Þriðjudagur, 22. júlí 2008
Söngfuglinn Meryl Streep
Mikið óskaplega er auðvelt að skemmta mér. Ég hló og hló á myndinni Mamma mia í dag, svo mikið raunar að ég held að mamma sem ég fór með í bíó til að skemmta fylgdist næstum meira með mér en Meryl Streep sem er þó í miklu uppáhaldi hjá henni.
Meryl var eins og spriklandi unglingur og vinkonur hennar sem mættu í brúðkaup dótturinnar drógu heldur ekki af sér í fíflalátunum. Pierce Brosnan sem er tómt útlit getur heldur ekki sungið. Mér leiddist það ekki. Colin Firth fríkkar með hverri myndinni og reyndi ekki að syngja.
Skemmtilegust fannst mér Julie Walters sem er heilt litaspjald af svipbrigðum.
Ég trúi auðvitað ekki á söguþráðinn og hef almennt ekki gaman af söngvamyndum en mikið var samt hollt að hlæja í rigningunni.
Fyrir plötuna (eins og Mattinn segir) kostar 1.000 krónur í Laugarásbíó. Auðvitað hefðum við átt að fara í Regnbogann sem rukkar 650 krónur en ég hélt að ég gæti platað mömmu til að labba í þetta bíó.
Og svo .. neyðist ég líka til að sjá Ferðina inn að miðju jarðar af því að Stína leikur í henni! Þrjár myndir á einu ári, þetta er engin hemja.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 22. júlí 2008
Gjaldtaka stendur fyrst og fremst undir sjálfri sér í ferðaþjónustu
Hvernig á að rukka inn í Skaftafell? Hvað eigum við að hafa margar stöðvar? Á að vera sólarhringsvakt? Hvar á girðingin að enda? Spillir hún útsýninu og upplifuninni?
Mývatn?
Hvítserkur?
Vatnsdalshólarnir?
Borgarvirki? Gerðuberg? Faxi? Kirkjugólf? Fjaðrárgljúfur?
Ó, eða er kannski meiningin að velja fyrst og fremst þá staði sem nú eru vinsælir meðal fjöldans og stýra þannig fólki á hina staðina? Kannski gæti það lukkast.
Ég held bara að gjaldtaka á staðnum sé fyrst og fremst til þess fallin að standa undir gjaldtökunni sjálfri. Starfsmennirnir munu sum tímabil sitja yfir sjálfum sér, skilyrðislaust ef meiningin væri að vera með heilsársrukkun.
En sennilega dettur þetta engum í hug í alvöru. Sennilega eru menn að tala um að setja gjald inn í seldar ferðir, gistinætur eða flugfarseðla. Hvernig væri að prófa bauka og höfða til skilnings og skynsemi?
Og hvernig væri að koma Vestfjörðunum á kortið? Þar er vannýtt auðlind.
![]() |
Segir gjaldtöku koma til greina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 20. júlí 2008
sundlaugar.is
Sund hlýtur að vera vinsælasta íþróttin á Íslandi. Að vonum. Ég þekki bara eina manneskju sem fer ógjarnan í sund og hún er stútfull af hestamennsku. Við höfum engar strendur en eigum hins vegar hitaveituvatn sem vegur upp á móti. Sund er dásemd á sumrin í góðu veðri og líka í ofankomu á veturna. Hvað getur verið betra en að tipla yfir nýfallinn snjóinn, sjá gufuna stíga upp af yfirborðinu og stinga sér út í undir flóðljósum?
Prrr. Mesta dekur.
Nú er útlenskur námsmaður á Íslandi búinn að taka saman ýmsar upplýsingar um íslenskar sundlaugar. Spennandi. Ég var aðeins að fletta og sá að sundlaugin í Stykkishólmi fær hæstu meðaleinkunn. Ég hef synt þar og held að mér finnist hún ekki betri en Laugardalslaugin. Hvað besta minningu á ég þó frá Dalvík þar sem ég var einu sinni á frábærum sumardegi og útvarpið var á. Það þótti mér kósí.
En mér finnst athyglisvert með Stykkishólm að laugin þar er opin lengi sem er frábært, ferðamenn koma oft ekki fyrr en undir kvöldmat, og verðið er svipað og í Reykjavík. Flestar laugar utan höfuðborgarsvæðisins hafa rukkað meira en Laugardalslaugin. En þá má rifja upp að 1. janúar 2007 lét þáverandi borgarstjóri hækka aðgangseyrinn VEGNA ÞESS AÐ ÚTLENDINGUM ÞÆTTI SVO HLÆGILEGA ÓDÝRT Í SUND. Og í Stykkishólmi er hægt að kaupa 30 miða kort sem er ekki lengur hægt í Reykjavík - með engum rökum.
En ég á margar sundlaugar eftir, það er augljóst mál.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 20. júlí 2008
Það er ekki hægt að reikna út aldur fólks
Aðallega er fólk eldra en það sýnist. Þetta er kannski eðlilegt á Íslandi, eða var, í ljósi kuldans. En í breska spurningaþættinum Aumasta hlekknum byrjar fólk á að segja til aldurs og ég verð trekk í trekk alveg gáttuð. Fólk sem lítur út fyrir að vera kannski á fimmtugsaldri er komið yfir sextugt - og komið á eftirlaun. Það er kannski ástæðan, fólk sefur út, vaknar, fer að grúska, fær sér að borða þegar það langar til, hmmm.
Stjórnandi þáttarins er sjálf 61 árs hefur mér heyrst og það sést ekki á henni. Og hún er mun illskeyttari en maður býst við af fólki á þessum aldri. Ég held það alltént. En keppendur búast við þessu og skjóta á hana til baka. Átökin snúast ekki bara um spurningarnar heldur að svara fyrir sig þegar Anne byrjar að níðast á keppendum vegna meintrar heimsku, klippingar, vaxtarlags, menntunar, starfsvals eða klæðaburðar. Og þar sem keppendur hafa oft í fullu tré við hana eru þættirnir oft skemmtilegir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 18. júlí 2008
Helvítis gengið sem allir eru hættir að tala um
Í góðviðrinu er ekki hægt annað en að rápa um götur og garða. Í gær fór ég í götu-/garðspartí sem var gríðarlega skemmtilegt en í dag lét ég mér nægja að rápa öðru sinni í Gestastofu og spóka mig síðan á Laugaveginum. Mamma þóttist eiga erindi í hannyrðabúð og spurði um verð á dokku. Hún kostar útseld á annað þúsundið og mamma saup hveljur. Ekkert veit ég um görn(!) þannig að ég saup ekki neitt fyrr en kaffið kom á borðið. Til að gera eitthvað meðan mamma saup og saup spurði ég hvort verðhækkunin væri mikil. Já, sagði konan, gengið. Og við gátum fellt talið.
Ég reyni að hugsa út frá heildinni - ég sver það - og harma því að helvítis gengið hafi rokið svona upp. En nú var ég einmitt að semja við bandaríska þýðingastofu um 20 tíma verkefni. Og tímakaupið er 35 evrur, sem sagt 700 evrur fyrir 24.100 orða gátun. Og brúttólaunin verða miðað við gengi dagsins í dag 700 * 125 = 87.500 en fyrir sléttu ári, 18. júlí 2007, hefði ég fengið 700 * 82 = 57.400.
Ja, ekki hafa almennar launahækkanir orðið svona miklar. Ég get prísað mig sæla - í þessu verkefni. En hversu lengi verður það?
Ef ég mætti velja veldi ég stöðugleika. Og minni verðbólgu.
Í gær átti ég líka erindi í 10-11 og það fyrsta sem ég sá í búðinni var nizza - Á 189 KRÓNUR. Hvernig má það vera? Hver kaupir? Hver hefur lyst? Hvað segir dr. Gunni við þessu?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 17. júlí 2008
Bandið hans Bibba
Við fyrrverandi kennarinn, systir hjólreiðamanns Íslands nr. 1 og systir hirðljósmyndara Ljótu hálfvitanna fórum á tónleika með téðum hálfvitum og South River Band í kvöld.
Gargandi gleði, ómenguð. Mér hefur aldrei liðið eins mikið eins og grúppíu. Sé ekki eftir að hafa sungið með.
Ég vissi ekki að Helgi Þór, menntaskólabróðir minn, kynni á harmónikku:
Mér finnst þessi mínísería skemmtileg:
Bibbi (sem hótaði að fara úr að ofan), Baldur (sem þurfti skiptiborð), Sævar (sem er svo hávaxinn að norðurljósin flækjast í hárinu á honum), Ármann (sem er rauður eins og Kylie Minogue) og Eddi (með gráa fiðringinn í vöngunum):
Og svo náði ég einni af Togga alveg sér úti áður en fjörið byrjaði inni:
Habbý missti af miklu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 15. júlí 2008
Sumarfrí í Reykjavík
Í blíðunni er gaman að axla poka sína og rölta í búðina. Á Laugaveginum er á ferli margt fólk, sumt sem maður þekkir og vill gjarnan tala við.
Svona fór fyrir mér í dag, ég rölti út, hitti gamlan háskólabróður og stóð á klukkustundarlöngu spjalli á götuhorni. Hver þarf útlönd?
Og okkur bar saman um ýmislegt, s.s. að miðborg Reykjavíkur sé svipur hjá sjón, allt annar svipur, líflegur, að flóttamönnum sem rórillast í Njarðvíkunum í þrjú ár sé vorkunn, að Páll Ramses hafi sennilega ekki farið hér að þeim lögum sem honum bar, að ferðaþjónustufyrirtæki sem auglýsir verð hvorki á vefsíðu né í bæklingi ástundi ekki góða viðskiptahætti - og svo bauðst hann til að taka að sér Mímiskennsluna mína í haust.
Ég var býsna kát þegar ég bar ab-mjólkina og appelsínurnar heim.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 14. júlí 2008
Veður, veður, veður, veður verður alltaf atriði
Hvað skyldi ég oft hafa heyrt fólk bulla því út úr sér að veður skipti ekki máli, heldur hvernig fólk klæðir sig? Oft!
Ég hef aldrei verið sammála. Er það ekki og verð það ekki.
Undanfarið hef ég mikið umgengist útlendinga sem hafa velt fyrir sér hvernig þeir geti sem best nýtt sér frítíma sinn á Íslandi. Það fyrsta sem þeir hafa spurt um er veðurspáin. Sumir létu rigningarspá fæla sig frá tilteknum ferðum.
Þetta er kannski ekki til fyrirmyndar en svona er fólk samt. Og nú skal ég bara æsa mig næst þegar einhver fullyrðir þetta í mín eyru.
Veður er nokkuð sem við getum ekki haft áhrif á. Veður er náttúra og sumir heillast vissulega af tilhugsuninni um vind sem rífur í jakkana. Ég man sérstaklega eftir einum Hollendingi í Mývatnssveitinni endur fyrir löngu sem stóð uppi á hól og naut þess að geta varla staðið. Heima hjá honum var hitabylgja það sumarið.
Nei, veður er óútreiknanlegt. Margt annað á Íslandi er hins vegar útreiknanlegt. Og ég er næstum viss um að ég heyrði í útvarpinu í morgun vitnað í Börk vin minn Hrólfsson sem talaði um að salernismál yrðu hneykslið í sumar. Ég tek undir það, hafi salernunum við Dettifoss verið lokað og fólki gert að hægja sér á víðavangi er það SKANDALL. Útreiknanlegur skandall - sorglegt og alveg örugglega eitthvað sem margir nefna þegar þeir koma heim.
Ég sá líka nýlega mynd frá Geysi þar sem fólk stóð næstum ofan í skálinni við að taka myndir. Auðvitað sé ég þetta ekki á staðnum því að ég myndi banna fólki það. ÞAÐ ER HÆTTULEGT en fólk fær ekki að vita það. Hvorki eru afgerandi skilti á staðnum né fólk sem veit og segir frá.
Ein vinkona mín á ferðaskrifstofu sagði nýlega í mín eyru: Ef ég væri nýr ferðamálastjóri á Íslandi er þetta það fyrsta sem ég léti breyta því að nú er bara tímaspursmál hvenær einhver slasast alvarlega.
Við viljum fjölga ferðamönnum á Íslandi en bara ekkert hafa fyrir þeim.
-Garg.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 11. júlí 2008
Misvísandi upplýsingar
Langlundargeð Íslendinga er endalaust eins og engum blandast hugur um. Þegar okkur mislíkar mótmælum við með því að segja lágt buuu, helst inni á klósetti meðan sturtast niður. Og nú ætla ég að nöldra upp í eyrað á sjálfri mér.
Ég er að fara til Krakár í haust með hópi fólks. Ferðin var pöntuð í apríl og staðfestingargjald greitt í lok maí. Í lok júní kom blaðsíðulangt bréf frá ferðaskrifstofunni sem öllum gáfumennunum í kringum mig ber saman um að sé óskýrt orðað og ruglingslega sett fram. Þó má átta sig á því að ferðin hafi verið hækkuð um 9,5% (af því að „ekki er gripið til verðbreytinga nema heildarverð ferðar breytist um 10% eða meira“.) Áður var búið að bæta við sérstöku eldsneytisgjaldi, 1.950 á hvorn legg. Hins vegar kemur bara fram ein upphæð og þannig er lesanda þessa bréfs eins saman ekki gert kleift að sannreyna 9,5% hækkunina.
Ég skil vanda þeirra sem áframselja þjónustu ef þeir sjá fram á tap á viðskiptunum. Og það held ég að við, samvinnuviljugu Íslendingar, gerum í of miklum mæli. En hefur einhver einhvern tímann heyrt um ferðaþjón sem lækkaði uppsett verð af því að gengið fór í hina áttina? Og nú lækkar evran aggalítið dag frá degi, verður þá verðið ekki endurskoðað enn áður en lokagreiðsla fer fram 28. september?
Það sem ég skil þó allra síst er þessi setning í fréttinni (upplýsingar hafðar eftir Hagstofunni):
Pakkaferðir til útlanda hafa hinsvegar lækkað um rúmt 1%.
Er borgarferðin okkar til Krakár ekki pakkaferð af því að hún er ekki ætluð til sólbaða einna?
![]() |
Pakkaferðir innanlands hafa hækkað um 37% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 8. júlí 2008
Sjónarhorn dagsins
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 6. júlí 2008
Högglistaverk bæjarins eru of illa merkt
Ég gekk um Klambratúnið í gær og rakst þar á illa merkt verk:
Þegar maður rýnir í skjöldinn sést að Frakkland kemur við sögu:
Ég fæ ekki betur séð en að þessi gaur hér fyrir neðan hafi eytt mörgum árum í Herdísarvík og mig grunar að hinn listamaðurinn sé Einar Jónsson. En er til of mikils mælst að láta þess getið?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 5. júlí 2008
Álf-ver?
Þetta er svo sem ekki þróuð hugmynd en væri ekki hægt að koma upp álfveri á Íslandi? Áhugi útlendinga fyrir þjóðsögunum okkar, þar á meðal álfum, huldufólki, tröllum og öðrum skemmtilegum kynjaverum, er mikill. Í einni hringferð með útlendinga spurðu mig fullorðin hjón sem höfðu farið í skipulagða ferð um landið 10 árum áður bara um Fjalla-Eyvind og hvort ég myndi ekki örugglega segja þeim frá útilegumönnum. Þau mundu Ódáðahraun sem vettvang sögu en ekki sem 4.400 ferkílómetra víðerni svo og svo gamalt eða einu sinni hátt yfir sjávarmáli.
Ég hef oft verið spurð um minjagripi sem tengjast huldufólki. Styttur? Bækur? Já, einhverjar en ekki á svo mörgum tungumálum.
Það er álfa- og draugasafn á Stokkseyri sem auðvitað svarar einhverri eftirspurn en það er staðbundið.
Verður þessu kannski best haldið við í munnlegri geymd ...?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 3. júlí 2008
Carrie og Stóri - Regnboginn rokkar
Af faglegum ástæðum fór ég á Beðmálin í bíó. Vendingar voru nokkrar og komu sumar á óvart. Salurinn skellihló - oft - og ég hafði gaman af myndinni. Mér þótti Stóri reyndar orðinn of mjúkur og mildur og næstum veikgeðja og Kim Cattrall er bara ekki sérlega góð leikkona. Svo sýndust mér þær orðnar hrukkóttar og soldið beyglaðar sums staðar sem stafar kannski af því að skjárinn í bíó er nokkru stærri en sjónvarpsskjárinn minn.
Alveg óhætt að eyða 650 krónum í þessa tvo tíma.
Svo er bókin, hún er aðeins öðruvísi. Hún er í meiri brotum, svona eins og skissur eða myndbrot. Væntanleg á íslensku ...
Öhh, það er líklega rétt að viðurkenna snöggvast að ég fór í skoðunarferð upp tröppurnar heima hjá Carrie - og við fjórar:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 2. júlí 2008
Þetta er að vísu stórfrétt ...
Mér finnst samt undarlegt að tefla henni tvisvar fram í sama miðli á einni viku.
Samtök ferðaþjónustunnar lýsa furðu sinni yfir þessari ákvörðun þar sem kveðið er á um það í náttúruverndarlögum að almenningi sé heimil för um landið í lögmætum tilgangi.
Mig furðar ekki að SAF furði, ég vildi hins vegar vita hvort þetta er heimilt. Er í alvörunni mögulegt að Kerið sé í svo mikilli einkaeigu að magnferðamönnum sé meinaður aðgangur?
Samtök ferðaþjónustu segja þessa ákvörðun hafa verið tekna eftir viðræður Kerfélagsins við stærri ferðaskrifstofur um að þær greiði gjald fyrir hvern farþega sem stoppar við Kerið. Ferðaskrifstofurnar hafi hins vegar hafnað greiðslum.
Var annars meiningin að slá upp girðingu? Hafa hlið sem rútuhópar þyrftu að borga sig í gegnum en sumarbústaðafararnir ekki?
Ég borgaði einu sinni inn í Kerið, það var í ágúst 2004 til að hlusta á tónleika sem voru fluttir á fleka á miðju vatninu. Við hefðum leikandi getað svindlað okkur inn en gerðum ekki. Hvernig ætti að takmarka aðganginn?
Mér finnst augljóslega sitthvað vanta í fréttina þótt þetta sé taka tvö.
![]() |
Aðgangur að Kerinu í Grímsnesi takmarkaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 30. júní 2008
Á maður ekki að sniðganga N1 í öllu?
Þá klikkaði ég feitt. Ég keypti mér nefnilega lakkrístopp þar í hádeginu af því að ég hef ekki séð svoleiðis áður. Hann var ekki bara 10 krónum dýrari við kassann en látið var að liggja við frystinn (235 -> 245) heldur var hann óheyrilega bragðvondur. Lakkrísinn var linur og á bragðið eins og tuska.
Ég lofa að gera þetta ekki aftur. Á morgun ætla ég t.d. að borða hádegismat í hverfi 104. Það hlýtur að verða dýrð og dásemd.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 29. júní 2008
Bláa lónið enn ekki komið í gufubaðið á Laugarvatni
Um helgina rúntaði ég dálítið um Lyngdalsheiðina og ákvað að sannreyna hvort Bláa lónið væri búið að dubba upp á gufubaðið á Laugarvatni, eina náttúrulega gufubað landsins. Mér láðist að líta eftir Líkasteinum þeim sem Jón Arason og synir hans voru lagðir á eftir að þeir höfðu verið hálshöggnir í Skálholti 1550. Ég fer ekki nógu oft niður að vatninu.
En Bláa lónið stóð ekki við fyrirheitið, sbr. mynd:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 29. júní 2008
Skilti við Laugarvatnshelli vígt í gær
Sem leiðsögumaður hef ég látið eftir mér að stoppa við þennan helli á Gjábakkaleið/Lyngdalsheiði milli Laugarvatns og Þingvalla. Það verður þó að vera í ekki of skipulögðum ferðum vegna þess að það tekur aldrei minna en hálftíma. En mjög gefandi hálftíma þegar tækifærið gefst.
Veður í gær var fallegt en vindurinn á hraðferð. Það háði þó ekki öðrum en þeim örfáu sem voru fullglænepjulegir um hálsinn og drifu sig inn í bílamergðina sem var á staðnum. Enda enginn strætó á þessari leið, hehe!
Ungmennafélag Laugdæla er 100 ára í ár og þetta er meðal þess sem félagið gerir sér og öðrum til skemmtunar. Í ár eru líka 100 ár síðan fólk flutti fyrst í hellinn - já, hann var mannabyggð og skv. því sem ræðumaður hafði eftir öðrum ábúandanum var þetta besta sumar ævi hans, hann nýástfanginn og með sólina inn um dyrnar allt heila sumarið. Á næsta ári má blása til gleðskapar í minningu þess að þá verða 100 ár síðan fyrsta fólkið flutti úr hellinum. Það unga par bjó þar í 11 mánuði eins og kemur fram á skiltinu sem var afhjúpað í gær.
Og mér finnst gaman að segja frá því að dóttir hjónanna sem bjuggu þarna 1910 (hún þó ekki fædd fyrr en 1922) er góð vinkona mömmu og pabba. Og hér er mynd af pabba og Bensa hennar Lóu:
Glímukappar brugðu á leik. Því maður kann ég ekki að segja frá brögðunum:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 29. júní 2008
Eggið og hænan
Veður í höfuðborginni hefur verið einstakt í júnímánuði. Eldsneyti hefur hækkað um tugi prósenta á árinu. Menn halda að það muni ekki lækka á ný. Hjólaátak ÍSÍ í maí kom fólki á hreyfingu. Ég hef séð Reykjavík iða af fólki sem fer og vill fara um fyrir eigin vélarafli.
Þegar kemur að mögulegum strætóferðum er alltaf einhver í grenndinni með þessa reynslusögu: Ég stóð í skýlinu og beið, ekki bara í þennan hálftíma sem átti að vera á milli ferða, heldur þrjú korter. Það var seinkun. Ferð féll niður.
Sjálfri gáfust mér í vetur mörg tækifæri til að segja bitrar reynslusögur þegar ég ætlaði að taka leið 12 í Nóatúninu. Því miður. En þar sem ég var bara að fara í hverfi 101 munaði mig minna um að ganga í hálftíma en að bíða í hálftíma þannig að ég átti það val. Þegar fólk ætlar að koma ofan úr Mosfellsbæ eða Grafarholti eða hvaðan sem er og GETUR EKKI TREYST ÞVÍ AÐ VAGNINN KOMI fallast því hendur.
En fólk vill taka strætó, það heyrir maður skýrt ef maður hlustar.
Hænan er komin. Nú þarf bara Strætó bs. að verpa egginu.
Kæri Einar Kristjánsson, sviðsstjóri þjónustusviðs Strætós bs., ferðatíðnin skiptir fólk öllu máli, bæði fólk í vinnu og líka þá sem eru í sumarfríi og fara ekki endilega úr bænum. Þetta vitum við sem viljum geta notað almenningssamgöngur. Og hringlandi með áætlunina hjálpar ekki málstaðnum.
![]() |
Strætó fækkar vögnunum um 32 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 27. júní 2008
Muna menn eftir endurskoðunarákvæðinu frá 2004?
Íbúðalán (sumra) bankanna með 4,15% vöxtum sem sett voru í umferð 2004 eru með ákvæði um endurskoðun eftir fimm ár. Fimm árin eru liðin á næsta ári. Hvað verður þá um þau lán? Verða vextirnir hækkaðir eins og heimild er fyrir?
Hvert er smáa letrið í þessum kafla?
Kannski þarf ég ekki að hafa áhyggjur af að fólki finnist þessi öngull fýsilegur, 6,05% eru ekki lágir vextir þegar verðbólgunni hefur verið bætt við.
![]() |
Kaupþing lækkar vexti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 27. júní 2008
Afhjúpun upplýsingaskiltis um Laugarvatnshelli á morgun
Mér finnst alltaf gaman að stoppa við Laugarvatnshelli, sérstaklega með ferðamenn og sýna þeim mjúkt bergið. Þarna bjó fólk fyrir tæpri öld og nú er ég spennt að sjá á morgun hvaða upplýsingar verða reiddar fram.

Af vef Félags leiðsögumanna:
Laugardaginn 28. júní 2008 kl. 16:30 verður afhjúpað upplýsingaskilti um hjónin sem bjuggu í hellinum á Laugarvatnsvöllum snemma á síðustu öld. Í ár er Ungmennafélag Laugdæla 100 ára en hjónin sem bjuggu í hellinum árið 1910 voru aðalhvatamenn að stofnun þess. Seinni ábúandi í hellinum varð síðar ritari félagsins. UMFÍ fagnar afmælinu m.a. með því að minnast þessara manna með athöfn við hellinn. Skiltið sem afhjúpað verður er kostað af Vegagerðinni.Allir eru velkomnir.
Efri myndin er af: http://www.eyjar.is/~icefire/gluggar/svaedid/naturfyrir/laug%20hell.htm - eftir morgundaginn koma mínar eigin.
Neðri myndinni stal ég af þessari: http://www.flickr.com/photos/runardo/2576326822/.

Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)