Færsluflokkur: Dægurmál
Mánudagur, 26. janúar 2009
Frétt sem er ætlað að týnast í kraðakinu
Þessi frétt á mbl.is er keimlík þeirri á visir.is, enda fréttatilkynning frá Strætó send á háannatíma í fréttum af ríkisstjórninni.
Og ég fullyrði að þetta er afar heimskuleg ákvörðun, það hefði átt að fara í hina áttina, auka þjónustu og fella niður gjöld. Þannig tækist að gera almenningssamgöngur að meira aðlaðandi ferðamáta, draga úr slysatíðni, minnka mengun, spara gjaldeyri og spara í buddum þeirra sem þurfa að komast um. Bílarnir ættu að standa meira heima. Og já, mér finnst líka að fólk ætti að eiga almennt færri bíla, sem sjaldnast tvo á heimili og aldrei þrjá nema heimilið sé eiginlega með ferðaþjónustu, og nýta sér þjónustu leigubíla þegar svo ber undir. Ef stofnkostnaður og rekstrarkostnaður við að eiga bíl er tekinn saman hafa margir reiknað út að bíleigendur gætu - í stað þess að eiga bíl - tekið leigubíl á hverjum einasta degi.
Ég er ekki að segja að enginn eigi að eiga bíl, mér finnst m.a.s. eðlilegt að það sé bíll á flestum heimilum, en mér finnst óeðlilegt og rangt að minnka þjónustuna þegar brýnt væri að auka hana.
![]() |
Ferðum strætó fækkað vegna erfiðleika í rekstri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 26. janúar 2009
Höfuðstaður Suðurlands
Það er snjallt að hafa borgarafund á Selfossi. Frá Reykjavík eru í versta falli hálkublettir á leiðinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 25. janúar 2009
Hvar heldur grillpinninn sig?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Laugardagur, 24. janúar 2009
Ippon Vilhjálms Bjarnasonar
Ég fagna því að héraðsdómur tók undir sjónarmið Vilhjálms og lít svo á að hann hafi unnið fullnaðarsigur á stjórn Glitnis ef Hæstiréttur gerir það líka. Það kostar hugsanlega 35 milljarða - en átti stjórnin nokkurn tímann þennan pening? Reyndar vildi ég miklu frekar að Bjarna Ármannssyni yrði gert að skila sínu oftekna fé.
Mér verður núna hugsað til Gísla Freys Valdórssonar, álitsgjafa í sjónvarpi um áramót, sem híaði á Vilhjálm og fannst hann mesti skussi ársins (sennilega í efnahagslífinu). Gísli skreytti Vilhjálm með titlinum skussi með nokkurn veginn þeim rökum að Vilhjálmur hefði gagnrýnt kerfið sem hann hefði viljað vera þátttakandi í.
Ég hef tvívegis um dagana skrifað athugasemdir hjá Gísla en hann lokaði á athugasemdir í lok síðasta árs. Ég get reyndar ekki tekið það til mín þar sem ég er ekki mesti djöfullinn sem hann hefur að draga. Hann virðist bara vilja sitja í turninum og tala niður til fólks. Hvers vegna? Af hverju vilja menn með skýrar skoðanir ekki eiga í skoðanaskiptum við annað fólk?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 23. janúar 2009
Ég er almenningur
Ég er bara ekki allur almenningur.
Ég skelf af upplýsingaskorti - hvers vegna fær Íslensk erfðagreining fyrirgreiðslu frá Landsbankanum, hvað er að gerast hjá eigendum peningamarkaðssjóða í Landsbankanum sem funduðu í Laugardalshöll í kvöld, hvernig reiðir skuldsettum heimilum af, hvert verður gengi krónunnar á næstu vikum, hver fær viðbótarþorskkvótann upp á 30.000 tonn, standa ríkisbankarnir vel - ha?, hvað er Kristján Kristjánsson að gera dagana langa í forsætisráðuneytinu, hvenær lækka stýrivextirnir? Ég græði peninga á háum stýrivöxtum (meðan spariféð verður ekki allt hirt af mér), bara ekki eins mikið og fagfjárfestarnir og atvinnuræningjar, en atvinnulífinu blæðir á meðan, e.t.v. út.
Hvert er og verður hlutskipti lögreglunnar, bæði þeirrar grímuklæddu og efnahagsbrotadeildarinnar?
Ég átti einu sinni heima í Ingólfsstrætinu. Í mörg ár var umhverfið friðsælt og gott, svo spruttu upp háværir skemmtistaðir og hávaðinn fór yfir leyfð desíbel. Ég kvartaði við lögregluna. Henni var alveg sama. Ég setti mig í samband við borgaryfirvöld. Þeim var alveg sama. Borgarstjórinn sagði: Einhvers staðar verða vondir að vera. Mér var sagt að þeir sem byggju í miðbænum yrðu að sætta sig við kosti hans og galla. Samt var sérstakt meint átak um að efla blandaða byggð, þ.e. íbúa í bland við þjónustu og jafnvel iðnað. Ég axlaði ábyrgð og mér tókst að selja íbúðina.
Ég átti einu sinni í útistöðum við mann sem átti það eitt sökótt við mig að ég var yfirmaður hans. Löng saga. Hann hringdi í mig og hótaði mér lífláti. Hann hringdi að næturlagi. Rökstuddur grunur er um að hann hafi skorið dekkin á bílnum mínum. Ég kærði líflátshótunina og dekkjaskurðinn til lögreglunnar. Henni var kannski ekki sama en sagði bara að vegna undirmönnunar og tækjaskorts gæti hún ekkert gert annað en að ráðleggja mér að láta hengja upp símann, þ.e. láta símafyrirtækið vakta hringingar til mín. Ég var heppin og viðkomandi lét ekki verða af hótun sinni. En ábyrgðin var alfarið mín og lögreglunni datt ekki í hug að gæta að velferð minni. Og ekki róa mig heldur.
Lögreglan hefur alltaf verið undirmönnuð láglaunastétt, held ég, og ég hef samúð með lögreglunni. Það að fjölga í óeirðalögreglunni vegna þess að nú sýður á mörgu fólki og vegna þess að soðið hefur upp úr virkar á mig eins og foreldri sem ákveður að kaupa stærra gúmmílak handa 10 ára barninu sínu sem pissar undir frekar en að reyna að koma í veg fyrir þvaglekann.
Ég stend með lögreglunni en mikið vildi ég að yfirvöld beindu kröftum lögregluþjónanna í réttan farveg. Hvað er efnahagsbrotadeildin að gera? Er eitthvað til í því sem Sigurjón M. Egilsson segir, m.a. um 500 milljarða afskriftir Kaupþings tengsl lögmanna við uppgjör fyrirtækja? Ég er orðin bullandi tortryggin og held að til þess bærir aðilar hafi engan áhuga á að uppræta spillinguna og sorann. Hann er sjálfsagt útlenskur.
Já, ég er almenningur og mér verður fyrirsjáanlega gert að axla ábyrgð á því að Björgólfur Guðmundsson, Sigurjón Árnason og Elín Sigfúsdóttir reyndu að hrammsa til sín sparifé Breta og Hollendinga, að Sigurður Einarsson og Hreiðar Sigurðsson lánuðu sjeikum milljarða með veði í bréfunum sjálfum til að halda uppi hlutabréfaverðgildi bankans og e.t.v. fæ ég að kenna á gjaldþroti sparisjóðanna. Enginn hefur a.m.k. sannfært mig um að þeir standi hryðjuna af sér.
Vald spillir. Hversu margir myndu skammta sér hæfileg laun ef þeir hefðu fullkomið sjálfdæmi? Það er því miður ekki hægt að treysta nógu mörgum til að breyta rétt og þess vegna verður að setja skýrar leikreglur, almennar, og hafa nægt eftirlit með því að farið sé að reglum - rétt eins og lögum.
Mig langar ekki að grýta nokkurn mann, mig hefur aldrei langað til þess og sé það ekki fyrir mér - en mikið djöfulli vildi ég að orð mættu sín meira.
Þetta var skyrslettan mín.
- Ég hef skoðanir á ýmsu öðru en nú þarf ég að klippa til appelsínugula pilsið sem ég var hætt að nota. Stjórnarkreppa eða ekki, það er kreppa í almenningi og ég tek appelsínugula sjónarhornið á hana.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 21. janúar 2009
Kosningaaldurinn er 18 ár
Ég er á móti ofbeldi. Ég er á móti heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi, götuofbeldi og andlegu ofbeldi.
Ég gagnrýni sem sagt ofbeldi. Hins vegar geri ég því skóna að hugtakið sé dálítið teygjanlegt. Er ofbeldi að slá með flötum lófa? Já. Kýla með krepptum lófa? Já. Er ofbeldi að hefja hönd á loft og þykjast ætla að slá?
Er ofbeldi að keyra viljandi á einhvern svo að hann bíði tjón af? Já. Er ofbeldi að skrensa stjórnlaust á bíl og lenda á einhverjum? Er ofbeldi að horfa svo grimmdarlega á einhvern að hann verði skelkaður?
Er ofbeldi hjá hinum stóra að segja hinum litla að hann sé tíkarlegur, óaðlaðandi og ekki í húsum hæfur? Kannski fimm sinnum á dag í 20 ár. Hæðast að minnimáttar? Já, er það ekki dæmigert andlegt ofbeldi?
Er ofbeldi að kasta gangstéttarhellu í átt að manneskju? Já. Er ofbeldi að gefa einhverjum selbita? Er ofbeldi að brjóta rúðu?
Mér finnst ég ekki hafa verið beitt ofbeldi. Hins vegar hefur sparifé verið hirt af mér og ég skilin eftir í nagandi óvissu um framtíðina. Og ég veit mætavel að ég er ekki verst sett. Mér finnst hins vegar óásættanlegt með öllu að fjárglæframenn skuli vaða hér uppi og hirða milljarða hægri vinstri, nú síðast Íslensk erfðagreining, án þess að ég fái rönd við reist. Mér finnst ég kúguð og mér er ofboðið. Ég hef ekki sjálfsagða stjórn á eigin lífi.
Ég finn til með okkur sem höfum þjóðargjaldþrotið hangandi yfir og ég hef sannarlega samúð með lögreglunni því að ég er algjörlega sannfærð um að í hennar liði eru mörg döpur hjörtu. Einhver þeirra urðu vafalaust fyrir ofbeldi og einhver þeirra beittu ofbeldi í gær. Ég er á móti öllum þeim ofbeldisverkum en treysti mér ekki til að meta út frá stopulum myndum hver gerði hvað á hlut hvers.
Og að lokum, af hverju amast sumir við því að tvítugt fólk hafi skoðanir á málum sem koma því við? Kosningaaldurinn er 18 ár og það að kjósa er mjög stór og afdrifarík ákvörðun. Og af hverju ætti 17 ára gamalt fólk ekki að vera byrjað að mynda sér skoðanir? Það má m.a.s. gifta sig 18 ára.
Ég reyni að tipla á tánum af því að ég veit að ég veit ekki allt. Hins vegar má ég hafa skoðanir og ég trúi því að grasrótin hafi áform um að uppræta eina tegund af ofbeldi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Ég er smáborgari
Ég er ekki hreykin af því en hef ákveðið að horfast í augu við smáborgaraskap minn.
Ég hélt að Björgólfur Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson væru vænir menn. Mér fannst ekki einu sinni afleitt að Björgólfur yngri ætlaði að kaupa hús (lang)afa síns og breyta því í safn. Trúði því m.a.s. eins og nýju neti að tilgangur hans væri göfugur.
Ég hélt að það væri verslandi við Bónus þótt ég sæi gjörla að ekki væri verslandi við 10-11. Og ég hef keypt geisladiska, föt og stígvél í Hagkaupum til viðbótar við ógrynni af mat í gegnum árin. Uss.
Ég lét mér í léttu rúmi liggja þótt ég vissi að Íslendingar væru látnir niðurgreiða flug með Flugleiðum sem sást kannski best á því að Danir sem flugu til Bandaríkjanna (og heim) með millilendingu á Íslandi borguðu mun minna fyrir sinn miða en Íslendingar sem flugu bara frá Íslandi til Danmerkur (og heim). Og hvernig stóð líka á því að það var ódýrara að kaupa miða fram og til baka en bara fram? Reyndar flýtti ég mér í viðskipti við IcelandExpress þegar þau buðust.
Þegar Íslandsferðir fóru að fljúga flaug ég alltaf með þeim til Sauðárkróks (og til baka) frekar en að fljúga með Flugfélagi Íslands. Ég vildi styðja samkeppnina.
Ég skipti úr Símanum í Íslandssíma og svo Tal þegar það bauðst. Ég vildi styrkja samkeppnina.
Ég keypti í nokkur ár einhver bréf rétt fyrir áramót vegna þess að þannig fékk ég skattaafslátt. Skamm.
Ég fékk vinnu á Valhöll (Þingvöllum) í gegnum pabba þegar ég var 15 ára, í SS-sjoppunni í Glæsibæ þegar ég var 16 ára og hjá Nóa-Síríus í gegnum mág minn þegar ég var 18 ára. Eftir það sótti ég um og fékk vinnu hjá póstinum og í banka, og svo í Heimilistækjum í gegnum mág minn þegar ég var tvítug. Fékk vinnu sem næturvörður á Hótel Lind í gegnum vinkonu bróður míns þegar ég var 22ja. Ég var gómuð í net spillingarinnar. Það var vissulega þægileg vist.
Hnussaði þegar fréttir bárust af frændhygli stjórnmálaflokkanna. Alltaf á kaffistofu, við eldhúsborð, inni á klósetti meðan ég sturtaði niður. Svona eins og Íslendinga hefur verið siður.
Kannski byrjaði að rofa til fyrir á að giska átta árum þegar ýmis ríkisfyrirtæki voru seld við vægu verði. Íslenskir aðalverktakar, banki, banki, banki. Og það mætti ætla að sýn mín hefði orðið skýrari þegar hinn og þessi keypti af sjálfum sér og lánaði sjálfum sér - var ekki ein fyrirsögnin um daginn: Glitnir lánaði Glitni til að kaupa í Glitni og FL Group? - en svo gott er það ekki. Sýnin dofnaði og ég held að það sé vegna þess að mjög markvissar og velheppnaðar tilraunir voru gerðar til að slá ryki í augun á mér (þori ekki að tala fyrir aðra) með krosseignum, skuldavafningum og öðrum útspekúleruðum talnaleikjum.
Veruleikinn sem blasir núna við mér er að enn er reynt að halda dulu fyrir augum mér, enn má ég sem minnst vita og þarf þar að leiðandi að taka framtíðarákvarðanir í myrkri.
Fóru milljarðar út úr Kaupþingi í vikunni áður en bankinn féll? Voru persónulegar skuldir afskrifaðar hjá starfsmönnum Kaupþings? Lánaði Ólafur Ólafsson - eða fékk lánað - milljarða til að auka tiltrú markaðarins á liðónýtu fyrirtæki í gegnum sjeikinn? Og það sem meira er: Bitnar það á skattgreiðendum að einkafyrirtæki fari svo illa að ráði sínu?
Stofnaði Sigurjón Árnason Icesave-reikninga í Hollandi eftir að búið var að setja ensku reikningana í gjörgæslu? Var haldið áfram að taka á móti fé þótt vitað yrði að það færi beint í stóru hítina? Og á ég að gjalda fyrir það með skattfé mínu til næstu ára?
Eyddi ekki FL heilum milljarði í annan kostnað - sem fellur síðan á skattgreiðendur?
Er það ekki þannig að allir óreiðumennirnir stofnuðu til skulda sem ég á síðan að borga? Er það ekki rétt skilið?
Og er til of mikils mælst að ég fái upplýsingar? Er frekt að ætlast til gagnsæi og heiðarleika?
Ég legg svona mikla áherslu á skuldirnar sem óreiðumenn hafa stofnaði til í mínu nafni af því að það mælist illa fyrir hjá sumum að fólk mótmæli ástandinu ef það er sjálft ekki farið að borga skatta. Ég borga skatta með glöðu geði, bara ekki þá sem fara í að bóna stélið á Ólafi Ólafssyni og álíka kónum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 20. janúar 2009
Eftirsjá að Vilmundi Gylfasyni
Í Krossgötum á laugardaginn spilaði Hjálmar Sveinsson tæplega 20 mínútna ræðu Vilmundar Gylfasonar þar sem hann studdi vantrauststillögu á þáverandi ríkisstjórn. Hann talaði gegn varðhundum valdsins, varðhundum hins þrönga flokksræðis, talaði um hið morkna vald - mikið væri gott ef fleiri menn hefðu lagt við hlustir þá.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 19. janúar 2009
Rödd á ensku
Alda, vinkona mín í þýðingunum, er íslensk en bloggar á ensku. Hún greinir ástandið á Íslandi í pistlum sínum á persónulegan hátt og endar hverja færslu á veðurlýsingu. Hún á tryggan lesendahóp.
Fyrir einum og hálfum mánuði var hringt í hana úr Seðlabankanum með sérkennilegt erindi.
En ég les bloggið hennar náttúrlega bara til að auka hjá mér orðaforðann ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 18. janúar 2009
,,Alltaf nóg af sól í Saurbæ"
Dubbeldusch í Hafnarfjarðarleikhúsinu kom mér í firnagott skap. Uppleggið er kannski pínulítið klisjukennt (en hefur ekki hvort eð er allt verið sagt?), foreldrar á fimmtugsaldri í sumarbústaðnum láta sér leiðast yfir blöðunum og hvort öðru þegar brottfluttur sonurinn birtist skyndilega og með afdrifaríkar upplýsingar - og verðandi eiginkonu. Samviska pabbans sveimar um allt þannig að áhorfendur fá miklar upplýsingar um fortíð hans og samviskubit yfir yfirsjóninni forðum.
Prrr, Hilmar Jónsson var fullkomlega maðurinn sem vissi að hann hafði valið þótt hann væri vissulega í vafa um að hann hefði valið rétt. En hann hafði valið og reyndi að lifa með vali sínu, sætta sig við það alla leið og gera gott úr því.
Harpa Arnardóttir átti líka sína fortíð og dröslaðist um með hana í hljóði.
Stundum hafði ég áhyggjur af að ég væri truflandi, svo margt kætti mig í sýningunni. Leiklistargagnrýnandi (DV, held ég) var á sömu sýningu og nú bíð ég spennt eftir dómi hans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)