Hættum að urða og hættum að bruðla

Eftir hlaupaæfingu í morgun fórum við nokkrar í Sundhöllina og töluðum okkur heitar í pottinum um loftslagsvandann. Ein var með mjög dramatíska tillögu. Hún sagði að flugmiði þyrfti að fara upp í 500.000 kr. þannig að ferðalag til útlanda yrði bara mjög stór hluti af útgjöldum heimilisins.

Það þarf að verðleggja kolefnisfótsporið, þar er ég sammála, en ég veit ekki hversu hátt. Og ef við gerum öll eitthvað, kaupum færri föt, minna plast, minni umbúðir, minna kjöt – fer það þá ekki að skipta máli? Banna örstuttar ferðir til útlanda? 

Ég hef haft áhyggjur af þessum vanda eins lengi og ég man eftir mér. Þess vegna hef ég prísað mig sæla að geta hjólað og gengið í vinnu, keypt notuð föt og lengi vel vildi ég aldrei vera styttra í útlöndum en einn mánuð.

En þið vitið alveg hverjir munu reka upp ramakvein ef neyslan verður skorin niður af umhverfisástæðum. Það eru þeir sem ganga fyrir neysluhyggjunni, framleiðendur að drasli og seljendur draslsins.

Lifi nytjamarkaðir! Verslum minna og verum meira.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hverjir munu reka upp ramakvein ef neyslan verður skorin niður af umhverfisástæðum? Það er til dæmis þú. Það sem knúið er áfram og fjármagnað af neysluhyggjunni er megnið af þjóðfélaginu. Það eru sjúkrahúsin, skólarnir, fyrirtækin og verslanirnar sem ganga fyrir neysluhyggjunni. Þeir sem borga þér laun og þeir sem passa að salmonella sé ekki í matnum þínum treysta á neysluhyggjuna. Neysluhyggjan skapar nær öll störf og verðmæti í landinu. Sala á drasli er bara brotabrot af neysluhyggjunni.

Það sem þú kaupir ekki skilar engu til þjóðfélagsins og borgar ekki laun kennara og lækna. Þegar skatttekjur ríkisins af vörum lækkar þá þarf að hækka aðra skatta og skera niður bætur og þjónustu. Í dag er það þannig að þeir sem kaupa mest borga mest. Hætti þeir að kaupa þá þurfa einhverjir að fá minna og aðrir að borga meira.

Ert þú til í að lækka í launum og lífskjörum um helming ef neyslan verður skorin niður af umhverfisástæðum? Borga hærri skatta, rafmagn og hita en nota minna og búa með fleiri fjölskyldum saman? Ert þú til í að hætta að bruðla með húsnæði? Eða ert þú aðeins til í að fórna ef það er þægilegt og truflar ekkert?

Vagn (IP-tala skráð) 22.9.2019 kl. 02:25

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Það væri alveg gaman að vita hver þú ert, Vagn, og ræða við þig á jafnréttisgrundvelli. Hér er ég með allt uppi á borðum en þú skýtur bara úr einhverjum helli.

Stutta svarið er: Já, ég er tilbúin að slá af lífsgæðunum.

Veistu hvernig hagvöxtur verður til? Meðal annars þegar rúða brotnar, maður veikist og bílar lenda í árekstri. Er það mælikvarði á lífsgæði?

Það er löngu tímabær vakning með umhverfinu og við græðum öll á meiri meðvitund.

Ertu kapítalisti af gamla skólanum, Vagn?

Berglind Steinsdóttir, 22.9.2019 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband