Færsluflokkur: Dægurmál

Óreimt á Kili

Ferðaþjónar biðja mig ekki að fara inn á Hveravelli fyrir sig þannig að ég sá mína sæng útbreidda og fór þangað sjálf á órafmagnaða lánsjeppanum. Og nú er ég hálfnuð með hálfhring á Íslandi, komin í Skagafjörð yfir Kjöl, og hiss ferðarinnar eru nokkur. Umferð var sáralítil í gær, fimmtudag, svo lítil að ég hefði næstum getað orðið úti í einrúmi. Fátt var um manninn á Hveravöllum, ekki of fátt en mun færra en ég hefði búist við þegar maður heyrir í sífellu að ferðamenn nálgist 500.000 á ársgrundvelli. Ekki er þá heldur að sjá í stórum stíl í Skagafirði.

Fyrir mjög mörgum árum fór ég Kjöl og Sprengisand nokkrum sinnum og í minningunni var svo miklu meira að sjá á Kili. Nú fann ég þar aðallega gott veður og þokkalegt skyggni - og svo náttúrlega Hveravelli. Beinhóll er 7 km út fyrir veginn og vegurinn þangað hrein hörmung. Og ekki er Kjalvegur beint vænn við menn og málleysingja. Ég fór að hugsa um alla hvataferðahópana mína sem emja yfir að þurfa að sitja í jeppa í tvo tíma frá Langjökli og í bæinn. Þeim væri ekki skemmt á Kili þótt mér hafi líkað kyrrðin og „Palli-var-einn-í-heiminum“-tilfinningin. Ég stoppaði bílinn þar sem mér sýndist þegar mér sýndist, lygndi augunum og horfði með eyrunum.

Það var eitt hlið vegna sauðfjárveiki, þarf ekki að loka beggja vegna við eitthvert hættusvæði, hehhe?

Blöndulón var blárra en Bláa lónið þessi dægrin.

Nú er ég, suðvesturhornsleiðsögumaðurinn, búin að koma rækilega upp um mig.


Jákvæð stroka (eins og góðkunningja mín notar fyrir hugtakið hrós)

Verst að viðkomandi bensínstarfsmaður mun ekki lesa þetta.

Ég fékk sem sagt lánaðan jeppa í dag. Í greiðaskyni fannst mér sjálfsagt að kaupa bensín og fór á bensínstöðina í Ártúnsholti sem lá beinast við. Þá sá ég að eitt dekkið var ekki vel loftfyllt og sneri mér að starfsmanni sem reyndist hinn liprasti, mældi og dældi.

Í nærumhverfi mínu heitir þetta að taka ljóskuna á málið (en þess var ekki þörf þar sem ég virkilega skildi ekki tölurnar (26 - 13 - 32 eða eitthvað) og hann var einfaldlega lipur starfsmaður).

Svo varð jeppinn rafmagnslaus ...


FIT

Þar sem ég átti sjálf aldrei ávísanahefti verð ég að rifja upp reynslusögu úr fjölskyldunni. Systir mín sem er ógurlega grandvör og nákvæm gaf einu sinni í ógáti út of háa ávísun miðað við stöðuna á reikningnum. Hún átti kannski 9.000 en skrifaði 10.000. Henni var gert að greiða dráttarvexti af upphæðinni í heilan mánuð.

Mér fannst illa farið með hana.

Ef menn geta núna farið yfir á rafrænum debetkortum finnst mér að bankarnir eigi að taka til hjá sér. Ef menn þurfa að skulda eiga þeir að fá yfirdráttarheimild, ekki fara óvart yfir.

Þetta vekst upp fyrir mér vegna umræðu um breytingar á þessum kostnaði, ég finn bara ekkert um það á mbl eða vísi.


Gaman að dönskunni

For Ellamajas skyld må jeg bare si' at jeg så den danske film Rembrandt i weekenden - og den var helt dejlig. Danske film rokker ... De uheldige tyve stjal det eneste ægte Rembrandt-maleri sem fandtes i Danmark - og måtte give det tilbage. Eller hvad, hehe?


Í ótíðinni las ég bók

Ég er (fyrrverandi) bókabéus en mér hefur lítið orðið úr lestri það sem af er þessu ári. Nú hef ég þó náð að lesa Sendiherrann eftir Braga Ólafsson.

Ég hef sérstakt dálæti á skáldsagnahöfundinum Braga en kann síður að meta ljóðin hans. Þó er hann meiri stemningsmaður en maður mikillar og skýrrar framvindu í söguþræði. Hér kynnumst við Sturlu sem er ljóðskáld og húsvörður. Flestar persónur Braga hafa verið þvílíkir öndvegislúserar í gegnum þykkt og þunnt að það verður að hrósa Braga fyrir að gera persónurnar samt áhugaverðar. Sturla er hins vegar ekki tiltakanlega misheppnaður, þvert á móti hefur honum tekist að koma fimm börnum til manns ásamt því að slá lauslega í gegn í bókmenntaheiminum. Og það var lengst af spennandi að fylgjast með honum missa af ljóðahátíðinni í Litháen.

Ágæt sumarlesning.

Hitt undrar mig að framan af talar Sturla (eða höfundur) um litháensku og skiptir svo yfir í litháísku. Vissulega smáatriði en samt ónákvæmni sem yfirlesari ætti að koma auga á. Og svo sá ég á stöku stað glitta í ensku þótt bókin sé áreiðanlega ekki þýdd!

-skrifaði Berglind um kvöldmatarleytið í stað þess að vera á leiðinni til hinna fyrirheitnu Vestmannaeyja


Hús- og læknisráð

Ég sullaði feitum mat í peysu sem ég var í nýlega og eftir sat fitublettur. Ráðagóðar húsmæður bentu mér á að hella yfir einhverju fitulosandi og láta liggja um stund áður en ég setti hana aftur í þvottavél. Þetta svínvirkaði.

Nú auglýsi ég eftir læknisráði. Ég er með eyrnaverk (eins og ég ímynda mér að ungbörn fái). Hann er mjög þrálátur og hefur áhrif á allan kjálkann vinstra megin. Það er erfitt að borða sem ætti ekki að vera mikill skaði en það er samt óþægilegt. Tilkenningin er svolítið eins og sársaukafull hella sem ekki fer. Kannski er ég komin með vatnshaus af tíðum sunduferðum. Hefur einhver læknisráð við þessu?


Svo er að heyra sem blaðamenn þurfi ekki að horfalla

Ef eitthvað er að marka upptalninguna sem ég heyrði í útvarpinu áðan var Sigurjón M. Egilsson ritstjóri með vel á þriðju milljón í laun til jafnaðar á mánuði á síðasta ári. Megi hann vel njóta. Við sátum hins vegar fjórar spekúlöntur á mánudagskvöldið og krufðum heiminn og þegna hans og ég held endilega að einhver hafi vitað eitthvað um bág kjör blaðamanna.

Kannski var það bara ranghugmynd mín.

Maður ætti að óska Hreiðari Má til hamingju með að standa undir rekstri heils menntaskóla, það er vel í lagt. Og í dag var mér bent á hið augljósa sem mér yfirsást samt, nefnilega það að 400 milljónirnar eru ekki skattur af launatekjum heldur áreiðanlega ekki síst hlutabréfum sem eru með 10% fjármagnstekjuskatt. Mikið óskaplega hlýtur maðurinn að vera bankanum mikils virði.


Söfnin í Reykjavík

Ég gerði minniháttar úttekt á söfnunum í Reykjavík í dag. Því miður þarf ég stundum að slá í klárinn og minna mig á að söfnin eru áhugaverð.

Þrjú söfn sem heyra undir Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhúsið, Kjarvalsstaðir og Ásmundarsafn, eru samtengd í þeim skilningi að ef maður kaupir aðgang að einu þeirra (500 kr.) gildir sá miði á hin söfnin líka og það í heila þrjá daga. Að auki er ókeypis á fimmtudögum.

Í Hafnarhúsi eru núna þrjár sýningar, Roni Horn með ljósmyndir, Erró með sína klassík og svo Daníel Björnsson með innsetningu. Mér sýnist sem þeim muni öllum ljúka í næsta mánuði.

Á Kjarvalsstöðum er hönnunarsýning sem ég ætla að reyna að skoða í vikunni.

Í Ásmundarsafni er yfirlitssýning óhlutbundinna verka Ásmundar og ég náði að berja hana augum þegar ég var þar í brúðkaupsveislu í júní. Ásmundur er í uppáhaldi hjá mér af því að ég á frekar auðvelt með að sjá sögur út úr verkunum hans sem byggja mörg á þjóðsögum og hinum vinnandi stéttum. Þessi óhlutbundnu verk þykja mér ekki eins aðgengileg.

Ef maður ætlar að kynna útlendingum söfnin í Reykjavík er sjálfsagt að benda líka á Listasafn Íslands við Fríkirkjuveg þar sem er núna sýningin Ó-náttúra. Þar kostar ekkert inn en er lokað á mánudögum. Kannski ég geti litið inn á hana á morgun.

Sögusafnið í Perlunni er líka forvitnilegt en mörgum finnst ábyggilega mikið að borga 1.000 kr. inn. Gervin eru samt svoooo vel gerð að manni bregður óneitanlega stundum ... segi ekki meir.

Fyrir mig er Gerðuberg alltof langt í burtu en mér finnst frábært að það skuli blómstra úr alfaraleið - eða hvað er ég að segja, býr ekki fjöldi manna í Breiðholtinu? Reyndar hefði ég einhvern tímann verið vís með að fara þangað á ritþing en háskólabyggingarnar liggja betur við mér.


Svekk á Þremur frökkum

Maður vill fara varlega í alla gagnrýni þannig að ég segi aðallega að Þrír frakkar hafi valdið mér vonbrigðum um helgina. Maturinn, hrefnukjöt, steinbítur og rauðspretta, var hinn ágætasti. Mér finnst svolítið einfalt að vera með illa soðnar kartöflur með öllu (en þó betra en að vera með ofsoðnar) og meðlæti þótti mér of lítið en það finnst mér næstum alltaf alls staðar.

Svekkið fólst fyrst og fremst í því að finnast við vera fyrir. Við komum þrjú upp úr klukkan sex, þ.e. þegar nýbúið var að opna staðinn, skv. pöntun og þegar við hunskuðumst út kl. að verða hálfátta var okkur lengi búið að finnast við vera fyrir. Borðið okkar var líka það fyrsta sem losnaði og sannarlega streymdi fólk inn á staðinn. Hvers vegna?

Þegar nokkurn veginn var uppetið af tveimur diskum voru þeir teknir orðalaust. Ég veit ekki með obbann af fólki en ég veit að mörgum finnst samt ákveðin notalegheit í að hafa diskana um kyrrt í smátíma, a.m.k. þangað til allir hafa gert matnum sínum skil. Svo var komið með eftirréttaseðil og við fengum varla að skoða hann áður en næsti maður kom og spurði hvort við vildum panta.

Auðvitað sáu þau litla peningavon í okkur af því að vildum ekki vín með matnum.

hrefnukjötið

 

 

 

 Hér má sjá hvalinn ógurlega.

 

Í hádeginu í dag borðaði ég svo á Sólon við fjórða mann og fékk dáindisbúrrítós og eðalvatn að drekka með. Ég held að við höfum öll gengið út södd og sæl að matnum innbyrtum og alveg án þess að finnast við vera fyrir.


Umræðunnar virði

Auðvitað þurfum við á öllum tímum að velta fyrir okkur hvernig við stöndum að uppbyggingu landsins og ferðamannastaða, þá ekki síst hvernig við fjármögnum viðhald og framþróun.

Mín fyrsta tilfinning er samt óþægindi. Ef það á að rukka inn á Gullfoss/Geysi og Skaftafell þarf að girða af, ekki satt? Þurfum við þá að fara í gegnum hlið? Eða á að treysta fólki til að gera hið rétta? Verður tímanum eytt í biðraðir í dýrmætum dagsferðum?

Hver verður kostnaðurinn við innheimtuna?

Ég er ekki búin að lesa Moggann í dag, bara sjá þessa netfrétt, en ég sé ekki aðferðina blasa við.

Og ef ekki beina innheimtu, hvað þá? Ég skrifaði þvert í hina áttina nýlega og sagðist vilja engan aðgangseyri að söfnunum. María Reynisdóttir væri kannski á sömu skoðun þar sem söfnin eru ekki vinsælustu ferðamannastaðirnir.

Við höfum verið hreykin af aðgengi okkar að perlunum. Við höfum verið heppin með það að slys eru fátíð. Víðáttan og frelsið hafa verið aðalsmerki. Sjálfsögðustu nauðsynjar eru hér dýrari en í flestum löndum og ég viðurkenni að ég hef áhyggjur af svona hlutum og að við verðum of commercial. Hvert fer annars núna obbinn af framlegðinni af þeim fjórum milljörðum sem Magnús Oddsson ferðamálastjóri boðaði fyrir hálfum mánuði nánast sléttum?

Kannski á ég bara eftir að heyra sannfærandi rök fyrir þessari innheimtuhugmynd.


mbl.is Gjald inn á ferðamannastaði raunhæft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband