Færsluflokkur: Dægurmál
Sunnudagur, 16. júlí 2023
Facebook-aðgangur
Ég var hökkuð og missti Facebook-aðganginn. Nú er mér sagt að ég geti endurheimt hann með ákveðnum aðferðum, þar á meðal með því að senda Facebook mynd af vegabréfinu eða ökuskírteininu, en fyrst þarf ég að senda netfangið. Og mín sérstaka vandamálasaga er að netfangið sem ég tengdi Facebook við er gamalt hotmail-netfang sem fylltist á árinu og ég ákvað að leggja til hliðar enda farin að nota tvö önnur netföng meira. Ég eyddi því bróðurpartinum af gærdeginum í að eyða og eyða póstum, skoða þá fyrst og afrita suma en sumum vil ég ekki farga í sinni mynd. Þar er efst á lista sönnunargagn um að bróðir minn stal af mér peningum sem honum finnst bara sanngjarnt að stela af mér af því að hann tapaði peningum í hruninu. Lögmaðurinn með hæstaréttarréttindin sem hjálpaði honum að svína á okkur systkinum kemur þar líka við sögu og umboð sem hann hjálpaði Gumma að skrifa um arfinn eftir pabba meðan pabbi var sprelllifandi. Allt mjög óviðkunnanlegt, smekklaust og illa lyktandi af gróðafíkn og glæpum.
Margháttaðar afleiðingar af hakki bjánans sem sendi guð má vita hve mörgum af vinalistanum mínum beiðni um símanúmer út af SMS-leik. Ég myndi aldrei gera svoleiðis en skiljanlega vissu það ekki öll þrettán hundruðin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 14. júlí 2023
Hakkið á Facebook
Ég þarf bara að puðra úr mér ergelsi yfir að Facebook-síðan mín hafi verið hökkuð. Í gær fékk ég skilaboð frá góðri vinkonu sem bað mig um símanúmerið mitt. Ég hugsaði: Já, en ég er í símaskránni, en sendi henni það samt. Hún er týpan sem setur hjörtu með öllum færslum. Svo sagði hún mér að ég hefði unnið 810.000 kr. í SMS-leik og bað mig um mynd af kortinu mínu. Þá náttúrlega sá ég hvernig í pottinn var búið.
Þetta var í gær.
Áðan fékk ég síðan skilaboð í tölvupósti um að ég hefði nýlega breytt um netfang á Facebook-síðunni og hvort ég vildi staðfesta það. Og ég sver að hotmail-netfangið mitt fylltist í vetur þannig að ég hef verið að breyta um netfang á ýmsum stöðum síðan og þarna gekk ég í gildruna og byrjaði að svara. Svo fór fólk að láta mig vita unnvörpum að ég væri að bjóðast til að leggja inn hjá því í skilaboðum.
Ég hringdi í góðan vin áðan sem þurfti að endurnýja síðuna sína í vor út af hakkaðri síðu og ég sé fram á að þurfa að byrja á nýrri vinasöfnun innan skamms.
Ergilegt.is. Og nú ætla ég að leggja mig og vona að vandamálið hverfi meðan ég hef augun aftur. Eða ekki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 2. júlí 2023
Starfslokasamningur - smjörklípa?
Nú er kallað eftir að stjórn Íslandsbanka birti starfslokasamning fyrrverandi bankastjóra Íslandsbanka. Við erum að tala um bankastjóra sem var með svívirðilega há laun sem ég heyrði engan gera athugasemd við, bankastjóra sem fékk sérstaklega greidda yfirvinnu upp á 11 milljónir fyrir að standa að ólöglegri sölu á hlutum í bankanum - og við hverju býst fólk þegar starfslokasamningur er gerður við hana á grundvelli ráðningarsamnings? Ég giska á 60 milljónir í kveðjugjöf.
Og hvað ætla stjórnmálamenn að gera þegar kveðjugjöfin verður gerð opinber?
Eftirlitskerfið er grútmáttlaust og liðónýtt. Héraðsdómarar eru með um 2 milljónir á mánuði og einhverjir fara á límingunum yfir því en þeim er treyst fyrir miklum réttindamálum. Ég sé reyndar ekki upphæð þingfararkaupsins núna en laun þingmanna held ég að séu undir 2 milljónum á mánuði og ef menn vanda sig og leggja sig fram er starfið mjög tíma- og orkufrekt. Síðan eru bankastjórar og framkvæmdastjórar í bönkum með 4-5 milljónir á mánuði og þeim tekst ekki að fara að lögum í vinnunni!
Ég er búin að stofna reikning hjá Indó. Svo á það fyrirbæri eftir að sýna að það falli ekki í sama fúla pyttinn og bankarnir. Vald spillir og mikið vald spillir mikið þannig að ég er hlynnt valddreifingu. Sjáum hvað setur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 1. júlí 2023
Þræðir Atla Más og Ingvars Þórs
Ég get ekki nógsamlega dásamað það að hafa dottið niður á Þræði Atla Más og Ingvars Þórs í hlaðvarpi RÚV. Fyrst hlustaði ég bara á það sem mér þótti áhugavert en svo áttaði ég mig á að þeir gerðu allt áhugavert af því að þeir eru sjálfir reknir áfram af fróðleiksfýsn. Þeir þræða sig í gegnum ýmislegt í hljóðsafni RÚV, spila það, leggja út af því og bæta svo við sínum eigin viðtölum. Í nýjasta þættinum fjalla þeir um Reyni Pétur sem gekk hringinn í kringum Ísland árið 1985 en svo eru þeir í línulegri dagskrá á sunnudagsmorgnum og á morgun ætla þeir að fjalla um geisladiska- og bókabrennur í Vestmannaeyjum!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 28. júní 2023
Hvað er RÚV að pæla?
Ég horfði á fréttina í gærkvöldi um 23 ára gamlan mann sem keypti 44 milljóna króna hús í Sandgerði fyrir bótafé eftir slys. Eins og margir er ég alveg bit á því að svona geti gerst, að hús sé selt fyrir 1/19 af markaðsvirði hússins, en ég spyr líka um ábyrgð fréttamanna. Fréttin var meingölluð en væntanlega verður málinu fylgt eftir af mörgum fjölmiðlum næstu daga og auðvitað dregur útgerðarmaðurinn tilboðið til baka og fjölskyldan fær að búa áfram í húsinu sínu.
1. Hvernig gat maðurinn sem vissi ekki að hann þyrfti að borga fasteignagjöld og rafmagn + hita keypt fasteign 18 ára gamall? Fékk hann ekki faglega aðstoð við það? Hvar var sú aðstoð eftir það?
2. Var enginn annar fullorðinn á heimilinu sem vissi þetta?
3. Var enginn annar fullorðinn á heimilinu sem gat veitt viðtal í fréttinni?
4. Er það satt að sýslumaðurinn og kaupandinn hafi komið saman í bíl að kaupa húsið fyrir slikk?
5. Er stjórnsýslan á svæðinu gegnrotin?
Þessari frétt var ekki ætlað að veita upplýsingar, henni var ætlað að vekja upp tilfinningaóreiðu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 26. júní 2023
Stríðið í Írak
Ég horfði á magnaða breska bíómynd á RÚV um helgina. Ég vissi ekkert um hana (frá 2019) og ég vissi svo sem heldur ekkert um söguna sem er víst í aðalatriðum sönn. Ég man hins vegar þegar Ísland var sett á lista yfir staðfastar stuðningsþjóðir við stríðið í Írak 2003 sem tveir lítt vitrir menn höfðu allt frumkvæði að á Íslandi.
Stríðið var ólögmætt og illa að því staðið á alla enda og kanta og við megum skammast okkar fyrir það, en ekki hún Katharine Gun sem steig fram fyrir skjöldu til að reyna að hafa áhrif.
Mæli mikið með þessari mynd.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. júní 2023
Rækjuvinnslan á Hólmavík
Akurnesingar og þingmenn Norðvesturkjördæmis hafa hátt út af vertíðaratvinnumissi 200 manns. Ég hef sjálf verið vinnu- og öryggisfíkill og hef mikla samúð með fólki sem getur ekki unnið fyrir sér.
Í öllu kraðakinu í kringum þetta mál og skýrsluna um veiðar á langreyðum finn ég ekki fréttina um að Kristján Loftsson hafi verið seinn að veita svör og andsvör vegna gagnrýni á veiðiaðferðir Hvals, en getur ekki verið að hann beri meiri ábyrgð en ráðherra á tveggja mánaða seinkuninni? Er þá ekki Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsleiðtogi á Akranesi, að hengja bakara fyir smið?
Á sama tíma fer lítið fyrir frétt af því að nú ætlar Samherji að loka rækjuvinnslu sinni á Hólmavík. Í því litla samfélagi missa þá 20 manns vinnuna til frambúðar. Ég hef ekki heyrt Teit Björn Einarsson hækka róminn út af því. Ekki samt útilokað að hann hafi gert það.
Er þetta ekki a.m.k. tvískinnungur hjá hávaðabelgjunum á hitafundinum í síðustu viku?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 21. júní 2023
Hvalveiðar
Kannski er þetta arfleifð frá leiðsögumannsárum mínum en ég sé alltaf kost og löst á hvalveiðum. Hvalveiðar voru sérstaklega teknar sem dæmi um það sem maður þyrfti að tala gætilega um við útlenska gesti á Íslandi.
Hvalir éta það sem fiskurinn okkar étur annars.
Hvalir eru tilfinningaverur.
Hvalir eru of margir.
Hvalir eru til sýnis.
Núna hefur ráðherra ákveðið að leyfa ekki hvalveiðar og þá kemur á daginn, miðað við það sem Vilhjálmur Birgisson segir, að störf við hvalveiðar borgi allt að fjórum sinnum meira en önnur störf sem bjóðast því fólki. Ég hef heyrt að fólk þéni á einu sumri árslaun í öðrum störfum, sem sagt fjórum sinnum hærra kaup.
Í hinu orðinu heyrir maður að kjötið seljist ekki. Hvaðan koma þá þær tekjur sem verða að launum þessa hátekjufólks?
Hefur það komið fram í fréttum? Það hefur þá farið framhjá mér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 6. júní 2023
Óveiddi fiskurinn
Útgerðarfélög unnu mál gegn ríkinu um að þeim hafi borið að fá makrílkvóta. Þannig voru lögin. Milljarður í súginn eða kannski tveir. En það sem mér blöskrar er þetta:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 5. júní 2023
4-10% skerðing eftir skylduáskrift í áratugi
Fyrirhugaðar skerðingar á greiðslum úr lífeyrissjóði hljóta að jafngilda fyrirvaralausum launalækkunum.
Mannkynið er að eldast eins og hefur verið fyrirséð með betri meðferð á fólki heilt yfir. Reyndar hefur lengst af verið langlífi í minni ætt þannig að ég má alveg búast við að verða 110 ára. Ég er að reyna að ná utan um að greiðslur MÍNAR í lífeyrissjóðina verði rýrari þegar ég hef töku lífeyris. Ég hefði kannski bara sjálf getað ávaxtað féð betur en það er SKYLDA að borga í lífeyrissjóð og tilfinning mín er að starfsmenn lífeyrissjóðanna - sem eru of margir - taki óþarflega mikinn skerf af skylduáskrift okkar.
Ég er frekar brjáluð yfir þessu og fegin að einhver nennir að taka slaginn.
Svo er fólki bannað að vinna hjá hinu opinbera þegar það er orðið sjötugt þótt það hafi bæði vinnuvilja og þrek til þess. Ég skil alveg að sumir vilji hætta á öðrum tímapunkti og veit að sum störf slíta fólki meira en önnur, en ef við verðum að meðaltali 90 ára eftir 20 ár er óþarfi að SKIKKA fólk í frí þegar það vill halda áfram því sem það gerir vel og menntaði sig til að gera.
Þvílík forsjárhyggja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)