Föstudagur, 13. ágúst 2021
Ég nota ekki reiðhjólahjálm
Þegar ég hjólaði mjög dömulega í kjól og án yfirhafnar upp Frakkastíginn á leið heim úr vinnu í dag mætti ég stútungskalli um fertugt sem læddi út úr sér um leið og við mættumst: Þú manst hjálminn næst.
Svo fór hvort sína leið og sjálfsagt hugsaði hvort sitt. Ég hugsaði:
Ég hef 40 ára reynslu af að hjóla í umferðinni. Hjálmar voru ekki almennir þegar ég var barn og unglingur. Ég hef áreiðanlega einhvern tímann dottið um dagana en ég hef aldrei slasast. Ég hjóla einhverja kílómetra á næstum hverjum degi en almennt ekki á stofnbrautum og einfaldlega aldrei of hratt.
Í umferðarlögum segir í 1. mgr. 79. gr.:
79. gr. Öryggis- og verndarbúnaður óvarinna vegfarenda.
Barn yngra en 16 ára skal nota reiðhjólahjálm við hjólreiðar.
Ég er eldri en 16 ára og mér ber ekki skylda til að nota reiðhjólahjálm við hjólreiðar.
Margt annað í lífinu er áhættusamt en ég myndi aldrei segja við nokkurn mann, síst bláókunnugan: Þú manst að reykja ekki þessa sígarettu næst. Ekki klára súkkulaðið. Slepptu bjórnum. Leiktu við barnið þitt frekar en að segja því að láta þig í friði. Taktu meiri þátt í heimilisverkunum.
Af hverju finnst ókunnugu fólki í lagi að vanda um við ókunnugt fólk sem er ekki einu sinni að brjóta af sér?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 10. ágúst 2021
Covid-kvíði?
Ég hef það fyrir satt að fjölmiðlar á t.d. Spáni séu ekki með Covid-fréttir fremstar í öllum fréttatímum. Getur verið að þessi sífelldi fréttaflutningur hér auki á kvíðann hjá þessum fjórðungi sem er illa haldinn? Ég er óttalegur fréttasjúklingur en ég er næstum farin að kveikja á fréttunum löngu eftir að þær byrja, þetta eru svo miklar endurtekningar.
Þegar ég var að alast upp voru alltaf aflatölur fyrsta frétt. Er þetta tilhneiging til einsleitni? Ég er bara að velta þessu fyrir mér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 9. ágúst 2021
Skrattakollurinn
Fyrir allmörgum árum var mér kynnt regla sem hljóðaði nokkurn veginn svona: Maður sendir ekki í tölvupósti annað en það sem má rata á forsíðu DV.
Ég hlustaði á Vikulokin á laugardaginn og Stefán Hrafn Hagalín, deildarstjóri samskiptadeildar Landspítalans, kom ljómandi vel fyrir. Sigmundur Ernir Rúnarsson, nýráðinn ritsjóri Fréttablaðsins, komst líka vel frá orðahnippingum þeirra tveggja. Það er nefnilega hægt að leggja fram andstæð rök og sjá báðar hliðar.
Ég hefði ALDREI skrifað, hvorki seint né snemma dags, 200-300 manns sem ég þekki misvel tölvupóst þar sem ég gæfi heilli starfsstétt viðurnefni, alveg sama þótt það sé krúttlegt í einhverju samhengi. Ég ætlaði ekkert að hugsa upphátt um þetta upphlaup síðustu viku en nú las ég þráð á Facebook þar sem flestir lýsa yfir ánægju sinni með skrattakolla.
Samkvæmt Snöru er skrattakollur hnjóðsyrði og orð svipaðrar merkingar sem eru gefin upp eru: þrjótur, djöflakollur, djöflamergur, skarfur, skelmir, strákskratti. Snara gefur ekki upp krútt en ég skil alveg að margir málnotendur geti hugsað sér að nota það í góðlátlegri merkingu, sbr. ömmuna sem kallaði barnabarnið litlaskít og allir, eða margir, vöndust því sem gæluyrði.
Ég er hins vegar sammála þessum ummælum á þræðinum:
PS - sé við lestur hér fyrir ofan að fólki finnst þetta "krúttlegt" orð og jafnvel prakkaralegt - held ekki að fólk taki að sér störf blaða- og fréttamanna til að vera "krúttlegt" eða ætlist eða langi til að litið sé á það sem prakkara.
Og:
Ritaður texti svo engin leið að vita hver hugur býr að baki. Í talmáli ræðst það af tóni og tjáningu eins og við vitum öll.
Ég er innilega sammála þessum tveimur.
Fyrir hálftíma bættust svo við frekari rök gegn því að kalla fólk skrattakolla.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 9. ágúst 2021
Aðskilnaðarkvíði vegna Ólympíuleikanna
Nú eru þeir búnir! Næstu sumar-Ólympíuleikar verða í London eftir þrjú ár og ég efast stórkostlega um að ég fylgist með þeim þá, en djö sem þessir leikar hittu í mark hjá mér. Ingólfur Hannesson sagði líka í síðasta samantektarþættinum að þessir leikar hefðu verið óvenjulega góðir og hann ætti að vita það.
Þegar ég skoða nálægustu fortíð sé ég að yfirleitt hef ég verið á fjöllum á þessum tíma árs, þ.e. þegar Ólympíuleikarnir eru, og ef allt fer að óskum verð ég sjónvarpslaus sumarið 2024 ... nema náttúrlega nú er sjónvarpið í símanum sem er alltaf meðferðis.
Nú byrjar nýr kafli í lífsbókinni og ég er þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar með hroll við tilhugsunina um að leikunum sé lokið. Toppurinn á toppnum var maraþonhlaup sem Arnar Pétursson og Snorri Björnsson lýstu af miklum myndugleik um helgina. Ég hef hlaupið heilt maraþon en ég lærði helling af því að fylgjast með í tvo tíma.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. ágúst 2021
Sjóböð
Ég er búin að synda í sjónum í Nauthólsvík frá 2014. Fyrstu árin synti ég sjaldan og stutt og aðeins á sumrin. Nú um hríð hef ég líka stundað þessa iðju á veturna, og á sumrin er ég farin að vera góðan hálftíma dag eftir dag.
Allt í einu tók ég eftir því í vikunni að exem á olnbogunum er eiginlega horfið! Sjóböðin hafa sum sé líkamlega bætandi áhrif, en hingað til hef ég bara tekið eftir gleðinni sem fylginni þeim.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Google á Twitter
Nú er tjáningarþörfin alveg að gera út af við mig. Ég las frétt á RÚV í dag með skrýtinni fyrirsögn. Ég sé oft svona beitur á öðrum miðlum en mér finnst minna um þær á RÚV. Ég tók skjáskot og lagði það frá mér á Twitter sem bauð upp á Google-þýðingu.
Ég skrifaði: Ferlega finnst mér þetta sérkennileg fyrirsögn.
Google þýddi: I really like this peculiar headline.
Þá sjaldan ég legg eitthvað frá mér á Twitter fer það framhjá öllum en nú fékk ég eitt læk frá útlendingi. Ég skil ekki þessa atburðarás ... og er mætt á bloggið að undra mig.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 2. ágúst 2021
Týr og Gísli Marteinn
Ég hnaut um pistil hins nafnlausa Týs um meintar skoðanir Gísla Marteins Baldurssonar. Ég man að Gísli Marteinn var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en hann talar fyrir bættum almenningssamgöngum og það höfðar til mín. Týr nýtir ekki vefmiðilinn til að vísa í hin meintu vondu og meiðandi ummæli Gísla Marteins og felur sjálfa/n sig að auki á bak við nafnleysi.
Á Viðskiptablaðinu starfar líka hinn nafnlausi Óðinn sem hefur talað Kristrúnu Frostadóttur niður fyrir það að vera kona. Nú er ég að leggja út af skrifum sem ég hef lesið en ég vísa þó í þau.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 31. júlí 2021
Ólympíuleikarnir: klæðaburður/hárgreiðsla með meiru
Ég hef ekki verið dyggur áhorfandi Ólympíuleika eða stórra íþróttamóta í gegnum tíðina. Ég man aðallega þegar Sergei Bubka stökk hærra og hærra á níunda áratugnum og smávegis eftir Carl Lewis, kannski af því að pabbi fylgdist vel með, sá gamli glímukappi.
En ég man þegar Jón Arnar Magnússon málaði skeggið á sér í fánalitunum. Ég þurfti reyndar að fletta upp að það hefði verið 1996. Núna er ég búin að horfa frekar mikið á Ólympíuleikana, þá fyrstu eftir að pabbi dó, og ég tek eftir tvennu sem mér finnst hafa breyst: hárið á glettilega mörgum keppendum er úti um allt og sumt í dreddum þótt það sé svo sem ekki í neinum fánalitum og kúluvarparar/kringlukastarar eru ekki eins miklir beljakar og mér finnst þau hafa verið. Já, og núna meðan ég er að fylgjast með spretthlaupi kvenna sé ég að töluvert margar eru húðflúraðar.
Ég byrjaði í hlaupahóp fyrir sjö árum og hef nú mætt í fleiri keppnishlaup en öll árin þar á undan. Keppnisnúmerin þykja mér óþægileg, fest með fjórum nælum framan á bolinn og vindurinn rífur í þau. Þess vegna finnst mér skrýtið að sjá að í Tókíó eru númerin og nöfnin fest svona lauslega á keppendur.
Að lokum: Ég heyrði Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson fallbeygja Kanada eins og kvenkyns væri og verð að segja að lýsingarnar bæta óendanlega miklu við áhorfið. Hreinasta skemmtiefni ... og kveikið núna ef þið eruð ekki búin að því!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 29. júlí 2021
Refurinn eftir Sólveigu Pálsdóttur
Um daginn las ég Klettaborgina (2020) og varð nógu forvitin um skáldsögur Sólveigar til að taka Refinn (2017) með mér heim af bókasafninu. Ég veit að ein aðalpersónan, Guðgeir, hefur áður komið við sögu í bókum hennar þannig að ég varð aðeins að geta í eyðurnar sem er bara fínt. Mér fannst sagan mjög spennandi fram undir lokin sem ollu mér hins vegar ferlegum vonbrigðum.
Sajee hefur verið afvegaleidd og er allt í einu lent á Höfn í Hornafirði. Hún þiggur meint góðverk og er lengi að bíta úr nálinni með það. Hún er ekki aðeins útlensk heldur með sérkenni sem vekur óhjákvæmilega athygli á henni.
Mér finnst Sajee gerð ágæt skil nema í öðru orðinu er hún greinilega mjög vel gefin og í hinu orðinu halda hin klóku mæðgin í Bröttuskriðum að Sajee sé heimsk. Smágalli þar í persónusköpuninni. Sagan var samt svakalega spennandi þangað til hún leysist upp í lokin. Já, og bókinni hefði ekki veitt af einum prófarkalestri í lokin til að hreinsa burtu klaufavillur (sjá mynd af einni af of mörgum hvimleiðum smávillum). Ég hef því miður orðið vör við þessa handvömm hjá Sölku; of margar villur rýra lestrargæðin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 28. júlí 2021
Það að hætta keppni
Nú hefur Simone Biles gefið það út að hún keppi ekki meira á Ólympíuleikunum. Ég get ímyndað mér hvers konar átak það hefur verið fyrir keppnismanneskju að gefa frá sér möguleikann á að fylgja eftir glæstum sigrum fyrri ára og ef ég hefði ekki átt viðtal um málefnið í fyrravetur við félagsfræðing sem er að gera rannsókn á álagi afreksíþróttakvenna hefði ég komið meira af fjöllum en ég geri.
Þegar íþróttakonur (ég útiloka ekki að það eigi við um karla en rannsókn Önnu Soffíu er um konur og þar gilda önnur lögmál en um karla þrátt fyrir allt) skara fram úr verða kröfurnar nánast ómanneskjulegar og þær fara að treysta um of á þjálfarann sem rannsóknir sýna nú fram á að gera sumir mun meiri kröfur en hægt er að standa undir. Ég veit ekki hvað nákvæmlega gerðist með Simone Biles en ég fagna því að íþróttasambandið hennar styður ákvörðun hennar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. júlí 2021
Leikarinn í Hinum ósnertanlegu
Í gærkvöldi var sýnd á RÚV alveg frábærlega skemmtileg frönsk bíómynd. Það er auðvitað mitt mat en ekki heilagur sannleikur, eins og gefur að skilja. Hvernig elur maður upp barn? Hvernig elur maður upp barn ef maður lítur á sig sjálfan sem stórt og óábyrgt barn? Hvernig axlar maður ábyrgð á barni ef maður fær það þriggja mánaða gamalt í fangið og vissi ekki áður af tilvist þess?
Ekkert eitt rétt svar er við þessari spurningu en týpan í myndinni fer eina leið og um leið rifjast upp leikarinn úr Hinum ósnertanlegu sem gladdi mig alveg takmarkalaust í fullu Laugarásbíói um árið og svo aftur í sjónvarpinu einhverjum árum síðar. Gleðin sem leikarinn Omar Sy býr yfir í miklum mæli er smitandi.
Ég mæli augljóslega með myndinni sem er í sarpi RÚV í einn mánuð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. júlí 2021
200 manns að hámarki, börum lokað kl. 24 og 1 metri á milli manna
Það er eins og ríkisstjórnin hafi bara haft mig persónulega í huga þegar hún setti nýju reglurnar. Ég vil fækka smitum en halda efnahagslífinu gangandi. Helst af öllu vil ég svo að börn, unglingar og ungmenni sem eru á félagsmótandi stað í lífinu fái þau lífsgæði sem ég fékk á þeirra aldri.
Og ég hef það sjálf alveg ákaflega gott þrátt fyrir þessar hertu reglur.
Ég sé reyndar ekkert um grímuskyldu. Hún plagar mig mest en ég mun að sjálfsögðu grímuvæðast ef ríkisstjórnin vill.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 22. júlí 2021
Atlantsolía
Ég fór á bíl úr bænum. Ég skoðaði ekki stöðvakort Atlantsolíu áður en ég fór af stað en komst að því í ferðinni að Atlantsolía selur ekki bensín á Vestfjörðum. Já, reyndar selur Atlantsolía bara bensín á stórhöfuðborgarsvæðinu, í Stykkishólmi, á Akureyri og á Egilsstöðum. Er það ekki dálítið slöpp samkeppni? Lykillinn frá Atlantsolíu fleytir manni bara hálfa leið fyrir vikið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 15. júlí 2021
Nöfnin á stoppistöðvum Strætós
Ég held að það geti verið góð hugmynd að skipta um nöfn á stoppistöðvunum, t.d. að breyta Langholtsvegi/Holtavegi í Langholtsskóla sem er skýrt kennileiti en sem enginn hagsmunaaðili græðir sérstaklega á, svo sem eins og hægt væri að túlka ef maður veldi að skrifa nafnið á sjoppunni sem er á næsta horni við.
Fyrir mörgum árum sendi ég hins vegar einum borgarfulltrúa hugmynd sem mér finnst enn fantagóð, sem sagt að hafa númer vagnanna sem stoppa á hverri stoppistöð mjög stór þannig að bílstjórar sem keyra framhjá sömu stoppistöðinni tvisvar á dag eða oftar meðtaki smátt og smátt þær leiðir sem liggja um hverfin sem þeir keyra. Þá er ég að meina fólkið í einkabílunum sínum. Þegar ég hjóla framhjá strætóskýlunum reyni ég stundum að sjá á ferð hvaða vagnar stoppa hvar en það er ekki séns. Ég er enn þeirrar skoðunar að ef fólk sæi að t.d. leið 13 stoppi bæði fyrir utan heimilið og vinnustaðinn geti það orðið til þess að viðkomandi fari að nota almenningssamgöngur.
Fullmikil bjartsýni?
Borgarfulltrúinn svaraði mér og fannst hugmyndin góð (í svarinu) en ekkert hefur þokast í þessa átt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 14. júlí 2021
RÚV stendur sig
Ég kláraði í gær hina æsispennandi sænsku spennuþáttaröð Snjóenglar. Ekkert er þar ofsagt og áhorfendum eftirlátið að reyna sig við raunhæft verkefni. Var glæpur framinn? Virkar kerfið eða er kerfið stofnun í sjálfu sér og fyrir sjálft sig? Skiptir ásýndin meira máli en að rétta fólki í neyð hjálparhönd ef það kostar að fara ögn á svig við ströngustu reglur?
Endirinn kom á óvart. Mæli með þáttunum, þótt ekki væri fyrir annað en hið undursamlega tungumál. Svo er stórkostlegur kostur að hafa ekki séð leikarana í annarri hverri mynd síðustu 30 árin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 13. júlí 2021
Stafsetningarvilla kom löggunni á sporið
Ég er að tala um Skylduverk, írsku þættina sem eru sýndir á RÚV. Ég er búin með alla þáttaröðina og málfræðinördinn í mér fagnaði innilega þegar definately varð glæpamanninum að falli.
Ég mæli innilega með þáttunum fyrir þá sem njóta þess að sjá spillinguna hrynja og hlusta á hina dásamlegu írsku í leiðinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 12. júlí 2021
Fákeppni á bankamarkaði
Húsnæðisvextir lækkuðu (í fyrra?) og íbúðir seldust eins og enginn væri morgundagurinn. Um daginn var tilkynnt um hækkun vaxta. Skaðinn var skeður og nú situr fólk sjálfsagt uppi með miklar skuldir og hærri vexti en það taldi að það þyrfti að borga í mörg ár.
Ég er ekki ánægð með bankann minn og hugsaði mér að flytja mig yfir í Landsbankann. Ég lagði milljón inn á læstan reikning fyrir þremur mánuðum. Ég er 95% viss um að vextirnir áttu að vera 1%. Eftir tvo mánuði gáði ég á reikninginn og sá að ekki hafði króna uppfærst, eins og gerist þó í aðalviðskiptabanka mínum.
Ég sagði reikningnum upp og upphæðin átti að losna á föstudaginn var. Hún gerði það og var flutt á hinn reikninginn í þeim banka. Engir vextir. Í þrjá mánuði kom ekki króna í vexti. Ég fór því í hádeginu og spurðist fyrir. Já, þá liggur þannig í því að vextirnir eru uppfærðir í lok árs eða ef reikningurinn er eyðilagður.
Ég bað starfsmanninn að eyðileggja reikninginn og nú var ég að gá að fúlgunum. Ein milljón varð á þremur mánuðum að 1.000.972 kr. Ég fékk 972 kr. í vexti á þremur mánuðum. Ein milljón hefði þá gefið af sér 3.888 kr. á heilu ári.
Er þetta í einhverju samhengi við upphæðina sem lántakendur borga af milljón á einu ári?
Ég halla mér þá að Auði sem hefur staðið við 1% vexti og peningurinn er alltaf laus.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. júlí 2021
Rafrænar orðabækur
Þykkt rafrænna orðabóka skiptir nú eiginlega engu máli.
Ég var að lesa um sjálfboðaliðastarf manna sem ætla að ögra Snöru og bæta hana í leiðinni. Ég nota Snöru en skil ekki - ég skil alls ekki - af hverju hún er ekki ókeypis og aðgengileg öllum.
Við hömumst við að tala um að við þurfum að standa vörð um móðurmálið en reynum svo að fella fólk sem leitar að leið að markinu.
Og eins og einhver sagði er líka hægur leikur að hafa ítarlegar skýringar á netinu, það er ekkert að fyllast þannig að við höfum einmitt pláss þar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. júlí 2021
Stytting vinnuvikunnar nauðsynleg
Í mörg ár hef ég talað um að í sérhæfðum skrifstofustörfum sé leikur einn að stytta vinnuvikuna í krafti tækniframfara. Ég man að vísu ekki eftir að hafa verið í skóla á laugardögum en ég þykist muna að bankar hafi haft opið til hádegis á laugardögum. Nú förum við bara sjálf í heimabankann hvenær sem okkur þóknast.
Vinnuvikan var stytt úr 44 í 40 stundir árið 1972. Í millitíðinni hefur internetið komið til skjalanna sem þýðir að ýmis verk vinnast til muna hraðar en áður. Ég man þegar ég lærði að hengja skjal við tölvupóst og ég fann strax hvað það sparaði mér mikinn tíma. Þegar ég vann hjá Alþingi innleiddum við talgreini sem forskrifar ræður þingmanna. Það sparar ótrúlegan helling af tíma.
En mörg störf fela í sér sterka viðveru, alls kyns störf á spítölum og við umönnun. Og lögreglan er líka í bindandi starfi. Þegar vinnuvika lögreglumanna er stytt þarf að ráða nýjan mannskap til að fylla mönnunargatið.
Í vor var blásið í lúðra og tilkynnt um tilurð 7.000 nýrra starfa. Ég veit að ekki getur hver sem er orðið lögreglumaður en væri ekki nær að mennta fólk til lögreglustarfa og ráða það fólk svo í þau störf sem þarf að manna frekar en að búa til einhverjar holur fyrir fólk á söfnum sem þurfa ekki að ráða fólk?
Vinsamlegast.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 5. júlí 2021
Þolandi og gerandi
Ég er enginn sérstakur þolandi og ég vona að ég sé ekki gerandi. Ég er vel miðaldra og hef komist klakklaust frá ágjöf lífsins. Þessi pæling mín kviknar auðvitað í kjölfar umræðu um brekkusönginn í Eyjum.
En þótt ég sé ljónheppin á ég samt bróður sem kom illa fram við mig og okkur flest í fjölskyldunni. Ég bloggaði nokkrum sinnum um hann og fannst það óþægilegt í hvert skipti af því að það er aldrei hægt að segja alla söguna og líka af því að á einhvern undarlegan hátt finnur maður alltaf sök hjá sjálfum sér líka.
Af hverju lánaði ég bróður mínum SJÖ MILLJÓNIR KRÓNA? En þótt ég hafi verið of greiðvikin við hann á ég ekki sök á því að hann ætlar að stela af mér peningunum sem ég lánaði honum.
Já við láni var ekki já við gjöf eða ráni. Yfirfærið að vild á aðra misnotkun.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)