Sunnudagur, 3. september 2023
Blóð þykkara en vatn?
Ég var að klára Educated eftir Töru Westover, uppvaxtarsögu mormónastúlku sem þarf að hafa mikið fyrir því að fjarlægjast uppruna sinn. Ég held að það sé óhætt að segja að hún sé gædd góðum eðlisgáfum og þótt uppeldið hafi verið ólíkt því sem við þekkjum á Íslandi og grannlöndum kemur hún líka inn í fullorðinsárin með vissa kosti.
Ég vil ekki gera lítið úr því sem gæti verið gott. Engu að síður verður að segja að foreldrar hennar, einkum faðir hennar, reyna að innræta henni andúð á yfirvaldinu, heilbrigðiskerfinu og skólakerfinu. Þau vilja vera sjálfbær og vera eina fjölskyldan uppistandandi ef kemur til heimsendis. Þau birgja sig upp af vistum og eldsneyti, leggja heimatilbúið smyrsl við brunasár og ætlast til skilyrðislausrar hlýðni af börnunum sem eru mörg. Tara á sex systkini og systkini hennar eignast líka fimm til átta börn.
Togstreita Töru bókina í gegn er hvort hún eigi að vera hlýðna dóttirin eða fara að heiman og mennta sig, uppfræða sig, sjá heiminn, skilja heiminn og þá á endanum segja skilið við alla fjölskylduna sem gefur engan afslátt af undirgefni.
Þar sem hún skrifaði þessa bók er augljóst hvort hún valdi. Og þá er að svara spurningunni hvort blóð sé þykkara en vatn. Flestum er mikilvægt að tilheyra fjölskyldu, þeirri sem maður elst upp í og þeirri sem maður kemur sér sjálfur upp seinna. Ég hef aldrei einu sinni reynt að ímynda mér hvernig mér hefði liðið ef mamma og pabbi hefðu snúið við mér bakinu fyrir það að fara í nám, fara til útlanda eða velja mér starfsgrein sem þau hefðu ekki kosið. Það er svo fjarri íslenskum veruleika. Ég hef hins vegar upplifað það að átta mig allt í einu á að ég ætti svikulan bróður og þar sem háttsemi hans var hafin yfir vafa og hann sýndi engan vilja til umbóta heldur forhertist með aðstoð lögmanns lét ég hann róa. Hann var reyndar búinn að blokka mig á Facebook þegar það gerðist þannig að þetta var alveg gagnkvæmt.
Mér þykir vænt um bæði hin systkini mín og við eigum öll í góðum, uppbyggilegum og reglulegum samskiptum. Ég var í innilegum og góðum samskiptum við bæði mömmu og pabba þangað til þeirra jarðvist lauk og sakna þeirra enn en ekki fyrir það að þau voru mamma og pabbi heldur fyrir það hver þau voru. Ef þau hefðu viljað skikka mig til einhvers hefðu þau ekki verið það kærleiksríka fólk sem þau voru.
Sem sagt, ég held að blóð sé ekki þykkara en vatn þegar til stykkisins kemur. Ef einhver blóðskyldur mér er ofstopamaður rennur mér ekki það blóð til skyldunnar að fara eftir boðorðum viðkomandi. Og ég held að þegar fólk áttar sig á því að því ber ekki skylda til að elska vont fólk þótt það sé því skylt eigi það betra líf fyrir höndum.
Alda Sigmunds sagði frá narsissísku uppeldi móður sinnar í fyrra og það þarf enginn að segja mér að það hafi ekki tekið á hana. Ég sagði frá framkomu bróður míns við okkur systkinin og foreldra okkar og ég veit fyrir víst að einhverjir hugsuðu að ég væri bara athyglissjúk eða þaðan af verra. Sannleikurinn er ekkert alltaf vel séður.
Þess vegna verð ég að taka hatt minn ofan fyrir Töru Westover.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.