Færsluflokkur: Dægurmál

Sleifarlag tryggingafyrirtækja

Ég seldi bílinn minn í febrúar á þessu ári en vissra hluta vegna gekk ég ekki eftir endurgreiðslu tryggingarinnar fyrr en í dag. Ég fannst á augabragði í tölvukerfinu og það með að ég ætti inni hjá þeim ríflega 50 þúsund krónur - sem ég hefði aldrei fengið sjálfkrafa. Það væri gaman að heyra einhvern tímann að tryggingafélag léti undir höfuð leggjast að ganga eftir greiðslum til sjálfs sín.

Vor á Laugaveginum

Það má líta á þetta sem matarumfjöllun þar sem ég hef sett mér það að borða úti í hádeginu sem oftast til mánaðamóta. Nú varð Vor fyrir valinu af því að - trúið því eða ekki - nokkrir túristar höfðu mælt með staðnum.

Við fórum fjögur saman og hittum þar fyrir tómið tvennt, í alvörunni var mjög fátt fólk á staðnum um tólfleytið. Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í pennuna sem sumir fengu sér en við Laufey ákváðum að fá okkur tapas fyrir tvo - og það var bæði illa útilátið og heldur svona bragðlítið. Til að fara ekki svöng út fékk ég mér því ostaköku og kapútsínó á eftir. Kaffidrykkurinn var ágætur.

Jæja, þetta er svona skemmri skírn af veitingahúsagagnrýni. Við vorum samt öll sammála um að við hefðum fengið betri mat annars staðar, meira úrval að velja úr og að við myndum eftirleiðis fá betri mat - annars staðar nefnilega.

Es. Ég tel næsta víst að flissið fljúgi til Vancouver á næsta ári, og helst með Antoni ...

Svo tók ég vondar myndir af Antoni, Örnu og Laufeyju til að þau njóti sín ekki nógu vel:

Anton ArnaLaufey


Ferðamálamógúll á morgunvakt RÚV 23. júlí

Ég pikkaði þetta viðtal við Kjartan Lárusson upp af síðu Félags leiðsögumanna. Kjartan hefur marga fjöruna sopið og þekkir tímana tvenna í bransanum. Honum finnst eins og fleirum löngu tímabært að marka skýra stefnu í ferðamálum. Nú eru ferðamenn að verða sjálfstæðari í ferðalögum sínum, láta ekki tildra sér upp í rútu lengur og keyra með sig hringinn, nú leigja margir bílaleigubíla og fara leiðir kattarins. En ég get ekki betur heyrt en að Kjartani finnist sem ferðaþjónustan sé að taka við - og eigi að gera það - af sjávarútveginum og verða þannig annar mesti atvinnuvegur landsins á eftir fjármálaþjónustu. Er ég kannski farin að lesa meira í viðtalið en Kjartan gefur mér tilefni til?

Svo er annar Kjartan sem veifar og veifar gulrót framan í ferðamálayfirvöld, Gullhring deluxe. Það er frábær hugmynd og einkum og sér í lagi leggst vel í mig að nýta Hvalfjörðinn.

Svo skil ég ekki hvers vegna sumir túrar byrja ekki seinni part dags, jafnvel svo seint sem kl. 15. Það er hreint dásamlegt að standa við Geysi kl. 19 eða vera innst í Hvalfirðinum undir miðnætti á bjartasta tíma árs. Væri ekki upplagt að nota tíma Bandaríkjamanna og láta ferðirnar byrja á tíma sem hentar klukkunni þeirra? Þá held ég að næðist betri nýting á bjartasta tíma. Það kallaði vitaskuld á hagræðingu, eins og að bera fram morgunverð á sama tíma og hádegisverð á sumum hótelum. Er það kannski ekki hægt, ha?


Erindisrekstur dagsins

Lásinn á hjólinu mínu dugði ekki lengi, hann hrökk í sundur og í dag lá leið mín í búðina þar sem ég keypti hann 10. maí sl. Ég rétti hann fram og spurði ísmeygilega: Heldurðu ekki að það geti verið að þessi lás eigi að duga lengur en í tvo mánuði?

Afgreiðslumaðurinn brást hinn besti við, fór með lásinn afsíðis og sannreyndi ónýtileika hans. Þar sem þessi tegund var ekki til bauð hann mér að velja mér dýrari lás. Ég átti það skilið en samt gladdi mig að fá svona lipurlega afgreiðslu.

Fyrir tæpum tveimur árum var mér gefin ógurlega vönduð merano-ullarpeysa sem ég hef nú brúkað ótæpilega. Ég veit ekki hvort það er almennt mikil fýla af mér en þrátt fyrir endalausan þvott í höndunum var um daginn komin svo megn svitalykt í krikana að ég ákvað að flíkin væri mér svo gott sem ónýt þannig að ég gæti prófað að skella henni í vél þótt það sé annars bannað. Ég hélt að hún hlypi kannski spölkorn og þófnaði. En nei, það gerðist ekki, hins vegar eru fjölmörg lítil göt á bakinu eftir þvottinn. Nú veit ég varla hvort ég á að taka málið frekar upp við Matta sem á bæði þvottavélina og íbúðina (gæti þetta verið mölur ... humm hömm .. eða silfurskottur?) eða fara til fundar við Marc O'Polo.


Nú þykja mér nautin rekin (í ferðaþjónustunni)

Auðvitað veit ég að hingað kemur fjöldi útlenskra fararstjóra með hópunum og tekur að sér leiðsögn um landið. Ég veit um bílstjóra sem hafa verið eins og útspýtt hundsskinn við að vinna vinnuna fyrir fararstjórana vegna þess að þeir (bílstjórarnir) tala ensku og eru reyndir í starfi. Sumir erlendu fararstjórarnir verða síðan svekktir þegar þeir lenda ári síðar með bílstjóra sem talar kannski ekki eins góða ensku og getur ekki greitt götu þeirra.

En mig grunaði ekki að þetta væri eins mikið og Stefán sagði í viðtalinu við RÚV í gær, og ég vissi ekki heldur að fararstjórunum væri sagt að segjast vera akandi gestir. Reyndar botna ég ekki almennilega í þessu með meira- og/eða rútuprófið, ég hélt að menn þyrftu svoleiðis til að keyra vissa stærð af ökutækjum.

Skyldu Erna Hauks og Magnús Odds vita af þessu?

Var ekki svo einmitt frétt í dag um aukinn fjölda útlendinga sem er farinn að keyra of hratt og fara illa á mölinni. Hmm, gæti verið samhengi í þessu?


Hvernig þorum við að búa í þessu eldfjallalandi?

Sárasjaldan er ég spurð þessarar spurningar orðið, sárasjaldan. Enda gætum við á móti spurt hvernig fólk þyrði að búa í Englandi þar sem fólk verður fyrir ofsarigningum, Grikklandi þar sem fólk verður fyrir ofsahitum og Los Angeles þar sem líka verða jarðskjálftar. Að maður tali ekki um Japan.

Það er áhætta að lifa.


Atgervisflótti í ferðaþjónustunni

Rétt eftir hádegið rakst ég á einn af uppáhaldsrútubílstjórunum mínum og við féllumst í faðma eins og vera ber. Hann var eitthvað svo illa haldinn að ég spurði hvort hann hefði ekki fengið að borða (sjálf var ég að koma af nýja fiskistaðnum). Þá reyndist hann hvorki hafa fengið mat né matartíma frá störfum í dag og í gær. Þar að auki er hann búinn að ákveða að hætta að keyra rútur vegna launanna. Hann átti að hækka um síðustu mánaðamót - og hann hækkaði um 11 kr. á tímann. Hann er enn ekki kominn í 900 kr. á tímann í dagvinnu og þess vegna leggur hann nú á flótta í annað starf. 900 kr. x 170 tímar = 153.000 á mánuði fyrir að bera daglega ábyrgð á allt að 70 mannslífum á ferð.

Mér skilst að Dómínós borgi fólki 1.400 kr. fyrir að svara í símann og taka niður pítsupantanir. Hrekur það einhver? Það eru þá tæpar 250 þúsund á mánuði fyrir dagvinnuna.

 


Dekur í Laugardalslaug

Nú er búið að setja upp sérstakan bás fyrir bara sundkort í Laugardalslauginni. Þeir sem vilja láta hella upp á kaffi fyrir sig eða ætla að fá sér sundgleraugu þurfa áfram að versla við borðið. Ég hélt að þetta hefði verið gert fyrir gestina eða kannski til að koma í veg fyrir að fólk svindli sér inn (sem hlýtur að vera auðvelt) en systir mín sagðist í dag hafa spurst fyrir og henni verið sagt að þetta væri fyrir starfsfólkið sem trampar um á hörðu gólfi alla daga og þarna gæti það hvílt fæturna.

Sama hvaðan gott kemur, ég er ánægð með þetta. Ég hef nefnilega ekki tölu á hversu oft ég hef þurft að standa í röð til þess eins að láta gata kortið mitt. Og aldrei haft hugmyndaflug til að fara bara inn og láta gata tvö næst ...

Næsta skref hlýtur að vera að láta útbúa kort sem hægt er að kaupa inneign á og þá getur maður bara rennt kortinu sínu í gegnum rauf í hliðinu til að komast inn. Það heitir sjálfsafgreiðsla og af henni er ég hrifin. Enginn veit það betur en Unnur Mjöll, svo oft töluðum við um þjónustu í gamla daga.


TVP - Top Visual Priority

Ég kvaddi í gær hóp sem ég var með í fjórum stökum dagsferðum í vikunni. Af því að samsetningin breyttist lítillega alla vikuna þótt uppistaðan væri að sönnu sú sama varð leiðsögnin aðeins ruglingslegri en maður kýs. Ég byrjaði með 31 farþega í Borgarfirði á mánudag, var svo með 19 þeirra og tvo nýja í Suðurströnd á miðvikudag, svo 11 af þeim og tvo nýja á föstudag og sömu 13 í Gullhring í gær.

Loks í gær fór að myndast einhvers konar hópstemning sem ég var búin að vera að streðast við að mynda alla vikuna. Ég held að þessi rof, þriðjudagur og fimmtudagur, séu óholl fyrir hópeflið af því að fólkið gistir hingað og þangað og á ekki annað sameiginlegt en að hafa bókað ferðina hjá sama fyrirtæki. Og þótt mér liði eins og þau væru síldar í sendiferðabíl í gær eftir að hafa verið á helmingi of stórum bíl hina dagana voru þau farin að spjalla meira í gær en áður.

Og þá kveður maður, og næstum með söknuði.

Að láta það sem maður sér vísa sér veginn - sem fyrirsögnin vísar í - er nokkuð sem Birna Bjarnleifsdóttir lagði mikla áherslu á í Leiðsöguskóla Íslands og nú er ég að velta fyrir mér hvort ég taki það mögulega of alvarlega. Vissulega tala ég um óáþreifanlega hluti eins og menntakerfi, heilbrigðiskerfi, skatta, meðallaun, útflutning og atvinnuhorfur. En ég nota oft eitthvað úr umhverfinu til að koma mér af stað, t.d. veglegan jeppa sem í situr ein manneskja, krakka á engi á mögulegum skóladegi, Litla-Hraun til að segja frá glæpatíðni. Og jarðfræði og náttúrufar verða stundum fyrirferðarmikil.

Í gær gerði ég þau hlálegu mistök að segja frá jólasveinunum ÖÐRU SINNI. Ég notaði fjallasýn í Borgarfirðinum á mánudaginn sem hvata og í gær þegar áliðið var dags urðu þeir mér aftur hugleiknir í grennd við Búrfell! Ég hnýtti reyndar aftan við alls konar matarvenjum þegar ég áttaði mig á að ég hefði verið búin að segja uppistöðunni í þessum hópi söguna áður.

Ferðamennirnir okkar gera nefnilega þá eðlilegu kröfu að við séum afskaplega vel undirbúin, vel lesin og vel að okkur um allt milli heima og geima, líka í öðrum löndum, vel talandi á tungumálið og allt sem við segjum á samt helst að hljóma eins og við segjum að segja það í fyrsta sinn. Ég vil líka gera þá kröfu. Það er samt erfitt að standa undir henni þegar ágangurinn er svona mikill og þegar leiðsögumenn unna sér helst engrar hvíldar alla vertíðina. Eru þá ekki ferðamenn farnir að nálgast færibandið ískyggilega?

Ein mæt kona spurði mig í gær hvort ég segði öllum að Katla myndi gjósa í næstu viku. Nei, ég hef aldrei sagt neinum að Katla færi að gjósa hvað úr hverju, í síðustu viku var hins vegar gefin út viðvörun þannig að ég sagði þessum hópi að nú skyldu þau fylgjast með þegar þau kæmu heim, kannski myndi Katla - sem þau voru í grennd við - gjósa í næstu viku, ég sæi meira að segja á jarðskjálftavefnum að heilmiklar hræringar væru þar núna.

Það má ekki níðast svo á glaðsinna leiðsögumönnum að þeir fari að hljóma ótrúverðugir. Við megum aldrei eiga vondan dag.


Af bílstjóra

Ótrúlegt, ég lenti í því í fyrsta skipti í dag að keyra með útlendum bílstjóra. Hann er sænskur, heitir Tómas og keyrði vel. Ég hef ekki neitt upp á hann að klaga. Að mestu leyti gat ég að auki talað við hann á móðurmáli hans sjálfs því að mér finnst heldur leiðinlegra að tala við bílstjórann á máli sem farþegarnir skilja, svona þegar maður er eitthvað að skipuleggja eða þess háttar.

Ég er aldeilis fordekruð.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband