Getur tannheilsa valdið heilabilun?

Ég veit ekki hvort ég heyrði skakkt í morgun en hafi ég heyrt rétt getur röng og léleg tannhirða valdið meiru en tannmissi, hún getur valdið alls kyns heilasköðum og á Alþingi í dag var hálft um hálft tekið undir það.

En af hverju er svona dýrt að fara til tannlæknis? Skattborgarar borga menntun tannlækna sem læra í HÍ og ég sé ekki eftir því frekar en öðru samfélagslegu, en ættum við þá ekki að njóta þess í minni kostnaði?

Ég hef heyrt að það kosti 8 milljónir að mennta einn tannlækni. Af hverju borga tannlæknanemar bara hóflega fyrir sína skólagöngu, 75.000 á ári, en listnemar allt að 1 milljón á ári? Og það er ekki eins og listnemar sem útskrifast geti gengið að vinnu vísri en samt viljum við að listir og menning auðgi anda okkar og gefi lífinu fyllingu og lit.


Gert að hætta vegna aldurs?

Ég var að lesa héraðsdóm þar sem sjötug kona kærir skólastjóra fyrir að víkja sér úr starfi vegna aldurs. Ég las dóminn ekki frá orði til orðs en það sem mér finnst sláandi er að kennarinn stefnir að vísu sveitarfélaginu en virðist eiga sökótt við skólastjórann. Er reglan ekki ófrávíkjanlega sú að fólk hættir í ráðningarsambandi í síðasta lagi í lok þess mánaðar þegar það verður sjötugt? 

Ég hef mikinn skilning á því að fólk vilji halda áfram í vinnu þótt það nái aldursáfanga, ekki síst ef lífeyristekjurnar hrökkva skammt, en í þessu tilfelli þyrfti annað hvort að breyta lögum eða hún hefði getað verið verkefnaráðin. Vildi skólastjórinn það þá ekki? 

Á bls. 13 stendur:

Í einhverjum tilvikum hafa starfsmenn eldri en 70 ára verið ráðnir tímabundið í verkefni hjá Breiðholtsskóla, s.s. afleysingar ef illa gengur að ráða starfsfólk í forföllum. Í slíkum tilvikum er um nýtt starfssamband að ræða á öðrum grundvelli. Ekki er um það að ræða að viðkomandi hafi þannig haldið fyrra starfi sínu óbreyttu þrátt fyrir að hafa náð hámarksaldri. Þau tilvik eru þar af leiðandi ekki samanburðarhæf við aðstæður stefnanda.
 
Hefði þá skólastjórinn haft einhver úrræði ef bæði hefðu verið sammála um verkefna- og lausráðningu?
 
Hvað sem öðru líður er tímabært að ræða af mikilli alvöru 1) almenna styttingu vinnuvikunnar, 2) breytileg starfslok hjá hinu opinbera.

Ein setning sem ég segi aldrei

Setningin er: „Ég hef ekki tíma til þess.“

Auðvitað getur komið fyrir að maður hafi ekki tíma til að 1) tala í símann, 2) sækja einhvern, 3) lesa eitthvað, 4) fara í búðina, 5) elda steik – fyrir einhvern ákveðinn tíma. Einhverjir klukkutímar eru ásetnir, einhverjir dagar, maður er ekki í bænum eða maður er algjörlega upptekinn við eitthvað – í einhvern tíma.

En ég hef tíma til að fara í leikhús, lesa bók, stunda hugleiðslu, ganga á fjöll, ala upp barn, fara í nám, vera í vinnu eða taka til – ef ég er með einhvern hvata. Þetta er allt spurning um forgangsröðun og val.

Ég var að velta fyrir mér hvort ég hefði tíma til að einhenda mér í pólitík á næsta kjörtímabili ...


Netpartar og Terra

Ég fylgdist með þegar umhverfisverðlaun SA voru afhent í morgun. Umhverfið er einhver dýrmætasta eign okkar og brýnt að fara vel með það. Þess vegna vekur það furðu mína að sjá ekki í neinum fjölmiðli umfjöllun um Netparta og Terra eftir daginn. Ég þykist eitthvað vita um Terra (nei, ég er ekki að vinna þar) en viðtalið við Aðalheiði Jacobsen hjá Netpörtum var aldeilis stórkostlegt og um hana vissi ég ekkert. Þvílík framsýni, þvílíkur frumkvöðull.

Einkennisorð fyrirtækisins eru 

Minni sóunMinni urðunBetra umhverfi

og ég er viss um að nettröllið Vagn sem er aftur farið að gera ómálefnalegar athugasemdir við færslur hjá mér getur ekkert haft á móti því.


Ný stjórnarskrá

Ég er þakklát fyrir fjölmiðla. Ég man að fyrir mörgum árum, ég get nefnt árið 2008, talaði fólk um að fjölmiðlar segðu svo lítið og að bloggið segði meira. Þá voru vissulega öflugir og víðlesnir bloggarar sem stungu á kýlum og sögðu það sem stofnanir gátu ekki leyft sér með góðu móti af því að það vantaði herslumuninn í heimildum.

Núna volgnar sem sagt í mér hjartað þegar ég les á RÚVVísi og Mbl um þöggunartilburði einhverra þegar stór hópur langþreyttra biður um efnislega umræðu um ákvæði í nýrri stjórnarskrá. Ég sé komment frá nokkrum sem tala um að nýja stjórnarskráin sé ekki stjórnarskrá heldur drög að stjórnarskrá. Já, þau hafa ekki verið samþykkt og þau eru ekki fullkomin frá mínum bæjardyrum séð en þau eru útgangspunktur. Ég vil að fiskurinn í sjónum sé ekki séreign neins heldur sameign þjóðarinnar, ég vil líka að jöklarnir, fjöllin og jarðhitinn séu sameign, ég vil persónukjör, ég vil jafnt vægi atkvæða og ég vil aðskilnað ríkis og kirkju. En ég sætti mig við að fá ekki allt og fyrst og fremst vil ég málefnalega og heiðarlega umræðu þar sem hagsmunaaðilar sleppa takinu af meintri séreign sinni.

„Hvar er nýja stjórnarskráin?“ vísar í mínum huga í nýja stjórnarskrá, ekki endilega drögin óbreytt. Forsætisráðherra segist vilja fá efnisumræðu um málið. Hvað er þá í veginum?


Tvö ár og níu mánuðir

Í dag eru í alvörunni tvö ár og níu mánuðir síðan mamma dó. Alveg óskiljanlegt. Grátlegt og næstum ófyrirgefanlegt. Fólk heldur kannski að það sé auðveldara að kveðja ástvini sína þegar þeir hafa náð háum aldri. Það er ekki auðvelt. Ég þakka fyrir að hafa ekki þurft að fylgja neinum bráðungum en það var samt erfitt að sjá á bak mömmu níræðri. Og ef mamma hefði náð pabba í aldri ætti hún enn fimm ár eftir. Ég sakna hennar sárt og allra prakkarastrikanna sem við áttum eftir að fremja saman.

Það sem ég hugga mig við er að við vorum góðar vinkonur og að ég hef ástæðu til að sakna hennar alla daga.

við mamma bleika 2016


Líka og sömuleiðis?

Ég er í námi þar sem tungumálið kemur mikið við sögu og sé þar athugasemdir um að líka og sömuleiðis þyki talmálslegt orðalag, frekar ætti að nota orðið einnig í formlegu ritmáli. Ég kem alveg af fjöllum. Hvorugt orðið truflar mig á prenti og er ég þó bæði frekar gagnrýnin og búin að grúska mikið í muninum á talmáli og ritmáli.

Hefur lesandi minn skoðun á þessu?


*Landhelgigæslan

Flestir málfræðingar sem ég þekki eru umburðarlyndari gagnvart alls konar í tungumálinu en þeir sem eru ekki málfræðingar. Margir þeirra sem lyfta fingrum hvað óðast til að benda og gagnrýna orðfæri kunna ekki viðurkenndan málstaðal, þekkja ekki fjölbreytileikann og virða ekki hefðina heldur halla sér að einhverju sem þeir halda að sér „rétt“. Og hvað er rétt? Það sem fólk hefur alist upp við og því er tamt er ekki vitlaust, það er bara ekki í samræmi við almennan málstaðal. Hvenær verður orðið „rétt“ að segja: *mig hlakkar? Það getur orðið áður en ég verð öll, rétt eins og einu sinni var „rétt“ að segja læknirar í nf. ft. en nú er rétt skv. málstaðli að segja læknar.

Ég hef oft heyrt fólk segja af mikilli vandvirkni athyglivert, sjálfsagt af því að athygli er kvenkyns og tekur ekki eignarfalls-s nema við þessa tengingu. Skyldi það fólk líka tala um *Landhelgigæsluna?

Sýnum umburðarlyndi. Vöndum okkur sjálf en dæmum ekki. Ef við fettum of mikið fingur út í meintar málvillur missum við yngstu kynslóðina úr íslenskri málnotkun af nokkurri tegund og yfir í það sem henni finnst einfaldara, enskuna.

 


Kappræður varaforsetaefnanna

Ég sofnaði tvisvar yfir kappræðunum í gærkvöldi. Já, þær voru náttúrlega seint á dagskrá en þegar Kamala Harris var spurð í blábyrjun hvernig ætti að bregðast við heimsfaraldrinum úthúðaði hún þeim aðgerðum sem hefði verið farið í eða ekki farið í nú þegar. Ég held að við séum mörg sammála um að Trump kunni sig ekki og ég held líka að flestir áhorfendur hafi vitað að varaforsetaefni andstæðings Trumps kunni ekki að meta hann þannig að ég hefði viljað sjá uppbyggilegt svar.

En kannski er ég bara ekki nógu góð í ensku ... eða kannski geri ég þriðju tilraunina í kvöld. 


Svínshöfuðið

Nú er ég búin að lesa Svínshöfuð og skil ekki alla hrifninguna sem ég hef lesið um. Væntingar skipta alltaf máli en mér finnst sagan detta of mikið í sundur. Ég skil að þau eru þrjú í fjölskyldunni með hvert sitt sjónarhornið en mér finnst það samt of sundurleitt.

Auðvitað fannst mér bókin fín, hún segir áhugaverða sögu þeirra sem þurfa að berjast við djöfla, vanmátt, uppgjöf, mistök, rangar ákvarðanir og ósigra og saga þess fólks heyrist oft ekki af því að yfirleitt er það sigurvegarinn sem segir söguna, sbr. mannkynssögubækur. Mér finnst hún bara ekki eins stórkostleg og má skilja á fólki.

Af Svínshöfði er t.d. gefin í byrjun allt, allt, allt önnur mynd en kemur síðan á daginn. Mér finnst eins og höfundur hafi ekki gert upp við sig fyrr en eftir nokkra tugi blaðsíðna hversu mikill tapari hann hafi átt að vera í lotteríi lífsins. Svo kemur öll hans harmþrungna barnæska sem endar í dapurlegri elli.

Sagan af Helenu er frekar einföld en sagan af stráknum nær sér aldeilis á strik eftir ákaflega hundleiðinlega byrjun. Þegar ég átti 30 blaðsíður eftir var ég næstum búin að gefast upp á bókinni en þá var öll marktæka raunasagan hans eftir. Og endirinn kom sannarlega á óvart.

Kannski yfirsést mér eitthvað í bókinni og kannski sæi ég eitthvað markvert við annan lestur en það aláhugaverðasta finnst mér vera það kastljós sem fólkið fær sem er vant að standa utan kastljóssins. Sögupersónurnar eru yfirleitt bara aukapersónur í annarra manna sögum og það var vel gert í Svínshöfði.


Samviskubitið

Ég hef nokkrum sinnum fjallað um Gumma bróður hérna. Hann er fjórum árum eldri en ég, drakk sig út úr grunnskóla, tolldi hvergi í vinnu og alls ekki í námi fyrr en hann kláraði garðyrkjuskólann fyrir tveimur árum og hreykti sér af því við mann sem ég þekki að hann hefði svindlað sér í gegnum hann með því að tilkynna sig veikan í prófum og taka svo prófin þegar hann var búinn að skoða þau hjá öðrum.

Ég lánaði honum iðulega peninga og það þótt hann híaði endalaust á mig fyrir að taka t.d. ekki námslán þegar ég var í háskólanum heldur vinna með námi. Hann híaði á mig fyrir að standa í skilum en sjálfur kom hann sér undan því að borga með dætrum sínum þegar hann skildi við mömmu þeirra. Saga hans er sennilega óslitin svika- og lygasaga en steininn tók úr hjá mér þegar ég asnaðist til að lána honum SJÖ MILLJÓNIR árið 2008. Ég hafði oft lánað honum peninga til að borga reikninga fyrir sjoppu sem hann átti og rak um tíma. Auðvitað endaði sá rekstur með því að hann missti hann úr höndunum á sér.

Ég er fyrir löngu búin að átta mig á að ég var meðvirk. Hann átti bágt og ég lánaði honum. Ég vissi líka að annars myndi hann biðja mömmu og pabba um lán og ég vildi hlífa þeim. Ég var að reyna að vera artarleg systir og dóttir. Og ég er það. Ég er traust manneskja og get verið það áfram þótt ég láti ekki misnota mig.

Ljósið sem rann upp fyrir mér í síðustu viku þegar ég sat og talaði öðru sinni við fagmann um málið var að ég er þjökuð af samviskubiti yfir að vera honum svo miklu fremri; vitsmunalega, fjárhagslega og félagslega. Hann byrjaði að drekka áfengi 11 ára, stal bíl og velti, var til vandræða í skólanum, hélt vöku fyrir mömmu viku eftir viku þegar hann var einhvers staðar úti á randi og svo hringdi lögreglan og bað mömmu að sækja hann. Þá vældi hann og var ósköp lítill. 

Þetta er veganestið mitt í æsku. Ég var hins vegar stillt og prúð, góður námsmaður, fór vel með peninga, algjör andstæða Gumma – og ég hef verið með samviskubit yfir því.

Ég er búin að glutra niður svolitlum tíma og kannski fæ ég aldrei skuldina greidda en ég skil betur hvað gerðist og get varað mig eftirleiðis. En Gummi hefur sannarlega aldrei spilað vel úr sínum spilum, sá dauðans aumingi sem hann var, er og verður. Ég er bara hætt að vorkenna honum því að hann hefur aldrei gert neitt til að bæta sig og ég get ekki borið ábyrgð á honum. Einhver hefði átt að taka eftir mynstrinu hjá mér og kippa í taumana en meðvirknin er víða.


Að vera í símanum

Egill Helgason spurði kl. 10.40 í gærmorgun (ég get ekki hlekkjað á færsluna eina) hvort það ætti að banna snjallsíma á Alþingi. Hann svarar svo spurningunni fyrir sína parta og margir eru sammála honum um að það sé virðingarleysi að „vera í símanum“ á meðan aðrir þingmenn flytja ræður. Ég hef skoðun á þessu af því að ég á sjálf auðveldara með að einbeita mér þegar ég geri tvennt í einu, sem sagt að skrifa ef ég hlusta á eitthvað þótt ég heyri ekki allt, ganga milli hverfa meðan ég er í símanum og ég get alls ekki tekið til nema ég hlusti á eitthvað. Ef ég ætla að hlusta á Sprengisand, Silfrið eða Víglínuna og gera ekkert annað á meðan er öruggt að ég dett út. 

Síðan er sjónarmiðið um að gera hlutina rétt og/eða að þeir líti rétt út og það skiptir líka máli. Ég myndi þess vegna aldrei, ALDREI, fletta í símanum meðan einhver talar yfir mér í raunheimum, ekki vegna þess að ég taki betur eftir heldur af virðingu við þann sem er að einbeita sér að því að tala við mig, og aðra eftir atvikum. 

Tillagan um að banna símana á vinnustað finnst mér samt hlægileg og held að stór hluti af þeim sem svöruðu Agli í gærmorgun hafi einmitt verið að því í vinnutímanum. Auðvitað eiga allir rétt á neysluhléi en ég er ekki sannfærð um að allir sem tjá sig um aðra á þennan hátt hafi efni á því.

Kannski er rétt að bæta því hér við að ég hef óþarflega oft setið á fundum eða fyrirlestrum og horft á fólk sitja beint fyrir framan fyrirlesarann og skrolla í símanum án þess að um þingmenn sé að ræða þannig að gólið um óþekka krakka er órökrétt.

Það er líklega rétt að gera eina játningu. Ég hef gagnrýnt það á vinnustað hvað fólk sem vinnur við tölvu sé óagað og bregðist við miklu á Facebook og þá fæ ég svarið: 30-40% allra skrifstofumanna gera þetta. Þá spyr ég: Er ekki rétt að skoða þá heildarmyndina? Af hverju er fólk svona óagað? Er vinnan of leiðinleg? Er vinnan ekki nógu krefjandi? Er vinnudagurinn of langur? Eða er fólk bara svona óuppalið og virðingarlaust gagnvart vinnuveitanda og vinnutíma? 


25. september 2021

Kosningabaráttan fyrir næstu alþingiskosningar hófst í gærkvöldi á stefnuræðu forsætisráðherra og umræðum um hana. Ég hef alltaf kosið þegar kosningar hafa verið í boði og aðeins einu sinni skilað auðu, í forsetakosningunum 1996 þegar aðeins pólitískir frambjóðendur voru í boði. Mér finnst nefnilega pólitíkin eiga heima á Alþingi.

Ég hef miklar skoðanir almennt og veit nokkuð hvað ég vil sjá í flokknum sem ég kýs. Ég vil jöfnuð í tækifærum en umbun til þeirra sem nýta þau vel og skara fram úr, ég vil að skatttekjur séu nýttar vel og að lykilstarfsfólk, fólk í mennta-, heilbrigðis-, samgöngu-, framleiðslu- og nýsköpunargreinunum, uppskeri vel. Ég vil að tíma fólks sé vel varið og liður í því er að stytta vinnuvikuna hressilega. Svo ég fari ofan í meiri smáatriði vil ég að við framleiðum eins og við getum á Íslandi, svo sem grænmeti og ávexti, en þá þarf að lækka rafmagnsverð til garðyrkjubænda. Þar með sparast kolefnisspor og gjaldeyrir.

Svo ég fari aftur í stóru myndina vil ég loks segja: Burt með spillingu, frændhygli og sóun. 

Hvaða flokk á ég að kjósa? Ég ætla að fylgjast vel með í vetur.


Trump og Biden

Ég horfði út undan mér á kappræður forsetaframbjóðenda í gærkvöldi. Ég hef aldrei áður haft svona mikið úthald til að horfa á Trump og leyfði holskeflu undrunar að ganga yfir mig aftur og aftur. Hver kýs svona mikið yfirlæti? Ekki þeir Bandaríkjamenn sem ég þekki og skrifaðist á við meðan ég horfði. En óháð því hvað frambjóðendur gengu fram af áhorfendum fór ég að hugsa hvort ekki væri hægt að slökkva á hljóðnemanum hjá þeim sem á ekki að hafa orðið. Ef það dygði ekki væri hægt að setja báða (eða alla þegar fleiri eru) í glerbúr og líka slökkva á hljóðnemum. Stjórnandinn var ekki nógu afgerandi og ég skil ekki hvers vegna hann sat til fóta hjá þeim. Hann hefði átt að standa í sömu hæð og viðmælendur hans, kannski hefði hann þá orðið röggsamari.

Ég spái því að Trump vinni og leiði sorg yfir heimsbyggðina í fjögur ár til viðbótar. Gapuxar ná eyrum vissra hópa og vissir hópar mynda stundum meiri hluta.


Að taka hrósi

Sumum finnst erfitt að fá hrós. Mér finnst t.d. að það sem ég fæ hrós fyrir þurfi að vera 101% en er það ekki fullmikil kröfuharka hjá mér? Ég held að mér finnist ekki erfitt að hrósa öðru fólki en ég segi ekki við eins árs barn að það sé SNILLINGUR þótt það geti stungið upp í sig kexköku. Það þarf að finna jafnvægi í hróssamfélaginu.


Alþjóðadagur þessa og hins

Í gær var meintur alþjóðadagur dætra sem margar konur túlkuðu sem dag mæðgna og Facebook fylltist af mæðgnamyndum, mér að meinalausu. Mér finnst samt skrýtið með alla þessa múgsefjun því að þetta er ekki bundið við þennan ófélagslega tíma sem við lifum. Og við getum fundið alþjóðlegt eitthvað flesta daga ársins ef við eltum internetið. Ég ætti því að stökkva á það á afmælinu mínu en þá er einmitt alþjóðlegur dagur internetsins sjálfs!


Munaðarlausir geisladiskar

Hver tekur við geisladiskum sem ég ætla aldrei framar að hlusta á? Ég hef aldrei valið mikið tónlistina ofan í mig hvort eð er en nú er leitun að „diskadgeisladiskarrifum“ á heimilinu.

 

 

 

 

 

 


Eplaedik

eplaedik

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fyrir nokkru keypti ég eplaedik – sem kvað vera meinhollt – og sá þegar ég kom heim að á upplýsingamiðanum stóð með míkróletri: „Geymist í kæli eftir opnun og neytist innan 5 daga.“ Samt eru neysluleiðbeiningarnar: „Setjið 1-2 msk af eplaediki í 1 dl af vatni ...“ og í flöskunni eru 750 ml sem ættu að duga í margar vikur á venjulegu heimili. Þetta er ekki drykkur sem maður stelst í, þið vitið, hann er mjög beiskur og bragðvondur en á sem sagt að vera hollur.

 

Ég sendi framleiðandanum fyrirspurn um geymsluþolið og hann sagði að það væri meira en fimm dagar eftir að innsiglið er rofið (geymsluþolið er annars gefið upp til maí 2022). Nú er ég í heila viku búin að fá mér slurk úr flöskunni daglega, auðvitað blandaðan við heilt vatnsglas, og er rétt komin niður í axlir. Og ég er öll orðin grettnari en ég var ... foot-in-mouth


Skatturinn

Þetta var að gerast og ég er svo dolfallin að ég verð að tjá mig. Ég átti að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af bílaviðgerðum. Gott mál. Ég fékk tölvupóst frá Skattinum þar að lútandi í lok ágúst. Í gær rankaði ég við mér og ákvað að gá að greiðslunni. Hún hafði engin borist. Ég sendi þá tölvupóst á Skattinn sem svaraði mér í hádeginu, dálítið hryssingslega, og sagði mér að hringja í Skattinn. Ég gerði það þá og talaði við afar almennilega konu sem sagði mér að upphæðin hefði verið lögð inn í lok ágúst og bað mig að skoða heimabankann. Ég opnaði heimabanka Arion þar sem aðalreikningurinn minn er. Þá sagði hún að þetta væri reikningur í Íslandsbanka sem ég nota sáralítið, þ.e. þann banka. Við kvöddumst en ég fann ekki endurgreiðsluna og hringdi aftur í Skattinn og fékk bankanúmerið hjá annarri almennilegri konu og sá reikningur var alls ekki í heimabankanum!

Þá hringdi ég í Íslandsbanka og afar almennilegur karl virkjaði umræddan reikning. Ekki aðeins voru þar 11.028 kr. heldur nokkrir tíuþúsundkallar sem hafa verið í dái því að þetta er reikningur sem ég stofnaði 1994 og hef greinilega misst sjónar af.

Skilaboð sögunnar: Lengi er von á einum OG margt gott fólk verður til svara hjá stofnunum sem við leitum til. Samt: Af hverju leggur Skatturinn ekki inn á reikning sem ég gef upp?

Ég er bara frekar hress. laughing


Aðdróttun eða meiðyrði

Ég er núna í fjölmiðlanámi og meðal þess sem við lesum um eru aðdróttanir og meiðyrði. Margir dómar hafa fallið á báða bóga, menn verið dæmdir og ekki dæmdir fyrir að segja eitthvað óvarlega um einhvern sem einhver átti ekki skilið.

Já, þetta eru stundum eins konar véfréttir en í öllum dómum eru nánari upplýsingar, það eru bara reifanirnar sem eru með skammstafanir á nöfnunum.

Og þá rifjast upp fyrir mér saga af konu sem sendi frænku sinni tölvupóst og spurði sirka: „Ég hef heyrt að þessi maður sem þú ert e.t.v. í tygjum við hafi beitt konuna sína andlegu ofbeldi. Getur þú sagt mér að hann hafi komið vel fram við þig?“ Engar ávirðingar, bara spurning.

Daginn eftir hringdi umræddur maður í frænkuna sem sendi póstinn, vildi fá að vita um hvern hún hefði verið að tala og hótaði frænkunni málssókn. Frænkan sagði: Ég þarf ekkert að segja þér það. Gaurinn sagði: Þú hringir í mig á morgun og segir mér það.

Hún hringdi ekki og sagði honum ekki neitt meira. Reyndar kom fram í tölvupóstinum að um fyrrverandi konuna hans væri að ræða. Kannski á hann margar fyrrverandi konur. Þremur mánuðum síðar hefur hann ekki stefnt henni. Ég veit ekki hvað það tekur yfirleitt langan tíma en umræddur gaur er löglærður og hefur líklega áttað sig á því að ef hann vekur upp mál sem eingöngu hefur verið í tölvupósti milli tveggja einstaklinga er hann að beina athyglinni að sjálfum sér og mögulega ofbeldi sem hann kann að hafa beitt fyrrverandi konuna sína.

Hótanir valda ótta, jafnvel þótt fólk sé bæði í góðri trú og með hreina samvisku. Frænkan ákvað að taka slaginn ef á reyndi og segja bara satt og rétt frá enda hefur hún ekkert að fela.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband