Verður ferðaþjónustan krónísk láglaunastétt?

Mér sýnist Edward H. Huijbens, forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands, spyrja þeirrar spurningar í Mogganum í dag. 

Ég óttast að svarið verði já, en spyr jafnframt: Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir það?

Ferðamenn sem koma til landsins víla ekki fyrir sér, margir alltént, að borga mikið fyrir gæðavöru sem er einstök, náttúru, upplifun, frábæran mat - en eru ekki eins spenntir fyrir drykkjarföngum sem eru kannski flutt inn frá heimalöndum þeirra, lélegri gistingu og ónýtum rútum.

Það þarf að jafnvægisstilla.

 

Atvinnugreinin ferðaþjónusta

Edward H. Huijbens skrifar um ferðaþjónustu sem iðngrein

Edward H. Huijbens
Edward H. Huijbens
Edward H. Huijbens skrifar um ferðaþjónustu sem iðngrein: "Það er fagnaðarefni að nú fari ferðaþjónusta undir ráðuneyti iðnaðar og þá væntanlega ferðamála..."

 

MEÐ nýrri stjórn og þeim stjórnarsáttmála sem Samfylking og Sjálfstæðisflokkur gerðu í kjölfar nýliðinna kosninga verða málefni ferðaþjónustunnar flutt undir iðnaðarráðuneytið um næstu áramót. Áður höfðu málefni ferðaþjónustu á Íslandi heyrt undir samgönguráðuneytið. Það sem ég les út úr þessari breytingu er að nú loks er ferðaþjónustan viðurkennd sem tegund iðnaðar, atvinnugrein í sjálfu sér, en ekki aðeins "hliðaráhrif" bættra samgangna.

Af þessu tilefni er rétt að árétta að hve miklu leyti ferðaþjónusta (e. tourist industry) er í raun mikilsverður "iðnaður" þjónustuhagkerfisins hér á landi. Til þess er rétt að fara yfir nokkrar grunntölur. Gjaldeyristekjur af erlendu ferðafólki voru á síðasta ári 47 milljarðar sem er vel rúm tvöföldun á tíu ára tímabili, en 1997 voru þær um 21 milljarður. Gjaldeyristekjur sem þessar má leggja að jöfnu við útflutning og í því samhengi nema gjaldeyristekjur íslenskrar ferðaþjónustu 20% af heildar vöruútflutningi á Íslandi 2006 (fob-verð). Til samanburðar var ál flutt út að verðmæti 57 milljarðar króna árið 2006. Þess er rétt að geta að ég hef verðmæti þjónustuútflutnings, þ.ám. ferðaþjónustu, ekki inni í tölum um heildarvöruútflutning. Er það með ráðum gert til að sýna að þjónustugrein líkt og ferðaþjónusta er í raun "iðnaður" í hagkerfi þar sem um 75% starfa er í þjónustugreinum. Hins vegar ber að taka tekjutölum í ferðaþjónustu með varúð þar sem þær segja ekki allt. Bjarni Harðarson alþingismaður lýsti um daginn skoðunum sínum að ferðaþjónusta væri ekki af hinu góða og vísaði til reynslu foreldra sinna af Kanaríeyjum, þar sem einu birtingarmyndir ferðaþjónustu eru í lágt launuðum þjónustustörfum. Þannig má ekki fara hér og því verður að gæta þess að þær tekjur sem af greininni hljótast séu að standa undir blómlegu atvinnulífi, þar sem fólk getur skapað arð af hugmyndum sínum. Sjálfur hef ég bent á að ferðaþjónusta geti verið sú fátækragildra sem Bjarni lýsir, en það er aðeins ef ekki er rétt á málum haldið. Það er því fagnaðarefni að nú fari þessi málaflokkur undir ráðuneyti iðnaðar og þá væntanlega ferðamála, allavega er þá pólitískt rétt komið fyrir ferðaþjónustu.

