Þéttum byggðina, þéttum byggðina, við búum í borg

Og ég skal fórna mér, ég skal hafa nágranna á stofuglugganum. Ég dreg bara fyrir þegar mér finnst við hæfi. Ef ekki væri fyrir vistkerfi Vatnsmýrarinnar legði ég til að þar yrði byggð 15.000 manna byggð.

Ég minni á að það eru fleiri bílar en ökuskírteini í Reykjavík. Þótt einhverjir einstaklingar eigi tvo bíla af því að þeir eru búnir að endurnýja þótt þeir séu ekki búnir að selja þann gamla getur það ekki afsakað þessa staðreynd.

Og þetta þýðir? Já, einmitt að þrír fjórðu Reykvíkinga keyra sjálfa sig eina saman á vinnustað daglega.

Ég var einhverju sinni á borgarafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem var verið að tala um skipulagsmál. Einn gesturinn lagði til að húsin norðan megin við Laugaveginn yrðu öll rifin, mig minnir alveg niður að sjó reyndar, sem sagt líka Hverfisgata og Lindargata og kannski Skúlagata, og svo yrði byggt upp þétt hverfi - sem myndi þýða að strætó ætti oftar og meira erindi þangað, þ.e. af öllum þeim fjölda sem gæti sest að miðsvæðis myndi svo og stór hópur vilja vera bíllaus.

Þetta var náttúrlega svo róttækt að enginn í pallborðinu virti hann svars. Mér finnst sjálfri þetta dálítið dramatískt en engu að síður er lausnin fólgin í þéttingu byggðar.

Við búum í borg!

Svo búa aðrir í dreifbýli og þar gilda önnur lögmál og viðhorf.


mbl.is 73% aka einir í bíl til vinnu eða skóla í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Háskólann í Reykjavík til Garðabæjar

Ég er enn stúrin yfir að HR hafi ekki tekið lóðina í Urriðaholti. Háskólinn í Garðabæ væri bara rækalli flott nafn, og ábyggilega flottur skóli. Ég hef fulla trú á HR (sem ég vildi að væri HG). Matti hefur kennt þar og það eru ótvíræð meðmæli.

Og Vatnsmýrina og Öskjuhlíðina hefði ég viljað hafa undir annað en HR. Ég hugsa með angist til þess sem á eftir að gerast í Vatnsmýrinni næstu árin.

Annars var ég að reyna að rifja upp hvað Runólfur Ágústsson, fyrrverandi rektor í Bifröst, sagði í einum fréttatíma um daginn. Var hann ekki eitthvað að tala um að setja upp skóla í varnarliðshúsakynnunum sem standa núna tóm og draugaleg suður í Reykjanesbæ? Og ef hann var að því, af hverju hef ég þá ekki heyrt nema eitt múkk? Eða heyrði ég ekki einu sinni eitt múkk? Dreymdi mig þetta?

Við þurfum að herða okkur í menntasókninni, auka fjölbreytni og dreifa skólunum. Við verðum að fá fiskvinnslunám. Og meira iðnnám. Verknám.

Ég er á innsoginu. Hvernig ætli ég verði næst þegar ég þarf að ráða smið eða pípara?


Bankarnir eru svo góðir - við sig

Ég er með endurtekið Kastljós í eyrunum núna. Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri fullyrðir að viðskiptabankarnir séu góðir við lántakendur á Íslandi, séu ódýrir, og það komi ekki til greina að láta viðskiptavinina í t.d. London borga með bankaþjónustunni á Íslandi.

Nú, ef allur heimurinn er undir hlýtur að vera næsta skref að láta okkur njóta sömu kjara og viðskiptavinirnir í London njóta. Samkeppni, samkeppni er lykilorðið.

Það hlýtur að verða fyrsta verk Sigurjóns í fyrramálið að tilkynna hin góðu kjör. Þeir eru á samkeppnismarkaði, viðskiptabankarnir á Íslandi. Og einhver vinsamlegast rifji upp fyrir mér hvers vegna hér er enginn erlendur banki.

Sagði einhver átthagafjötrar?


Bloggfærslur 16. febrúar 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband