Færsluflokkur: Dægurmál

Tæmast búðirnar?

Ég er auðvitað lúxusdýr sem get leyft mér að hafa litlar áhyggjur af mínu persónulega lífi þrátt fyrir yfirstandandi og yfirvofandi verkföll, en er hótun um að matvöruverslanir tæmist ekki ótrúlega góð áskorun fyrir mörg okkar að grafa ofan í frystikistuna og tæma skápana?

Hins vegar er ég sannfærð, og meira en það, um að búið verði að semja um helgina.


Eldsneytisþurrð

Ég er eiginhagsmunaseggur eins og við flest. Ég gisti ekki á hótelunum í Reykjavík og ég seldi bílinn minn um helgina enda hafði ég ekki hreyft hann í rúma tvo mánuði, frá því að ég lét skoða hann síðast. Ég fer allra minna ferða hjólandi og gangandi nema þegar ég stöku sinnum fæ far með öðrum. 

Yfirvofandi bensínþurrð káfar því ekkert upp á mig. Ég skil að barnafólk sem þarf að fara langar leiðir til að koma börnunum sínum í skóla og aðrar langar leiðir til að komast í vinnu og verslanir kippi sér upp við yfirvofandi skort en mikið væri nú gaman að fólk í þeirri stöðu - og allt fólk - íhugaði mikilvægi þeirra starfsmanna sem sjá okkur fyrir grunnþörfunum. Ef samfélagið fer á hliðina í nokkra daga þegar hótelþernur og olíubílstjórar leggja niður störf en enginn tæki eftir því þótt framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins færi til Kanada og kæmi heim eftir fjóra mánuði ... þarf ég að segja meira?

Ég veit ekki öll laun allra en það er grundvallaratriði að bera saman grunnlaun stétta og einstaklinga, ekki heildarlaun með ómanneskjulegri yfirvinnu, langdvölum frá heimili og hættulegu starfi. Og kannski ég skjóti því hér inn að búið er semja við leiðsögumenn um smáaura: 

Niðurstaðan er á þann veg að já sögðu 42, eða 67,74 %, nei sögðu 19, eða 30,65%, og einn tók ekki afstöðu eða 1,61%. Niðurstaðan er því skýr. Kjarasamningurinn hefur verið samþykkur.

42 leiðsögumenn samþykktu samninginn fyrir hönd allra þeirra sem þiggja laun eftir honum og ég get sagt að laun eru greidd eftir samningnum. Sárafáir leiðsögumenn eru yfirborgaðir eða voru það a.m.k. meðan ég var í stéttinni. Samt eigum við að vera altalandi, líka með öll fagorð, á erlendu tungumáli, sérfróð um allt sem fólk gæti langað að vita, við eigum að skemmta, hugga og helst alltaf að vera til taks í hringferðunum. Leiðsögmenn fara vissulega upp í milljón á mánuði með stöðugri viðveru og taka sér síðan einhverja daga í að hvíla sig og safna kröftum eftir törnina. En að vísu er engin lífsógn fólgin í syfjuðum leiðsögumanni, ólíkt vansvefta bílstjóra.


Tjón af verkfallsaðgerðum - SA

Fréttaflaumurinn er svo stríður að ég finn ekki fréttina af því þegar framkvæmdastjóri SA sagðist myndu gera kröfu um að Efling myndi bæta tjón sem hlytist af verkföllum.

Tjón vegna þess að láglaunafólkið vinnur ekki vinnuna.

Af hverju ætti það að verða mikið tjón?

Aldrei hef ég heyrt forkólfa atvinnulífsins tala um þann mikla gróða sem hlýst af störfum láglaunafólks.

Hvernig ætti að verða mikið tjón nema vegna þess að störfin eru mikilvæg og verðmæt?

Ef þið þekkið einhverja blaðamenn megið þið gjarnan biðja þau um að spyrja gagnrýninna spurninga. Það er of lítið um gagnrýna fréttamennsku.


Arfur barnabarnanna?

Fyrir ekki svo löngu sagðist kunningjakona mín vera félagsmaður í EAB, félaginu Eyðum arfi barnanna, sem fundar aldrei og hefur engin félagsgjöld. Þau hjónin eru rúmlega sextug og eru farin að huga að starfslokum og ætla svo að flækjast um og hafa gaman og reikna svo með að þegar þau falla frá erfi börnin íbúðina sem þau eiga skuldlausa.

Svo hlustaði ég á viðtal við mann sem leggur til að við arfleiðum barnabörnin frekar en börnin. Ég hlustaði ekki nógu mikið á smáa letrið en geri ráð fyrir að hann sé að hugsa um lagalegu hliðina og e.t.v. erfðafjárskatt sem sé þá greiddur í annað hvert skipti, svo að segja. Þarna er auðvitað gengið út frá því að fólk eigi börn og barnabörn og að góður samgangur sé á milli hlutaðeigandi. Svo er nú líka sagt að maður þekki fólk ekki fyrr en maður hefur skipt með því arfi.

Mín hugmynd er að aflögufært fólk liðsinni börnum sínum og/eða barnabörnum alla ævi. Mér finnst samt að allt fólk eigi að þurfa að hafa svolítið fyrir hlutunum. Ég held að við kunnum ekki nógu vel að meta það sem við fáum fyrirhafnarlaust upp í hendurnar. 

En aðallega finnst mér að fólk eigi að njóta eigin erfiðis eins og það kýs helst og reyna að hafa gaman af lífinu þangað til því lýkur.


Er köttur bara köttur eða er köttur kannski Köttur?

Barn má ekki heita Kisa þótt barn megi heita Högni. Börn mega hins vegar heita Xavier, Æja, Klaría og Hyrrokkin. Öll ný nöfn eru óvenjuleg og skrýtin fyrsta kastið. Vinkona mín á dóttur sem hefur seinna eiginnafnið Þöll. Hún er fædd 1994. Þegar hún var í leikskóla þótti nafnið mjög skrýtið sem ég held að engum finnist í dag. Elsta dæmið sem ég finn í Íslendingabók er frá 1955. Systir leikskólastúlkunnar kom heim úr sínum leikskóla alveg forviða einn daginn og sagði: Mamma, veistu hvað? Það var strákur að byrja í leikskólanum og hann heitir BJARNI.

Nöfn eru ókunnugleg á einhverjum tímapunkti. Nöfnin Ljótur og Ljótunn vísa til birtu (ljós) en í dag heita þrír því nafni og ég finn eina sem heitir Ljótunn og það er seinna nafnið hennar.

Mér skilst að nafnið mitt sé afbökun á nafninu (Charles) Lindbergh flugkappa. Miðað við timarit.is var fyrsta stúkan (ekki stúlkan) nefnd Berglindin 1912, kvenfélags er getið 1926 en fyrsta stúlkan eitthvað síðar, jafnvel 1940, þótt Lindbergh hafi þreytt langflugið sitt 1927.

Í Íslenzkri fyndni frá 1940 er sagan sögð svona og hljómar mjög kunnuglega:

Berglind uppruni

Eitthvað get ég ímyndað mér að það hafi farið fyrir brjóstið á einhverjum, þetta skrýtna nafn sem átti enga hefð - frekar en nöfn eiga þangað til hefðin hefur skapast!

Einhvern tímann verður Kisa leyfð.


TF-SIF verður ekki seld

Ég er með kenningu. Flugvélin sem forstjóri Landhelgisgæslunnar boðar að eigi að selja vegna bágrar fjárhagsstöðu Gæslunnar - svona eins og að selja hefilinn frá Vegagerðinni, röntgentækið frá Domus Meidica eða mælaborðið úr bílnum - verður ekki seld. Það stóð aldrei til. Ég ítreka að þetta er kenning mín. Annað hvort er þetta smjörklípa til að dreifa athygli okkar frá einhverju öðru eða eitthvert annað bragð til að snapa athygli og fá samúð og svo ógurlegt þakklæti þegar sölunni verður afstýrt. Kannski verður landssöfnun og okkur gefst öllum kostur á að leggja þúsundkall í púkk.

Ég neita að æsa mig yfir þessu vegna þess að þetta er smellubeita einhvers.


Samningar hinna

Ég var að hlusta á framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins - sem er mjög fyndinn á Twitter - í útvarpinu. Hann segir - og ekki í fyrsta sinn - að Samtök atvinnulífsins hafi þegar samið við svo og svo mörg stéttarfélög.

En nú spyr ég: Ef hvert stéttarfélag á ekki að hafa tækifæri til að semja fyrir sig, á sínum forsendum og viðsemjenda sinna, af hverju erum við þá ekki bara með eitt stéttarfélag?

Ég man alveg eftir samningum á vinnustöðum sem hafa bara elt stóru félögin. Til hvers þá þessi þykjustuleikur? Kannski er samið sérstaklega um mötuneyti eða sokkabuxur en ekki um eðli hvers starfs. Mér finnst það bjánalegt.

Hvað sem um leiðtoga Eflingar má segja - sem ég sé ekki gera sig gildandi á Twitter - virðist hún berjast fyrir göfugum breytingum með óhefðbundnum aðferðum. Og ég er #teambreytingar.

Svo ég loki hugsuninni: Af hverju ætti Efling að semja eins og SGS og VR af því að SGS og VR eru búin að semja? Til að gera Halldóri glaðan dag?


Krónan - Salathúsið - leigufélagið Alma

Ég varð fyrir því óláni í síðustu viku að borða salat upp úr dós merktri Salathúsinu. Ég tók ekki eftir því fyrr en ég var að ganga frá eftir kaffið. Ég hefði ekki borðað salat frá þessu fyrirtæki ef ég hefði áttað mig í tíma.

Varan var pöntuð sem salat frá Krónunni sem hefur auðvitað ekki tekið vöruna úr sölu. Grein í Heimildinni rekur langt aftur í tímann hvað þessir stórgrósserar í félaginu Mata (Mötu?), leigufélaginu Ölmu (Alma?), víla ekki fyrir sér að okra á smælingjunum. Þetta ofmæjónesaða salat er á svipuðu verði og önnur slík salöt í búðunum en er bara liður í því að hlaða undir veldi þessa fólks sem skammast sín ekki einu sinni þótt komist upp um ... nú má ég líklega ekki segja glæpsamlega hegðun því að þá gæti lesandi kært mig þannig að ég segi að hegðun forsvarsmanna fyrirtækisins gagnvart fólki sem á ekki eins mikið undir sér sé ámælisverð og ósiðleg.

Skammist ykkar.

Og ef ég sé dollur frá þessu fyrirtæki aftur mun ég ekki gleyma að horfa og tala um það við viðstadda. Djöfull er ég svekkt út í mig fyrir að taka ekki eftir því strax. Og sannið til, þið eruð fleiri sem hafið ekki áttað ykkur.


Ríkissáttasemjari sameinar verkalýðsleiðtogana

Ég er ekki að segja lesendum fréttamiðlanna neinar nýjar fréttir eða útleggingar. Hið ótrúlega hefur bara gerst að maðurinn sem á að miðla málum, vera hlutlaus, sætta stríðandi fylkingar og samgleðjast sanngjarnri niðurstöðu hefur stillt sér upp með öðrum aðilanum. Ég er alls ekki nógu vel lesin í samningamálum til að vita hvort annað eins hefur gerst en mér væri fullkomlega misboðið ef samningavaldið væri tekið af mér á þennan hátt.

Eini augljósi árangurinn af þessu útspili ríkissáttasemjara er að Ragnar Þór og Vilhjálmur eru aftur komnir á yfirlýst band Sólveigar Önnu. 


Verkfallssjóður SA

Ég átta mig ekki á þesssu. Samt er ég búin að vita af þessari setningu í nokkra daga:

 

Fram hefur komið að vinnudeilusjóður Samtaka atvinnulífsins se digrari en verkfallssjóður Eflingar ...

 

Og í dag bættist þessi við:

 

Samtök atvinnulífsins munu bæta Íslandshótelum allt það tjón sem hlýst af mögulegu verkfalli Eflingarstarfsmanna.

 

Það er til nógur peningur til að mæta tjóni atvinnurekandans en ekki til að mæta kröfum verkalýðsins. Ég hef ekki séð neina launaseðla hjá Eflingu og veit ekkert um launin hjá einstaklingum en ég held að við vitum öll að laun ómenntaðra eru skammarlega lág, já, og margra menntaðra líka.

En framkvæmdastjóri SA lepur ekki dauðann úr skel enda ákaflega mikilvægur fyrir íslenska hagkerfið ...

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband