Færsluflokkur: Dægurmál
Fimmtudagur, 1. febrúar 2007
Útvistun fanga
Þegar ég var í leiðsögunáminu var mér sögð þessi saga:
Glæpatíðni er svo lítil á Íslandi að þegar keyrt er framhjá Litla-Hrauni er upplagt að segja þessa gamansögu: Einhverju sinni kom sendinefnd erlendis frá og vildi hitta íslenska fanga. Hún safnaði upplýsingum um þá fanga sem hún vildi helst ná tali af, hringdi svo í dómsmálaráðuneytið og spurði um fyrsta fangann, hvort hún mætti heimsækja hann í fangelsið næsta dag.
Já, var sagt í ráðuneytinu, það væri svo sem í lagi, en umræddur fangi þyrfti reyndar að vera við jarðarför ömmu sinnar og yrði því fjarverandi allan þann dag. Hann kæmi ekki til baka fyrr en kl. 9 um kvöldið.
Þá var spurt um næsta mann og svarið var að jú, það hefði verið í lagi nema vegna þess að sá fangi væri með almennt bæjarleyfi og yrði því ekki á staðnum.
Þá var enn spurt um hinn þriðja og sá reyndist vera í framhaldsskólanámi í nágrenninu og heldur ekki væntanlegur fyrr en liði á kvöld.
Þá þraut sendinefndina örendið og hún spurði hvað gerðist eiginlega ef fangarnir ekki skiluðu sér á réttum tíma. Henni var svarað með þjósti: Þeir þekkja reglurnar, það er læst kl. 9 og ef þeir eru þá ekki komnir til baka er læst og þeim ekki hleypt inn fyrr en næsta dag.
Þessi saga vekst upp fyrir mér þgar fréttir berast af föngunum sem sluppu úr fangelsinu á Akureyri og þurftu víst ekki mikið að hafa fyrir því.
Jóhann Ársælsson þingmaður hefur áhyggjur af aðbúnaði fanga. Ég las umræðurnar og með lagni tókst mér af því tilefni að fá Sigurlín til að yrkja eftirfarandi:
Á vistheimilum, væni minn,
er vonlaust neitt að geyma.
Fangar hlaupa út og inn
og aldrei eru heima.
Í vondum bælum vitrast þeim
að væri ekkert nonsense
ef allir kæmust inn í heim
Árna nokkurs Johnsens.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 1. febrúar 2007
Enginn frýr Hannesi Hólmsteini vits
Merkilegra þótti mér að hann virtist hlusta á spurningar Jóhanns Haukssonar morgunhana á Útvarpi Sögu í morgun. Þeir ræddu hagstjórnarhugmyndir HHG sem hann fyrirlas um í hádeginu í gær eða fyrradag. Hannes fullyrðir að samkvæmt OECD hafi fátækir á Íslandi fjarlægst fátækt meira en fátækir í öðrum löndum.
Merkilegt, ef satt er.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 1. febrúar 2007
Aðhald viðskiptavinanna
Við sjálf virðumst vera eina fólkið sem getur knúið fram betri kjör hjá þeim sem við verslum við. Meðan við sættum okkur við mikinn vaxtamun í bönkunum, hátt matarverð, hátt bensínverð - af því að við erum svo miklir neytendur - batnar ástandið ekki.
Ég minni á að sparisjóðirnir hafa ekki lýst yfir miklum gróða sínum. Það er vegna þess að hann rennur til MÍN sem losna við yfirbyggingu með því að vera í S24. Það tók mig einhver ár að flytja mig, svo sem, en því fyrr sem maður byrjar skilnaðinn við stóru bankana því betra.
Því miður þekki ég bara eina manneskju sem veitir Bónusi virkt aðhald með því að skoða strimilinn á staðnum og leiðrétta við kassaherrann jafnóðum. Og þetta er því miður ekki ég. Ég ætla alltaf að fara að taka mig á - en þegar ég er ofrukkuð um (aðeins) 50-kall fer fyrir mér eins og mörgum öðrum ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Miðvikudagur, 31. janúar 2007
Sitt er hvað, fjárhagur ríkissjóðs og fjárhagur heimilanna
Þær eru ekki allar jafn beysnar, utandagskrárumræðurnar á þingi, en mér fannst hún heilbrigð um efnahagsmálin í gær. Það er sérkennilegt að þegar bankarnir sem okra á landsmönnum sýna hagnað sem hleypur á milljörðum sé það rekið upp í nasirnar á venjulegu fólki og því sagt að það hafi það gott. Þótt það hafi það verra en í gær.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 30. janúar 2007
Græni málmurinn
Græni hvað? Ég bý ekki nálægt álveri þannig að ég hef ekki neyðst til að hugsa um eigin hag í þessum efnum. Ég hef heldur ekki unnið í álveri þótt ég hefði áreiðanlega ekki slegið hendinni á móti vel launaðri sumarvinnu einhvern tímann í árdaga. Það næsta sem ég kemst því að þekkja einhvern sem vinnur í álveri er maður sem ég þekki og sem keyrði einu sinni reglulega inn fyrir hliðið í Straumsvík.
Upplýsingum hefur vísvitandi verið haldið utan þynningarsvæðis míns, hehhe.
Og allar röksemdir hafa ekki ratað til mín, áreiðanlega ekki enn. Í kvöld frétti ég að á kvöldin væri slökkt á mengunarvörnunum sem menn hreykja sér mikið af. Þær eru dýrar. Öll fyrirtæki reyna að hámarka gróða sinn. Þess vegna er slökkt á vörnunum þegar rökkva tekur og þeir sem eiga garð að álverum sjá t.d. á þvottinum sínum að - hann brotnar.
Þetta var mér a.m.k. sagt í kvöld.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 29. janúar 2007
Ísmaurar Attenboroughs
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 28. janúar 2007
Mikið að borga og lítið að fá
Ég hef ekki brjálæðislega sannfæringu fyrir þessu en finnst ég skulda sjálfri mér að hugsa upphátt um meðlög eftir að hafa boðað slíkt vers.
Einhverra hluta vegna þekki ég engar einstæðar mæður (nema reyndar eina en það er svo nýtilkomið) þannig að ég veit ekki úr nærumhverfi mínu hvernig mæðrum reiðir af eftir að þær skilja við barnsfeður sína.
Ég þekki hins vegar feður sem ekki hafa forsjá með börnum sínum. Og þeim finnst þeir borga of mikið. Greiðslan með barni til 18 ára aldurs er 18.300 á mánuði (námundað). Á ári eru það þá 220 þúsund, og ef við bætum við sama framlagi frá móður kostar rekstur barnsins (viðskiptalegt orðalag en það verður að hafa það) 440 þúsund kr. á ári, eða það er framlagið öllu heldur.
Og hvað kostar að ala upp barn? Það er sko ekki sama hvort við tölum um 2ja ára eða 12 ára. Fæði og fatnaður, alltaf. Leikskóli eða dagmamma hjá börnum að grunnskólaaldri. Stærri íbúð svo að barnið hafi sérherbergi. Frístundastarf. Sumarfrí. Rekstraraðili barns (les: uppalandinn) þarf að vera til staðar um kvöld og helgar eða útvega pössun. Það foreldri getur ekki unnið eins mikla aukavinnu og það vill og aflað þannig meiri tekna.
Svo skiptir máli hvort einstæða foreldrið annast eitt eða fleiri börn. Með fleiri börnum fylgir magnafsláttur af tímanum sem fer í matseld og innkaup. Börn á svipuðum aldri geta samnýtt eitthvað af fötum, kerrum, leikföngum og tækjum. Meðlag með tveimur börnum er þá 440 þúsund og afkoman kannski bærilegri.
Vitaskuld reyni ég ekki að leggja hið minnsta mat á þau gæði að eiga börn enda eru þau aldrei metin til peninga.
Ég held bara enn að 18.300 sé mikið að borga og lítið að fá.
Og verð æ hrifnari af hugmyndinni um skattkort barna sem foreldrar njóti til 18 ára aldurs barnanna. Við erum bara 307 þúsund í þessu stóra landi, okkur vantar fleira fólk, okkur vantar fleiri börn til að vinna fyrir okkur sem eldumst á undan þeim.
Annars er ég sannfærð um að einhverjir minna góðu vina myndu vilja láta setja barneignir á markað ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Laugardagur, 27. janúar 2007
Markaðshagkerfið
Ég orðaskókst við mætan kunningja í gær um efnahagsstöðugleika í landinu. Honum finnst svoleiðis ríkja.
Þar sem við búum í markaðshagkerfi er hins vegar ljóst að samhengi milli framleiðsluverðs og söluverðs er ekkert. Menn rukka það sem þeir telja markaðinn færan um að borga. Og þar sem launabilið eykst hafa þeir sem minna hafa á milli handanna ekki sömu möguleika á að njóta vissra gæða lífsins. Kaupmátturinn hefur aukist ójafnt. Ég nenni ekki aftur að nefna innflutta skemmtikrafta - ég nefni bara íbúðarhúsnæði sem hefur hækkað svo mikið að fólk getur ekki sparað fyrir því. Það fær ekki hagstæð lán lengur og auðvitað vitum við að traffíkin hefur aftur aukist hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Menn skuldsetja sig af illri nauðsyn.
Þess vegna held ég að Bónus sé raunverulegur vinur heimilanna í landinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 25. janúar 2007
Einkavæðum ruslið, ha?
Stundum er maður svolítið seinn að taka við sér. Það eru náttúrlega líka þvílík ógrynni í bloggheimum að maður nær aldrei að lesa allt sem þó er forvitnilegt. En í gær ráfaði ég inn á þessa færslu um einkavæðingu bókasafna. Ég held að höfundur hafi áreiðanlega verið að grínast en í ljósi annars sem hann hefur skrifað kann að vera að hann vildi gjarnan framselja bókaútlán og jafnvel bóklestur í hendur fárra.
Hann tiltekur fjöldann allan af rökum fyrir máli sínu og þau eru rekin ofan í hann af lesendum síðunnar (því miður var búið að loka fyrir athugasemdir þegar ég las færsluna).
Ég ætla ekki að leggja orð í þann belg beinlínis, heldur hugsa upphátt um hvort ekki væri hægt að selja aðgang að öðru því sem fólk borgar fyrir með sköttunum sínum, t.d. sorphirðu. Ég veit að hörðustu einkavæðingarsinnar eru á því að mennta- og heilbrigðiskerfið eigi að fá að vera í friði en væri ekki gráupplagt að fá Gísla til að annast sorphirðuna? Þá væri hægt að vigta ruslið og láta okkur borga eftir því hver sóðar mest út. Það er kannski galli á gjöf njarðar að það tæki tíma og orku sem er ekki eytt núna og væri kannski óspennandi vinna. En þið vitið, láta þá borga meira sem eru meiri sóðar. Ég meina, sumir myndu þá kannski henda í tunnuna hjá næsta manni - sem gæti leyst málið með því að fá sér lás - eða í næsta garð, út á götu eða í sandkassann á leikskólunum. Þetta yrði trúlega ekkert ódýrara en þjónustan eins og hún er reidd fram núna - en þeir myndu borga sem njóta, svona að mestu leyti.
Og næsta skref gæti orðið að einkavæða vegagerðina. Ég meina, það er ekki nokkur hemja að þeir sem ganga bara út í búð og til baka borgi fyrir akstur t.d. atvinnubílstjóra. Ég veit ekki hvernig á að mæla þetta nákvæmlega hjá venjulegu fólki en kannski er hægt að vera með viðverumæli í bílunum. Það hlýtur að skipta máli hvort verið er að keyra Hringbrautina beint eða eina af slaufunum, já, mislæg gatnamót.
Sveitarstjórnarmenn nýtast líka misvel. Sumir opna varla munninn, hafa helst engar skoðanir og hljóta þá að vera verðminni. Sumir þingmenn eru bestir í að hlýða og ýta bara á réttan atkvæðagreiðsluhnapp eftir boðum að ofan - hver nýtist manni best? Má maður kannski gerast áskrifandi að kjörnum fulltrúa, já, og bara borga það sem það kostar?
Og leikhúsið, maður lifandi. Nú þegar hér eru menn sem ráða við að borga milljón eða 70 fyrir innfluttan skemmtikraft er algjör óþarfi að vera með niðurgreitt leikhús. Sýning á litlu leiksviði þar sem bara komast 70 áhorfendur verður að kosta meira en sýning á stóra sviðinu. 100 þúsund kall gæti dugað fyrir einstakri sýningu en ekki ef við reiknum út kostnað við æfingar. Færri sýningar kosta meira en við vitum ekki fyrr en sýningin fer af fjölunum hversu oft hún var sýnd.
Hjálp, íþróttir. Hver ætlar að borga fyrir handboltaleikinn sem er núna í sjónvarpinu?
Svei mér ef ég kristnaði mig ekki bara sjálf. Höfum bókasöfnin og strætóana á framfæri skattsins. Þetta jafnar sig.
Eitt að lokum, ég skil ekki, ég skil bara alls ekki hvernig stendur á því að bankarnir sem eru svona frábærlega reknir af einkaaðilum láta ekki viðskiptavinina njóta þess.
Es. Ég gleymdi kirkjunni! Er hún ekki gengin í björg? Hvað kostar skírn raunverulega?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 25. janúar 2007
Vinnusemi Íslendinga ríður við einteyming
Maður les og heyrir og segir sjálfur frá að Íslendingar vinni svo mikið. Svo les maður og heyrir en segir engum frá að afköstin séu ekkert endilega í samræmi við vinnutímann. Og áðan fékk ég þessa meintu frétt erlendis frá.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)