Fótbolti í tvíriti

Ég er svo miðaldra að ég horfi á línulega dagskrá. Mér er samt almennt alveg sama þótt kvöldin séu sum undirlögð af efni sem ég hef ekki áhuga á. Þar í flokki er ýmislegt almennt efni en líka söfnunarþættir, söngvakeppnir og fótbolti. En mér blöskrar að hafa Katar-keppnina á bæði RÚV og RÚV2 eftir alla umræðuna sem hefur verið um þessa keppni.

Ég er á móti mannréttindabrotum. Obbi mannkyns er það. En við erum líka hræsnarar og meðan það truflar ekki okkar líf æpum við ekki hærra en á lyklaborðið. Flest fólk getur væntanlega tekið undir það. En að RÚV skuli ekki sjá sóma sinn núna í því að halda þessari fótboltakeppni aðeins meira frá áhugalausum er yfirgengilega undarlegt.

Mér finnst gott að hafa sjónvarpið lágt stillt þótt ég horfi ekki endilega á hvert myndbrot en nú stillti ég Alþingisrásina dálítið hátt ... og sat uppi með massífa fjárlagafrumvarpsumræðu. tongue-out


Hún á afmæli ...

Nú get ég ekki stillt mig lengur þótt ég viti að ég sé að ganga beint í gildruna um mátt auglýsinga. Atlantsolíuauglýsingin sem Saga Garðars syngur alla daga nú um stundir - og oft á dag í mínu útvarpi - pirrar mig ósegjanlega. Í fyrsta lagi á enginn afmæli dag eftir dag. Það er samt hégómi. Í öðru lagi - og sýnu verra - er að fyrirtækið sem ég skipti við (sjaldan af því að ég keyri lítið) eyðir peningum alla daga í auglýsingar sem hafa ekkert upplýsingagildi. Svörtudagaauglýsingarnar hafa ekki pirrað mig, ekki vitund, enda er líftími þeirra skammur og sumar eru upplýsandi. Nei, bensín og bensín er samanburðarhæf vara, ólíkt t.d. mat, fatnaði og afþreyingu, og það eina sem skiptir bensínkaupendur máli er verð og aðgengi. 

Ef Saga Garðars væri með uppistand einhvers staðar núna myndi ég sniðganga það. Það er uppskeran hennar gagnvart mér vegna þess að þessar auglýsingar eru persónulegar og hún hefur sannarlega stjórnað ferðinni þótt hún ráði sjálfsagt ekki auglýsingatíðninni.

Nú er ég búin að gera eins og bolurinn í markaðsfræðinni, tala seljandann upp með umræðunni þótt ég sé neikvæð. Huggunin er að lesendur eru hér fáir. wink money-mouth


Berglind hjá bókara

Ég hitti bókara í dag og varð mikils vísari. 

Virtus er með reiknivél þar sem maður getur prófað ýmislegt.

Á vef BHM er líka reiknivél þar sem maður getur notað alls kyns forsendur.

Sjálfstæður atvinnurekandi (les: verktaki) borgar 6,35% af laununum sínum í tryggingagjald.

Hann þarf að gera ráð fyrir 4% gjaldi í lífeyrissjóð sem launþegi og 8% sem launagreiðandi (sinn eigin).

Og skatturinn er nálægt 40%.

Ef maður er leiðsögumaður þarf maður eiginlega að kaupa sér tryggingu vegna þess að ef maður lendir í slysi er maður ekki tryggður nema maður hafi keypt sér tryggingu fyrir sig sem launþega. Ég hef ekki skoðað hvað hún kostar eða hvað ég þyrfti að draga af framlegðinni til að mæta því.

Þegar allt er tekið saman fær verktakinn u.þ.b. 45% af reikningnum í eigin vasa. Og er launalaus í veikindum og sumarfríi.

Og rúsínan í mínum pylsuenda er að ég gáði hjá Skattinum hvort ég væri komin á virðisaukaskattsskrá. Já, ég er það - en sem ferðaskipuleggjandi. Ferðaskipuleggjandi! Aðal! Ekkert getur Skatturinn gert rétt. Ég svaraði spurningunni um hvað ég gerði sem verktaki og ég sagðist vera prófarkalesari, hljóðbókalesari og leiðsögumaður. Alls ekki ferðaskipuleggjandi. Og ég hef sem leiðsögumaður ekki einu sinni þegið svo mikið sem krónu í laun á árinu sem verktaki, heldur bara verið launþegi þótt það eigi sjálfsagt eftir að breytast. 

vsk mynd


Að leka eða ekki að leka

Ef ég væri í pólitík og hefði haft umdeilda skýrslu undir höndum myndi ég ekki leka henni í fjölmiðla NEMA ÉG VILDI AÐ UMRÆÐAN SNERIST FYRST OG FREMST UM LEKANN. Ef fleiri eru á þessu máli er augljóst hver hefur hag af því að leka skýrslum.


Ekki nema 1,4 milljónir

Atriðið þegar forstjóri Bankasýslunnar opnar í fimmtungsgátt verður ekki hægt að setja betur á svið en hann gerði sjálfur.

Lofað gagnsæi Bankasýslunnar felur greinilega ekki í sér upplýsingagjöf, heldur að horfa í gegnum litlu gáttina.

Enginn hefði getað skáldað þessa atburðarás upp.

En enginn hefur heldur sagt mér fyrr en ég fletti því upp að forstjóri Bankasýslunnar er með 1.400.000 kr. í mánaðarlaun. Eins og rektorar, skólameistarar og sýslumenn. 


Félagið EAB

Um daginn sat ég á spjalli við kunningjakonu í heita pottinum í Nauthólsvík og hún sagðist vera í félaginu EAB sem fundaði aldrei, hefði engin félagsgjöld og gæfi aldrei út ársskýrslur. Skammstöfunin EAB reyndist standa fyrir Eyðum arfi barnanna

Þessi kona er núna rúmlega sextug, ánægð í vinnu, í ástríku hjónabandi og á uppkomin börn. Hún ætlar að hætta að vinna löngu fyrir 67 ára aldurinn og nota þriðja æviskeiðið, sem ég held að megi kalla lífsgjöf þeirra sem ekki falla frá of snemma, til að ferðast og njóta lífsins með eiginmanninum sem líka verður þá hættur að vinna. Reyndar er hann núna leiðsögumaður og getur unnið suma mánuði ef hann vill, sleppt úr ári og komið aftur eða bara hvað sem er.

Mér datt þetta í hug þegar ég las gott viðtal við Tryggva Pálsson um þriðja æviskeiðið. Fólk lifir núna að meðaltali lengur og börn þeirra sem verða 100 ára eru þá sjálf orðin rígfullorðin þegar foreldrarnir falla frá. 

Nú er stemning með því að skapa minningar frekar en að eignast endalausa hluti. Ég er hlynnt því að við lifum lífinu meðan það endist og er einmitt sjálf farin að minnka við mig vinnu.


Orkestret á RÚV

Ég hámhorfði um helgina á Hljómsveitina (Sinfóníuhljómsveitina) sem er sýnd í línulegri dagskrá á þriðjudagskvöldum en 10 þátta serían er líka komin eins og hún leggur sig í spilarann.

Ég er hvorki með Netflix né Viaplay og þaðan af síður Stöð 2 enda hef ég oftast ekki undan að horfa á áhugaverða þætti og myndir á RÚV. Og allamalla, hvað Hljómsveitin var skemmtileg þáttaröð. Sumt er vissulega dálítið ótrúverðugt hjá fullorðnu fólki en ekkert í líkingu við Trúðinn (Klovn, sem ég hlæ eiginlega aldrei að svo það komi líka fram).

Aðalpersónan Jeppe er marglaga. Hann vill gera öllum til hæfis og gerir þess vegna engum til hæfis. Hann er hinn fullkomni eiginmaður og faðir í fyrsta lagi en konan hans ekki hin fullkomna eiginkona. Í vinnu er hann stimamýktin uppmáluð og á erfitt með að taka skýra afstöðu og skera úr um mál. En svo breytist það ...

Aðalpersónan Bo er sturlað skemmtilegur. Hann er uppstökkur og dálítið sér á báti en svakalega góður klarinettuleikari. En hvað finnst hinum í hljómsveitinni um hann? Hvernig er að skara fram úr?

Og allt hitt fólkið var svo skemmtilegar týpur líka. 

Danir og danskt sjónvarpsefni rokkar. Kannski ég fái mér á endanum Viaplay enda heyrði ég líka um helgina vel látið af Badehotellet.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband