630 krónur!

Þau sem brjóta af sér og nást fara sum í fangelsi sem líka eru kölluð betrunarhús. Ég fór í skoðunarferð á Hólmsheiði í vor og varð döpur. Sennilega er það fangelsi bara fínt en frelsissvipting er dapurlegt úrræði sem ég skil þó vel að stundum þurfi að beita.

Ég spurði hvernig færi með fjárhagsskuldbindingar fanga sem eru þar um tíma. Mér skildist að fangar gætu samið um frystingu skulda, t.d. vegna húsnæðis, en hvað gerist síðan þegar fangar koma aftur út í samfélagið og hafa ekki aflað tekna í langan tíma en skuldir hafa ekki horfið?

Best að ég segi það skýrt að auðvitað hafa gjörðir afleiðingar og sá sem brýtur af sér getur þurft að sæta refsingu sem stundum er frelsissvipting.

Á RÚV er líka kominn í sýningu danskur þáttur sem gerist í fangelsi. Ég horfði áhugasöm á fyrsta þáttinn á sunnudaginn og fékk ómældan hroll. Fangarnir voru sterkara gengi en fangaverðirnir og meðal fanganna var stéttskipting. Þegar ofbeldisfullt fólk er vistað saman trúi ég að það kalli á alls konar vonda hegðun. Ég gæti ekki unnið á svona stað þar sem maður þarf að vera taktískur til að þrífast. Sumir fangaverðirnir voru sjálfir ofbeldishneigðir og aðrir svo ferkantaðir að jaðraði við einfeldni. Ég er voða hrædd um að ég vildi allan daginn fara eftir reglum sem eru kannski alls ekkert alltaf svo gáfulegar - en reglur hússins.

Já, og hvatinn að þessari skriflegu hugsun minni í dag er fréttin af dagpeningum fanga. Vonandi er það mýta að allir fangar reyki (sígarettur) en 630 krónur sem mögulega dugðu fyrir sígaréttupakka árið 2006 duga ekki lengur. 

Fangar hljóta að eiga að njóta lágmarksmannréttinda þótt þeir brjóti af sér. Ég veit fyrir víst að í þeim hópi eru ýmsir sem voru sjálfir fórnarlömb í æsku. Þolendur verða sumir gerendur.

Hins vegar finnst mér að hvítflibbaglæpamenn sem svíkja í stórum stíl undan skatti og eiga - þegar upp kemst - að borga tvöfalda upphæðina sem þeir stungu undan eða sitja inni í kannski eitt ár að borga fyrir dvölina. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband