Færsluflokkur: Dægurmál
Þriðjudagur, 10. febrúar 2009
14.186 atvinnulausir
Segir Vinnumálastofnun. Það þarf að búa til störf og það þarf að afla tekna.
Mánudagur, 9. febrúar 2009
Hvað varð aftur um Þjóðhagsstofnun?
Æ já, ég man það núna. Og þegar það frumvarp var sent Seðlabanka Íslands til umsagnar lagði hann blessun sína yfir niðurlagningu Þjóðhagsstofnunar.
Fólk missir vinnuna í stórum stíl, fólk tapar fé og er að horfa á eftir vitinu vegna andvaraleysis, grúppíutakta og glórulaussar græðgi þeirra sem komu að málum. Er til of mikils mælst að hafa ábyrgan ráðgjafa?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 6. febrúar 2009
Flettismettið ... er bóla
Flettismettið er ekki komið til að vera ... a.m.k. fyrr en það lagar sig að íslenskri málhefð. Ég er viss um að það er argasti tímaþjófur og hef séð fólk hverfa alfarið af blogginu inn í annarlegan heim. Mér hefur verið hleypt þangað inn ... og mér finnst þessi heimur of persónulegur. Læt msn duga og verð glöð staka mengið í mínum aldurs- og vinahópi sem þverskallast við.
Flettismettið dettur fljótlega upp fyrir, hmmm. Ég ... er ... algjörlega sannfærð, grrrr.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 5. febrúar 2009
Landráð af gáleysi?
Páll Skúlason talaði um landráð í haust. Það var í þættinum hjá Evu Maríu. Honum fannst landráð vítavert, hvort sem það væri af gáleysi eða vísvitandi. Kokkur sem ég spjallaði við í haust meðan við tókum til matinn handa ferðafólkinu okkar talaði á innsoginu um landráð kaupahéðnanna. Honum var stórkostlega misboðið.
Ég held að við stöndum frammi fyrir landráði manna sem önuðu fram með græðgi bundna fyrir augun.
Eitthvað verður að gera þegar glæpur hefur verið framinn.
Það er spurning hvort frummælendur á Akureyri komist á sunnudaginn að niðurstöðu um til hvaða bragðs eigi að grípa. Ef það er ætlun þeirra yfirleitt. Eða gesta í Ketilhúsi.
-Að öðru leyti er ég langt komin með Dimmar rósir og sýnist ég ekki munu verða sammála álitsgjöfunum sem Forlagið vitnar í. Mér er líka Tröllakirkja óþarflega minnisstæð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 2. febrúar 2009
Spítalasaga
Fullorðinn maður var lagður inn á spítala í desemberbyrjun með rugluna, eins og dóttir hans orðaði það í mestu vinsemd. Hann var sem sagt vel vankaður. Hann lá í sjúkrarúmi og á honum voru gerðar rannsóknir og prufur fram yfir miðjan janúarmánuð þegar hann greindist með B12-skort!
Ég er búin að nefna þetta við ýmsa undanfarið og fólkið á götunni veit að B12-skortur veldur minnisleysi og að skorturinn komi fram í einfaldri blóðprufu.
Getur verið að hægt væri að spara í heilbrigðiskerfinu með aðeins meiri skilvirkni? Eða er þetta ómerkilegt dæmi?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Sunnudagur, 1. febrúar 2009
Strætó dregur úr þjónustu í dag
Rakalaus snilld er það hjá Strætó bs. að lengja í leiðum, breyta þeim og fækka ferðum, les: draga úr þjónustu. Ætli þetta sé ekki fjórða breytingin á þremur árum með tilheyrandi hrókeringum á strætóskýlum og breytingum á vaktatöflum - en að þessu sinni sýnist mér Strætó ætla að spara auglýsingakostnaðinn enda mjög neyðarlegt að geta ekki staðið við plön í eitt ár.
Í dag, 1. febrúar, kemur breytingin til framkvæmda og breytingin var tilkynnt með hvísli í síðustu viku.
Ástæðan er erfiðari rekstraraðstæður í kjölfar bankahrunsins! Ef ekki er lag núna að nota meðvitund fólks um mengun og gjaldeyrissparnað vegna þess að fólk þverskallist við að sjá almenna samfélagslega hagkvæmni í því að fleiri ferðist með almenningsvögnum en sínum eigin drossíum um allar þorpagrundir hlýtur Strætó að meta það svo að það sé ekki hægt. Og mér finnst lítill metnaður í slíkum rekstri.
Það er að sjálfsögðu ekki óskastaða að þurfa að draga úr þjónustu nú þegar notkun fólks á strætó hefur aukist jafnt og þétt síðustu misserin. Við teljum engu að síður, í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem við stóðum frammi fyrir í rekstri Strætó, að við höfum valið besta kostinn sem í boði var. Langstærsti hluti farþega okkar tekur strætó á morgnana og síðdegis og því leggjum við allt kapp á að halda þjónustustigi eins háu á þessum tímum og mögulegt er og þannig tryggja að sem fæstir verði fyrir óþægindum vegna þessara breytinga
hefur Vísir eftir Reyni Jónssyni, framkvæmdastjóra Strætós.
Gönguhópur sem ég hef ekki komið í verk að slást í ætlar í dag að ganga á Helgafell í Mosfellsdal, sameinast í bíla við Vesturlandsveginn - en Strætó bs. gaf mér kjörástæðu til að hlusta frekar á Sprengisand og horfa á Silfur Egils. Strætó fer ekki í gang fyrr en á hádegi en þá verður hópurinn kominn upp í miðjar hlíðar.
Iss, agalaus ég, auðvitað hefði ég getað tekið leigubíl bæjarmarkanna á milli - eða látið keyra mig! Strætó er líklega á mála hjá bílaumboðunum.
Ég tek oftast strætó úr miðbænum og þegar ég slæ Lækjartorg inn í leitarvélina spyr hún alltaf hvort ég vilji fara frá Lækjartorgi eða Lækjartorgi 1 - sér er nú hver skilvirknin í þessari leitarvél. Þegar ég þarf að bakka fara leitarskilyrðin alltaf yfir í sjálfgefið, þó að ég sé búin að breyta í tímann sem hentar mér bakkar hún alltaf í tímann sem er þá stundina. Ef ég ætla úr miðbænum inn á Suðurlandsbraut fæ ég ekki leið 11 sem stoppar þó beint fyrir ofan Suðurlandsbrautina, ég fæ bara upp möguleikann að taka einn vagn inn á Hlemm og annan þaðan. Ég held að ég sé bara búin að fá sannfæringu fyrir að Strætó hefur engan áhuga á að fólk noti sér þjónustuna. Eitthvert bílaumboðið ræður þar för - sérstaklega núna í kjölfar bankahrunsins og í ljósi erfiðra aðstæðna á bílamarkaði!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Föstudagur, 30. janúar 2009
Engar fréttir í Sviss
Um síðustu helgi hringdi í mig vinkona mín frá Sviss og var alveg á innsoginu, hún sagðist ekki skilja þær fréttir sem bærust héðan. Er Geir hættur eða ekki? spurði hún. Hún les íslenskar fréttaveitur enda vel læs en hún skildi samt ekki hvað var að gerast.
Og engar fréttir voru í svissneskum fjölmiðlum. Er hlutleysið algjört ...?
Nú get ég búist við að hún hringi aftur á morgun og vilji spyrja frekari spurninga sem ég get ekki svarað. En það kemur ekki svo mikið að sök, símainntakið og/eða símtækið er bilað og ég sé bara númerin sem hringja og get ekki svarað.
Ætli væri betra að vera hjá Símanum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 28. janúar 2009
Sigurður Einarsson grætir mig
Það var merkilegt að lesa aflátsbréf Sigurðar Einarssonar til kærra vina og vandamanna. Frómt frá sagt bjóst ég varla við að skilja það, hélt að Sigurður ætti bara vini og vandamenn sem væru skuldabréfavafðir um hálsinn og krosseignavarðir niður úr og hann myndi þar af leiðandi líta á þá sem sinn markhóp.
En sei sei, bréfið var á mannamáli og fór krúttlega úr því að vera til eins (Mig langar þó að greina þér ...) og yfir í að vera til fleiri (En ég vona að þið bæði skiljið og virðið við mig ...) og svo bara útskýrði hann svo hjartnæmt fyrir mér - sem þó er ekki í hans nánasta hring - að hann hefði farið að lögum og reglum, varað við krónunni og ekki viljað að svona færi.
Og hver af hans nánu vinu og vandamönnum var svo ófyrirleitinn að leka í fjölmiðla svona persónulegu og innilegu bréfi sem alls ekki getur hafa verið stefnt gegn svona auðtrúa sálum eins og mér ...?
*snökt*
Miðvikudagur, 28. janúar 2009
Getur atburður verið hryggur?
Nei, ekki nema hann sé persóna. Hann getur hvorki verið hryggur né glaður, hann getur verið hryggilegur eða gleðilegur. Að sama skapi geta mótmæli ekki verið friðsöm (eða ekki), þau eru friðsamleg (eða ekki).
Menn tala hins vegar mikið um friðsöm mótmæli. Og það er bannað að persónugera.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 27. janúar 2009
Hvað sagði Ari Matthíasson á sunnudaginn?
Sagði hann ekki að Sigurður Einarsson í Kaupþingi hefði í nokkuð fjölmennu (20-30 manna) ... matarboði á Holtinu um aldamótin - sem Ari slysaðist í sem fulltrúi vinar síns, kvótakóngs - kynnt til sögunnar Hreiðar Má Sigurðsson sem hafði það verkefni að kynna fyrir ríku mönnunum vogunarsjóð með góðri ávöxtun? Greifunum var síðan í lófa lagið að ráðstafa ágóðanum inn á erlenda reikninga í gegnum einkahlutafélög án þess að þurfa að greiða af arðinum. Og fjárins var aftur aflað hvaðan??? Já, alveg rétt, með því að hirða peninga út úr sjávarútveginum og öðrum atvinnugreinum á Íslandi!
Ari sagði að peningunum hefði kerfisbundið verið skotið undan og óskaði þess heitt að þessir menn fengju ekki Kaupþing í Lúxemborg til að halda áfram uppteknum hætti.
Ari sagði að skattrannsóknarstjóri vissi af þessum fundi - einhvers konar námskeiði, ekki satt? En greifarnir vissu sem var að þeim voru allir vegir færir, undir, yfir og allt í kring um lög og reglur, skeyttu hvorki um skömm né heiður, reyndu varla að leyna glæpnum, a.m.k. ekki ef það er að marka þessa sögu og allan þann hroða sem fréttastofurnar hafa þó haft uppi á um huldulán til huldumanna.
Og á ekkert að gera í þessu???
Mér finnst eðlilegt að spyrja líka hvað Ara finnist um sinn vafasama vin. Fannst honum kannski þá - og nú? - sjálfsagt að vinur hans hirti peninga út úr sjávarútveginum og margfaldaði í skattaskjóli?
Svo hrósa ég Ara fyrir að vera með í umræðunni í vettvangi dagsins, þá meina ég ekki síður eftir að hinir fengu orðið. Mér finnst verra þegar fjögur sitja í vettvangi dagsins og eiga öll bara sitt einkaspjall við Egil. Ari tók áfram þátt og var í lokin með gagnrýnar spurningar um efni sem hann var ábyggilega hlynntur heilt yfir, þ.e. að umbylta lýðveldinu.
Það er átak að vera gagnrýninn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)