www.tn.is

Nú hefur talsmaður neytenda opnað heimasíðu þar sem hann hvetur neytendur til að sýna kaupmanninum virkt aðhald. Tökum brýninguna til okkar, kaupum ekki við hærra verði það sem hægt er að kaupa við lægra verði - eða sleppa ella.

Við búum til samkeppnina.

Og 1. mars sem áður kallaðist b-dagur (frá 1988 minnir mig) hlýtur að fá aðra skammstöfun eftir þrjár vikur, s-dagur (samkeppni)???


Hlutfall af kaupverði

Já, er nokkur ástæða til að vorkenna eigendum Símans? Einhvern veginn gátu þeir önglað saman 66,7 milljörðum til að kaupa hann (með grunnnetinu) og seldu þeir ekki einmitt grunnnetið frá sér aftur? Og myndu nokkuð viðskiptavinir njóta góðs af þótt Síminn væri rekinn með hagnaði frekar en viðskiptavinir bankanna? En þegar upp er staðið - er þetta ekki bara plattap eins og hjá tryggingafélögunum sem afskrifa stórar summur í sjóði til að mæta síðari tíma afföllum?


mbl.is 3,6 milljarða króna tap á rekstri Símans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breiðavíkurmálið

Maður þarf ekki að fjölyrða um sorgina yfir því sem þolendur upplifðu í Breiðavík. Það sem mér finnst eftirtakanlegast eftir að hafa séð viðtölin í Kastljósinu (og ég tek ofan fyrir Kastljósinu sem ég var eiginlega búin að afskrifa eftir að það lengdist) er hvað þeir eru upp til hópa vel máli farnir. Ég geri ráð fyrir að þeir hafi, a.m.k. sumir, sagt frá upplifun sinni áður, orðað hugsanir sínar og líðan, en þeir eru fyrir allra augum og suðandi myndavéla - og þeir eru svo skýrir í hugsun og tali.

Ég man reyndar að ég hugsaði líka þegar ég sá myndina um Lalla Johns um árið hvað utangarðsmennir voru skáldlegri og heimspekilegri en ég reiknaði með. Ég held að þetta sé ekki um fordóma mína, heldur merki um greind þeirra.


Nýja stefið sem um er rætt

Fréttatíminn var að byrja - ég verð bara hrifnari af stefinu nýja. Ég er líklega naumhyggjumanneskja, stefið tekur fljótt af, er lágvært og mér finnst það hljóma vel.

Fríkirkjuvegur 11

Ég verð að viðurkenna að ég er mjög dús við að Novator Björgólfs muni kaupa Fríkirkjuveg 11. Húsið er byggt sem íbúðarhús og ég trúi að það hafi ekki hentað vel sem skrifstofubygging. Að því sögðu verð ég náttúrlega að viðurkenna að aldrei hef ég unnið þar.

Björgólfur er einhvern veginn viðkunnanlegur - og svo ætlar hann að gera húsið að safni. Mér finnst það reyndar svolítið grunsamlegt, en sjálfsagt hangir ekkert á spýtunni.

Ég geng þarna framhjá daglega og ætla að gefa húsinu góðan gaum framvegis og sjá hvort það verður ekki bara enn reisulegra þegar fram líða stundir. Ég treysti því að staðið hafi verið við stóru orðin um að selja ekki stóran hluta lóðarinnar með, garðurinn verður enn í minni eigu.


Víst!

Klassísk spurning er: Hvort er betra að þéna 200 þúsund á mánuði ef obbinn þénar 150 þúsund, eða 300 þúsund ef obbinn þénar 400 þúsund?

Svarið er augljóst.

Ef maður hins vegar spyrði stuttu útgáfunnar, hvort væri betra að þéna 200 eða 300, yrði svarið vitlaust.

Það skiptir sem sagt lág- og millitekjufólkið máli að hér er að renna upp auðmannastétt. - Víst.

Annars er mér ofar í huga akkúrat í augnablikinu að það er algjör víðáttukuldi í 101 og 107 Reykjavík (spönnin þröng hjá mér í kvöld). Ég var nefnilega að koma hjólandi úr Reykjavíkurakademíunni þar sem Sigurður Gylfi Magnússon og Stefán Pálsson fluttu stórfróðleg erindi um fræðibókaútgáfur.

Og man ég þá ekki að óvina-ríkisins-bók Guðna Th. er einmitt á náttborðinu með Tryggðarpanti Auðar Jóns ... En Draumalandið - sem Stefán sagði að menn segðu að væri fín og fróðleg og skemmtileg og allt það ... en ekki alveg fræðibók (af því að hún væri of skemmtileg) - er enn hjá tröllunum í Skerjafirði.


Skúbb

Ég tel mig vita það en ætla að þykjast spá því að skv. nýrri skoðanakönnun um Alcan sé núna meirihluti meðmæltur stækkun álversins.

Eigum við að giska á 55%?


Skemmtigildið var ótvírætt

Hannes Hólmsteinn Gissurarson var skemmtilegri en ég reiknaði með, hann má eiga það. Myndskeiðin sem hann sýndi, dæmin sem hann tók, frásögnin - allt var þetta hið líflegasta. Og hann sannaði auðvitað mál sitt sem er það að hann er ákveðin heimild um .. ja, tiltekin vinnubrögð, skoðanir, aðferðafræði.

Svo geta verið óteljandi margar aðrar skoðanir og aðferðir um nákvæmlega sömu tímabil og sömu atburði.

En ég skil ekki enn að maður sem predikar markaðshyggju og frjálshyggju í orði skuli á borði aldrei hafa selt sig öðrum en ríkinu. Aldrei? Ég ætti auðvitað ekki að fullyrða neitt. Hann hefur ekki selt sig á markaði - eða hefur hann selt fyrirlestra erlendis? Það kann að vera. Hver gaf aftur út Halldór og Kiljan og Laxness? Bókafélagið, hvaða fyrirtæki er það?

Og þegar hann talar um 150 stykki af „Maður er nefndur“ sem hann „framleiddi“ hefði einhver átt að spyrja hvað markaðurinn hefði verið til í að borga.

En ég er svo feimin.


Frásagnir af framboði mínu eru stórlega ýktar

Ó, hafði það ekkert spurst út? Æ. Jæja, það leiðréttist samt áður en það fer lengra. Við Ingvi og Kjartan höfum náttúrlega sýknt og heilagt verið að gæla við að bjóða fram Matarlistann eða Verðlagseftirlitið eða Veðurvitann (eða bara Vaffið) en höfum ákveðið að bíða af okkur hryðjurnar. Og já, Egill er að hugsa um að skrá sig í skóla ... og framboð hlýtur að vera heilmikil skólun.

Hmm.

Við athugum þá bara með slaginn 2011. Það er líka flott ár, Jón hefði orðið 200 ára hefði honum enst aldur og Háskóli Íslands verður 100 ára.

Já, við höldum okkkur til hlés að þessu sinni ... Skólaframboðið? Listi áhugasamra?


Hádegisfyrirlestur á morgun

Það eru náttúrlega mistök að segja nokkrum manni frá þessu sem ekki er þegar staðráðinn í að fara en Sagnfræðingafélagið stendur fyrir enn einum fyrirlestrinum í hádeginu á morgun. Og að þessu sinni er það enginn annar en Hannes Hólmsteinn Gissurarson sem heldur fyrirlestur um heimildagildi heimildamynda.

Það er vissast að mæta tímanlega.


Tryggðarpantur

Ég las Draumalandið í fyrrasumar og uppveðraðist ógurlega, lánaði hana svo og hef ekki séð aftur. Því miður, ég væri alveg til í að glugga í hana til upprifjunar. Ég fagna því að Andri Snær hafi verið metinn að verðleikum (þótt ég gefi lítið fyrir þessi huglægu bókaverðlaun sem forlögin geta keypt sig inn í). Hagvöxtur er ekki eign einnar stéttar manna - þótt hagfræðingar geri hann svolítið að sínum - og mér vitraðist t.d. þegar ég las Draumalandið að hagvöxtur minnkar þegar einhver hættir að vinna og fer í skóla.

Ég hef sagt þetta áður en skv. útreikningum eykst hagvöxtur líka við það að maður slasast og fer á spítala. Og líka þegar rúða er brotin. Og enn fremur þegar stríð eru háð, sbr. Íraksstríðið sem þessi Forbes þarna er svo hlynntur af því að hann eykur hagvöxt Bandaríkjanna. „Blessað stríðið sem gerði syni mína ríka.“

En ég er sem sagt byrjuð að lesa bókina hennar Auðar Jónsdóttur (var hún ekki líka tilnefnd?) og eftir 70 blaðsíður er hún ekki búin að ná mér. Inntakið er stúlka sem lifir í vellystingum praktuglega af því að amma hennar arfleiddi hana að múltí en svo allt í einu er múltíið uppurið og hún þarf að grípa til einhverra ráða. Og hún velur að leigja herbergi frá sér í stóra húsinu sínu. Dettur manni þá Leigjandi Svövu Jakobsdóttur í hug. En ekki meðan ég les ...


Allir flokkar nema einn

Fimm leiðsögumenn hittast í hádegi. Talið berst að stjórnmálum. Á daginn kemur að við borðið sitja kjósendur fjögurra stjórnmálaflokka á þingi. Einn er útundan. Hver?

Hmmm ...


Berklar - eða útlimavöxtur

Alla vikuna er ég búin að vera hugsi yfir upphrópunum sumra yfir þeim hluta ræðu formanns Frjálslynda flokksins um síðustu helgi sem fól í sér orðið berkla. Ekkert veit ég um berkla annað en að þeir eru smitsjúkdómur. Eða voru. Ég hefði giskað á að þeir væru ekki lengur til á Íslandi ef ég hefði verið spurð. 

Fyrir algjöra tilviljun veit ég um handarlausa íslenska konu sem þarf árlega að mæta í Tryggingastofnun til að sanna að ekki hafi vaxið á hana útlimur og að auki þarf hún að skila inn vottorði frá geðlækni. Annars fær hún ekki nýja gervihönd sem er mótuð og gerð eftir hinni hendinni og lítur ekki út eins og bútasaumsteppi.

Kemur til greina að hér séu sjúkdómar til að varast? Var ekki maðurinn bara að bjóða upp á/í umræðu án fordóma? Vitum við nóg til að hrópa á torgum?

Ég þekki enga útlendinga á Íslandi nema hið vænsta fólk. Þeir sem ekki eru búnir að læra íslensku vilja læra hana og verða virkari þátttakendur í samfélaginu. Fyrir suma er bara ekkert hlaupið að því. Ég þekki Tælending og hann segir mér að í tælensku sé engin málfræði. Þetta er næstum ókleifur hamar fyrir hann, en hann hefur á mörgum árum komið sér upp góðum orðaforða og getur bjargað sér. 

Ég þekki vel haldinn Pólverja sem hefur ekki náð að koma sér upp neinum orðaforða á rúmu ári af því að hann vinnur svo mikið. Hann spurði mig rétt eftir áramót hvort það væri rétt sem honum hefði skilist á einhverjum að íslenskukennslan ætti að verða ókeypis. Það eina sem ég taldi mig geta vísað óyggjandi á var helmingsafsláttur hjá Mími. En átti námið ekki að verða ókeypis?

Á ekki að nota næstu mánuði í að ræða málefni?


Einfalt reikningsdæmi

Í hádeginu hitti ég mann á fimmtugsaldri sem vann nýverið tvö útborgunartímabil við umönnun. Grunnlaunin eru 103.000, hann fékk 79.000 útborgað fyrir fulla vinnu og sagði vinnuveitandanum að fara þangað sem sólin skín ekki.

Hann hætti sem sagt og ákvað að þiggja atvinnuleysisbætur eins lengi og honum er stætt.

Á meðan ætlar hann að líta eftir öldruðum föður sínum sem fékk hvítblæði nýlega og liggur nú fyrir dauðanum. Sá á alheilbrigðan tvíburabróður sem hefði getað lagt honum til merg. En spítalanum fannst ekki taka því, sjúklingurinn væri orðinn of gamall, eftir því sem mér skildist til að það tæki því að lappa upp á hann.

Ætli þessi lauslegi kunningi minn hafi verið að ljúga að mér? Ef allt þetta er satt er reikningsdæmi hans annars einfalt. Hann skuldar a.m.k. engum neitt.


Útvistun fanga

Þegar ég var í leiðsögunáminu var mér sögð þessi saga:

Glæpatíðni er svo lítil á Íslandi að þegar keyrt er framhjá Litla-Hrauni er upplagt að segja þessa gamansögu: Einhverju sinni kom sendinefnd erlendis frá og vildi hitta íslenska fanga. Hún safnaði upplýsingum um þá fanga sem hún vildi helst ná tali af, hringdi svo í dómsmálaráðuneytið og spurði um fyrsta fangann, hvort hún mætti heimsækja hann í fangelsið næsta dag.

Já, var sagt í ráðuneytinu, það væri svo sem í lagi, en umræddur fangi þyrfti reyndar að vera við jarðarför ömmu sinnar og yrði því fjarverandi allan þann dag. Hann kæmi ekki til baka fyrr en kl. 9 um kvöldið.

Þá var spurt um næsta mann og svarið var að jú, það hefði verið í lagi nema vegna þess að sá fangi væri með almennt bæjarleyfi og yrði því ekki á staðnum.

Þá var enn spurt um hinn þriðja og sá reyndist vera í framhaldsskólanámi í nágrenninu og heldur ekki væntanlegur fyrr en liði á kvöld.

Þá þraut sendinefndina örendið og hún spurði hvað gerðist eiginlega ef fangarnir ekki skiluðu sér á réttum tíma. Henni var svarað með þjósti: Þeir þekkja reglurnar, það er læst kl. 9 og ef þeir eru þá ekki komnir til baka er læst og þeim ekki hleypt inn fyrr en næsta dag.

Þessi saga vekst upp fyrir mér þgar fréttir berast af föngunum sem sluppu úr fangelsinu á Akureyri og þurftu víst ekki mikið að hafa fyrir því.

Jóhann Ársælsson þingmaður hefur áhyggjur af aðbúnaði fanga. Ég las umræðurnar og með lagni tókst mér af því tilefni að fá Sigurlín til að yrkja eftirfarandi:

Á vistheimilum, væni minn,

er vonlaust neitt að geyma.

Fangar hlaupa út og inn

og aldrei eru heima.

 

Í vondum bælum vitrast þeim

að væri ekkert „nonsense“

ef allir kæmust inn í heim

Árna nokkurs Johnsens.


Enginn frýr Hannesi Hólmsteini vits

Merkilegra þótti mér að hann virtist hlusta á spurningar Jóhanns Haukssonar morgunhana á Útvarpi Sögu í morgun. Þeir ræddu hagstjórnarhugmyndir HHG sem hann fyrirlas um í hádeginu í gær eða fyrradag. Hannes fullyrðir að samkvæmt OECD hafi fátækir á Íslandi fjarlægst fátækt meira en fátækir í öðrum löndum.

Merkilegt, ef satt er.

 


Aðhald viðskiptavinanna

Við sjálf virðumst vera eina fólkið sem getur knúið fram betri kjör hjá þeim sem við verslum við. Meðan við sættum okkur við mikinn vaxtamun í bönkunum, hátt matarverð, hátt bensínverð - af því að við erum svo miklir neytendur - batnar ástandið ekki.

Ég minni á að sparisjóðirnir hafa ekki lýst yfir miklum gróða sínum. Það er vegna þess að hann rennur til MÍN sem losna við yfirbyggingu með því að vera í S24. Það tók mig einhver ár að flytja mig, svo sem, en því fyrr sem maður byrjar skilnaðinn við stóru bankana því betra.

Því miður þekki ég bara eina manneskju sem veitir Bónusi virkt aðhald með því að skoða strimilinn á staðnum og leiðrétta við kassaherrann jafnóðum. Og þetta er því miður ekki ég. Ég ætla alltaf að fara að taka mig á - en þegar ég er ofrukkuð um (aðeins) 50-kall fer fyrir mér eins og mörgum öðrum ...


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband