Málið skylt ...

Ég verð að halda til haga skoðun Kolbeins Proppés í Fréttablaðinu í dag, einkum þessu:

Umræður þar eru í beinni útsendingu, bæði í sjónvarpi og á netinu, og hið stórkostlega starfsfólk þingsins er fljótt að skrifa ræður upp og birta á vefnum.

 


Verkföllin bitna ekki á mér

Ég er að meina þetta. Nákvæmlega núna þarf ég enga læknisþjónustu og get verið án kjúklingakjöts. Sumar stéttir eru búnar að vera í verkföllum í margar vikur án þess að ná saman með viðsemjendum sínum. Og fleiri stéttir hafa boðað verkföll sem hefjast um mánaðamótin. Þá verður búðum lokað og landinu kannski líka og ég get þakkað fyrir að hafa hvergi bókað mig sem leiðsögumaður því að ferðum verður ef til vill aflýst og þá fær leiðsögumaður engin laun vegna „force majeure“, svokallaðra óviðráðanlegra orsaka.

Þegar Eyjafjallajökull gaus fyrir rúmum fimm árum hættu nokkrir hópar við að koma til landsins, vantreystu því að þeir kæmust hingað og enn meira að þeir kæmust í burtu. Náttúruöflin eru óútreiknanleg en eru ónáttúruöflin eitthvað fyrirsegjanlegri?

Ég get verið ábyrgðarlaus, er ekki atvinnurekandi og get kannski trútt um talað, en er ekki kominn tími til að bretta upp ermar, moka flórinn – og semja? Undarlegt að menn skuli alltaf vilja setjast niður ... í stað þess að láta verkin tala. Hvað með 

a) þjóðarsátt?

b) hækkaðan persónuafslátt?

c) hámarksbil milli lægstu og hæstu launa?

Ég tek svo stórt upp í mig að segja að fyrirtæki sem ráða ekki við að borga starfsfólki sínu meira en lögbundin lágmarkslaun hafa tæpast rekstrargrundvöll. En er það vegna þess að þau borga „eigendum“ sínum of mikinn arð eða kunna einfaldlega illa á fyrirtækjarekstur? Við borðum öll daglega þannig að við kaupum í matinn og ég ætla ekki að telja upp allt það sem augljós eftirspurn er eftir vegna reglulegrar notkunar fólks. Ef við borgum sanngjarnt (og að sumra mati of hátt) verð fyrir vöru og þjónustu á að vera hægt að láta þá sem veita vöru og þjónustu fá eðlileg og sanngjörn laun fyrir vinnuna. Er það ekki?

Hefur græðgi eitthvað að segja í þessu samhengi? Níska? Eða eru heilu stéttirnar óalandi og óferjandi? 


Ákefð og ástríða Árnastofnunar

Í morgun var árviss ársfundur Árnastofnunar. Að vanda ávörpuðu fundinn formaður stjórnar og forstöðumaður. Ég man ekki hvenær Þorsteinn Pálsson tók við formennskunni en Guðrún Nordal er búin að vera þarna í nokkuð mörg ár og geislar ævinlega af áhuga og metnaði. Það einkenndi þau bæði núna líka.

Það er vilji til að bretta upp ermar en áformum og góðum hug verður líka að fylgja fé. Ég kýs að trúa að hola íslenskra fræða verði orðin full af handritum 2018.

Svo voru nokkrir stuttir fyrirlestrar um íðorðanefndir, stöðu tungumálsins í tölvuheiminum, þýðingar og máltækni. Tæknin var til fyrirmyndar - já, mér finnst ástæða til að taka það fram - þannig að enginn dýrmætur tími fór í bið. Hver frábæri fyrirlesarinn á fætur öðrum kom í réttri röð í pontu og þau öll - öll, ítreka það - höfðu mikið fram að færa, ekki allt alveg glænýtt fyrir áhugasama en sannarlega forvitnilegt og uppörvandi.

Þessir ársfundir eru mitt helsta haldreipi þegar ég fæ efasemdir um að íslenskan lifi tölvuöldina af. Í maí er ég aldrei efins.

Ekki bíll. Nei, talgreinir!

Það er undurgaman að heyra fólk tala af áhuga, umhyggju og ástríðu um vinnuna sína. Áhugi er svo mikill hvati. Er það forstöðumaðurinn?


Kröfugerð í prósentum er út í hött

Nú er búið að vísa kjaraviðræðum Félags leiðsögumanna við viðsemjendur, Samtök atvinnulífsins, til ríkissáttasemjara. Ég hef verið í þessum sporum og ég veit satt að segja ekki hvað þarf til að opna augu ferðaskrifstofa.

Það er ætlast til þess að leiðsögumenn viti margt, geti komið því frá sér á erlendu tungumáli, stundum tungumálum, umgangist náttúruna af varúð og leiðbeint misgæfusömum túristunum, séu ávallt í góðu skapi, séu löngum stundum að heiman og taki sér launalaust frí til að fara til læknis. Atvinnuöryggið er ekkert, réttindi sáralítil og fyrir heilan mánuð af svona starfskrafti eru núna borguð 270.000 í efsta flokki samkvæmt taxta. Við leiðsögumenn vitum mætavel að taxtarnir eru bara gólfið, við megum semja um hærri laun, en stóru ferðaskrifstofurnar vilja ekki borga meira.

Og vitið þið hvað?

Þær segjast hafa gert ráð fyrir þessum (lágu) launum í tilboði til erlendu kúnnanna og að hækkun á launum setji skipulagið á hliðina - en ef samið verði um hærri laun hækki þau auðvitað til okkar. Ha, er þá allt í einu svigrúm?

Í fyrra var samið um skitin 3% með bókun um að mun meiri launakrafa yrði gerð í ár. Ég held að fyrirtæki sem ekki geta hækkað laun leiðsögumanns talsvert séu einfaldlega illa rekin.

270.000 * 50% = 405.000 og þá er samt ekki gert ráð fyrir orlofi, veikindarétti eða starfsöryggi. Ég er kannski heppin að þurfa ekki að vinna við þetta og líka heppin að hafa unnið fyrir þessu skítakaupi í nokkur sumur meðan ég hafði gaman af starfinu. En þessi laun eru ekki boðleg og ég vona að stéttvitundin verði meiri og leiðsögumenn láti hart mæta hörðu. Sjálf er ég búin að vera í eins manns verkfalli í tæp tvö ár.


Næstfallegasti maður í heimi

Nú á ég nýja uppáhaldsbíómynd. Hún er svakalega hversdagsleg og að sumu leyti fyrirsegjanleg - en samt ekki. Hún er um þessi hefðbundnu sannindi að maður verður að lifa hvern dag eins og hann sé einstakur. Það þarf ekki að vera leiðinlegt að taka til morgunmatinn, mæta í vinnuna, borga skatta og ferðast í rigningu. Maður hefur val um að gera gott úr því. Að vísu myndi ekki skaða að geta bakkað og leiðrétt mistökin annað slagið, en í aðalatriðum hefur maður val um að vera í góðu eða vondu skapi og vinna „skylduverk“ með góðu eða illu.

Og ég uppgötvaði frábæran írskan leikara sem ég veit ekkert hvernig á að bera fram nafnið á, Domhnall Gleeson. Hann er svipbrigðaríkur og svo lék hann hlutverk gæfusama mannsins sem áttar sig á ríkidæmi sínu. Rachel McAdams var heldur ekkert slæmur mótleikari. Að ógleymdum Bill Nighy sem mér hefur löngum þótt frábær. Bresk gæði í fyrirrúmi.

Hingað til hefur Nothing to Lose verið í uppáhaldi og Once Were Warriors, ólíkar myndir en báðar þeim eiginleikum gæddar að koma mér á óvart. Og það gerði About Time svo sannarlega og það er með því skemmtilegasta sem ég upplifi. Og hinn undurfríði Domhnall spillti engu þegar hann brosti.


Nei við reiðhjólahjálmi

Því miður finnst mér Hjólað í vinnuna orðið dálítið staðið verkefni. Ég heyrði viðtal við verkefnisstjóra í útvarpinu í gær sem sagði að fjöldi þátttakenda hefði stigið stöðugt fyrstu árin, væri nú komið í kyrrstöðu þegar það væri búið að vera svona lengi í gangi, frá árinu 2003, en vonandi næðist áfram 10.000 manna þátttaka. Ég fer mjög mikið fyrir eigin vélarafli þannig að átakið hefur aldrei haft nein áhrif á raunþátttöku mína, bara skráninguna. Og nú nenni ég ekki lengur að skrá mig þótt ég sé á 100 manna vinnustað og við séum hvött til þess að „vera með“. Ég hjóla í vinnu og ég hjóla úr vinnu. Það þýðir tvær skráningar í verkefninu. Ég veit ekki hvernig það er núna en maður þurfti að minnsta kosti alltaf að velja upp á nýtt ef maður fór ekki hjólandi, síðasta val kom ekki sjálfkrafa upp, og maður var beðinn um veðurlýsinguna - en hún átti að vera sú sama fyrir báðar ferðir. Instagram getur kannski bjargað einhverju í ár en annars er blessað verkefnið alveg að geispa golunni.

Nóg um það.

Ég las viðtal við Gísla Martein í gær um notkun hjálma. Eða ekki. Það er útbreiddur misskilningur að maður þverskallist við að nota reiðhjólahjálm af því að það sé ekki kúl, að það hafi með útlit að gera. Það er ekki málið. Mér hefur alltaf þótt óþægilegt að vera með húfu, mér finnst óþægilegt að vera með annað en kannski úlpuhettuna á hausnum. Þegar ég fer ofan í hella er ég samt með hjálm af því að þá er það raunverulegt öryggisatriði. Þegar ég hjóla eftir stígum eða í rólegum hliðargötum er ég ekki í meiri hættu en gangandi vegfarandi. Ef fleiri hjóluðu að staðaldri en nú er væru færri bílar á götunum en þessi eilífa krafa sumra um að maður hjóli með hjálm fælir of marga frá reglulegum hjólreiðum og eykur þar með slysahættu ef eitthvað er.

Ég segi eins og píratinn: Að auki legg ég til að fólk hætti að amast við hjálmlausu hjólandi fólki (hann er að vísu með annan baráttutón í lok hverrar ræðu).


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband