Um þá staðreynd er ekki deilt

Já, lögmaður bróður míns, sá sem tekur kannski 25.000 kr. á tímann, sagði þetta á fundi við mig í dag: Um þá staðreynd er ekki deilt að þú lánaðir bróður þínum 7 milljónir og að hann hefur ekki endurgreitt þá skuld.

Hnífurinn stendur bara þar í kúnni að skv. fyrningarlögum er skuldin fyrnd. Það var samkomulag um það að Gummi myndi borga mér skuldina þegar hann fengi pening, í síðasta lagi þegar hann fengi arf ef hann eignaðist ekki pening fyrir skuldinni áður. Ég hafði ekki einu sinni hugmyndaflug til að halda að hann ætlaði ekki að standa við það samkomulag.

Aðrir ættingjar voru búnir að sjá í gegnum hann. Ekki ég.

Nú á hann fyrir skuldinni en ætlar ekki að borga. Skilaboðin frá lögmanninum - sem ég viðurkenni að var ekki með hýrri há, hann langaði ábyggilega að geta boðið betur - voru að bróðir minn ætlaði ekki að bjóða neitt nálægt höfuðstólsskuldinni, hvað þá að hann ætlaði að borga vexti til 12 ára.

Lánið sem Gummi bróðir fékk hjá mér voru ekki loftbólupeningar, það voru peningar sem ég hafði unnið mér inn og lagt fyrir. Sjálfsagt hugsa einhverjir að ég hafi verið kjáni að lána bróður mínum svona mikinn pening. Já, ég var kjáni að treysta honum en það er minn helsti glæpur. Hann er þjófur og ómerkingur. Hann þorir ekki einu sinni að hitta mig á fundi heldur ræður sér lögmann sem hann borgar auðvitað launin með þjófstolnum peningum.

Ég hef það gott og þarf ekki að kvarta undan lífi mínu. Ég er engu að síður ósátt við að láta stela af mér og að þjófurinn sé varinn af lögum. 

Guðmundur Steinsson hefur kannski haldið að hann losnaði við sannleikann og áminningar til dauðadags fyrir 1 milljón, ég veit það ekki. Engin upphæð var nefnd. Ég sit uppi með mikla vanlíðan og óhamingju yfir að eiga svona albróður sem ég er búin að átta mig á núna að kúgaði elsku mömmu alla ævi. Hún var alltaf logandi hrædd um að hann dytti í það og færi sér eða einhverjum öðrum að voða.

Elsku mamma. Elsku pabbi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband