Færsluflokkur: Dægurmál
Föstudagur, 1. september 2023
Samskip + Eimskip = tap almennings
Já, ég ætla bara að leggja þetta hér frá mér svo ég gleymi því ekki. En svo vil ég segja: Hver vissi þetta ekki?
Hver veit ekki að við búum í fákeppnissamfélagi? Ég nefni bankana sem ganga í takt og keppa ekki hver við annan. Ég nefni tryggingafélögin og eldsneytissala. Mögulega eru fjarskiptafyrirtækin í samkeppni en kannski eru þau það ekki.
Ábyrgð neytenda er auðvitað einhver. Ég hef t.d. ekki keypt Freyju-súkkulaði síðan það komst í hámæli að eigendur Freyju eiga líka leigufélagið ÖLMU. Hins vegar er erfitt að vara sig og auðvelt að gleyma sér um stund og versla við þann sem maður vill ekki versla við.
HFF.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 29. ágúst 2023
Íþróttadalurinn
Ég fer flestra minna ferða, a.m.k. á stórhöfuðborgarsvæðinu, á hjóli og undrast nánast daglega að ekki skuli almennilega gert ráð fyrir að fólk hjóli og erindist. Hjól er fararskjóti, ekki bara afþreying.
Ég hef oft hjólað í Laugardalnum en í dag hjólaði ég framhjá höllinni og sá þá að aðstæður fyrir hjólandi eru afleitar. Það eru hraðahindranir með hvössum köntum og grunsamlega víða eru engir fláar ofan af gangstéttum, bara kantar.
Og samt tala bílaunnendur eins og alltaf sé verið að hlaða undir okkur, hjólafólkið, og vilja helst margfaldar akreinar til að anna allri umferð á öllum annatímum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 21. ágúst 2023
Kokhraustur bankastjóri
Ég var að hlusta á bankastjóra Íslandsbanka í útvarpinu. Hann sagði að það væri alltaf sárt að missa viðskiptavini en hann áleit að höggið fyrir bankann yrði ekki þungt þótt þrír stórir viðskiptavinir færu annað.
Mér finnst bankastjórinn alveg fullkomlega hafa misskilið atburðarásina og hafa steingleymt öllu sem hann hefur sagt um auðmýkt. Hins vegar er náttúrlega hrópandi fákeppni á bankamarkaði og þess vegna er óánægja stórra og lítilla viðskiptavina ævinlega léttvæg.
Hvert eigum við að fara? Nú eru að verða forstjóraskipti hjá Kviku og stór leikandi í hruninu mætir til leiks sem gerir Auði að minna fýsilegum kosti.
Arion banki er gamli viðskiptabankinn minn, hét þá Búnaðarbanki, og hefur lagt sig fram um að veita mér lélega þjónustu, villandi upplýsingar og afleit kjör.
Ég veit minnst um Landsbankann en held að Indó geti verið svarið ef hann/hún/það klúðrar ekki framhaldinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 18. ágúst 2023
Trén í Öskjuhlíðinni eða flugvöllur í Vatnsmýri
Ég hef lengi, lengi, lengi verið þeirrar skoðunar að innanlandsflugvöllurinn eigi að fara úr Vatnsmýrinni og kalla enn eftir þarfagreiningu á honum á þessum stað. Hafi hún verið gerð finnst mér að það eigi að auglýsa hana. Með því á ég við könnun á því hverjir nýta sér flugvöllinn, hverjir þurfa á honum að halda og, já, hverjir borga fyrir að nota flugvöllinn á þessum stað. Ég blæs á röksemdir um mikilvægi sjúkraflugs vegna þess að ef mönnum er alvara með það er hægt að nýta sjúkrahúsið í Keflavík. Helstu upphrópsmenn öryggisflugsins láta ekkert í sér heyra þegar slys eða veikindi verða lengst úti á landi og menn komast alls ekkert til Reykjaavíkur.
Og núna, þegar hæstu trén í Öskjuhlíðinni, einni mestu skrautfjöður Reykjavíkur, trufla aðflugið er borðleggjandi að flugvöllurinn þarf að víkja en ekki trén sem hafa sprottið við erfiðar aðstæður og náð þessari truflandi hæð.
Ég minni á að Hótel Borg var byggð í sinni hæð árið 1930 til að trufla ekki aðflugið. Öll byggðin í miðbænum tekur mið af því og íbúar þar gjalda fyrir flugvöllinn með alltof mikilli hávaðamengun.
Ég sé ekki betur en að núna höfum við sem erum á móti flugvellinum þar sem honum var tildrað upp til bráðabirgða í stríðinu fengið hraustleg rök með því að senda hann annað.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 16. ágúst 2023
Sjö háskólar
Ég spjallaði við Dana í síðustu viku, m.a. um fjölda háskóla í Danmörku. Hann sagði mér, alveg gáttaður á samlöndum sínum, að í landinu væru sjö háskólar og aðeins sex milljónir íbúa.
Ég verð að segja að ég er frekar hlynnt þessu fyrirhugaða samstarfi Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum. Við erum enn ekki orðin 400.000 manns í landinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 15. ágúst 2023
Tannhreinsun
Tannlæknirinn minn hefur oft skammað mig fyrir tannsteininn sem myndast í munninum á mér. Í gær var hann alveg bit á því hvað það var lítill tannsteinn þrátt fyrir að ég hafi ekki komið til hans í ár. Ég sagði: Tannþráður. En ykkur að segja er það ekki satt, eina breytingin sem ég hef gert er að eftir að ég bursta tennurnar skola ég ekki góminn heldur læt tannkremið vera í munninum. En það var ekki ráð frá tannlækninum mínum, sem er samt vænsti maður, heldur ráð sem ég heyrði annan tannlækni gefa í útvarpinu.
Mér fannst bara rétt að þið vissuð þetta.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 11. ágúst 2023
Facebook í símanum og Facebook í tölvu
Nú fer vangaveltum mínum um Facebook-yfirtöku hakkarans að ljúka. Ég fletti lauslega í gegnum þau einhæfu skilaboð sem hakkarinn sendi næstum 200 manns á vinalista mínum í síðasta mánuði en þau sjást bara í tölvunni. Í símanum er allt eins og það var áður en ég missti aðganginn. Undarlegt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 10. ágúst 2023
Vann Facebook til baka
Fyrir tæpum mánuði tapaði ég Facebook-aðganginum til hakkara. Ég stofnaði strax nýja síðu vegna þess að mér finnst ómögulegt að hafa ekki aðgang að hópum og alls kyns upplýsingum í gegnum þennan miðil en reyndi alltaf annað slagið að koma Facebook í skilning um að ég væri ég til að fá aðganginn minn til baka. Það tókst loks í gær, tæpum mánuði síðar. Ég á eftir að fara í gegnum hann en sé þó að í gegnum aðganginn minn hefur hakkarinn sent yfir hundrað manns beiðni um þátttöku í SMS-leik. Sem betur fer vöruðu sig flestir en hér með brýni ég mögulega lesendur enn meira í því að þótt sendandinn virðist traustur vinur er sjálfsagt að biðja fólk um að staðfesta að það sé það sem það segist vera. Gervigreindin þróast svo hratt núna og þýðingar eru sumar vandræðalega sannfærandi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 3. ágúst 2023
Landmannalaugar
Ég sá í fréttum í gærkvöldi umræðu um að ferðamönnum í Landmannalaugum finnist of margir ferðamenn í Landmannalaugum.
Það minnir mig svolítið á alla bílstjórana sem sitja einir í bílunum sínum og þumlungast eftir Miklubrautinni á leið í austurhverfi borgarinnar í lok vinnudags. Þeim finnst of margir bílar og of fáar akreinar.
Þarf þá ekki að stýra umferð ferðamanna í Landmannalaugar? Geta Landmannalaugar ekki bara selst upp?
Mér fannst fréttamaðurinn ekki standa sig í að spyrja viðmælanda sinn, Önnu Dóru Sæþórsdóttur, prófessor í ferðamálafræði, spurninga. Við höfum vitað í a.m.k. 20 ár að Landmannalaugar eru eftirsótt náttúruparadís. Hvað á að GERA með þessa þekkingu? Er kannski einhver annar bærari til að svara þeirri spurningu en rannsakandinn?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 1. ágúst 2023
Lviv
Bróðir minn er á Evrópuferðalagi. Fyrir nokkrum dögum fór hann til Lviv. Þið munið að Lviv er í Úkraínu og hefur verið umsetin af mönnum Pútíns. Við systur höfðum áhyggjur af honum í stríðshrjáðu landi en hann sendi okkur alla daga ljósmyndir og vídeó af fallegri og að því er virtist friðsælli borg.
Þá rifjaðist upp að þegar gaus í Eyjafjallajökli 2010 hættu ferðamenn unnvörpum við ferðir til Íslands. Sumar ferðaskrifstofur höfðu vissulega samband, spurðust fyrir og fengu að vita að gosið væri hættulaust fólki en engu að síður var fólki órótt. Og ég átta mig á að það er munur á náttúru eldfjalls og ónáttúru mannfólks.
Trausti bróðir hitti í Lviv konu sem sagði honum að húsið hennar hefði nötrað í einhverri árás fyrir skemmstu þannig að okkur blandast ekkert hugur um það að það er ekki hættulaust að spóka sig í Lviv en ég minni á að fólk hefur orðið fyrir tjóni við það að ganga út á götu í ýmsum borgum og það er líka lífshættulegt að fara aldrei fram úr sófanum. En ósköp er okkur systrum rórra samt að vita af honum í Ungverjalandi núna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)