Færsluflokkur: Dægurmál
Sunnudagur, 25. júní 2023
Rækjuvinnslan á Hólmavík
Akurnesingar og þingmenn Norðvesturkjördæmis hafa hátt út af vertíðaratvinnumissi 200 manns. Ég hef sjálf verið vinnu- og öryggisfíkill og hef mikla samúð með fólki sem getur ekki unnið fyrir sér.
Í öllu kraðakinu í kringum þetta mál og skýrsluna um veiðar á langreyðum finn ég ekki fréttina um að Kristján Loftsson hafi verið seinn að veita svör og andsvör vegna gagnrýni á veiðiaðferðir Hvals, en getur ekki verið að hann beri meiri ábyrgð en ráðherra á tveggja mánaða seinkuninni? Er þá ekki Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsleiðtogi á Akranesi, að hengja bakara fyir smið?
Á sama tíma fer lítið fyrir frétt af því að nú ætlar Samherji að loka rækjuvinnslu sinni á Hólmavík. Í því litla samfélagi missa þá 20 manns vinnuna til frambúðar. Ég hef ekki heyrt Teit Björn Einarsson hækka róminn út af því. Ekki samt útilokað að hann hafi gert það.
Er þetta ekki a.m.k. tvískinnungur hjá hávaðabelgjunum á hitafundinum í síðustu viku?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. júní 2023
Hvalveiðar
Kannski er þetta arfleifð frá leiðsögumannsárum mínum en ég sé alltaf kost og löst á hvalveiðum. Hvalveiðar voru sérstaklega teknar sem dæmi um það sem maður þyrfti að tala gætilega um við útlenska gesti á Íslandi.
Hvalir éta það sem fiskurinn okkar étur annars.
Hvalir eru tilfinningaverur.
Hvalir eru of margir.
Hvalir eru til sýnis.
Núna hefur ráðherra ákveðið að leyfa ekki hvalveiðar og þá kemur á daginn, miðað við það sem Vilhjálmur Birgisson segir, að störf við hvalveiðar borgi allt að fjórum sinnum meira en önnur störf sem bjóðast því fólki. Ég hef heyrt að fólk þéni á einu sumri árslaun í öðrum störfum, sem sagt fjórum sinnum hærra kaup.
Í hinu orðinu heyrir maður að kjötið seljist ekki. Hvaðan koma þá þær tekjur sem verða að launum þessa hátekjufólks?
Hefur það komið fram í fréttum? Það hefur þá farið framhjá mér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. júní 2023
Óveiddi fiskurinn
Útgerðarfélög unnu mál gegn ríkinu um að þeim hafi borið að fá makrílkvóta. Þannig voru lögin. Milljarður í súginn eða kannski tveir. En það sem mér blöskrar er þetta:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 5. júní 2023
4-10% skerðing eftir skylduáskrift í áratugi
Fyrirhugaðar skerðingar á greiðslum úr lífeyrissjóði hljóta að jafngilda fyrirvaralausum launalækkunum.
Mannkynið er að eldast eins og hefur verið fyrirséð með betri meðferð á fólki heilt yfir. Reyndar hefur lengst af verið langlífi í minni ætt þannig að ég má alveg búast við að verða 110 ára. Ég er að reyna að ná utan um að greiðslur MÍNAR í lífeyrissjóðina verði rýrari þegar ég hef töku lífeyris. Ég hefði kannski bara sjálf getað ávaxtað féð betur en það er SKYLDA að borga í lífeyrissjóð og tilfinning mín er að starfsmenn lífeyrissjóðanna - sem eru of margir - taki óþarflega mikinn skerf af skylduáskrift okkar.
Ég er frekar brjáluð yfir þessu og fegin að einhver nennir að taka slaginn.
Svo er fólki bannað að vinna hjá hinu opinbera þegar það er orðið sjötugt þótt það hafi bæði vinnuvilja og þrek til þess. Ég skil alveg að sumir vilji hætta á öðrum tímapunkti og veit að sum störf slíta fólki meira en önnur, en ef við verðum að meðaltali 90 ára eftir 20 ár er óþarfi að SKIKKA fólk í frí þegar það vill halda áfram því sem það gerir vel og menntaði sig til að gera.
Þvílík forsjárhyggja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 3. júní 2023
Skatturinn - álagning
Ég er viss um að margir eru í sömu sporum og ég, að hafa fengið óskiljanlegan álagningarseðil frá Skattinum og að hafa fengið rukkun og endurgreiðslu í einhverri mynd nú um mánaðamótin.
Ég er líka viss um að margir eru sammála mér um að starfsfólks Skattsins er greiðvikið ef maður talar við það í síma.
Og sjálf er ég himinlifandi með innkomu Skattsins á Twitter þar sem færslur eru í sjálfu sér fræðandi og stundum meinfyndnar.
En flækjustigið er það ekki.
23. og 26. maí fékk ég fyrirvaralausar rukkanir frá Skattinum sem hétu í báðum tilfellum eftirstöðvar, innheimta, annars vegar upp á 115.000 og hins vegar 45.000 kr. (námundað). Í gær fékk ég svo lægri upphæðina lagða inn hjá mér sem staðgreiðslu, tryggingagjald. Fyrr í maí hafði ég fengið bréfpóst frá Skattinum um að ég ætti ónýttan persónufrádrátt frá 2021 sem myndi nýtast mér á þessu skattári.
2020 og 2021 taldi ég sjálf fram og greinilega svona illa en núna í febrúar fékk ég mér endurskoðanda sem gerði allt skv. bókinni. Samt eru allar upplýsingar frá Skattinum í skötulíki og rukkanir og endurgreiðslur óskiljanlegar venjulegum skattgreiðendum.
Ég er nefnilega viss um að ég er ekki ein um að sitja hér með spurningarmerki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 31. maí 2023
Launin þín og launin mín
... ó, þá fögru steina - svo ég grípi til kveðskapar Skáld-Rósu.
Ég er nautnalítil, eins og bróðir minn segir að amma hafi sagt um sjálfa sig, þótt ég kjósi nú ekki að borða ruðurnar eins og hún gerði um leið og hún bauð gestum upp á nýmeti. Hún var fædd 1890.
En ég er sem sagt nægjusöm og mig skortir ekkert, hreint ekkert. Hins vegar skil ég ekki hvernig fólkið í hæstu tekjutíundinni getur talað um að launin þess fylgi ekki einu sinni verðbólgunni þegar engin laun fylgja verðbólgunni nema kannski laun einhverra bankastjóra sem komast upp með að skammta sér alls konar gjöld úr vösum nauðbeygðra kaupenda þjónustu á fákeppnismarkaði.
Ég finn ekki nákvæmlega þá frétt en ég man að einn ráðamaðurinn sagði þetta. Svo held ég að hann hafi étið setninguna ofan í sig en auðvitað grunar mig að hann hafi bara verið að tala upp í almenningsálitið þá og sér þvert um hug. Tveggja milljóna maðurinn vill fá laun frá umbjóðendum sínum til að geta keypt sams konar nautalundir og sams konar Benz og hann gat keypt fyrir raunvirði launanna sinna fyrir fimm árum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 29. maí 2023
Óður til hvatvísi
Ég sá mynd í bíó í kvöld. Salurinn, að sönnu frekar lítill, var fullur af áhorfendum. Við sátum alveg á fremsta bekk og ég hló svo mikið að ég var farin að tárast. Myndin fannst mér skondin og skemmtileg en það er klárt mál að hlæjandi salur örvar frekar en ekki.
Myndin? Já, hún er um fjórar bandarískar vinkonur um sjötugt sem ákveða sisona að fara til Ítalíu. Þar drífur ýmislegt á daga þeirra sem þær taka af þeirri stóísku ró sem hæfilegur aldur og hæfileg fjárráð bjóða. Lærdómurinn sem þær taka með sér heim úr fríinu er að fresta ekki því sem þær vilja gera heldur tileinka sér meiri hvatvísi.
Það finnst mér þjóðráð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 28. maí 2023
Lokanir og niðurlagningar
Ég er breytingasinni. Sjálfsagt er ég vanaföst á minn hátt en ef einhver starfsemi er dauðadæmd, eftirspurn lítil eða engin og hægt að gera hlutina á hagkvæmari hátt eða sleppa þeim finnst mér sjálfsagt að skoða það.
Ég tók þátt í að innleiða talgreini á Alþingi, vél sem skrifar upp ræður þingmanna. Samsvörunin var komin í rúm 90% þegar ég sagði upp árið 2019 og það þótt ekki hafi verið byrjað að þróa talgreininn fyrr en 2016. Sumir hötuðu þessa breytingu og töluðu um að fólk myndi missa vinnuna. Vissulega varð breyting á starfinu en að mínu mati öll til bóta. Í og með til að enginn missti vinnuna ákvað ég að breyta til og sagði upp. Einhver gáfulegasta ákvörðun sem ég tók þann áratuginn.
Nú er ég í öðru spennandi starfi og reyni hvað ég get til að þróast í því og með því.
En hvatinn að þessu litla pári mínu núna er fréttin sem ég heyrði í útvarpinu í morgun um að búið væri að segja upp öllu starfsfólki Náttúrufræðistofu Kópavogs. Ég heyrði ekki talað um eftirspurn eftir sýningunni, t.d. meðal skólabarna, eða neina þarfagreingingu, aðeins að forstöðumaðurinn væri óhress.
Það má vera að ákvörðunin sé fordæmanleg, en í fréttinni kom ekkert fram sem sannfærði mig um það. Kannski eru pólitíkusarnir að spara nokkrar milljónir til að geta keypt betra með kaffinu, en um það sagði ekkert í fréttinni. Er þetta endilega glötuð ákvörðun?
Og af hverju finn ég ekkert um hana á RÚV?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 26. maí 2023
Álfadalur eftir Guðrúnu Jónínu Magnúsdóttur
Höfundur Álfadals rekur áhrifamikla frásögn um ógeðslegt ofbeldi og ógeðslega meðvirkni. Helsti kostur bókarinnar er hispursleysið og sannleiksástin en gallinn auðvitað ógeðið sjálft, já, og meðvirknin.
Hvað er að fólki? Hvernig getur skipt meira máli hvað fólki finnst en það að maður leggist meðvitað á dætur sínar? Hvernig getur nokkur maður verið svo ógeðslegur að nauðga skipulega öllum dætrum sínum, reyna við tengdadætur sínar og glotta svo þegar hann verður afi barnsins síns? Lenti hann sjálfur í einhverju sem barn eða unglingur?
Ég er alin upp af feðraveldinu og stend mig stundum að því að vorkenna gerendum. Að sumu leyti er ósköp göfugt að vorkenna þeim sem eru svo skemmdir af einhverra völdum að þeir skemma sjálfir annað fólk, en það má ekki brjótast út í meðvirkni.
Helvítis fokking fokk.
Ég veit varla hvort ég ætti að mæla með þessari bók. Við vitum að sumt fólk er rotið en í stað þess að lesa bara og býsnast ættum við frekar að hamast við að uppræta siðleysið og hjálpa þeim sem hægt er að hjálpa til siðbótar.
Ég er svo fjúkandi reið yfir að siðlausir narsissistar komist upp með allt sem þeir komast upp með. Eða þau.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 24. maí 2023
Ristilspeglun - seinni færsla
Ég skrifaði hér fyrir þremur vikum ristilspeglunarsögu mína og vil bara ítreka að mér blöskrar verðið þótt ég hafi efni á að borga 50.000 kr. fyrir þessa athugun. Ég er í Fræðagarði sem er undir regnhlíf BSRB og allt í einu hugkvæmdist mér að ég ætti kannski rétt á styrk frá stéttarfélaginu mínu.
Svo reyndist vera. Ég fæ 10.000 kr. af upphæðinni og þar af eru 3.145 kr. dregnar frá sem staðgreiðsla. Ég fékk því 6.855 kr. úr styrktarsjóðnum, sem sagt rétt rúm 14% af því sem ég greiddi fyrir speglunina.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)