Bara hestar postulanna eftir

Jæja, þá var hjólinu nappað úr skotinu heima. Svona reytast af manni farartækin þangað til aðeins tveir jafnfljótir eru eftir. Gott að þeir eru í góðri æfingu. Og kannski gott að ég má ekki kjósa í Hafnarfirði, ég sæi mig á þrjóskunni ganga alla leið úr 101 í 220, öhm humm hmm.


MK tapaði naumlega

Sögnin að bera getur verið bæði sterk og veik. Um hana var spurt í Gettu betur kvöldsins (og engar pulsur, hehe). Davíð Þór notaði dæmi: Hann bar sig mannalega. Hann beraði sig mannlega.

Tvær skemmtilega gjörólíkar merkingar.

Það verður áreiðanlega júbíleað mikið í MR á mánudaginn.


Daglegar auglýsingar í Fréttablaðinu og Blaðinu

Hvað dvelur orminn langa? Ansi margir luku upp einum munni um nauðsyn þess að koma í veg fyrir klám um daginn. Við erum andvíg vændi. Því til viðbótar vil ég segja að ég vil almennt ekki að fólk þurfi að gera það sem stríðir gegn sannfæringu þess eða velferð, vinna mannskemmandi vinnu, fá of lág laun eða hrærast í óheilbrigðu umhverfi.

Úr því að það er ólöglegt að framleiða, flytja inn og dreifa klámi - hvers vegna er þá vændi auglýst átölulaust í blöðunum? Eða er símavændi í lagi? Ég er t.d. að horfa á blaðsíðu 40 í Blaðinu og sé þar auglýsingu um símakynlíf. Má það?


mbl.is Mikill meirihluti vill að kaup á vændi verði refsiverð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pulsa

Segi og skrifa. Mér finnst það bara hræsni að segja og skrifa pylsa. Þoli öðrum þó auðvitað líka sérvisku.

Í dönsku er orðið pølse og ég stend í þeirri meiningu að ø geti breyst í hvort sem er u eða y.

Geri samt ekki ráð fyrir að Davíð Þór spyrji um þetta í Gettu betur sem ég get loksins loksins horft á. Viiií. Hef misst af öllum þáttunum eftir að keppnin færðist í sjónvarpið.


Fjáröflun íþróttafélaga og kóra

Já *grmpf*, ég veit að málstaðurinn er góður en ég vil ekki kaupa misgóðan klósettpappír fyrir okurverð af því að einhver í fjölskyldunni er að fara í leiðangur til Færeyja. Ég hef alveg gert það og setið uppi með vondar birgðir í langan tíma. Ég keypti líka einu sinni Heimaeyjarkerti og stóð í þeirri meiningu að þau væru góð - en meira að segja þau brunnu illa.

 


Mokveiði - af fiski

Jáh, þetta er ótrúlegt, í kvöldfréttum var bein útsending úr skipi þar sem fiski var mokað upp úr lestinni og allt í einu rifjaðist upp að endur fyrir löngu voru þorskaflatölur alltaf fyrsta frétt, nánast fyrir minni mitt reyndar. Og hvers vegna skyldi það hafa breyst? Ætli það sé vegna þess að aflinn hefur minnkað eða er það vegna þess að fiskifréttir eru ekki sexí? Kannski sitt lítið af hvoru.

Eru kannski uppgrip í þorski sexí frétt?

 

 


Ondúlering

Ég lifi í voninni að Davíð Þór Jónsson spyrji í Gettu betur hvað orðið merki. Og hafi svarið á reiðum höndum. Ég lifi líka í þeirri von að ég geti horft á lokaþáttinn, ég hef *skæl* misst af öllum þáttunum eftir að þeir komu í sjónvarpið. Svo rammt kveður að missinum að ég veit ekki einu sinni hvaða lið keppa - enda snýst þetta í mínum augum ekki um sigurvegara. Þetta snýst um keppnina sjálfa.

Og hvað þýðir ondúlering?


Hálendisvegur vs. Biskupstungnavegur

Af því að ég er leiðsögumaður sem bara kjafta (ólíkt þeim sem líka keyra) verð ég að segja hér og nú (þrátt fyrir að upphækkaður Kjalvegur sé dottinn (niður) úr umræðunni) að vanir bílstjórar hafa margir áhyggjur af því að vegir í byggð nálægt Kjalveginum bæru ekki þá umferð sem óhjákvæmilega færi þar um. Þeir vísa þá til þungaflutninganna sem myndu freistast þessa leiðina. Og nóg er níðst á vegunum samt.

Nú er mikil umræða um umhverfisvernd og ferðaþjónustu. Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnuvegur og gjaldeyrisskapandi. Eyðileggjum ekki fyrir okkur með meintri styttingu vegalengdar fyrir lítinn hóp.

Að auki legg ég til að fólksbílar eftirláti rútunum miðbæ Reykjavíkur á háannatíma í ferðaþjónustunni. Til vara: að þeir sýni okkur tillitssemi. Til þrautavara: að þeir séu ekki tillitslausir ...


Talið barst að kvóta

Það verður að viðurkennast að ég skil ekki landbúnaðarkerfið okkar án leiðbeininga. Því til viðbótar hef ég ekki reynt mikið að setja mig inn í það, það borgarbarn sem ég er. Maður skyldi bara ætla að ef 16 milljarðar væru settir af almannafé í atvinnugreinina á nokkrum árum væri sami almenningur þar með búinn að borga hálfan slatta upp í afurðina.

Búvörusamningur, afurðasala, ærkvóti - þetta segir mér ekki neitt, og allra síst hvort t.d. samkeppni þrífst í greininni. Er samkeppni? Mega bændur vanda sig sérstaklega mikið og merkja svo afurðina þannig að kaupandinn viti að eitthvert tiltekið lambalæri sé betur alið en annað? Mega menn selja beint til neytandans við þjóðveginn? Mega menn slátra heima að því tilskildu að heilbrigðiskröfum sé fullnægt? Nei, bændur skulu senda fénað sinn norður og niður af því að þar er sláturhúsið sem slátrar fyrir þá. Fá bændur að njóta hagræðingar sinnar, hugmyndaauðgi og vinnusemi?

Eða er kerfið allt bundið á klafa óhagstæðrar miðstýringar? Ég er of illa að mér til að svara en ég óttast það.

Ef ég hefði alið manninn á t.d. Bifröst gæti verið að ég væri í innilegra sambandi við landsbyggðina og bændamenninguna ... Þó man ég eftir einu skipti í fyrra í heita pottinum að Laugum þar sem ég lenti á miklu spjalli við tvo bændur. Þeir höfðu báðir fengið búið frá foreldrum sínum og þar af leiðandi gott start en annars skildist mér á þeim að nýliðun gæti engin verið.

Hefur ekki helsinu verið aflétt á t.d. Nýja-Sjálandi? Farnast þeim ekki vel þar?

Þarf þetta að vera svona? Stóð ekki landbúnaður undir þjóðinni öldum saman?

Af því að kvóti á að vera rauði þráðurinn minn í kvöld ætla ég að enda á því að segja að leigubílar eru í kvóta. Það er takmarkað hversu margir leigubílar mega vera á götunum. Af hverju fá þeir ekki bara að sanna sig í frjálsum atvinnurekstri? Hver myndi tapa á því?

Ég auglýsi eftir virkri samkeppni. Og ég hef sannað fyrir sjálfri mér að ég styð hana. Ég kaupi Mjólku-vörur þegar ég get og þegar ég bjó á Sauðárkróki flaug ég með Íslandsflugi sem var í samkeppni við Flugfélag Íslands, nýtt þá og nú farið (sennilega af því að ég flutti og hætti þar með að styrkja félagið).

En kannski er ég að gelta að röngu tré!


Afmæliskveðja í þröngan hóp

Vegna áskorunar er hér með rifjað upp að Marín á afmæli í dag - grúppan sendir henni samúðarkveðjur og óskar henni velfarnaðar á nýju framabrautinni - í diskódansinum.


Brandari barst í pósti

Ertu ekki að grínast???

Jóhann var að útskrifast úr laganámi frá HR og átti sér stóra drauma um glæsta framtíð. Hann fór að sækja um vinnu í stóru fyrirtæki í borginni. Starfsmannastjórinn sem tók viðtalið var hrifinn af þessum efnilega manni og var mjög heitur fyrir því að ráða hann í vinnu. Áður en viðtalinu lauk spurði starfsmannastjórinn hvaða launahugmyndir Jóhann hefði.  

Ég var að spá í 1.500.000 á mánuði svona til að byrja með,“ svaraði Jóhann.

Starfsmannastjórinn horfði á hann í smástund og sagði svo: Hvernig líst þér á 2.500.000 á mánuði, tveggja mánaða sumarleyfi á fullu kaupi, 21% mótframlag í séreignarsjóð, nýjan LEXUS til ótakmarkaðra afnota og húshjálp til að þrífa heimilið?“

Jóhann varð orðlaus. Þetta var meira en hann hafði þorað að vona. Að lokum sagði hann í mikilli sigurvímu: Þú hlýtur að vera að grínast!"

Starfsmannastjórinn svaraði að bragði: Já - en þú byrjaðir ..."


Spaugstofulög

Umburðarlyndi mitt ríður ekki við einteyming. Ég horfði ekki á Spaugstofuna fyrr en áðan og blöskraði ekki neitt nema einstaka fúlir brandarar sem eru tímalausir, eins og *geisp* þegar iðnaðarmaðurinn vill hjálpa öllum og klúðrar öllu. Þegar þeir leggja sig fram í samtímanum eiga þeir oft góða daga. Ég horfi alltaf á Spaugstofuna ef ég get - og það hjálpar að hún er endursýnd tvisvar því að mér finnst leiðinlegra að horfa á hana í tölvu.

Ég styð Spaugstofuna og vil að Ágúst, Pálmi, Randver, Siggi og Örn haldi áfram. Ég horfi.


Sól sól skín á mig

                    

Já nei nei, ekki orð um álver eða ekki álver að þessu sinni, þetta er bara óður til þeirrar gulu sem birtist í dag. Um helgina rigndi upp í augun á mér á langri útivist minni um fjöll og firnindi og það eina sem bjargaði skapinu var góður félagsskapur. Og nú er ég farin að trúa á vorið.

Jíei.


Silfur vikunnar fær gull

Mér finnst margt og mikið um þau orð sem féllu og þá einstaklinga sem fram komu í Silfri Egils að þessu sinni en læt mér nægja að segja að ég átti óvenjulega erfitt með að slíta mig frá því þótt ég horfði á það í tölvu.

Jú, eitt til viðbótar, ég var (fyrr í vetur?) spennt að sjá hvor næði formannssætinu í Heimdalli, Erla Ósk Ásgeirsdóttir eða Heiðrún Lind Marteinsdóttir. Nú eru þær báðar búnar að vera í sjónvarpi í vikunni og áherslumunurinn er enginn nema jú, Erla trúir að launamunur sé að einhverju leyti kynbundinn meðan Heiðrún fullyrðir að hann sé enginn.  


Baugalínin í Kastljósi

Sérkennileg nálgun, viðtalið byrjar á því að mælandinn ber af sér skrök. Ekki datt mér í hug að Baugalín sem ég reyndar hef aldrei heyrt nefnda áður bæri þennan atburð ranglega á ónafngreindan mann. Eva María nálgast það þannig og sálfræðingurinn er líka látinn svara því fyrst eins og að það sé það fyrsta sem áhorfendum gæti dottið í hug.

Sérkennilegt.


Setjum bílana í kvóta

Í gærmorgun var ég á stjákli við Miklubraut og komst illa leiðar minnar vegna fjölda bíla sem var lagt uppi á gangstétt. Svo rammt kvað að aðsókninni að ekki-bílastæðunum að sumir bílar voru m.a.s. kirfilega lokaðir inni. (Gott á þá.)

Í gærkvöldi var ég í rútu sem komst ekki eftir Aðalstrætinu vegna þess að bílum var lagt uppi á gangstétt og niðri á akbrautinni. Til að teppa ekki umferðina endaði bílstjórinn með því að keyra samt áfram og dragast eftir einhverju járnvirki vinstra megin sem rispaði hliðina myndarlega (UL 636).

Og lausnin er ekki sú að búa til fleiri bílastæði, hvorki ofan jarðar né neðan. Töfraorðið er hugarfarsbreyting. Göngum meira, göngum a.m.k. frá þeim bílastæðum sem eru nú þegar til. Samnýtum ferðir. Notum strætó. Þéttum byggð. Við búum í samfélagi, ekki þúsundum einfélaga þar sem ekkert rúmast nema þrengsti hópur aðstandenda.

Og hvernig væri að þurfa að sækja um kvóta fyrir bílaeign? Ha? Er þetta ekki auðlind?? Það þyrfti auðvitað að endurnýja kvótaleyfið reglulega.

HUGARFARSBREYTING er lausnarorðið.


Fasteignamarkaðurinn gerir það ekki endasleppt

Úr því að mbl.is gerir mér þetta enn einu sinni ætla ég að láta vaða. Er þetta frétt? Þetta er upptalning sem sáralítið er lagt út af. Ég er mikill áhugamaður um fasteignamarkaðinn, reyndar vildi ég helst geta haft áhrif á hann því að ég trúi því að íbúðir séu almennt, yfirleitt og allajafna verðlagðar of hátt þessi misserin.

Ég man þegar ég keypti 54 fm íbúð árið 1992 á 3,9 milljónir. Hún var til sölu um daginn á 14,2. Það var búið að dubba hana upp, mikil ósköp, en hún var klárlega of hátt verðlögð og hreyfðist ekki og seldist ekki og var um kyrrt á söluskrá vikum og mánuðum saman. Ég veit ekki hver afdrif hennar urðu á endanum.

Ég er bjargföst í þeirri skoðun minni að fasteignasalar, og trúlega líka starfsmenn greiningardeilda bankanna, beri mikla ábyrgð á hækkuðu verðlagi. Fasteignasalar bera fyrir sig að verðtilboð sé móðgandi lágt ef væntanlegir kaupendur vilja bjóða það sem þeim finnst eðlilegt. Svo er kannski seljandinn samt hæstánægður þegar til á að taka. Verðmætamatið er bara búið að brenglast svo mikið með þessari hröðu hækkun undanfarinn áratug.

Viss hækkun var orðin tímabær, en hún varð of mikil og of hratt. Háu lánin eru bullandi sek í þessu og svo skiptir líka máli að nokkrir auðkýfingar láta sér í léttu rúmi liggja hvort þeir borga 20 eða 200 milljónir fyrir eignina. Þegar einhverjir gera rosalega góða sölu vilja hinir í götunni líka komast á jötuna og þannig hefur orðið nokkur sefjun.

Getur einhver hrakið þetta með rökum?

Ég er til í að borga 200 þús. á fermetrann fyrir réttu íbúðina. Það er samt þreföldun frá því að ég seldi litlu íbúðina mína 1997. Mín þarf að vera rétt staðsett, með suðvestursvölum og stórri stofu. Mér er sama um sérinngang og bílskúr.

Hún verður kannski á endanum í öðru landi.


mbl.is 185 kaupsamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prósenta eða prósentustig

Ég held að ég þekki muninn en ekki Trausti Hafliðason sem skrifar leiðara Blaðsins í dag.

Lárus Ingólfsson kenndi mér stærðfræði í 9. bekk og það var sko ekkert slor. Ég lærði svo mikið að ég fór fullnuma í máladeild og útskrifaðist úr stærðfræði með láði í 2. bekk.

Nei, grínlaust, Lárus var og er góður kennari. Og Trausti sagði í leiðaranum að munurinn á 29% og 43% væri 14 prósent - þegar hann hlýtur að meina prósentustig.

Ef 14% væri bætt við 29% væru það 4,06% og þá væri heildartalan 18,06%. Ef 14% eru dregin frá 43% eru það 6,02% og þá er talan 36,98%.

Hins vegar er munurinn á 43% og 29% 14 prósentustig sem er fasti.

Mér finnst þetta svo einfalt þegar ég hugsa þetta. Finnst einhverjum að ég ætti að leita Lárus uppi?

Ég ætla að prófa þetta: 20% af 10 eru 2, og 10-2=8. Ef við bætum %-merkinu aftan við má segja 10%-2%=8% þannig að þegar 10 minnka um 20% minnka þau um 2 prósentustig.

Mér finnst þetta snilldarleg pæling - en kannski aðeins of prívat. Gott að enginn les þetta ...

Ég gæti líka haft svona erindi um helmingi hærri upphæð (50%, 100 -> 150) og helmingi lægri upphæð (50%, 150 -> 75). Ég gæti ...


Ég trúi á kynbundinn launamun

Oddný Sturludóttir og Heiðrún Lind Marteinsdóttir deildu um kynbundinn launamun í Kastljósinu. Önnur trúir á hann, hin ekki.

Setjum sem svo að við vöðum öll í villu og svíma og þessi 15% munur sé ekki kynbundinn, hvað veldur honum þá?

Lengri vinnutími?

Meiri ábyrgð?

Fleiri undirmenn?

Meiri afköst?

Meiri viðvera?

Færri veikindadagar?

Meiri samviskusemi?

Minni fjarvistir vegna barna?

Meiri menntun?

Meiri mannleg hæfni?

Almenn klókindi?

Betra skap?

Meiri þátttaka í félagslífi?

Skjótari ákvarðanataka?

Meira sjálfstraust?

Ríkari kaupkröfur?

Sannast sagna held ég enn að mismununin sé kynbundin. Og ég held að launaleyndin vinni líka gegn hagsmunum karla því að það er ekki sjálfgefið að karlar vilji svína á konum.

Þetta má alls ekki skilja sem gagnrýni á karlmenn.


Vændi sér til afþreyingar

Ég fæ ekki betur heyrt en að vændi sér til framfærslu (206. gr.) sé bannað. Hugsanlega merkir það í reynd að þriðji aðili megi ekki hagnast á sölu líkama annars en ég gæti allt eins gagnályktað að vændi væri aðeins leyft sér til gamans, ef maður vildi safna sér fyrir utanlandsferð - eða kannski háskólanámi.

Svo er maður orðinn samdauna orðalaginu að ég hef aldrei fyrr veitt þessu athygli þótt það hafi iðulega borist um.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband