég hef aldrei reykt og mögulega vegna þess að ég er skammarlega lítið lyktnæm yfirleitt. Ég er svolítið hugsi yfir banninu sem ég veit og skil að er ekki síst sett með starfsfólk í huga. Ég hef heyrt misjafnar sögur frá Bretlandi, sumir segja að bannið virki vel og aðrir ekki. Þegar ég var í New York í september sáum við aldrei neinn reykja enda eru reykingar þar ekki leyfðar en ekkert okkar í þeim hópi reykir þannig að þetta var ekki mikið athugunarefni hjá okkur.

Skyldi bannið ná tilgangi sínum á nokkrum mánuðum eða árum? Þetta verður kannski þvinguð hugarfarsbreyting og allir glaðir þegar upp verður staðið, humm hmm.

Mig rámar í að einhvern tímann hafi ekki verið bannað að reykja inni í bönkum, á Hlemmi og víðar og að reykingafólki hafi verið ógurlega brugðið þegar það var bannað.

Assgoti er maður annars heppinn að vera laus við þennan kaleik og þurfa bara að samhryggjast þeim sem eru það ekki.


Undarlegar eru fyrirsagnir bankanna

Glitnir segir, Glitnir segir ... að heimilin eigi núna meiri eignir en skuldir. Áreiðanlega er þetta eitthvert meðaltal og meðaltalsheimilismaðurinn er ekki til, ekki frekar en meðalneminn sem skólakerfið hnitast svolítið um.

Þetta með að eignir hafi aukist umfram skuldir - sem kemur að einhverju leyti til af því að íbúðir hafa hækkað í verði án þess að eigandinn hafi selt eða keypt, fjölskyldustærð breyst eða handbærum krónum fjölgað - minnir á þá fjöldamörgu sem bjuggu eitt árið allt í einu í stærri íbúðum en þeir keyptu AF ÞVÍ AÐ FARIÐ VAR AÐ REIKNA UTANMÁL ÍBÚÐA EN EKKI LENGUR INNANMÁL. Veggir voru þannig komnir inn í fermetrafjöldann - og fólk bjó þannig í stærra húsnæði. Ja, fjandinn fjarri mér.

Aðrar fréttir af fjárhagsstöðu heimilanna hafa undanfarið hermt að fólk nýti yfirdráttinn í botn á ný (eftir að íbúðalán bankanna komu til skjalanna 2004 og fólk tók þau frekar en neyslulán), íbúðir hafi verið settar á uppboð og að heimsóknum hafi fjölgað á Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.

En Glitnir segir að eignir heimila hafi aukist umfram skuldir. Og hefur reiknað það út ...


mbl.is Segja eignir heimila hafa aukist meira en skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Launin í ferðaþjónustunni

Í síðustu viku lenti ég á spjalli við Steina Briem í athugasemdakerfi Ómars Ragnarssonar um laun í ferðaþjónustunni. Ég þekki ekki Steina en það rifjaðist upp fyrir mér launasaga (raunasaga) úr ferðaþjónustunni.

Árið 1998 sótti ég um sumarstarf í gestamóttöku hjá hótelkeðju (Cabin minnir mig). Ég var kölluð í viðtal í mars (já, svo snemma) og í kjölfarið var mér boðið sumarstarf í gestamóttökunni á Valhöll á Þingvöllum. Mér var bent á að nálgast launataxtana hjá VR hvað ég og gerði. Skv. þeim átti ég að fá 88.000 kr. í grunnlaun. Ég átti að vinna dæmigerðar hótelvaktir, tvo daga, frí tvo, vinna þrjá o.s.frv. Ég átti að keyra á milli á mínum bíl, fyrir mitt bensín og í mínum tíma. Ég átti að fá gistingu ókeypis (hahha) milli vaktanna og ókeypis að borða á vaktadögunum.

Á níu árum byrjar auðvitað að fenna í minningarnar en ég held að ég muni rétt að ég hafi reiknað út að heildarlaunin fyrir júní hefðu orðið 118.000 (og þá var 17. júní inni í planinu). Þá átti ég eftir að draga frá (skatt, auðvitað) ferðakostnað og reyna einhvern veginn að verðleggja ferðatímann. Aðstandendur hótelsins sögðu að þetta væri 20 mínútna keyrsla, en ég er mjög lélegur lögbrjótur þannig að það stóðst engan veginn.

Ég hætti við sumarstarfið, seldi bílinn, fór til Danmerkur og lagðist upp á nána vini. Það lukkaðist ágætlega og ég fékk engar kvartanir (engin laun heldur en það verður ekki allt metið til peninga, humm hmm).

Laun í ferðaþjónustu eru ekki svona hroðalega léleg lengur, en þau eru léleg samt. Og til að kóróna söguna spurðist um haustið að starfsfólkið á Valhöll hefði ekki einu sinni fengið útborgað. Huggun harmi gegn var náttúrlega að þurfa ekki að borga tekjuskatt ...

Þingvellir standa samt alltaf fyrir sínu

Orlof og verkefni

Um helgina heyrði ég Kolbrúnu Bergþórsdóttur segja frá því í útvarpsviðtali að henni væri illa við samfellt orlof. Hún biður vinnuveitandann um að fá að taka eina viku hér og aðra viku þar því að henni er meinilla við samfellt fjögurra, ég tala nú ekki um fimm eða sex, vikna frí.

Og viðmælandinn skellti sér á lær í forundran.

Ég er hins vegar ekkert hissa á Kolbrúnu. Henni hlýtur að þykja gaman í vinnunni, hún skrifar, les og fylgist með. Þegar hún er heima hjá sér (ef það er eitthvað að marka pistlana hennar í Blaðinu) og hlustar á t.d. Sjostakóvits (sem Sigurður G. Tómasson spilar alltaf í þáttunum sínum á Útvarpi Sögu) verður það henni líka uppspretta vinnupistla. Hún hefur áhuga á vinnunni sinni.

Er ekki óþarfi að gefa sér alltaf að fólk sé í vinnu bara af því að hún borgar laun? Þegar maður er svo heppinn að fá að vinna við áhugamál sitt, vinna við eitthvað sem maður hefur valið að mennta sig til að gegna, er bara heimsins eðlilegasti hlutur að maður hlakki til að mæta í vinnuna.

Mér finnst hvimleið þessi tilhneiging sumra til að tala um vinnuna sem skyldu eina saman.

Og þó að maður hafi yndi af vinnunni sinni er ekki þar með sagt að manni þurfi að leiðast utan hennar.

Ég hef oft spurt fólk í nærumhverfi mínu hvað það myndi gera ef það eignaðist sisona x milljónir (segjum hálfan milljarð). Yfirleitt ætlar fólk að hætta að vinna. Yfirleitt segist það ekki ætla að gera eitthvað ákveðið, það ætlar bara að hætta að vinna.

Er svona skelfilegt að mæta í vinnu? Ekki finnst mér það.

Dæs. Stundum þyrmir svo yfir mig þegar ég hugsa um hvað fólk hlýtur að lifa leiðinlegu lífi ef það ætlar að kollvarpa öllu við það að eignast pening.


Setjum sem svo að Mjólkursamsalan hafi rétt fyrir sér

Ég hef ekki neinar forsendur til að giska á verð í ostakvóta eða hvort menn noti hann eða ekki. En setjum sem svo að Mjólkursamsalan ljúgi engu - ekki dettur mér í hug að væna hana um lygar - eigum við þá bara að vera glöð með að borga um og yfir 1.000 kr. fyrir kílóið af allrahanda ostum? Fyrir mig sem neytanda er Mjólkursamsalan ekki vandamálið, heldur ALMENNUR SKORTUR Á SAMKEPPNI.

Er hægt að auka samkeppnina? Eða verðum við vegna smæðar markaðar alltaf undirseld fákeppni?


mbl.is Mjólkursamsalan segir rangt að tilboð fyrirtækisins í ostakvóta hleypi upp verði á kvótum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umræðan í Silfrinu

Þetta er hugsað sem rapport fyrir Stínu sem býr í Kanada og er nýbúin að uppgötva Silfur Egils á netinu.

Fyrst voru (sitjandi frá vinstri) Lúðvík Geirsson (bæjarstjóri í Hafnarfirði), Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (menntamálaráðherra, búsett í Hafnarfirði), Kristrún Heimisdóttir (lögræðingur, frambjóðandi Samfylkingarinnar) og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (frambjóðandi fyrir Vinstri græna). Þau ræddu íbúakosninguna í Hafnarfirði í gær um framtíð álversins.

Svo fór Lúðvík Geirsson, og Margrét Pála Ólafsdóttir, frumkvöðull Hjallastefnunnar, kom í hans stað.

Magnús Þór Hafsteinsson, Frjálslynda flokknum, talaði við Egil um hitamálið útlendinga, ekki síst af því að í Fréttablaðinu er í dag auglýsing frá flokknum um það hvernig þeir vilja taka á fjölgun útlendinga til landsins.

Skáldin Gunnar Smári Egilsson, Þráinn Bertelsson og Guðmundur Andri Thorsson töluðu um ... úps, þarna datt ég út, og loks var einhver Slavoj Zizek að tala um róttækni.

Eins og sést er heilmikið puð að skrifa svona rapport þannig að, Stína mín í Kanada, þetta verður síðasta skiptið, hemm hmm.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband