Þriðjudagur, 12. ágúst 2008
Getraun
Þriðjudagur, 12. ágúst 2008
Þegar bíl og hjóli lýstur saman - reynslusaga
Það gerðist einmitt í dag. Ég hjólaði á litlum hraða eftir Borgartúninu og út af bílastæðinu kom bíll á litlum hraða. Hvorki ég né bílstjórinn vorum á varðbergi og úr varð samstuð tveggja farartækja. Hann má eiga það að hann varð skelfingu lostinn við að sjá mig taka flugið - en ég, ég spurði hvort sæi á bílnum.
Ég hlýt að hafa fengið dulitla flugferð, a.m.k. lenti ég með báða fætur sömu megin, hruflaði mig aggalítið ofan við hægri bera ristina en annað og verra gerðist ekki. Sjónarvottur margsagði mér að taka nafn og símanúmer mannsins en ég svaraði jafnoft að ég væri heil og óbrotin. Hann sagði að ég skylfi. Döö, eitthvað er ég þá tilfinningalaus því að ég fann það ekki einu sinni.
Ef ég væri Bandaríkjamaður hefði ég farið í mál, ekki satt?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 11. ágúst 2008
Af genginu
Í fyrrahaust kostaði ein dönsk króna 12 íslenskar krónur. Í síðustu viku kostaði hún upp undir 17 krónur. Það er 30% hækkun. Eins og menn vita hefur evran líka tekið miklum breytingum.
Ég eyddi í fimm daga ferð í Danmörku og Svíþjóð 6.600 dönskum krónum. Fyrir ári hefði fríið kostað mig tæpar 80.000 en í síðustu viku kostaði það 112.000. Þetta er veruleikinn. En er þetta lögmál? Óhjákvæmilegt? Og ef ekki, hvernig má breyta þessu?
Í Íslandi í dag var verið að spjalla við útlenska ferðamenn á Íslandi sem eru kátir með hagstætt verðlag. Ég samgleðst þeim - en er þetta komið til að vera? Má ég biðja um stöðugleika?
Úff.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 9. ágúst 2008
Í sumarhöll drottningar og annars staðar í Danaveldi
Frú Margrét Þórhildur mun halda til í sumarhöll sinni í Árósum frá 23. ágúst til 10. september en þangað til má maður rápa um garðinn hennar. Og það gerði ég ... í gær (virðist svo langt síðan). Og mig langaði að stinga mér í sundlaug hennar hátignar.
Ég var í þessum góða félagsskap:
Í Kaupmannahöfn var ég hins vegar bara upptekin af þessu venjulega ferðamannadóti, t.d. rigningu:
Svarta demantinum:
Íslenskum litteratúr:
Hundaklósetti:
Og Tívolí:
Kom heim í gærkvöldi með þeirri flugvél IcelandExpress sem ekki bilaði. Hins vegar varð tuðran mín eftir í Kaupmannahöfn og í þessum rituðu orðum er verið að keyra hana heim til mín með gömlu úlpunni og nýju pilsinu. Jájá, það er áhætta að leggja land undir fót, jájá.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 7. ágúst 2008
Hagvøxtur Danmerkur
Eg er a fullu ad stydja hann. Get vottad ad vedrid hefur verid betra en mun areidanlega leggja leid mina aftur i frabaeran gard i Elev.
Raeraerae.
Snakker umiddelbart god dansk nu for tiden .. ik'?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mánudagur, 4. ágúst 2008
Tekjur annarra
Á útgáfudegi var ég komin á fremsta hlunn með að kaupa blað Frjálsrar verslunar en þegar ég var búin að fletta nokkrum opnum áttaði ég mig á að ég væri ekki nógu forvitin um tekjur annarra til að bera þær upplýsingar heim.
Einhverjar rangfærslur hafa sannast á útgáfuna þannig að ekki veit ég hversu áreiðanlegar upplýsingarnar eru yfirleitt en aðallega fýsir mig ekki sérstaklega að vita um allar milljónatekjur fólks. Ef eitthvað væri vildi ég heldur skoða lægri endann og helst hjá raunverulegu lágtekjufólki. Er það ekki nokkuð sem við ættum frekar að líta til og þá þess hvernig fólk með lágmarkslaun kemst af í verðbólgunni?
Skattaeftirlitið ætti að skoða hvernig fólk með vinnukonuútsvar hefur efni á dýrum heimilum og ýmsum munaði. En svo mikið vald hef ég ekki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 3. ágúst 2008
Kría - dúfa - mávur - hæna - lundi
Stelpa fór á þjóðhátíð, tjaldaði og ætlaði að fá sér blund. Fyrst sendi hún systur sinni línu um að allt hefði gengið vel, þau væru búin að tjalda og ætluðu nú að fá sér kríu.
Systirin var ekki betur verseruð í móðurmálinu en svo að hún sendi systur sinni sms á móti með þeim góðviljuðu leiðbeiningum að í Vestmannaeyjum ætu menn lunda en ekki kríu.
Heyrði þessa skemmtilegu þjóðhátíðarsögu á Bylgjunni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 2. ágúst 2008
Allt í fína í Kína?
Vinkona mín skrapp til Kína í byrjun sumars og kom stútfull af sögum til baka. Meðal annars sagði hún okkur að Kínverjar sem eru þarna í skrilljónavís pissuðu ekki, umframvökvi gufaði bara upp. Þegar menn þyrftu hins vegar að losa sig við eitthvað í föstu formi færu þeir á hálfafvikinn stað og gerðu stykkin sín í sturtanlega holu, hins vegar færi sá pappír sem nauðsynlegur væri til verksins í aðra holu, fötu við hliðina sem ekkert lok væri á.
Svona verða menn að bera sig að í fjölmennum samfélögum.
Þegar hún rataði ekki - sem var alltaf nema þegar leiðin lá á námskeiðið sem var kynnt fyrir þeim hvar væri - reyndi hún að spyrja til vegar. Öll skilti voru á kínversku bara og Kínverjar tala litla útlensku. Vegna Ólympíuleikanna sem byrja í næstu viku var öllum hins vegar uppálagt að sýna einstaka kurteisi (a.m.k. út á við) og þess vegna þóttust viðmælendur skilja, kinkuðu kolli og sögu yes yes, bentu síðan bara eitthvað því að það er kurteisi að segja fólki til, alveg sama þótt rangt sé sagt til.
En hún kom aftur heil á húfi og varð ekki meint af volkinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 1. ágúst 2008
bilstjorar.is
Maggi Möller hélt að þeir Siggi Sigurðar færu þar inn ...
... en ég lofaði að hampa þeim einhvers staðar. Svo mega þeir mæta í sund hvenær sem er!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 31. júlí 2008
Einkarekstur strætós - væru það einstakar akstursleiðir, innheimta, ákvarðanir, útgáfa leiðabókar?
Mér finnst að notendur strætisvagnanna eigi ekki að borga beint fyrir einstök för frekar en bílnotendur borga fyrir einstakt slit, einstaka mengun, einstök slys á fólki. Skrefið sem hefur verið stigið með því að rukka strætónotendur á framhalds- og háskólastigi ekki við hverja inngöngu er frábært og til eftirbreytni. Tölfræðin sýnir að tilraunin gengur upp því að fólki hefur fjölgað í vögnunum. Að sama skapi er þá minna um að fólk keyri sjálft sig bæinn á enda með tilheyrandi sliti, mengun og slysahættu. Vonandi sér maður meira af þessu í náinni framtíð.
Einkarekstur getur vel átt við víða. Ríkið þarf ekki að selja þvottavélar, ferðatöskur, skáldsögur eða spjallþætti. En almannaþjónusta getur illa farið á markað. Ég hef svolítið velt fyrir mér hvaða hluti strætós gæti farið í einkarekstur. Ekki gengi að bjóða út leið 2 og leið 15. Einn aðili yrði að taka allar leiðirnar. Gengi að bjóða út gerð leiðabókar? Er peningalegur ávinningur í því að halda við strætóskýlum, gefa þeim nöfn og endurnýja skiltin? Hvernig ætlar einkaaðili að fjölga í vögnunum og fá inn á móti kostnaði - að því gefnu að aksturinn verði að fjármagna (að einhverju leyti) með fargjöldum? Mun gjaldið sveiflast með heimsmarkaðsverði á eldsneyti?
Mér finnst mjög erfitt að ramma inn þessa hugsun mína. Mér finnst mjög erfitt að sjá fyrir mér almannaþjónustu í einkarekstri. Getur það einhver?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 29. júlí 2008
Hallargarðurinn rokkar
Við sátum í síðdegissólinni í Hallargarðinum og krufum heimsmálin, Doha, flugvöllinn á Siglufirði, fasteignaverð, klósettin í Kína, Önnu Pihl, fjarstaddar vinkonur og þessa roknablíðu, yfir vínberjum, konfekttómötum og freyjunammi þegar lítill gutti tók á rás upp garðinn og gerði sig heimakominn hjá Ólöfu. Hann er greinilega alinn upp við mikla alúð og öryggi úr því að honum fannst svona sjálfsagt að setjast að hjá fjórum ókunnugum konum.
Og hér er þessi fríði söfnuður samankominn:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 27. júlí 2008
Uppáhaldssundlaugin mín
Laugardalslaugin er góð og hrein og snyrtileg og þokkalega staðsett. Það er lúxus að geta synt í 50 metra laug. Unaður. Farið svo í heitan pott og gufu. Hreinn og klár lúxus.
En ég skil ekki bröltið með innheimtuna. Í eina tíð gat ég keypt 30 miða kort sem hentaði mér vel. Nú hef ég bara val um staka miða, 10 miða kort eða árskort. Og það gefur augaleið að þrjú 10 miða kort eru dýrari en eitt 30 miða kort var.
Um síðustu helgi eða svo fékk ég miða þegar ég borgaði sem ég átti að skanna. Nú er það ekki lengur í gangi. Einu sinni átti maður að stinga pening í skáphurðina í búningsklefanum til að geta læst. Ef maður vildi opna skápinn aftur þurfti maður að fá nýjan pening. Það var leiðigjarnt en það kerfi var samt lengi við lýði. En sem betur fer ekki lengur.
Af hverju getur maður ekki keypt áfyllingarkort eins og símafyrirtækin eru með eða gatakort til að stimpla sjálfur eins og tíðkast á lestarstöðvum? Það er hrútleiðinlegt að standa í biðröð eftir að láta gata kortið sitt meðan fólk fyrir framan mann í röðinni er að velja sér sundgleraugu eða múffu. Svo vaktar það enginn þegar maður fer inn, maður gæti þess vegna svindlað. Ég vil hins vegar ekki ókeypis í sund (nema ákvörðun yrði tekin um það), ég vil borga sanngjarnt ofan í og ég vil helst ekki þurfa að bíða eftir þjónustu sem er engin umfram það sem maður getur sjálfur veitt sér.
Þetta var sunnudagsnöldrið.

Mynd tekin af netinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 25. júlí 2008
Nýtt hjól - frelsi til athafna
Hjólinu mínu var stolið í vor og í dag lét ég loks verða af því að kaupa nýtt hjól - samanbrjótanlegt!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 25. júlí 2008
Atrenna að þýðingum
Ég hitti Frakka sem ég þekki á Hakinu í gær. Hann var að þýða Karitas án titils yfir á frönsku og nú er hann að byrja á Exinni og jörðinni. Skiladagur í mars.
Ég spurði hvernig hann bæri sig að. Hann byrjar á því að lesa söguna - aftur og aftur, aftur og aftur, þangað til hann er næstum búinn að læra hana utan að. Svo byrjar hann að þýða.
Hann skaust einn hring sem leiðsögumaður og hafði svo gott upp úr því að hann réttlætir það að sitja við þýðingar allan veturinn. Svo illa eru bókmenntaþýðingar borgaðar.
Sem betur fer nýtur hann þess að þýða ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fimmtudagur, 24. júlí 2008
Dónaskapur í okkur leiðsögumönnum
Við leiðsögumenn vitum vel hversu fáránlega miklu máli getur skipt að fólk komist á prívatið. Rútubílstjórar eru ekki hrifnir af því að ferðamennirnir pissi í sætið, það hefur margkomið fram, og ég er ekki frá því að ég skilji það, hmmm. Þegar fólki er orðið mikið mál er því skítsama um Kerið, Dettifoss og Dyrhólaey - það vill bara postulínið.
Í bréfinu voru menn ekki beðnir að mæla skítinn, hvorki sinn eigin né ferðalanganna, heldur aðstöðuna. Er opið, er þrifið, er pappír, er vatn, heldur skúrinn vatni?
Bréfið frá formanni Félags leiðsögumanna var svona:
Ágæti leiðsögumaður
Ferðamálastjóri hefur óskað eftir samvinnu við Félag leiðsögumanna til að kortleggja ástand aðkomu og ástand mála á vinsælum viðkomustöðum ferðamanna.
Til að fá raunhæft mat á ástandinu óska ég eftir að leiðsögumenn meti ástand, þ.á m. á salernisaðstæðum, göngustíga og hreinlæti á viðkomustöðum sínum og skrái í meðfylgjandi dagbók fram til 15. september og sendi hana síðan til félagsins. Prentið út dagbókina og fyllið inn jafnóðum.
Ef leiðsögumenn vilja koma einhverju öðru á framfæri, bæði jákvæðu jafnt sem neikvæðu, óska ég eftir að þeir sendi það í sérstöku erindi til félagsins.
Við höfum líka verið beðin um að meta aðgengi fyrir hjólastóla. Við erum bóngott fólk og okkur langar að gera fólki lífið léttara. Meiri djöfuls dónaskapurinn, hmmmm.
![]() |
Skrásetja klósettferðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 24. júlí 2008
Náttúran lætur ekki að sér hæða
Vissulega vorkenni ég hrefnunni en svona er hin grimma náttúra. Ætli einhverjir útlendingar hóti núna að hætta við að koma hingað?
Ég hef frétt af útlendingahópum sem hættu við að koma hingað vegna jarðskjálftanna í lok maí. Í útlenskum miðlum var jarðskjálftunum lýst þannig að hús hefðu eyðilagst. Einhverjir hafa hætt við vegna fundinna og ófundinna ísbjarna. Skyldi nú framferði háhyrninganna verða til þess líka að menn sitji frekar heima en taki áhættuna á ævintýri?
Minni á að Árni Björnsson segir frá annars konar náttúruhamförum á Þingvöllum í kvöld.
![]() |
Hrefna barðist fyrir lífi sínu við hóp háhyrninga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 23. júlí 2008
Útsala eða ekki útsala, þar er efinn
Kunningjakona mín ein átti stórafmæli um daginn. Hún fékk men sem henni þótti of langt. Hálfum mánuði síðar fór hún í skartgripabúðina og vildi skipta 55 sm keðju í 50 sm keðju. Helst vildi hún fá muninn greiddan út en gerði sér grein fyrir að líklega þyrfti hún að fá innleggsnótu og halda áfram viðskiptum þarna.
En nei, ónei, hún átti að borga á milli! Og hvers vegna? Vegna þess að keðjan sem var keypt 25. júní kostaði þá 8.900 krónur en 15. júlí var búið að hækka hana í 13.400 - og reyndar var líka búið að hækka veðrið á styttri keðjunni. Afgreiðslumaðurinn ætlaði að taka seldu keðjuna til baka á gamla verðinu og selja henni þá styttri á nýja verðinu.
Skyldi hann þá líka hafa ætlað að selja þá stöku keðju sem hún skilaði á gamla verðinu?
Og ef þarna skyldi einhvern tímann verða útsala ætlar hann þá að taka seldu vörurnar til baka á gamla verðinu en ekki útsöluverðinu?
Ég er nefnilega búin að fá augastað á hjóli ... í allt annarri búð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þriðjudagur, 22. júlí 2008
Söngfuglinn Meryl Streep
Mikið óskaplega er auðvelt að skemmta mér. Ég hló og hló á myndinni Mamma mia í dag, svo mikið raunar að ég held að mamma sem ég fór með í bíó til að skemmta fylgdist næstum meira með mér en Meryl Streep sem er þó í miklu uppáhaldi hjá henni.
Meryl var eins og spriklandi unglingur og vinkonur hennar sem mættu í brúðkaup dótturinnar drógu heldur ekki af sér í fíflalátunum. Pierce Brosnan sem er tómt útlit getur heldur ekki sungið. Mér leiddist það ekki. Colin Firth fríkkar með hverri myndinni og reyndi ekki að syngja.
Skemmtilegust fannst mér Julie Walters sem er heilt litaspjald af svipbrigðum.
Ég trúi auðvitað ekki á söguþráðinn og hef almennt ekki gaman af söngvamyndum en mikið var samt hollt að hlæja í rigningunni.
Fyrir plötuna (eins og Mattinn segir) kostar 1.000 krónur í Laugarásbíó. Auðvitað hefðum við átt að fara í Regnbogann sem rukkar 650 krónur en ég hélt að ég gæti platað mömmu til að labba í þetta bíó.
Og svo .. neyðist ég líka til að sjá Ferðina inn að miðju jarðar af því að Stína leikur í henni! Þrjár myndir á einu ári, þetta er engin hemja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 22. júlí 2008
Gjaldtaka stendur fyrst og fremst undir sjálfri sér í ferðaþjónustu
Hvernig á að rukka inn í Skaftafell? Hvað eigum við að hafa margar stöðvar? Á að vera sólarhringsvakt? Hvar á girðingin að enda? Spillir hún útsýninu og upplifuninni?
Mývatn?
Hvítserkur?
Vatnsdalshólarnir?
Borgarvirki? Gerðuberg? Faxi? Kirkjugólf? Fjaðrárgljúfur?
Ó, eða er kannski meiningin að velja fyrst og fremst þá staði sem nú eru vinsælir meðal fjöldans og stýra þannig fólki á hina staðina? Kannski gæti það lukkast.
Ég held bara að gjaldtaka á staðnum sé fyrst og fremst til þess fallin að standa undir gjaldtökunni sjálfri. Starfsmennirnir munu sum tímabil sitja yfir sjálfum sér, skilyrðislaust ef meiningin væri að vera með heilsársrukkun.
En sennilega dettur þetta engum í hug í alvöru. Sennilega eru menn að tala um að setja gjald inn í seldar ferðir, gistinætur eða flugfarseðla. Hvernig væri að prófa bauka og höfða til skilnings og skynsemi?
Og hvernig væri að koma Vestfjörðunum á kortið? Þar er vannýtt auðlind.
![]() |
Segir gjaldtöku koma til greina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 20. júlí 2008
sundlaugar.is
Sund hlýtur að vera vinsælasta íþróttin á Íslandi. Að vonum. Ég þekki bara eina manneskju sem fer ógjarnan í sund og hún er stútfull af hestamennsku. Við höfum engar strendur en eigum hins vegar hitaveituvatn sem vegur upp á móti. Sund er dásemd á sumrin í góðu veðri og líka í ofankomu á veturna. Hvað getur verið betra en að tipla yfir nýfallinn snjóinn, sjá gufuna stíga upp af yfirborðinu og stinga sér út í undir flóðljósum?
Prrr. Mesta dekur.
Nú er útlenskur námsmaður á Íslandi búinn að taka saman ýmsar upplýsingar um íslenskar sundlaugar. Spennandi. Ég var aðeins að fletta og sá að sundlaugin í Stykkishólmi fær hæstu meðaleinkunn. Ég hef synt þar og held að mér finnist hún ekki betri en Laugardalslaugin. Hvað besta minningu á ég þó frá Dalvík þar sem ég var einu sinni á frábærum sumardegi og útvarpið var á. Það þótti mér kósí.
En mér finnst athyglisvert með Stykkishólm að laugin þar er opin lengi sem er frábært, ferðamenn koma oft ekki fyrr en undir kvöldmat, og verðið er svipað og í Reykjavík. Flestar laugar utan höfuðborgarsvæðisins hafa rukkað meira en Laugardalslaugin. En þá má rifja upp að 1. janúar 2007 lét þáverandi borgarstjóri hækka aðgangseyrinn VEGNA ÞESS AÐ ÚTLENDINGUM ÞÆTTI SVO HLÆGILEGA ÓDÝRT Í SUND. Og í Stykkishólmi er hægt að kaupa 30 miða kort sem er ekki lengur hægt í Reykjavík - með engum rökum.
En ég á margar sundlaugar eftir, það er augljóst mál.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)