Með pólitískri viðurkenningu greinarinnar er næst að gera gangskör í rannsóknum, til að tryggja að rétt verði á málum haldið með þessa atvinnugrein. Þær atvinnugreinar sem eitthvað að kveður á Íslandi hafa allar sér til fulltingis öflugar rannsóknarstofnanir. Sjávarútvegurinn hefur Hafrannsóknastofnun, Álið og orkan Orkustofnun, ÍSOR og öflugar rannsóknir Landsvirkjunar og ýmissa annarra. Landbúnaðurinn hefur RALA, nú Landbúnaðarháskólann. Iðnaður í landinu hefur Iðntæknistofnun og rannsóknarstofnun byggingariðnaðar. Ferðaþjónustan hefur hins vegar eina opinbera stofnun sem sinnir rannsóknum fyrir greinina, Ferðamálasetur Íslands. Þar eru 6 starfsmenn og opinber framlög nema um 10 milljónum króna. Ekki þarf að taka fram að með þennan mannafla, þó góður sé, og með þennan pening er lítið hægt að gera og ekki hægt að standa undir nauðsynlegum grundvallarrannsóknum á t.a.m. áhrif ferðaþjónustu á hagkerfi, menningu og umhverfi. Hver atvinnugrein þarf öflugt rannsóknarbakland og með pólitískri viðurkenningu ferðaþjónustu sem atvinnugreinar þarf nú að tryggja að hægt sé að standa að öflugum rannsóknum á greininni til að forðast t.d. örlög margra smáríkja með sól, sand og sjó.

Höfundur er forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands.


Meintur söluhagnaður af sölu fasteignar

Ég seldi íbúð í fyrra sem ég var búin að eiga í átta ár og síðan hefur fólk verið óþreytandi við að minna mig á að kaupa mér nýja íbúð, m.a. til að þurfa ekki að borga skatt af meintum hagnaði.

Í morgun kom ég því loksins í verk að hringja í ríkisskattstjóra til að spyrja hvort það ætti við rök að styðjast, hvort ég þyrfti raunverulega að borga skatt (og þá af hvaða upphæð) ef ég ekki keypti aðra íbúð í síðasta lagi á næsta ári. Jón Ingi (hvurn ég ekki þekki) hló bara dátt og sagði að maður þyrfti að hafa átt íbúð skemur en í tvö ár og, nei, ég þyrfti ekki að borga skatt af mismuninum þótt ég keypti ekki íbúð á næsta ári.

Ég ætla samt að hringja aftur í næstu viku til að vera alveg viss. Eða hefur einhver annar átt svona símtal nýlega?


Fermetraverð elliblokkanna

Ég sá á forsíðu Fréttablaðsins í morgun að fermetraverðið á íbúðum fyrir aldraða í Vogahverfinu ætti að kosta upp undir 500 þúsund kr. fermetrinn. Og allir í borgarkerfinu klóra sér í höfðinu og botna ekkert í þessu ef marka má fréttina sjálfa.

Ég spyr bara: Þarf einhver að kaupa þetta? Ef nýbyggingarnar eru of hátt verðlagðar seljast þær bara ekki, er ekki svo? Eða ætlar borgin að kaupa, er hún búin að lofa því? Ég hef svo sem ekki leitað að umfjöllun um þessa frétt en ég hef heldur ekkert heyrt um þetta.

Er hátt verðlag að verða eitthvert lögmál? Er OF hátt verðlag að verða eitthvert lögmál?


Vorilmur í lofti

Ég botna ekkert í þessu. Ég hef alltaf verið vandræðalega lítið næm fyrir lykt og algjörlega laus við klígju. Nú á þessu haustlega vori finnst mér allt brum svo rosalega lyktarsterkt að mér finnst næstum nóg um. Ég finn matarlykt milli húsa og allt í einu er brennisteinslyktin á háhitasvæðunum mjög sterk.

Veldur hlýnun jarðar þessu ...?

Og svo verð ég að minna sjálfa mig á að ég byrjaði að blogga fyrir akkúrat hálfu ári, hélt að ég myndi aðeins endast út þann mánuð, þ.e. til áramóta, en það er öðru nær - nú stefnir allt í að ég kaupi mér aukið myndapláss hjá Mogganum og haldi uppteknum hætti ... næsta hálfa árið.


Hákarlaverkun hverfandi atvinnugrein

Ég kveikti á Rás 1 í dag sem ég geri alltof sjaldan. Vítt og breitt var í gangi og í þættinum var tekið hús á Hildibrandi Bjarnasyni í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Hann er snilldarfýr, einn af sárasárafáum sem enn kann að verka hákarl.

Hann býr þarna í Bjarnarhöfn og verkar hákarl en er líka búinn að koma sér upp aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum. Mig minnir að ég hafi aðeins einu sinni farið til hans með farþega, en ég held að þrátt fyrir stórfengleika Snæfellsnessins hafi heimsóknin á hákarlasetrið staðið upp úr.


Látum klinkið um heilsuna

Ég finn alveg sjálf að ég er að festast í baunatalningunni en ég verð að segja þetta samt:

Vinkona mín úr menntaskóla, hjúkrunarfræðingur hokin af reynslu af alls konar hjúkrunarstörfum í ýmsum landshlutum, ákvað að skipta um starf um daginn. Hún fór á ráðningarstofu og fyllti út almenna umsókn og fór svo í viðtal til ráðgjafa. Þegar hún var spurð um launakröfur sagðist hún ekki skipta um starf fyrir minna en 350.000 kr. Ráðgjafinn leit á hana með uppglennt augu og sagði: Þú byrjar ansi hátt.

Já, og því vekst þetta upp fyrir mér að ég horfði á Kastljósið áðan. Þar var, eins og víða annars staðar, spjallað um nýju launahækkunina í Seðlabankanum sem er útskýrð með því að millistjórnendur hjá Seðlabankanum voru farnir að nálgast bankastjórana sjálfa í launum. Sem sagt, kaupandinn (hver?) vill borga fólki miklu hærri laun fyrir að sýsla með peningana en með heilsuna.

Þetta er auðvitað ekki ný frétt. Sjúklingar hvísla en peningar garga.


Húrra fyrir Flateyri

Skötuselurinn sæti

Undarlega lágværar raddir - eða kannski hef ég ekki verið að hlusta - um betri horfur á Flateyri. Mikið innilega von ég að þessu fyrirtæki (Tásunum?) sé alvara með að ætla að viðhalda blómlegri byggð og góðu atvinnulífi. Ég hef sko gist á Flateyri og farið í langa göngutúra þar, líka í sundlaugina.

Og þá rifjaðist upp fyrir mér krúttið sem ég sá á hafnarbakkanum um síðustu helgi. Skötuselur er mikið gúmmulaði sem ég reyni að koma tönnunum yfir þegar ég fer á veitingastað, en honum var áður hent fyrir borð vegna skorts á fríðleika.

Ekki þurfa allir að vera sætastir.


Saga úr stríðinu

Fyrir tæpum mánuði vann ég einn sunnudag fyrir fyrirtæki sem ég hafði ekki unnið fyrir áður. Þegar ég spurði nokkrum dögum síðar hvernig hann vildi greiða sagði hann mér að senda reikning og hann myndi greiða um hæl. Hvorki fyrir ferð né eftir var rætt um kaup. Ég sendi verktakareikning upp á 3.500 kr. tímakaup. Má ég minna á að ég var verktaki og þarf sjálf að greiða launatengd gjöld?

Í dag fékk ég tölvupóst þar sem viðkomandi spurði hvernig ég fengi út þetta tímaverð, hann væri vanur að greiða leiðsögumönnum sínum samkvæmt hæsta taxta Félags leiðsögumanna, kr. 1.578.

Ég vil virða trúnað við eigandann sem ég held meira að segja að sé vænsti maður og hafi bara beðið um skýringar af því að hann hafði þær ekki á reiðum höndum. Og yfirleitt birti ég ekki tölvupósta annarra þannig að ég ætla hér aðeins að birta svar mitt:

Hæsti taxti um helgar skv. kjarasamningum leiðsögumanna er reyndar 2.191,26, og  öllum ferðaskrifstofum sem ég á í samskiptum við ber saman um að sá taxti sé lágur.

En göngum út frá taxtanum. Sem verktaki þarf ég sjálf að borga í lífeyrissjóð og önnur launatengd gjöld, borga tryggingar og meira að segja er þessi þjónusta  virðisaukaskattskyld þótt margir leiðsögumenn séu hættir að nenna að benda á það. Það vissirðu, ekki satt?

Það er sem sagt mælt með að maður leggi 70% ofan á taxtann ef maður vinnur sem launþegi. 2.191,26 * 70% = 1.533,88, samtals þá 3.725,14. Ég leit svo á að ég væri að rúnna niður.

Þér er auðvitað guðvelkomið að borga mér sem launþega.

Ég vann áður með xx hjá xxx. Þegar þú nefndir xx í símtalinu hvarflaði ekki annað að mér en að þú vissir það sem xx veit, nefnilega það að mér leiðist að láta snuða mig.

Er þetta fullnægjandi skýring?

Kveðja,
Berglind

Mér finnst vinnan rosalega skemmtileg, finnst ég standa mig vel og fæ mjög þau skilaboð frá farþegum. Getur verið að leiðsögumenn sem láta sér duga 1.578 um helgar sem tímakaup í verktöku geri litlar kröfur til sjálfra sín líka? Ég geri miklar kröfur til mín og vil sinna vinnunni vel. Ég vil samt ekki að ánægjan af starfinu sé eina uppskeran.

Og ætli Davíð Oddssyni finnist þá ekki rosalega leiðinlegt að mæta í vinnuna ef leiðindi ættu að vera mælikvarði á laun? Seðlabankastjórar voru að hækka í launum til að ná ásættanlegu bili frá undirmönnum sínum sem hafa hækkað vegna þess að viðskiptabankarnir borga sínu fólki vel. Svo þegar maður gerir launakröfur í einhverju samræmi við vinnuframlag og sérfræðiþekkingu er maður púaður niður og vefengdur.

Ég hef mest fengið 8.000 kr. á tímann sem verktaki við fræðslustörf þannig að ég veit að þetta er hægt. Og nær maður ekki árangri hægt og bítandi með því að vera sífellt á vaktinni?


9. júní að bresta á

Bride to be 

Á ... svuntunni eða smekknum stendur GÖMUL GÆS og nú geta ókunnugir giskað á hvað það á að fyrirstilla. Öðrum þarf ekkert að segja.

Fyrri mynd úr sama geimi er tekin langtum langtum langtum síðar og við gjörsamlega aðrar kringumstæður og í allt annarri götu þótt í sama hverfi sé.


Sicko

Jæja, þá reiðir Michael Moore blessaður enn til höggs. Og nú lætur hann bandaríska heilbrigðiskerfið fá það óþvegið. Það er tilhlökkunarefni að sjá Sicko þegar hún fer að rúlla í bíóinu.

Es. Ég hélt að ég hefði lært af honum Hrannari um daginn að setja inn svona myndbönd - og ég reyndist hafa lært það (í þriðju atrennu, hehhe). Ég held áfram að hlakka til að sjá heimildarmynd Moores um heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum - sem er víst í 37. sæti í heimi.


Inga gengur í háheilagt hjónaband á laugardaginn - fyrst þetta:

Gæsin og endurnar

Það gekk svo vel og var svo gaman að gæsa Ingu á fimmtudaginn og við vonum núna að fleiri brúðkaupa sé að vænta í vinahópnum. Annars er svo sem alltaf hægt að finna sér eitthvað til ...

Vel að merkja, það sést bara í bakhlið hinnar útvöldu á þessari mynd.


Ferðaþjónustan

Nú er ég hætt í leiðsögn (aftur)! Bílstjórar hlæja að mér þegar ég segi þetta af því að þeir sjá og vita hvað mér finnst starfið skemmtilegt. En ég vann einn dag sem verktaki um daginn hjá fyrirtæki sem ég hef ekki unnið fyrir áður og hringdi í dag til að vita hvert ég ætti að senda reikninginn. Það komst á hreint. Svo sagði hún að ég ætti að rukka 1.600 kr. á tímann í dagvinnu og 2.000 í yfirvinnu - sem verktaki.

Ég sagði náttúrlega að það væri grín, þetta væri rétt um og svo undir launþegalaunum.

Ég veit ekki hvort ferðaþjónustufyrirtæki halda að leiðsögumenn séu fífl eða hvort leiðsögumenn eru raunverulega fífl.

Okkur samdist loks um einhverja fáránlega tölu, 2.580 TIL JAFNAÐAR. Af því tímakaupi þarf ég ekki bara að borga skatt heldur líka tryggingar, lífeyrissjóð, sjálfri mér orlof, standa undir fatakaupum, bókakaupum og undirbúningstíma.

Ég vinn auðvitað ekki fyrir þetta fyrirtæki framar.

Svo eru kjarasamningar lausir um næstu áramót.


Skemmtilegt orð, hagræðing

Ég man þegar tölvupósturinn komst í gagnið og ég man líka þegar ég lærði að hengja skjal við áður en ég sendi tölvupóst.

Það var hagræðing.

Ég græddi á henni þótt ég væri bara starfsmaður, t.d. kennari eða fulltrúi á skrifstofu. Vinnuálagið minnkaði, vinnutíminn styttist, frítíminn lengdist, kaupið lækkaði ekki. Þegar ég læri á endanum á þýðingaminni sparast tími við þýðingarnar, nákvæmnin eykst og ég rukka það sama á orðið.

Væri þá ekki eðlilegt að þeir sem læri hina nýju tækni njóti líka góðs af? Það að fólk hagræði í vinnubrögðum sínum nýtist eigendum/atvinnurekendum/verkkaupum. Hagræðing í sjávarútvegi virðist hins vegar bara koma fáum til góða. Ég get ekki ímyndað mér að nokkur sé í alvörunni á móti tækni sem felur í sér vinnusparnað og aukin gæði, t.d. betri nýtingu hráefnis. 

Ætti ekki bara vinnudagur Íslendinga að fara að styttast heilt yfir? Mér finnst það blasa við. Hagræðing hlýtur að þýða það að þeir sem leggja lóð sín á vogarskálarnar fái eitthvað af ávinningnum í sinn hlut, t.d. í lengri frítíma eða hærra kaupi.

Þannig heyrist manni það vera í bönkum. Ég hef heyrt að ekkert starf í banka borgi minna en 300.000 fyrir fulla vinnu.

Og ég hef alveg hvínandi áhyggjur af því að landsbyggðin leggist af og að hér verði bara borgríki.


Ég öfunda sjómenn

Sjómenn eiga sjómannadag, og af honum öfunda ég þá. Sá dagur er í dag.

Ég óttast hins vegar að hann nýtist ekki sem skyldi, að dagurinn sé að verða hvorki hátíðardagur né baráttudagur. Og af hverju er það? Er búið að taka allan slagkraft úr sjómönnum? Ræna þá allri náttúru? Allri baráttugleði?

Í Reykjavík er hátíð hafsins. Ég heppin, ætla að líta á furðufiskana á hafnarbakkanum á eftir. Ég var sjálf störfum hlaðin í gær sem leiðsögumaður.

Ég er náttúrlega ekki síður öfundsverð en sjómenn. Ég fæ borgað fyrir að gera það sem mér finnst skemmtilegt. Í gær var ég sérlega öfundsverð því að þá fór ég ásamt Inga ökuleiðsögumanni í sleðaferð á Langjökul með tvo farþega. Við brunuðum upp og niður brekkur, æfðum hallann og sneiddum hjá grjóthnullungum. Dúndrandi dekur og ekkert annað.

Jökull er takmörkuð auðlind og verður æ hverfulli. Maður þarf að keyra lengra til að komast í öruggan snjó. Þetta er kikk fyrir farþegana - og okkur hin. Jamm, maður er öfundsverður.

En mikið vildi ég að við hefðum okkar dag þar sem framlag ferðaþjónustunnar væri heiðrað, metið, rætt og endurskoðað. Vissulega er 21. febrúar alþjóðadagur leiðsögumanna og vissulega hefur Stefán Helgi Valsson bryddað upp á ýmsu með fulltingi Félags leiðsögumanna - en við þurfum að bera saman bækur okkar og kynna starfið betur. Af hverju er jökullinn t.d. blár sums staðar? Af hverju er himinninn blár?

Það verður spennandi að sjá hvort nýjum ráðherra ferðamála dettur eitthvað í hug.

Svo vona ég að sjómenn nái vopnum sínum á ný því að a.m.k. ég geri mér grein fyrir mikilvægi þeirra. Til hamingju með daginn.


Borgarbókasafn svarar ákalli mínu

Ég skrapp á bókasafnið í hádeginu og sá að búið er að setja upp sjálfsafgreiðslu í aðalsafninu, veit ekki með önnur útibú. Gleðitilfinning ógurleg hríslaðist um mitt sjálfbjarga geð. Ég neita að kalla þetta félagsfælni en mikið óskaplega hefur mér leiðst að bíða í röð til þess eins að láta einhvern annan mynda bækurnar sem ég tek til láns.

Og nú verða bókasafnsferðir mínar áreiðanlega enn tíðari.


Aðkoma og úrelding Kvennalistans

Í ljósi þrálátrar umræðu um kynjaskiptingu ráðherra ríkisstjórnarinnar velti ég fyrir mér hvort mönnum finnist almennt að Kvennalistinn hefði betur setið heima.

Skiptir máli að hafa þingmenn úr sem flestum landshlutum? Skiptir máli að aldursdreifing sé nokkur? Bakgrunnur? Menntun? Fjölskyldustaða?

Er ekki gott að hafa fjölbreytni? Af hverju urðu feðraorlof ekki almenn fyrr en fyrir sjö árum? Eru þau kannski ýkt? Vilja menn frekar að feður séu ekki heima hjá hvítvoðungunum? Taka feður fæðingarorlof og vinna svart? Það hefur maður heyrt.

Og var ekki gott að Kvennalistinn pakkaði saman og fór þegar honum fannst hann hafa áorkað því sem fyrir honum vakti?


Ég er mátulega búin að gleyma Esju-nafninu

Hótel Íslandi var í fyrra breytt í Park Inn og það lá við að ég fyndi það ekki þegar mér var stefnt þangað að sækja farþega. Einu sinni var ég með hóp á Radisson SAS Íslandi en við bílstjórinn fórum óvart á Radisson SAS Sögu með nýlenta farþega af því að upplýsingarnar voru ónógar.

Það er gott að Hilton ætlar að splæsa í veglega kynningu á nafninu. Skyldi John Cleese verða fenginn til að klæmast á íslenskri útgáfu? Hann gæti rifjað upp að hótelið hét í árdaga Essschja.

Nordica Hotel Reykjavik


mbl.is Nordica verður Hilton hótel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver man ekki eftir Joey í Friends?

Ég sá ekki þættina Friends fyrr en þeir voru sýndir á ókeypis stöð (Skjá einum?) þannig að það er ekkert svo langt síðan ég sá Joey sem er tákngervingur karlmennskunnar bögglast með tösku sem honum fannst henta vel ýmsu fylgidóti sínu en hafði áhyggjur af hvernig liti út.

Það var bara snyrtilegur djókur um staðalmyndir.

Kannski var Ewa að reyna að kveikja umræðu, hmmm?

 Það er alls óvíst hvort umboðsmaður barna í Póllandi fái...


mbl.is Umboðsmaður barna í Póllandi dregur ummæli sín um Stubbana tilbaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýfundnaland vs. Ísland

Merkilegur þáttur var í sjónvarpinu áðan. Nýfundlendingurinn Lísa kom til Íslands til að lesa úr bók sinni í Norræna húsinu og virðist hafa ákveðið að hamstra myndefni og talaðar upplýsingar í leiðinni. Svo hefur hún gert úr efninu heimildarmynd sem gengur, merkilegt nokk, út á það að lofa og prísa Ísland fyrir að hafa náð og haldið í sjálfstæði sitt.

Hún ber löndin mikið saman og segir að hér sé svo miklu meira sjálfstæði; læsi í Nýfundnalandi er bara 66%, atvinnuleysi 25% og þau ofboðslega háð Kanada í öllu tilliti þótt þau eigi miklar auðlindir, bæði nikkel, olíu og þorsk, sem Ottawa nýtur góðs af.

Þegar ég gáði að því sá ég að boðið er upp á skipulagðar ferðir til St. John's sem er höfuðborgin þeirra í landinu sem er eyja litlu stærri en Ísland.

Og svo rifjaðist upp fyrir mér að ég ákvað í síðustu viku eftir spjall við Högna að lesa Ævisögu þorsksins. Nú er komin enn brýnni ástæða til þess.

Es. Hefur Stína enga skoðun á þessu ...? Mér skildist á Lísu að Kanada mergsygi Nýfundnaland, hömm hmm.


Hinn heilagi veikindaréttur

Formaður verkalýðsfélags var í fréttum RÚV rétt í þessu að lýsa því yfir að hann væri mótfallinn því að vinnuveitendur greiddu þeim starfsmönnum sem ekki veikjast einhverja umbun fyrir að veikjast ekki. Hann sagði að veikindarétturinn væri með því mikilvægasta sem verkalýðsfélög hefðu náð fram. Eitthvað í þessa veruna sagði hann.

Jah, heyr á endemi.

Ég er svo heppin að ég veikist helst ekki. Og ef ég lasnast er það í klukkutíma í senn, yfirleitt utan vinnutíma. Ég hef fengið heiftarlega ristilkrampa nokkrum sinnum um mína daga, ugglaust vegna rangs mataræðis, en ég hirði ekki upp umgangspestir.

Ég er heppin og geri ekki lítið úr því. En ef vinnuveitandanum finnst hluti af þessu láni slæðast til sín í því formi að hann getur treyst á mig sé ég ekkert að því að hann umbuni mér ef hann svo kýs. Er eitthvað tekið frá hinum? Er eins mikil hætta á að fólk mæti veikt í vinnuna til að fá bónusinn ef kalla mætti umbunina svo? Eða gæti verið að fólk yrði ekki eins oft lasið af þeirri ástæðu að það á veikindarétt?

Ég bíð spennt eftir að sjá verkalýðsforkólfinn segja þetta líka í sjónvarpsfréttum.

 

child sick in bed


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband