Færsluflokkur: Dægurmál

Byggjum 35.000 íbúðir

Það sem Ólafur Margeirsson sagði


Strætó frá Reykjavík til Keflavíkur

Ég tók einu sinni strætó frá Klambratúni til Keflavíkur. Ég gat það bara af því að ég fór á björtum degi, hafði tíma til að rúnta um smábæina og hafði einbeittan vilja til að finna staðinn til að fara út úr strætó í Keflavík.

Eina ástæðan fyrir þessari lélegu þjónustu er að ekki má styggja einkafyrirtækin tvö sem okurselja farið með rútunum. Það er mín skoðun en ekkert annað stenst skoðun.

Spillingin er víða.

Og ég held að við látum þetta viðgangast af því að sem þjóð erum við bullandi meðvirk, ég líka en ég reyni stundum að rísa upp á afturlappirnar.


Juliet, naked

Í gærkvöldi horfði ég á bíómynd sem ég held að mér muni finnast stórkostleg þegar frá líður. Hún var bara sýnd á RÚV, er frá 2018 og ég hafði ekkert heyrt um hana.

Hún er um konu sem tók ákvörðun sem ung kona og 15 árum síðar sér hún eftir henni. Oftast sér maður eftir því sem maður gerði ekki, síður því sem maður gerði, er það ekki? Henni fannst hún hafa flotið áfram í lífinu frekar en að taka af skarið. Við getum mörg tekið þetta til okkar.

Þetta er mynd sem sameinar vellíðan, sársauka, vonir og framtíð. Ég leit ekki af henni meðan hún rúllaði á skjánum og það get ég sjaldan sagt nú orðið. Hins vegar skil ég ekki titilinn.


Pallborðið á Vísi

Ég ætla að segja það sem ég hef verið að hugsa. visir.is, sem sagt einkafjölmiðill, stendur sig miklu betur en ríkisfjölmiðillinn í að upplýsa mig um gang mála í kjaradeilunni sem skekur, tjah, allt mitt líf þótt ég eigi persónulega nánast ekkert undir. Helstu áhrifin eru að ég gæti mögulega ekki komist á gönguskíðanámskeið til Siglufjarðar um næstu helgi.

En visir.is stóð sem sagt fyrir klukkutímalangri umræðu við deilendur í kjaraviðræðum Eflingar og SA sem ég horfði á undir kvöld í gær. Ég gat varla slitið mig frá þættinum enda var hann ríkulega myndskreyttur. Mitt mat er að bæði Sólveig og Halldór séu á síðustu bensíndropunum og innilega til í að fara að lenda málinu. Og þá er líklega rétt að ég haldi því hér til haga að ef ég væri hvort þeirra sem er hefði ég gefist upp fyrir viku. Þess vegna er ég ekki í kjaraviðræðum og enginn myndi velja mig til þeirrar forystu. Og ég get líka bætt því við að fyrir hönd leiðsögumanna hóf ég einu sinni kjaraviðræður við SAF/SA (2002) og það var við þvílíkt ofurefli að etja að ég þakkaði mínum sæla þegar formannsárinu mínu lauk og ég gat dregið mig í hlé. Forkólfar atvinnurekenda eru með her manns á fullum launum við að mæta litlum stéttarfélögum sem eru rekin af sjálfboðaliðum - ekkert fékk ég a.m.k. borgað - og þau sem eru ekki hreinlega meðvirk og haldin Stokkhólmsheilkenninu gefast bara upp fyrr en síðar og þiggja þá hungurlús sem að þeim er rétt. Kjör leiðsögumanna eru ekki í neinu samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til þessa andlits ferðaþjónustunnar.

Og ég held að obbinn af þeim 90% stéttarfélaga sem framkvæmdastjóri SA hreykir sér í sífellu af að hafa samið við hringinn í kringum landið ráði ekki við lögfræðingastóðið sem SA búa yfir. Viðsemjendurnir eiga bara fullt í fangi með að sinna vinnunni og mæta svo til samninga í fátæklegum frítíma sínum.

Engu að síður held ég að þessir tveir turnar, Efling og Samtök atvinnulífsins, muni lenda samningi fyrir 2. mars með fulltingi setts sáttasemjara og e.t.v. miðlunartillögu sem sé ekki snýtt úr nösum Samtaka atvinnulífsins.


35% hækkun í Skipholti

Í september kostuðu Maarud-kartöfluflögurnar á myndinni 349 krónur. Ég fékk leiðindadálæti á þeim og borðaði þótt ég hefði ekki gott af því. Af mörgum veikleikum mínum er veikleiki gagnvart kartöflum vandræðalega mikill. Ég tók svo eftir því að pokinn hækkaði í 379, eftir áramót fór hann upp í 409 og núna 479 krónur. Kannski millilenti hann í 429, en hann hefur alltént hækkað um 130 krónur síðan í september, tæplega 35%.

Maarud

Ég get ítrekað að ég ætti að sniðganga þessar kaloríur en sumt fólk má alveg við þeim. En má það við 35% hækkun verðlags?

Þið gætuð örugglega bent á mörg önnur dæmi sem þið hafið tekið eftir. Er hægt að bjóða okkur upp á þetta til lengdar? Heyri ég einhvern tala um 35% hækkun á laun?


Tjónið af yfirgangi auðvaldsins

„Við erum alveg örugglega ekki að tala um tugmilljónir, við erum örugglega að tala um nokkur hundruð milljónir sem við erum komin í nú þegar því stórir hópar eru nú þegar búnir að afpanta,“ segir Elías. 

Þetta er haft eftir settum ferðamálastjóra.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hnýt um það að ferðaþjónustan telur sig tapa gríðarlega en hefði ekki grætt gríðarlega í óbreyttu ástandi. 

Er einhver búinn að reikna út meint tjón af því að hækka laun þeirra sem smyrja hjól atvinnulífsins og bera saman við meint tjón af verkbanni og öðrum tjónvöldum Samtaka atvinnulífsins?

Mér finnst auðmýkjandi að bera það bull á borð fyrir hugsandi fólk að láglaunastéttirnar séu vandinn. Það fólk sem gerir það hefur orðið sér til skammar og opinberað vanmátt sinn.


Var Vilhjálmi og Ragnari lofað að semja ekki út fyrir meintan ramma?

Ég hef heyrt að hvorki Starfsgreinasambandið né VR hafi gert kröfu um að önnur verkalýðsfélög gætu ekki samið á sínum forsendum við Samtök atvinnulífsins. Það er samt mantran sem framkvæmdastjóri SA fer með. Mikið væri nú gott ef viðmælendur framkvæmdastjórans spyrðu aðeins betur út í þetta. Merkilega margir þáttagerðarmenn hafa verið duglegir að stoppa eintalið hans en ekki nógu margir fréttamenn. 

Það væri gott að fá þetta á hreint. Myndu SGS og VR bregðast illa við ef verkafólk Eflingar fengi meira en það sem SGS og VR hafa samið um? Og ég spyr aftur: Af hverju erum við með mörg stéttarfélög ef þau eiga öll að elta það félag sem semur fyrst?


Óöldin

Ég þyrfti að setja sjálfa mig í fréttabann en ég held áfram að kvelja mig mörgum sinnum á dag. Hrokinn sem lekur af auðvaldinu er svo yfirgengilegur að mig verkjar í hjartað og sálina og er ég þó frekar laus við væmni allajafna.

Hvernig er hægt að vera með 4,3 milljónir á mánuði og leyfa sér að koma í viðtal með uppgerðarmærðarsvip og þykjast hafa samúð með Eflingarfólki sem fái ekki úr mjóslegnum vinnudeilusjóði? Sá mærðarlegi hefur meira vald en flestir til að breyta rétt gagnvart þessum hópi sem hann gerir sér upp samúð gagnvart.

Ég trúi því að margir hóteleigendur og bensínsalar vilji borga starfsfólkinu sínu mannsæmandi laun og þess vegna trúi ég ekki að stóri hópurinn greiði atkvæði með verkbanni.

Ætlið þið annars að segja mér að næsta skref sé lög á verkfall? Ég tek út fyrir svo mikið sem að skrifa þetta og ég neita að trúa því fyrr en í fulla hnefana.

Ég man verkfallið 1984. Þá fór húsvörðurinn í menntaskólanum í verkfall, ekki kennarar heldur bara einn lykilmaður í húsinu, og mig minnir að mjólkin hafi líka farið í verkfall. Þá var hún líklega enn seld í sérstökum mjólkurbúðum og gott ef hún var ekki í þríhyrndum umbúðum.

Það er viðurkenndur réttur fólks að berjast fyrir bættum kjörum sínum og sýna fram á mikilvægi starfsins sem það gegnir. Og þið vitið hvaða fólk tæki eftir því ef framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins færi í verkfall. Börnin hans sem hann myndi horfa aðeins oftar á Hvolpasveitina með. Ekki sála á vinnumarkaði eða sála í leit að þjónustu. ENGINN myndi sakna hans nema kannski fólkið við kaffivélina í Borgartúninu.

Afsakið að ég skuli vaða í persónuna en baráttan gegn sanngirni hefur bara verið persónugerð af honum sjálfum þannig að það er erfitt að aðskilja nefið og augun. Þið vitið: Náið er nef augum.

Ég væri innilega til í að víkja helstu persónum af sviðinu og láta málefnin takast á. Er sanngjarnt að fólk sé matvinnungar? 

Svari hver fyrir sig.


Verkbann?

Atvinnurekendur fara á límingunum yfir verkfalli láglaunafólks vegna þess að það lami atvinnulífið og hagkerfið en boða svo verkbann til að senda lægst launaða fólkið heim alveg tekjulaust.

Í stað þess að rétta þeim sem hóstar snýtubréf á nú að reka framan í hann olíuborinn tvist.

Til öryggis tek ég fram að ég hef það sjálf gott, er í vinnu sem ég valdi sjálf og get haft mitt líf eftir mínu höfði. Við vitum öll að það á ekki við um fólk sem þarf að slíta sér út alla daga til að smyrja hjól SA.

Í yfirlýsingu SA segir m.a.:

Sam­tök at­vinnu­lífs­ins geta ekki teygt sig lengra í átt til Efl­ing­ar án þess að koll­varpa þeim kjara­samn­ing­um sem hafa verið gerðir við öll önn­ur stétt­ar­fé­lög á al­menn­um vinnu­markaði en að baki þeim standa tæp­lega 90% starfs­fólks á al­menn­um vinnu­markaði.

Ef Efling má ekki gera kröfur fyrir sitt félagsfólk, af hverju er þá ekki bara eitt stéttarfélag í landinu?

En huggunin er að Viðskiptablaðið ætlar greinilega að taka slaginn með hjúkrunarfræðingum þegar samningar þeirra losna:

Olíubílstjórarnir eru með hærri laun en til dæmis hjúkrunarfræðingar, sem þó starfa undir miklu meira álagi, geta þurft að þola saksókn fyrir mistök í starfi og eru með margra ára háskólamenntun á bakinu. Það er ekkert sem réttlætir að olíubílstjórar hækki umfram þær gríðarlegu hækkanir sem annað launafólk hefur samið um undanfarið og verkfall þeirra er einfaldlega siðlaust.


Neyðarástand?

Eru yfirmenn á hótelum ekki í lagi? Þau tala um neyðarástand og formaður SAF um heimagerðar hamfarir. Missti þetta góða fólk af fréttum af jarðskjálftanum í Tyrklandi?

Eða tala þau um neyðarástand þegar ekki verður hægt að greiða út milljarða í arð? Er það neyðarástandið í þeirra orðabókum?

Það sýður á mér.

Ég hef alveg samúð með ferðamönnum sem grípa í tómt og fá ekki það sem þau töldu sig hafa keypt en það heyr enginn dauðastríð út af því.

Hálaunamenn - hættið að misbjóða okkur.

Tek fram til öryggis að ég hef það fínt, er ekki á skítakaupi, er í vinnu sem ég valdi mér sjálf, er með sveigjanlegan vinnutíma og borga hellingsskatt á hverju ári.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband