Laugardagur, 26. maí 2007
Jöklaferðir takmörkuð auðlind
Í þeirri von að viðskiptalögfræðingurinn ógurlegi detti einhvern tímann aftur inn á síðuna mína ætla ég að skrifa þessa tillögu:
Hvernig fyndist mönnum að setja jöklaferðir með túrista í kvóta? Það mætti úthluta kvótanum eftir ferðareynslu, þeir sem þegar hafa starfað í faginu í x ár fá daga í samræmi við söguna. Eftir einhvern tíma, hálfan mánuð eða hálfan áratug, gæti ferðaþjóninum dottið í hug að draga sig í hlé og selja dagakvótann sinn hæstbjóðanda.
Hver vinnur?
Hver tapar?
-Spyr Berglind sem er rjóð í gegn eftir vel heppnaðan dag á Langjökli. Ég fór að vísu ekki á sleða að þessu sinni en spilaði jöklagolf og renndi mér á slöngu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 25. maí 2007
Ordnung muss sein
Á morgun er það sleðaferð á Langjökli á þýsku, vei. Und Ordnung muss sein! Þess vegna fór ég í sund og hugsaði um flekakenninguna á þýsku, den Goldenen Wasserfall, den Gletscher ... og já, nú er ég búin að undirbúa mig vel fyrir þessa dagsferð.
Hoffentlich bleibt das schöne Wetter, ich bin ja aberglaübisch, hehhe.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 25. maí 2007
Sendum Dönum íslenska vinnusjúklinga
Eða hefur það kannski þegar verið reynt?
Mér finnst fréttin kátleg, í bestu merkingu, en líka óhemju óljós. Ætlar Thor Pedersen að borga meira? Hversu langur er vinnudagurinn? Vilja Danir vinna meira, yfirleitt, eða væru þeir til í að vinna meira ef þeir fengju betur borgað? Þessum spurningum svarar Moggafréttin ekki.
Það sem ég þekki til dansks samfélags æpir allt fjölskylduvinsemd, þ.e. Danir leggja meira upp úr frítíma en efnislegum gæðum sem kaupa má fyrir peninga. En ég er svo sem ekki hagvön um alla Danmörku.
Nýútskrifaðar íslenskar ljósmæður neita að vinna fyrir það kaup sem Landspítali - háskólasjúkrahús vill borga þeim. Kannski er þarna lag?
Kæmi annars almennt til greina að nýta vinnutímann betur ...? Líka hér?
-Meðan ég skrifaði þetta gæddi ég mér á den go' Haribo vingummi. Skyldi þurfa að lengja daginn í þeirri verksmiðju líka?
![]() |
Opinberir starfsmenn í Danmörku þurfa að vinna meira" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 24. maí 2007
Lítill áhugi á Síberíu
Ég hefði heldur ekki lesið þessa frétt nema vegna þess að Steingrímur (bloggvinur minn) hennar Marínar er á þessum slóðum. Margir fórust, þó engir Íslendingar og engir Bandaríkjamenn og engar litlar breskar stúlkur týndust á portúgölskum hótelherbergjum.
Ef ég hefði að vísu hlustað á hádegisfréttir hefði ég heyrt Hauk Hauksson með fréttaskýringu, þann sama rússneskumælandi Hauk og stendur fyrir Bjarmalandsferðunum.
En svona er fréttamatið, líf rússneskra námuverkamanna mega týnast og gefast tröllum tugum saman. Rússland kemur svo fáum við hérna megin.
![]() |
38 létust í námuslysinu í Síberíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 23. maí 2007
Með harðsperrur í hausnum
Ég hlýt að hafa ofreynt á mér heilann undanfarið. Spurningin er: Við hvað?
Geisp, hvað það er erfitt og leiðinlegt að eiga erfitt með að reisa höfuðið af púðanum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 23. maí 2007
,,Sto cercando il colore per colorare le mie sopraciglie"
Þessa setningu sagði ég síðast í einhverri alvöru seint sumarið 1996 þegar ég hafði upplitast mjög í framan eftir sumardvöl í Róm. Ég þori ekki að sverja að rithátturinn sé óaðfinnanlegur lengur en framburðurinn er það örugglega, hehhe.
Og nú er búið að flytja ferðamálin milli ráðuneyta. Forvitnilegt.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 21. maí 2007
Hjólhýsi hvað?
Úff, nú fannst mér Lóu Pind Aldísardóttur takast illa upp, eins mikið dálæti og ég hef á fréttamanninum í henni. Hún fjallaði um hjólhýsa-eitthvað eins og það væri frétt þegar ég sá bara auglýsingu út úr því í fréttatímanum, kl. 18:43-5 eða svo.
Fy.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 21. maí 2007
Aðgát skal höfð í nærveru útlendinga
Ég er hugsi yfir dauðaslysinu í Reynisfjöru á laugardaginn. Ég vona að ég þurfi ekki að skrifa hvað ég er leið yfir þessu, það á að vera augljóst.
Ég hef oft komið þarna með útlenska gesti, það gefur augaleið. Ég er mest á ferðinni á sumrin, þ.e. í júní, júlí og ágúst, en reyndar hef ég miklu oftar farið með farþega upp í Dyrhólaey. Reynisfjara sem er samt æðisleg hefur verið dálítil varaskeifa þegar maður kemst ekki upp hrikalegan veginn í Dyrhólaey, næstum ófæran á köflum. Og ég veit ekki hvað maður á lengi að ganga fyrir spennunni við stórhættulegan veg.
Ég er sammála Magnúsi Oddssyni ferðamálastjóra um að auðvitað á fólk að hafa nokkurt vit fyrir sér sjálft. Ég er þó miklu meira sammála kollega mínum Stefáni Helga Valssyni sem vill fá betri aðbúnað á fjölsóttum ferðamannastöðum, s.s. við Geysi og Gullfoss. Kaðalómyndirnar sem eru við Strokk vísa fólki alls ekki veginn og stígurinn niður að Gullfossi er mikil slysagildra, ekki bara á veturna heldur get ég ímyndað mér hvernig hann muni vera í dag þegar haustveðrið helltist óforvarandis yfir okkur í maí. Svo er t.d. Gunnuhver á Reykjanesi sem hefur gjörbreytt um ásýnd og hegðun eftir virkjunina sem komin er þar á koppinn en aðeins er upphrópunarmerki við stíginn þar ásamt orðunum CLOSED og LOKAÐ.
Ég vona að mannshöndin fari samt ekki offari og verði látin taka alla upplifun frá túristanum, t.d. með of miklum stígum, köðlum, gleri eða öskubökkum hreinlega, en það er til millivegur. Á Þingvöllum held ég að ég megi segja að nokkuð snyrtilega hafi verið staðið að verki - hvernig væri að flikka upp á umhverfið við Dettifoss? Og væri í of mikið ráðist að vera með starfsmann á þessum fjölsóttustu stöðum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 20. maí 2007
Vonskuveður á norðursvölunum mínum
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 20. maí 2007
120 Flateyringar = 35.000 Reykvíkingar (hlutfallslega)
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 18. maí 2007
Ráðherragisk
Gerir enginn ráð fyrir að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur sem báðir hafa lýst yfir vilja til að stokka upp í Stjórnarráðinu ætli að standa við orðin um að fækka ráðuneytum?
Nú eru Björn Ingi og Óli Björn að giska í Kastljósi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 18. maí 2007
Eins dauði er annars brauð
Ég sá viðtal við Hinrik Kambsmann í fréttum Stöðvar tvö og hann bar sig aumlega. Kannski hefur mér einhvers staðar skotist yfir en mér fannst einhvern veginn á honum að heyra að hann hefði nánast borgað með vinnslunni í fjölda ára og gæti það ekki lengur. Kambur á 2.700 tonna kvóta, minnir mig að hafi komið fram, og nú velti ég fyrir mér hver fái það brauð. Fer Kambur með kvótann sinn á norðanverða Vestfirðina - eða selur suður til Reykjavíkur?
Hver fær brauðið?
Og allt í einu rifjast upp kveinstafir útgerðarmannsins í Grímsey sem gat ekki staðið undir þessu lengur. Fór það brauð ekki suður? Synti ekki þorskurinn að norðan og til Grindavíkur til að vera veiddur þar?
Maður sem ég þekki sem betur fer lítið sagði við mig nýlega: Ef menn geta ekki fundið sér eitthvað að gera á landsbyggðinni eiga þeir bara að flytja hingað (til Reykjavíkur).
Ég held að landsbyggðinni sé settur stóllinn fyrir dyrnar og ég held að þessum manni þætti miður ef landsbyggðin flytti öll á mölina og hann þyrfti t.d. að taka með sér allan mat, allan viðlegubúnað, allt eldsneyti þegar hann leggur land undir hjól - því að honum leiðist ekki að vísítera.
Og samt má hann ekki til þess hugsa að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. Hvað ætlar hann að gera við flugvöll í Vatnsmýrinni þegar enginn verður lengur áfangastaðurinn á hinum endanum?
Og eitt enn, hvar er samkeppnin? Þegar öll réttindi eru meira og minna komin á fárra manna hendur hver tryggir þá samkeppni í faginu? Ráða handhafar t.d. veiðiréttarins ekki kílóverði þorsks - eða hví er það komið í tæpar 200 krónur?
![]() |
65 manns og sjómönnum á 5 bátum sagt upp hjá Kambi á Flateyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 17. maí 2007
Fimm dögum síðar - fall á uppstigningardegi
Maður situr í sakleysi sínu í hádegisbröns og ræðir fram á miðjan dag um yfirvofandi gæsun þegar allt í einu berast tíðindi með sms-i: Stjórnin er fallin.
Og maður rifjar upp að í gær voru leiðtogar stjórnarflokkanna spurðir hvort þeir ætluðu að funda í dag, og báðir sögðu - með undrunarsvip yfir spurningunni: Nei, á morgun er uppstigningardagur. Og þá rifjast upp fyrir manni að pólitíkin er einmitt 9-5 vinna og allir rauðir kirkjudagar haldnir háheilagir.
En svo óforvarandis heyrast þeir samt á uppstigningardag, líklega bara að spjalla, og svo er dagskrá útvarps rofin þegar ég er ekki á vaktinni og tilkynnt að stjórnin sé fallin.
Hvert féll hún? Klofnaði hún í herðar niður eins og Íslendingasagnahetjurnar forðum? Á hún sér viðreisnar von? Á uppstigningardegi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 15. maí 2007
Verst í heimi: að bíða í röð að óþörfu
Ég fór í sund og lenti fjórða í röðinni í afgreiðslunni. Ein manneskja að afgreiða og allt útlit fyrir að hún yrði korter að afgreiða fremsta manninn. Hvað gerir maður þegar maður vill bara fá að borga og fara svo í laugina að synda?
Ég var heppin núna, átti bara eina ógataða tölu þannig að ég lagði kortið á borðið hjá henni og sagðist fara inn. Hún leit ekki upp. Ég fór samt - og leit aldrei til baka.
Ætli þetta sé ekki ástæðan fyrir því að ég vil sem minnst af þjónustu vita? Ég vil sjálfsafgreiðslu sem víðast, dæla bensíninu sjálf, tína sjálf í körfuna í búðinni, tékka mig inn í vél í Leifsstöð - og fara í sund í gegnum götunarvél.
Ég get alveg beðið - en ekki að óþörfu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 15. maí 2007
Af hverju ekki rafræn atkvæðagreiðsla?
Tæknin leyfir að menn greiði jafnvel atkvæði úr heimatölvunum sínum, væntanlega með lykilorði og/eða kennitölu. Hvað bannar snögga og örugga atkvæðagreiðslu af þeim toga? Myndu menn sakna þess að frambjóðendur rúntuðu inn og út af þingi á kosninganótt? Óttast menn misnotkun? Er það óöruggara?
Ég held ekki. Og hvað sem mönnum finnst um flugvallarkosninguna forðum daga brúkuðu menn þar tölvur og létu að liggja að slíkar aðferðir væru handan við hornið.
Hvað dvelur orminn langa?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 15. maí 2007
Fótbolti er fyrir tilfinningaverur
Það sagði alltént Eggert Magnússon hjá West Ham í viðtali á Rás tvö í morgun. Það skemmti mér ógurlega því að hingað til hefur hann virst heldur fálátur. Í umræddu viðtali var hann virkilega skemmtilegur og sagði sem sé með öðru að hann væri svo mikill fótboltakall af því að í íþróttinni fengju menn útrás fyrir tilfinningar sínar. Og hann sagði að á leikjum mætti lesa í andliti sér hvort leikurinn gengi vel eða illa.
Hmmm, man ég það ekki rétt að hann hafi haft það orð á sér að vera mjög alvörugefinn?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 14. maí 2007
Áhætta spáhætta
Ég trúi því staðfastlega að kjósendur kjósi fyrst og fremst eftir málefnum, stefnuskrám og svo afrekum fortíðar. Engu að síður skipta frambjóðendur líka marga máli. Sjálf vildi ég eiga 10 atkvæði til skiptanna á kjördag og ég veit ekki betur en að í Þýskalandi séu þau á einhvern hátt tvö. Maður hefur óhjákvæmilega skoðun á fólki líka, dugnaði og eftirfylgni, ekki bara loforðum og skrúðmælgi.
Ég hef aldrei kosið í prófkjöri og þannig hef ég engin áhrif á uppröðun á lista.
Mér finnst óþolandi að Reykjavík skuli skipt í tvö kjördæmi og eiginlega finnst mér þénugast að hugsa mér landið allt eitt kjördæmi. Væru þá ekki 126 í framboði hjá öllum listum, bara í stafrófsröð? Eða færri, og maður fengi að velja einn lista og raða frambjóðendum þess lista í sæti? Ég hef ekki séð neinn útfæra þessa hugmynd (kannski hef ég ekki lesið réttu gögnin) en yrði það kannski eins og allsherjarprófkjör?
Mér heyrast menn vera sammála um að þeir fái ekki alltaf upp úr kössunum það sem þeir kjósa - væri eitt kjördæmi ekki bara risastór áskorun til allra í framboði?
D'Hondt hvað?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 13. maí 2007
Fimmvörðuháls
Ég man ekki betur en að Garún hafi verið að auglýsa eftir ferðafélögum á Fimmvörðuháls 22.-24. júní. Hún flæktist upp á Hvannadalshnúk í síðasta mánuði þannig að hún er komin í góða æfingu. Hún er lika orðin þjálfuð í að draga skussa með sér þannig að ég sé marga í mínum vinahópi sem ættu erindi. En ég stefni að því að standa undir sjálfri mér ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 13. maí 2007
Kosningavakan mín
Ég er lúin eftir helgina, sár og móð, og svolítið mædd líka.
Kosningavakan mín hófst í gærmorgun þegar ég fór í Ráðhúsið að kjósa. Þaðan fór ég að forvitnast um beð risessunnar og svo í Bónus að kaupa djús og fleira fyrir síðdegisbrönsinn hjá Habbý. Í Bónusi hitti ég hana Garúnu og hún er svo skemmtileg, alltaf, að í þetta skipti hélt ég að ég yrði of sein heim til að vera komin á undan Kjartani áður en við færum í kosningavöku miðdegisins.
En Kjartan kann illa á klukku þannig að ég bakaði brauð meðan ég beið. Gott að Garún frétti það.
Í Efstasundinu var heldur betur skipst á skoðunum, enda kusu þar menn eina fjóra eða fimm flokka (ekki gefa sig allir upp). Þar var gaman í marga klukkutíma.
Ég er óhuggandi þegar ég hugsa um framhaldið.
Ég mókti, vakti og svaf yfir kosningasjónvörpunum, svo illa haldin að ég skipti í sífellu milli Stöðvar tvö og RÚV og hafði líka vefina uppi. Þess vegna er ég ekki enn búin að læra endanleg úrslit, svo margir flökkuðu út og inn, fögnuðu eða báru harm sinn í hljóði.
Eins og fífl hafði ég tekið að mér að fara Gullhring með Breta í dag þannig að nú er ég nokkuð rotinpúruleg að horfa á RÚV+ til að missa ekki af stjórnarmyndun ... ef ske kynni - þar sem ég var boðin í þrítugsafmæli í millitíðinni.
Erill er skemmtilegur, sólríkur erill skemmtilegri ... *geisp*
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 11. maí 2007
Samkeppnin talar
Samkeppnin hefur bara því miður ekkert annað að segja en: dittó dittó dittó.
Lítill fugl hefur hvíslað því að mér að tryggingafélögin afskrifi í sjóði sem fitna og dafna. Annar lítill fugl er að hvísla núna að þess verði skammt að bíða að hin tryggingafélögin - þessi sem eru í harðri samkeppni - muni hækka sín iðgjöld á næstu dögum.
Nema ég hafi tekið athyglishlé og þau séu þegar búin að því.
![]() |
Tryggingamiðstöðin hækkar iðgjöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)