Færsluflokkur: Bækur
Föstudagur, 3. ágúst 2007
Í ótíðinni las ég bók
Ég er (fyrrverandi) bókabéus en mér hefur lítið orðið úr lestri það sem af er þessu ári. Nú hef ég þó náð að lesa Sendiherrann eftir Braga Ólafsson.
Ég hef sérstakt dálæti á skáldsagnahöfundinum Braga en kann síður að meta ljóðin hans. Þó er hann meiri stemningsmaður en maður mikillar og skýrrar framvindu í söguþræði. Hér kynnumst við Sturlu sem er ljóðskáld og húsvörður. Flestar persónur Braga hafa verið þvílíkir öndvegislúserar í gegnum þykkt og þunnt að það verður að hrósa Braga fyrir að gera persónurnar samt áhugaverðar. Sturla er hins vegar ekki tiltakanlega misheppnaður, þvert á móti hefur honum tekist að koma fimm börnum til manns ásamt því að slá lauslega í gegn í bókmenntaheiminum. Og það var lengst af spennandi að fylgjast með honum missa af ljóðahátíðinni í Litháen.
Ágæt sumarlesning.
Hitt undrar mig að framan af talar Sturla (eða höfundur) um litháensku og skiptir svo yfir í litháísku. Vissulega smáatriði en samt ónákvæmni sem yfirlesari ætti að koma auga á. Og svo sá ég á stöku stað glitta í ensku þótt bókin sé áreiðanlega ekki þýdd!
-skrifaði Berglind um kvöldmatarleytið í stað þess að vera á leiðinni til hinna fyrirheitnu Vestmannaeyja
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 28. maí 2007
Nýfundnaland vs. Ísland
Merkilegur þáttur var í sjónvarpinu áðan. Nýfundlendingurinn Lísa kom til Íslands til að lesa úr bók sinni í Norræna húsinu og virðist hafa ákveðið að hamstra myndefni og talaðar upplýsingar í leiðinni. Svo hefur hún gert úr efninu heimildarmynd sem gengur, merkilegt nokk, út á það að lofa og prísa Ísland fyrir að hafa náð og haldið í sjálfstæði sitt.
Hún ber löndin mikið saman og segir að hér sé svo miklu meira sjálfstæði; læsi í Nýfundnalandi er bara 66%, atvinnuleysi 25% og þau ofboðslega háð Kanada í öllu tilliti þótt þau eigi miklar auðlindir, bæði nikkel, olíu og þorsk, sem Ottawa nýtur góðs af.
Þegar ég gáði að því sá ég að boðið er upp á skipulagðar ferðir til St. John's sem er höfuðborgin þeirra í landinu sem er eyja litlu stærri en Ísland.
Og svo rifjaðist upp fyrir mér að ég ákvað í síðustu viku eftir spjall við Högna að lesa Ævisögu þorsksins. Nú er komin enn brýnni ástæða til þess.
Es. Hefur Stína enga skoðun á þessu ...? Mér skildist á Lísu að Kanada mergsygi Nýfundnaland, hömm hmm.
Bækur | Breytt 29.5.2007 kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 16. mars 2007
Hagræðing, ó, hagræðing
Ég þekki vel vertíðartilfinninguna, tilfinninguna um að maður sé að bjarga verðmætum, bæði úr fiskvinnslu, póstútburði, leiðsögninni og líka þegar ég afgreiddi myndlykla á fyrstu dögum Stöðvar tvö. Já já, ég man.
Þetta er góð tilfinning.
Þess vegna rennur mér til rifja þegar ég les í Stelpunni frá Stokkseyri um þá meintu hagræðingu sem var farið í þegar frystihúsinu var lokað á Stokkseyri og starfseminni gert að sameinast Glettingi í Þorlákshöfn. 70-80% bæjarbúa höfðu lífsviðurværi sitt af fiskvinnslu þannig að burðarbitanum var kippt undan sisona.
Mér finnst lýsingin átakanleg.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 26. febrúar 2007
Bókin af náttborðinu
Stóridómur er fallinn, ég er búin að gefast upp á bók Auðar Jónsdóttur, Tryggðarpantinum. Ég vek athygli á að hún heitir svo, með r-i. Ég hljóp yfir einar 70 blaðsíður og tókst með herkjum að lesa þær síðustu 30. Þetta eru heilmikil vonbrigði því að mér hafði skilist að lesandi gæti fengið nýja sýn á sambúð ólíkra ríkja, bókin væri allegórísk. Og mér fannst varið í Fólkið í kjallaranum.
Ég veit ekki hvort það er til nokkurs að reyna að færa rök fyrir afstöðunni, sumar bækur ná manni bara ekki. Gísella er einhvers konar yfirstéttarstúlka sem lifir í vellystingum praktuglega þangað til allt í einu að allur auður er uppurinn. Til að fjármagna framhaldslíf sitt bregður hún á það ráð að leigja frá sér herbergi í húsinu sem hún erfði, konan sem ekki hafði deilt heimili með neinum frá því að amma hennar féll frá. Nei, þetta er ekki hægt, ég held að mér hafi einfaldlega þótt stærsta vandamálið það að höfundur sýndi ekki, heldur sagði frá. Mér var sagt að Gísella væri pirruð eða stressuð eða glöð - en ekki sýnt það. Kannski var höfundur of mikið að reyna að segja táknsögu frekar en að segja sögu sem hver og einn gæti lesið tákn í eftir eigin behag og smag.
Úff, mér finnst að Ingibjörg eigi ekki að reyna að lesa hana aftur!
Og gaman væri að heyra hvort Vilborg hefur líka lesið þessa.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. febrúar 2007
Bóklestur
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 5. febrúar 2007
Tryggðarpantur
Ég las Draumalandið í fyrrasumar og uppveðraðist ógurlega, lánaði hana svo og hef ekki séð aftur. Því miður, ég væri alveg til í að glugga í hana til upprifjunar. Ég fagna því að Andri Snær hafi verið metinn að verðleikum (þótt ég gefi lítið fyrir þessi huglægu bókaverðlaun sem forlögin geta keypt sig inn í). Hagvöxtur er ekki eign einnar stéttar manna - þótt hagfræðingar geri hann svolítið að sínum - og mér vitraðist t.d. þegar ég las Draumalandið að hagvöxtur minnkar þegar einhver hættir að vinna og fer í skóla.
Ég hef sagt þetta áður en skv. útreikningum eykst hagvöxtur líka við það að maður slasast og fer á spítala. Og líka þegar rúða er brotin. Og enn fremur þegar stríð eru háð, sbr. Íraksstríðið sem þessi Forbes þarna er svo hlynntur af því að hann eykur hagvöxt Bandaríkjanna. Blessað stríðið sem gerði syni mína ríka.
En ég er sem sagt byrjuð að lesa bókina hennar Auðar Jónsdóttur (var hún ekki líka tilnefnd?) og eftir 70 blaðsíður er hún ekki búin að ná mér. Inntakið er stúlka sem lifir í vellystingum praktuglega af því að amma hennar arfleiddi hana að múltí en svo allt í einu er múltíið uppurið og hún þarf að grípa til einhverra ráða. Og hún velur að leigja herbergi frá sér í stóra húsinu sínu. Dettur manni þá Leigjandi Svövu Jakobsdóttur í hug. En ekki meðan ég les ...
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 28. janúar 2007
Glæpur og umbun
Nú er ég búin að átta mig á hvers vegna ég gat ekki annað en haldið áfram með Undantekninguna hans Christians Jungersens, tæpar 600 síður. Hann hefur nútímavætt Glæp og refsingu, uppáhaldsbókina mína. Ég hef að vísu aldrei þorað að lesa hana aftur en fyrst eftir að ég las hana sá ég Raskolnikoff ... víða.
Christian kvað hafa verið 7 ár að skrifa bókina sína og ég þori að hengja mig upp á að honum hefur oft orðið hugsað til Dostóévskíjs á meðan. Munurinn er helstur sá að í Undantekningunni uppsker aðilinn sem fremur glæpinn umbun erfiðis síns. Svo eru smávægileg atriði eins og annað land, annar tími og annar glæpur. Líkindin felast í sálarangistinni og samviskubitinu.
Samt kemst Glæpur og umbun ekki með tærnar þar sem Glæpur og refsing hefur hælana.
Og enn af tillitssemi við Habbý læt ég þýðinguna liggja á milli hluta. En kannski ég fái Krat lánaða á bókasafninu á dönsku, það er bókin sem Jungersen varð frægur fyrir í Danmörku.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)