Færsluflokkur: Dægurmál

Sjö háskólar

Ég spjallaði við Dana í síðustu viku, m.a. um fjölda háskóla í Danmörku. Hann sagði mér, alveg gáttaður á samlöndum sínum, að í landinu væru sjö háskólar og aðeins sex milljónir íbúa.

Ég verð að segja að ég er frekar hlynnt þessu fyrirhugaða samstarfi Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum. Við erum enn ekki orðin 400.000 manns í landinu.


Tannhreinsun

Tannlæknirinn minn hefur oft skammað mig fyrir tannsteininn sem myndast í munninum á mér. Í gær var hann alveg bit á því hvað það var lítill tannsteinn þrátt fyrir að ég hafi ekki komið til hans í ár. Ég sagði: Tannþráður. En ykkur að segja er það ekki satt, eina breytingin sem ég hef gert er að eftir að ég bursta tennurnar skola ég ekki góminn heldur læt tannkremið vera í munninum. En það var ekki ráð frá tannlækninum mínum, sem er samt vænsti maður, heldur ráð sem ég heyrði annan tannlækni gefa í útvarpinu.

Mér fannst bara rétt að þið vissuð þetta.


Facebook í símanum og Facebook í tölvu

Nú fer vangaveltum mínum um Facebook-yfirtöku hakkarans að ljúka. Ég fletti lauslega í gegnum þau einhæfu skilaboð sem hakkarinn sendi næstum 200 manns á vinalista mínum í síðasta mánuði en þau sjást bara í tölvunni. Í símanum er allt eins og það var áður en ég missti aðganginn. Undarlegt.


Vann Facebook til baka

Fyrir tæpum mánuði tapaði ég Facebook-aðganginum til hakkara. Ég stofnaði strax nýja síðu vegna þess að mér finnst ómögulegt að hafa ekki aðgang að hópum og alls kyns upplýsingum í gegnum þennan miðil en reyndi alltaf annað slagið að koma Facebook í skilning um að ég væri ég til að fá aðganginn minn til baka. Það tókst loks í gær, tæpum mánuði síðar. Ég á eftir að fara í gegnum hann en sé þó að í gegnum aðganginn minn hefur hakkarinn sent yfir hundrað manns beiðni um þátttöku í SMS-leik. Sem betur fer vöruðu sig flestir en hér með brýni ég mögulega lesendur enn meira í því að þótt sendandinn virðist traustur vinur er sjálfsagt að biðja fólk um að staðfesta að það sé það sem það segist vera. Gervigreindin þróast svo hratt núna og þýðingar eru sumar vandræðalega sannfærandi.


Landmannalaugar

Ég sá í fréttum í gærkvöldi umræðu um að ferðamönnum í Landmannalaugum finnist of margir ferðamenn í Landmannalaugum.

Það minnir mig svolítið á alla bílstjórana sem sitja einir í bílunum sínum og þumlungast eftir Miklubrautinni á leið í austurhverfi borgarinnar í lok vinnudags. Þeim finnst of margir bílar og of fáar akreinar.

Þarf þá ekki að stýra umferð ferðamanna í Landmannalaugar? Geta Landmannalaugar ekki bara selst upp?

Mér fannst fréttamaðurinn ekki standa sig í að spyrja viðmælanda sinn, Önnu Dóru Sæþórsdóttur, prófessor í ferðamálafræði, spurninga. Við höfum vitað í a.m.k. 20 ár að Landmannalaugar eru eftirsótt náttúruparadís. Hvað á að GERA með þessa þekkingu? Er kannski einhver annar bærari til að svara þeirri spurningu en rannsakandinn?

 


Lviv

Bróðir minn er á Evrópuferðalagi. Fyrir nokkrum dögum fór hann til Lviv. Þið munið að Lviv er í Úkraínu og hefur verið umsetin af mönnum Pútíns. Við systur höfðum áhyggjur af honum í stríðshrjáðu landi en hann sendi okkur alla daga ljósmyndir og vídeó af fallegri og að því er virtist friðsælli borg. 

Þá rifjaðist upp að þegar gaus í Eyjafjallajökli 2010 hættu ferðamenn unnvörpum við ferðir til Íslands. Sumar ferðaskrifstofur höfðu vissulega samband, spurðust fyrir og fengu að vita að gosið væri hættulaust fólki en engu að síður var fólki órótt. Og ég átta mig á að það er munur á náttúru eldfjalls og ónáttúru mannfólks.

Trausti bróðir hitti í Lviv konu sem sagði honum að húsið hennar hefði nötrað í einhverri árás fyrir skemmstu þannig að okkur blandast ekkert hugur um það að það er ekki hættulaust að spóka sig í Lviv en ég minni á að fólk hefur orðið fyrir tjóni við það að ganga út á götu í ýmsum borgum og það er líka lífshættulegt að fara aldrei fram úr sófanum. En ósköp er okkur systrum rórra samt að vita af honum í Ungverjalandi núna.


Litli-Hrútur

Ég er dálítið undrandi á þessari fyrirsögn: Gossvæðinu alltaf lokað klukkan sex. Fólk fer sér að voða víðar á landinu en í nágrenni við eldgos. Mér detta fyrst í hug Kirkjufell í Grundarfirði og Reynisfjara. Þeim svæðum er samt ekki lokað og fólk lendir þar í lífshættu.

Þannig held ég ekki að svæðinu sé lokað, enda endar fréttin á þessari setningu:

Þá segir að fjallið Litli-Hrútur sé hættusvæði og að inni á hættusvæði sé fólk á eigin ábyrgð.

Ég er ábyrg og löghlýðin og vil alls ekki valda neinum tjóni eða björgunarsveitunum aukaálagi. Ég er líka vanur göngumaður sem gæti vel gengið að gosinu og til baka án þess að örmagnast og kannski langar mig einmitt að sjá gosið í rökkri.

Í hvaða stöðu er ég þá? 


Lambeyradeilan

Nú er ég búin að hlusta á fyrsta hlaðvarpsþátt systranna um deilurnar á Lambeyrum. Ég áttaði mig á því fyrir fimm árum að peningar geta klofið fjölskyldur en fram að því var ég nytsamur sakleysingi. Ég efast ekki eina mínútu um að í þessu Lambeyramáli er tekist af mikilli heift á um verðmæti og ég vel hverju ég trúi í því máli en, almáttugur minn, hvað þessi hlaðvarpsþáttur er vaðalskenndur. Systurnar endurtaka í sífellu það sem önnur systir er nýbúin að segja, flissa í óhófi og eru í tilfinningarússi. 

Ef einhver nennir að skrifa meginmálið upp úr næstu þáttum og birta er ég til í að lesa það en ef ég fæ ekki einhverja trú á að næstu þættir séu skipulagðari nenni ég ekki að hlusta.


Hakkaður aðgangur á Facebook í sjö myndum

Ég missti Facebook-aðganginn minn á föstudaginn var. Maður hefur gengið undir manns hönd að leiðbeina mér, peppa mig, hugga mig og uppörva mig og ég kann svo sannarlega að meta það. En Facebook er náttúrlega fjarlægt fyrirbæri í fjarlægu landi og sjálfsagt svarar gervigreindin flestum fyrirspurnum. Þannig fékk ég bara staðlað svar þegar ég tilkynnti um gerviaðgang sem var stofnaður í mínu nafni. Vinir mínir hafa tilkynnt þann aðgang og líka hinn og líka þann þriðja en þeir eru enn til.

Ég er margbúin að reyna að fylgja leiðbeiningum og ábendingum og hér koma sjö myndir sem sýna skrefin.

Ég stofnaði strax aðra síðu og er núna búin að endurheimta rúmlega 500 af 1300 vinum sem ég átti fyrir. Ég fæ þau aldrei öll aftur sem er eðlileg grisjun en ég væri til í að endurheimta 400 til viðbótar. Á fyrstu mynd er nýja síðan mín til vinstri en hægra megin er síðan sem var hökkuð. Talan 9 er rauð í hægra horninu sem ég skil þannig að ég ætti 9 tilkynningar og ég giska á að það sé mestmegnis fólk sem hefur látið vita að síðan sé hökkuð. Ég veit að enn var verið að senda leikjabeiðnir frá síðunni á sunnudaginn en hef ekkert frétt síðan þá.

Fyrsta skref

 

 

 

 

 

 

Ég smelli á hægri myndina af mér og fæ þá upp þessa síðu.

Facebook 2

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þá smelli ég á Log In og fæ þessa síðu.

Facebook auka

 

 

 

 

 

Ég vel að ég ætli að endurstilla lykilorðið og fæ þá þessa síðu. Netfangið mitt er ekki lengur tengt við síðuna heldur a*******d@o******.com og ég ímynda mér að það sé outlook.com. Ekki íslenskt netfang þá, er það nokkuð? Ég er búin að sannreyna að ég kemst ekki inn á lykilorðinu og vel Try another way.

Facebook 3

 

 

 

 

 

 

 

Hér smelli ég á No longer have access to these?

Facebook no longer access

 

 

 

 

 

 

 

Og þá kemur upp þessi sem ég fagnaði ógurlega. Segðu okkur hvernig við getum nálgast þig með því að senda okkur nýtt netfang, staðfestu að þú sért þú og við komum í veg fyrir að einhver annar loggi sig inn á þína síðu og fylgstu með skilaboðum frá okkur vegna þess að við munum senda þér tölvupóst með leiðbeiningum um hvernig þú kemst aftur á Facebook. Ég vel Start.

Facebook 4

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég dríf mig í að taka skýra mynd af vegabréfinu. Allt klárt og ýti á örina.

Facebook 5

 

 

 

 

 

 

 

Og fæ lemstraðan putta!

Facebook 6

 

 

 

 

 

 

 

Er nema von að manni fallist hendur? Ég.finn.enga.leið.til.að.koma.Facebook.í.skilning.um.að.ég.er.ég.


Facebook-skömmin

Ég lét blekkjast í Facebook-spjalli á fimmtudaginn og missti aðganginn í hendurnar á hakkara. Hvað græðir hann? Jú, hann gæti komist yfir aðgang að greiðslukortum þeirra sem ganga í gildruna. Það gerðist ekki hjá mér en sjálfsagt verð ég mjög vör um mig næstu mánuðina og árin og vonandi alltaf. Ef ég hefði ekki sent kóðann á fimmtudaginn hefði mér fundist ég næstum dónaleg við þá sem ég hélt að ég væri að tala við. Ein vinkona mín sendi mynd af kortinu sínu en bankinn greip þann bolta.

Hakkarinn hefur valdið usla en ekki grætt pening eftir því sem ég kemst næst.

Framvegis verð ég ekki svona meðvirk. Tek fram að ég hef sloppið í rúm 13 ár þótt ég hafi oft fengið send vídeó sem ég hef ekki opnað. Þau hafa komið frá fólki sem er mjög ólíklegt til að senda mér óorðuð skilaboð.

Hvaða hakkari sem gæti tekið upp á að lesa bloggið mitt græðir samt ekkert á þessum bollaleggingum mínum. Ég tvíeflist í efasemdum mínum héðan í frá.

En nú að fyrirsögninni. Enginn hefur verið leiðinlegur við mig eða kennt mér um gildruna sem ég lagði heldur ekki. Samt upplifi ég dálitla skömm, eins og ég hafi verið mjög dómgreindarlaus. Þess vegna hamast ég við að segja frá þessu á öllum stöðum þar sem ég hef einhverja rödd; á nýju Facebook-síðunni sem ég stofnaði, á Instagram, Snapchat og svo hér.

Vefengið allar beiðnir sem þið fáið. Verið tortryggin. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband